Fara í efni

Starfsþróun

Í síbreytilegu nútímasamfélagi er líklegt að þú standir frammi fyrir því nokkru sinnum á starfsferlinum að hasla þér völl á nýjum starfsvettvangi. Við slík tímamót getur verið gott að skoða vel hvað hefur breyst og hvert þig langar að stefna næst. 
Hér höfum við tekið saman verkfæri og gagnlegt efni sem þú getur nýtt þér til að fá skýrari mynd af hvert þig langar að stefna og jafnvel fundið leiðir til að komast þangað.  

Hver ert þú?

Til að þú getir áttað þig á hvernig starf hentar þér þarft þú að skerpa hugmyndir þínar um hver þú ert og hvað þig langar að gera. Með gagnvirka sjálfshjálparefninu Hver ert þú? getur þú skoðað viðhorf þín til vinnu og starfa, styrkleika þína, færni og hagnýt atriði sem skipta þig máli. Þú getur skrifað niður starfsreynslu, menntun og framtíðardraumana sem hafa áhrif á starfsval þitt og fundið út hvaða störf þér finnast áhugverðust. 
Til að átta þig betur á hvernig þú getur nýtt þér efnið er gott að skoða kynningarmyndbandið fyrir Hver ert þú? 

Stefnan tekin

Það er oft erfitt að átta sig á þeirri veröld sem við lifum í og koma auga á hvaða skref sé best að taka næst til að gera gott úr stöðunni og ná að stefna í jákvæða átt. Við gegnum margskonar hlutverkum í lífinu sem við hreinlega áttum okkur ekki á og sjáum því ekki hvernig þau hafa mótað okkur og gefið okkur reynslu og styrk til að byggja á.
Hér kynnum við létta æfingu sem þú getur prufað að fara í gegnum til að finna leiðir fyrir þig.

Áhugaverð störf

Veistu ekki enn hvað þú ætlar að verða þegar þú verður stór?
Ef svarið er já þá ertu í hópi þúsunda sem eru í sömu stöðu og það er í góðu lagi því alltaf er tími til að finna út úr því. Þú þarft heldur ekki að ákveða neitt endanlegt því það getur verið alveg nóg að finna út hvað þig langar að gera næst. Sumum hentar vel að vera með skýra stefnu sem þeir fylgja árum saman en öðrum hentar að taka jákvæðar ákvarðanir fyrir sig frá degi til dags. Það er ekki þar með sagt að það sé endilega svo auðvelt heldur.
Þannig að ef þú veist ekki alveg hvað þig langar að gera gæti það hjálpað að skoða hvar áhugasvið þitt liggur og finna svo hvernig störf gætu hentað þér út frá því. Þú vilt eflaust finna starf sem þér finnst skemmtilegt og þá væri góður leikur að skoða Áhugaverð störf þar sem þú getur kynnt þér störf út frá áhugasviðum.
Á Næsta skrefi er líka að finna mjög góðar lýsingar á fjölmörgum störfum og þar er líka hægt að taka áhugakönnun.
Endilega gefðu þér tíma til að finna þína leið.

Nám og námskeið

Ein leið til að styrkja stöðu þína á starfsvettvangi gæti verið að bæta við þig menntun. Það getur verið sniðugt að taka frá smá tíma til að skoða hvað er í boði og velta fyrir þér hvað þig langar að gera. Það er fátt meira uppbyggjandi en að bæta við sig menntun af einhverju tagi.

Námsframboð

Þú getur kynnt þér hér nám og námskeið sem símenntunarmiðstöðvar, framhaldsskólar og háskólar eru að bjóða núna. Um er að ræða bæði staðnám og fjarnám.

Nám á netinu

Framboð á námskeiðum sem eru í boði á netinu er stöðugt að aukast og vel þess virði að skoða hér samantekt yfir námsframboð á netinu. Flestir ættu að geta fundið hér eitthvað við sitt hæfi og nýtt sér þann frábæra kost að geta setið heima í stofu og sótt nám eða námskeið hvar sem er í heiminum.

Námsstyrkir

Námi þarf ekki að fylgja mikill kostnaður og eru sum námskeiðanna á netinu ókeypis, en til að mæta kostnaði vegna náms gætir þú kynnt þér styrki frá stéttarfélaginu þínu. Flest stéttarfélög bjóða upp á styrki vegna starfstengdra námskeiða og náms, tómstundanáms og jafnvel ferðakostnaðar sem tengist námi.

Ákvarðanataka

Við eigum stundum erfitt með að taka ákvarðanir og veltum oft hlutunum fyrir okkur fram og til baka, fyllumst jafnvel kvíða yfir að ná ekki að ákveða einföldustu hluti. Hér finnur þú nokkrar hugmyndir sem þú gætir nýtt þér til að auðvelda ákvarðanatöku.

Jákvæð óvissa

Þó þú veljir eitt þarftu ekki að útiloka annað

Þegar þú ætlar að velja á milli tveggja leiða sem þér líst vel á getur verið gott að tileinka sér jákvæðni gagnvart óvissuþáttum og þora að taka þá áhættu að velja aðra leiðina umfram hina. Það auðveldar ákvarðanatökuna að líta svo á að þó þú veljir aðra leiðina þá sért þú ekki að útiloka hina.

Segjum sem svo að þú sért að velta fyrir þér hvort þú ættir að skella þér í námið sem þig hefur lengi langað í, eða hvort þú ættir að taka að þér verkefni hjá íþróttafélaginu sem gæti gefið þér færi á að styrkja stöðu þína, en getur bara ekki valið á milli. Þá ert þú í sömu stöðu og svo margir lenda í sem standa frammi fyrir tveimur álíka spennandi valkostum. Þeir geta þá ekki valið og það verður til þess að þeir gera ekki neitt. En ef þú hugsar betur út í þetta þá sérðu að aðgerðaleysið kemur í veg fyrir að þú haldir áfram og gerir góða hluti fyrir þig. Það er nefnilega ekkert að óttast ef báðar leiðir eru áhugaverðar. Þú einfaldlega velur aðra leiðina umfram hina og munt ekki sjá eftir því þar sem báðar leiðir eru álíka spennandi fyrir þig. Síðar meir gætir þú svo alltaf bætt við þig leiðinni sem þú valdir ekki ef áhugi er enn fyrir hend. Hafir þú valið að fara í nám gætir þú tekið þá menntun og reynslu með þér inn í íþróttahreyfinguna eða ef þú hefðir valið að fara í verkefnið hjá íþróttafélaginu þá gætir þú bætt menntuninni við þig seinna og tengt þetta allt saman.

Byggt á hugmyndafræðinni um positive uncertainty frá Norman E. Amundson.

Velja milli tveggja leiða

Ein leið til að takast á við erfitt val er að bera markvisst saman valkosti. Ef þú stendur til dæmis frammi fyrir því að velja milli tveggja leiða gætir þú sett upp kosti og galla til að reyna að finna lausn. Þú gætir notað þessa aðferð til að velja milli tveggja starfa eða að velja að taka starfi sem býðst eða bíða eftir gamla starfinu þínu. Þessi leið er líka bara almennt góð þegar velja þarf milli tveggja kosta.

Velja milli nokkurra leiða

Þegar þú þarft hins vegar að velja milli nokkurra valkosta getur verið gott að nota aðferð sem hér kallast Velja milli starfa. Þessi aðferð við að velja milli leiða gefur þér færi á að setja niður fyrir þér hvað þér finnst eftirsóknarvert og að máta síðan valkostina við það sem þú sækist eftir.

Þessi aðferð er að sjálfsögðu ekki bundin við að velja á milli starfa. Þú getur notað hana við aðrar ákvarðanir svo sem um búsetu eða áhugamál.

Eigin rekstur

Hefur þú eitthvað velt því fyrir þér að fara út í eigin rekstur?  Ef svo er getur þú byrjað á því að máta þig við það sem einkennir þá sem finna sig í því að vera sjálfstætt starfandi. Þú getur svo metið í framhaldinu hvað þú viljir gera með þær upplýsingar.
Á vef Ríkisskattstjóra er að finna gagnlegar upplýsingar fyrir sjálfstæðan rekstur og verktöku.

Áhugasamir gætu líkað viljað kynna sér Gulleggið sem er frumkvöðlakeppni Icelandic Startups og tilvalinn vettvangur fyrir frumkvöðla og aðra hugmyndasmiði sem eru að stíga sín fyrstu skref. Einnig gæti nýsköpunarvikan vakið áhuga þinn.

Sveitarfélög um land allt bjóða jafnframt einstaklingum og fyrirtækjum á sínu svæði upp á ráðgjöf á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og menningarmála.

Sért þú með viðskiptahugmynd sem þig langar að skoða betur gætir þú haft samband og fengið aðstoð og upplýsingar um til að mynda:

  • gerð rekstraráætlunar
  • styrki
  • stofnun fyrirtækja
  • markaðssetningu

Þá gætu konur með áhugaverðar viðskiptahugmyndir haft áhuga á að kynna sér nýsköpunarhraðal AWE fyrir konur sem Háskóli Íslands stendur fyrir í samvinnu við bandaríska sendiráðið á Íslandi. Hægt er að sækja um þátttöku einu sinni á ári og þjónustan sem boðið er upp á samanstendur af netnámskeiðinu Dreambuilder og vinnulotum sem Háskóli Íslands heldur utan um.

Einnig gætu áhugasamar konur kynnt sér styrkjamöguleika hjá Atvinnumálum kvenna og Svanna lánatryggingasjóði kvenna.

Atvinnuleit

Atvinnumissir og líðan

Starfslok