Fara í efni

Streitustiginn

Kynning á Streitustiganum

Streitustiginn er verkfæri sem vinnustaðir geta notað til að búa sér til sameiginlegt orðfæri um álag og streitu á vinnustaðnum og getur hann gagnast við að greina hvort streita er til staðar, hversu alvarleg hún er og til að velja leiðir til úrbóta í framhaldinu ef þarf. Stiginn er hentugt tæki til að fá skýra mynd af því hvernig streita þróast og auðveldar okkur að tala um hana. Gagnlegt getur líka verið fyrir hvern og einn að nýta stigann til að átta sig á hvar hann er staddur hverju sinni.

Kynningarmyndband

Hér að neðan sjáið þið kynningarmynd um Streitustigann sem lýsir hvernig streita getur þróast. Sálfræðingar VIRK Berglind Stefánsdóttir og Guðrún Rakel Eiríksdóttir fara með okkur í ferðalag um streitustigann og lýsa hverju þrepi fyrir sig.

Smelltu á myndbandið hér að neðan ⇓

Streitustiginn er þróaður af Marie Kingston og Malene Friis Andersen, höfunda bókarinnar Stop stress – håndbog for ledere (2016). Efni um streitustigann er fengið frá höfundum en einnig af vef BrancheFællesskabet for Arbejdsmiljø for Velfærd og Offentlig administration og úr bæklingum frá LEDERNE.
Ef allir á vinnustaðnum þekkja til streitustigans getur það auðveldað samtal um streitu og hjálpað starfsmönnum að gera sig skiljanlega. Það gæti t.a.m. gefið skýrari skilaboð að segja „ég hef áhyggjur af að ég fari að bráðna” en að segja „ég sef ekkert á næturnar og óttast að ég geti ekki skilað starfinu mínu”. Streitustiginn getur þannig auðveldað starfsmönnum að tala um streitu við yfirmenn, samstarfsmenn eða fjölskyldu áður en í óefni er komið.

Streitustiginn nýttur

Hér eru nokkrar hugmyndir um hvernig stjórnendur geta nýtt sér streitustigann:

  1. Hægt er að prenta streitustigann út, prentvæn útgáfa hér og dreifa til starfsmanna eða sýna hann á skjá.

  2. Fara yfir þrepin með starfsmönnum og ræða hvað beri helst að hafa í huga.

  3. Ræða aðgerðir, t.a.m. hvað eigi að gera við auknum streitueinkennum, hvað eigi að gera ef áhyggjur af samstarfsmanni, o.s.frv.

  4. Ræða hvort nota ætti streitustigann í árlegu starfsmannasamtali sem viðmið fyrir líðan í starfi.

  5. Koma á framfæri við samstarfsmenn hvernig þeir geti leitað eftir aðkomu yfirmanns.

  6. Ræða um hvernig ástandið er á vinnustaðnum m.t.t. álags og streitu og ástæðum þess, ásamt því að leggja til hvernig hægt sé að færa vinnustaðinn nær svala stiginu.

The English version of the Steps og Stress

Svalur

 

 

 

Á svala stiginu á streitustiganum er jafnvægi milli krafna, úrræða og aðstæðna og því grundvöllur fyrir vellíðan starfsmanna og góðum afköstum. 

Einkenni

Það sem einkennir svala stigið er að starfsfólk er:
  • í jafnvægi og ræður við verkefnin sín

  • er uppbyggilegt og kemur t.a.m. með flottar tillögur að lausnum

  • áhugasamt, virkt og hjálpsamt

  • nægilega orkumikið til að geta verið góðir vinnufélagar

Svala stigið er ákjósanlegasta stigið og ef það einkennir vinnustaðinn þá felst hlutverk stjórnandans í að viðhalda jafnvægi og vera vakandi fyrir byrjunareinkennum streitu hjá starfsmönnum.

Hvernig er hægt að viðhalda svala stiginu og koma í veg fyrir streitu á vinnustað?

Það hefur sýnt sig að það getur haft jákvæð áhrif og aukið afköst og vellíðan á vinnustað ef starfsmenn:
  1. Geta haft áhrif á mikilvægar ákvarðanir sem tengjast starfi og aðstæðum.

  2. Eiga í góðum félagslegum tengslum við sitt samstarfsfólk.

  3. Finnst starf þeirra skipta máli og framlag þeirra hafi vægi innan fyrirtækisins.

  4. viðurkenningu fyrir framlag sitt.

  5. Hafa yfirsýn yfir verkefnin.

  6. Finnst kröfur hæfilegar.

Leiðtogi sem vill hafa jákvæð áhrif á vellíðan starfsmanna getur haft þessi atriði í huga

  • Áhrif 

    • Hugað að leiðum til að fá aðkomu starfsmanna að ákvarðanatöku.
    • Skoða hvort starfsmenn gætu verið með hugmyndir til að bæta sitt vinnulag og skipulagt verkefnin sín sjálfir.
    • Hugleitt að gefa starfsmönnum tækifæri til að hafa áhrif á starfið sitt
  • Félagslegur stuðningur

    • Velt fyrir sér leiðum til að bæta samskipti við einstaka starfsmenn og sýna þeim meiri áhuga sem einstaklingum.
    • Fundið leiðir til að efla samheldni hópsins.
    • Brotið upp starfið með skemmtilegum samverustundum.
  • Mikilvægi

    • Skoðað hvað hverjum og einum finnst skipta máli og hvað hvetur þá áfram í starfi en það getur verið mjög mismunandi.
    • Kannað hvort hægt sé að útdeila verkefnum þannig að hver starfsmaður fái þau verkefni sem honum finnast áhugaverðust.
  • Viðurkenning

    • Verið vakandi fyrir því hvenær og hvernig sé best að veita endurgjöf og sýna hverju teymi og hverjum starfsmanni þakklæti fyrir velunnin störf.
    • Haft orð á mikilvægi framlags hvers og eins.
  • Yfirsýn

    • Kannað hvort starfsmenn hafi yfirsýn yfir og góða stjórn á verkefnum sínum.
    • Velt fyrir sér hvort starfsmenn þurfi stöðugt að laga sig að breyttum aðstæðum vegna breytinga í starfi eða innan fyrirtækisins.
    • Velt fyrir sér hvernig sé best að kynna breytingar þegar þörf er á þeim.  
  • Kröfur

    • Gert kröfur til starfsmanna sem eru á skalanum frá því að vera auðveldar til þess að vera hæfilega krefjandi þannig að þær hámarki afköst og persónulegan vöxt þeirra í starfi.
    • Haft í huga að ef starfið er of auðvelt fer starfsmönnum að leiðast og ef það er of erfitt er hætta á streitu.
Það er svalt að hafa stjórn á streitunni!

Volgur

Á volga stiginu gætir nokkurs ójafnvægis milli krafna, úrræða og aðstæðna og samstarfsfólkinu finnst oft erfitt að vinna undir álaginu, ná að ljúka verkefnum og skila sínu besta. Afleiðingin getur verið að það vinni hraðar eða meira á yfirborðinu, fresti verkefnum eða vinni lengur o.s.frv. Það má vera að skipulagið gangi vel upp en aukin hætta er á mistökum, slakari gæðum og vanlíðan.
Þessi einkenni þurfa ekki í að vera hættumerki í sjálfu sér ef ástandið er tímabundið. Stjórnendur ættu hins vegar að vera meðvitaðir um að álagið megi ekki verða venjubundið og þeir þurfa að vera á verði gagnvart því að hitastigið hækki ekki og færist yfir á logandi stigið - það er ekki alltaf flott að vera heitasti gæinn á svæðinu. 

Einkenni

Það sem einkennir volga stigið er að starfsfólkið:
  • virkar oft önnum kafið

  • er pirrað

  • sleppir pásum og kaffitímum

  • gleymir hlutum

  • vinnur oftar á kvöldin og um helgar

Hvað er til ráða á volga þrepinu?

Flest starfsfólk lendir á volga þrepinu annað slagið t.d. þegar unnið er að einhverju stóru og mikilvægu verkefni eða þegar sérlega mikið er að gera. Þá er á ferðinni fullkomlega eðlileg streita sem mun líða hjá. En ef einstaklingur heldur áfram á volga þrepinu er æskilegt að yfirmaður eða samstarfsfólk grípi inn í til að aðstoða starfsmanninn við að komast aftur á rétt ról.
Hér kynnum við þrennskonar inngrip til að aðstoða einstaklinga sem er farið að volgna undir til að koma í veg fyrir alvarlega streitu.

                                             

Logandi


Á logandi þrepinu er of seint að beita fyrirbyggjandi meðulum til að sporna gegn áhrifum streitu. Streitan hefur blossað upp en ef er unnið rétt með hana er enn hægt að koma í veg fyrir veikindi og veikindafjarveru frá vinnustað. 
Á logandi stiginu fara streitueinkennin vaxandi og mynda vítahring. Um leið og einstaklingurinn hættir að hafa yfirsýn yfir verkefnin, mistök aukast og gleymska eykst þá hlaðast áhyggjurnar upp, trufla svefn, líðan og líkamlega heilsu sem síðan eykur enn frekar hættuna á mistökum. Ástandið getur haft áhrif á sjálfsálit og sjálfsvirðingu og einstaklingurinn kennir sjálfum sér um hvernig komið er og líður fyrir sjálfsgagnrýni og skömm. 

Einkenni 

Það sem einkennir logandi stigið er að starfsfólk:
  • gerir fleiri mistök

  • vinnur á fullu og meira en venjulega

  • einangrar sig frá samstarfsfólki

  • lítur út fyrir að vera áhyggjufullt eða þreytt

  • hefur minna þol gagnvart nýjum verkefnum og minni trú á sjálfum sér og eigin getu.

Hegðun sem ætti að horfa eftir

Þegar komið er á logandi stigið sýnir starfsmaður yfirleitt mörg einkenni streitu og vegna þess að álagið hefur varað í lengri tíma á hann í erfiðleikum með að sinna verkefnum. Þá hefur sjálfstraust oftast minnkað og trú á eigin getu og hann lítur á streituna sem persónulegan ósigur. Stjórnendur ættu að horfa eftir:
  • Starfsmaður vinnur lengur en venjulega - gæti sent tölvupósta á undarlegum tímum t.d. um miðja nótt.

  • Breytt samskiptahegðun, t.a.m. gæti hann forðast augnsamband, verið á iði, jafnvel verið hvatvís eða fljótfær.

  • Starfsmaðurinn virðist óþolinmóður og undir álagi og sendir frá sér skilaboð um t.d. að hann hafi ekki tíma fyrir fundinn eða samtalið.

  • Forgangsröðun er ekki eins og hún ætti að vera. Mikilvæg verkefni gleymast á meðan þau sem minna vægi ættu að hafa fá of mikla athygli.

  • Starfsmaður stekkur úr einu verkefni í annað og getur festst í smáatriðum þar sem hann vantar alla yfirsýn.

  • Hann tekur í auknum mæli rangar ákvarðanir.

Stjórnendur eru oft óöruggir með hvort þeir eru að meta aðstæður rétt og forðast stundum að bregðast við og er það vel skiljanlegt. Þér gæti fundist þú vera að stíga út fyrir verksvið þitt, en það er nauðsynlegt að bregðast við ef þér finnst þú sjá þessa hegðun hjá starfsmanni.

Hvað er til ráða á logandi þrepinu?

Þegar starfsmaður er á logandi þrepinu er algerlega nauðsynlegt að stjórnendur og samstarfsfólk bregðist við. Aðstoð á logandi stiginu snýr að mestu um að létta á álagi og veita félagslegan stuðning.

Mælt er með eftirfarandi inngripum til að styðja við starfsmann sem er farinn að loga. 

                                                                                  

Bráðnaður

 
Slök frammistaða starfsmanns getur stafað af streitu
Bráðnaður er fjórða þrepið á streitustiganum og starfsmenn sem eru á þessu þrepi taka oftar frí en áður og gera stöðugt fleiri mistök í vinnunni. Þeir eyða iðulega miklum tíma í lítt nauðsynleg verkefni eða eru með marga bolta á lofti og ná ekki að klára verkefnin sín.
Hegðun gagnvart yfirmönnum og öðru samstarfsfólki er ófyrirsjáanleg og þú færð á tilfinninguna að eitthvað verulega mikið sé að. Starfsmenn á bráðnaða stiginu eru oft meðvitaðir um stjórnleysi sitt en hafa ekki tök á að laga það.

Einkenni

Einkennin sem ætti helst að horfa eftir eru:
  • Áhyggjur starfsmanns af starfinu sínu eða eigin ástandi eru ýktar og þar gætir ósamræmis.

  • Merki um ofsakvíða og rugl í samskiptum. Forðast jafnvel stjórnendur og samstarfsfólk, vinnuhlé, fundi og aðrar samverustundir.

  • Óskipulag, tekst ekki að ljúka verkefnum eða gleymir þeim .

  • Minnisleysi, andleg fjarvera á fundum.

  • Erfiðleikar við ákvarðanatöku.

  • Tíðari veikindafjarvistir.

  • Grátköst upp úr þurru.

Hvað er til ráða á bráðnandi þrepinu?

Þegar starfsmaður er farinn að bráðna er afar mikilvægt að stjórnandi ræði við starfsmanninn og finni áþreifanlegar lausnir. Eftir hvert samtal er mikilvægt að setja upp nýtt skipulag og skrifa niður nákvæmlega hvaða sameiginlegu ákvarðanir voru teknar og halda sig við þær.
Inngrip á bráðnandi þrepinu gætu því verið skipulagt samtal um streitu og endurskipulag vinnu þar sem verulega er dregið úr verkefnum og vinnutíma. Einnig er æskilegt að huga að samstarfsfólki og stöðunni á vinnustaðnum almennt.

                                       

Tilbúinn til vinnu?

Stjórnandi, starfsmaður og heimilislæknir geta lagt sameiginlega mat á hvenær starfsmaðurinn er tilbúinn til að koma aftur til starfa. Frekari upplýsingar hér um endurkomu til vinnu.
Stuðningur frá stjórnendum og samstarfsfólki er afar mikilvægur ef halda á starfsmanni í starfi sem þjáist af streitu. Við minnum á að allir þurfa á því að halda að finnast þeir eiga sinn stað í samfélaginu sérstaklega þegar þeir eru að berjast við að halda sér á floti.
  • Timberland skór taka skref út á götu

Hvert geta starfsmenn leitað eftir aðstoð?     

Ef þú hefur áhyggjur af því að þú eða einhver í þínu nánasta umhverfi sé að glíma við alvarleg streitutengd einkenni sem æskilegt sé að vinna með athugaðu þá að:
  • Tala við yfirmann eða aðra sem þú treystir.
  • Skoða hvað sé best fyrir þig að gera í stöðunni - hvaða bjargráð hefur þú?
  • Leit til læknis ef líðanin er mjög slæm.
  • Hönd upp úr sjó á rúmsjó (drukknun?)

Brunninn

Brunninn er fimmta stigið í streitustiganum og starfsmenn sem eru á þessu stigi hafa verið undir langvarandi og áköfu álagi sem hefur leitt til veikinda.

Einkenni

Það sem einkennir brunnið starfsfólk er.
  • Það hefur búið við ákaft og langvarandi álag

  • Vitsmunaleg og tilfinningaleg flatneskja, kulnun

  • Veruleg vangeta í starfi

  • Langtímafjarvera vegna veikinda

Frekari upplýsingar um brunna starfsmenn og úrræði fyrir þá má kynna sér undir Kulnun hér á síðunni.
  • STOP skilti

Streita og kulnun

Aukin starfsánægja

Vinnan og hreyfingin