Fara í efni

Öryggi á vinnustað

„Stjórnendur bera megin­ábyrgð á að vinnu­umhverfi sé öruggt“
Það eru mannréttindi að vinnuaðstæður og vinnuumhverfi séu þannig að starfsmenn séu öruggir um heilsu sína og verði ekki fyrir slysum. Það er eðlileg krafa að starfsmenn komi heim úr vinnu jafn vel á sig komnir eða jafnvel betur en þegar þeir fóru til vinnu.
Stjórnendur bera meginábyrgð á að vinnuumhverfi sé öruggt en starfsmenn verða einnig að bera ábyrgð á sjálfum sér og öðrum sem gætu verið í hættu.

Fyrirtæki bera ábyrgð á að tryggja starfsumhverfi þar sem hægt er að vinna á öruggan og heilsusamlegan hátt. Þegar kemur að vinnuaðstöðu og umhverfi á vinnustöðum er margt hægt að gera til þess að minnka líkur á að starfsmenn þrói með sér vinnutengd stoðkerfisvandamál. Má þar nefna vinnuskipulag, vinnurými og sálfélagslegt umhverfi vinnustaðarins. Til að starfsmenn geti beitt sér rétt við vinnu er nauðsynlegt að þeir fái viðeigandi búnað, þjálfun í notkun hans og fræðslu um líkamsbeitingu. Að auki geta starfsmenn nýtt sér ýmsar aðferðir í og utan vinnu til að viðhalda góðri líkamlegri og andlegri heilsu.

Algengast er að stoðkerfisvandamál vegna vinnu geri vart við sig í mjóbaki, höndum, úlnliðum eða öxlum. Einnig má nefna höfuðverk vegna vöðvaspennu og verki í hálsi og herðum. Skaðleg áhrif óslitinnar setu hafa á síðustu árum komið skýrt í ljós. Samfelld seta hefur ekki eingöngu slæm áhrif á stoðkerfið heldur einnig hjarta- og æðakerfið. Mikilvægt er að allur búnaður, t.d. skrifborð, stóll og skjár sé stillanlegur til að einstaklingar eigi auðvelt með að breyta um stellingar og aðlaga búnaðinn að sér.

Erfiðisvinna

Erfiðisvinna innan ýmissa starfsgreina getur falið í sér meðhöndlun þungra byrða og einhæfa álagsvinnu, titring, vinnu með hendur fyrir ofan axlir og með bogið eða snúið bak og háls. Þessir áhættuþættir auka líkur á stoðkerfisvandamálum og því ber að meta sérstaklega áhættu af þeim þegar gert er áhættumat og áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað.

Áhersla skal lögð á að fjarlægja þær hættur sem kunna að vera til staðar. Ef það er ekki unnt að öllu leyti er nauðsynlegt að takmarka tímann sem varið er í þessa skaðlegu þætti vinnunnar.

Líkur á vinnutengdum stoðkerfisvandamálum aukast þegar starfsmenn glíma við streitu eða önnur andleg og félagsleg vandamál, svo sem mikla tímapressu eða takmarkað athafnafrelsi.

 

Jákvæð áhrif hreyfingar

Sýnt hefur verið fram á jákvæð áhrif hreyfingar og skaðleg áhrif hreyfingarleysis á andlega og líkamlega heilsu okkar. Reglubundin hreyfing getur verið allt frá stuttum göngutúrum, eða að taka stigann, upp í íþróttaiðkun af mikilli ákefð. Það fer eftir því hvað hentar hverjum og einum, en allir ættu að stunda einhverja hreyfingu.
 
Besta leiðin til að halda blóðflæði vöðva í lagi er að hreyfa þá. Þannig dælum við blóði til vöðvanna og úrgangsefnum frá þeim. Styrktarþjálfun minnkar líkur á stoðkerfisverkjum til muna. Hún hjálpar yfirspenntum vöðvum að slaka og eykur blóðflæði. Slík þjálfun getur t.d. verið með lóðum, teygjum eða líkamsþyngd. Allt niður í tveggja mínútna styrktarþjálfun á dag getur dregið úr stoðkerfisverkjum. 
 
Blóðrásaraukandi æfingar og styrktaræfingar henta þeim sem stunda erfiðisvinnu en eru einnig tilvaldar fyrir kyrrsetufólk til að standa upp frá skrifborðinu og bæta líðan.
 

Finnur þú fyrir óþægindum?

Ef þú finnur fyrir óþægindum frá stoðkerfi sem þú telur orsakast af vinnu eða hafa versnað vegna hennar er mikilvægt að ræða við yfirmann þinn. Meta skal í sameiningu hvort eitthvað í vinnuumhverfi eða vinnuskipulagi mætti betur fara til að minnka líkur á frekari vanda. Einnig skal leita til heimilislæknis sem beinir þér til viðeigandi fagaðila ef meðferðar er þörf.

Heimilislækni ber skylda til að tilkynna atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma til Vinnueftirlitsins.

Sjá nánar hér: 

 

Vinnuslys

Um 4% vinnandi fólks verður fyrir vinnuslysum árlega með ómældum sársauka og kostnaði fyrir einstaklingana og samfélagið. Orsakir vinnuslysa eru oftast margþættar. Við forvarnir skiptir miklu að horfa til allra þeirra atriða og aðstæðna sem geta valdið slysi.

Markvisst vinnuverndarstarf, góður vinnuandi, stuðningur og vinsamleg samskipti stuðla að öryggishegðun og fækka vinnuslysum.

Helstu áhættuþættir vinnuslysa

1. Tækni og umhverfi

 • Það fækkar slysum að setja hlutina á sinn stað og þrífa.
 • Ástand véla og tækja, bilanir og ófullnægjandi öryggisráðstafanir skapa hættu.
 • Hávaði kemur í veg fyrir eðlileg samskitpi og að fólk heyri viðvörunarhljóð.
 • Hönnun vinnustaðar. Það þarf að vanda alla hönnun, breytingar geta skapað nýjar hættur.
 • Lýsing skiptir miklu máli svo menn greini hættur.

2. Skipulag og stjórnun

 • Of langur vinnutími og ónóg hvíld eykur hættu á vinnuslysum.
 • Launafyrirkomulag má ekki hvetja til óvarkárni. Vinnuslys eru algengari þar sem unnið er eftir afkastahvetjandi launakerfi.
 • Vinnuhraði fjölgar slysum. Vinnuslys eru algeng við rekstrartruflanir og viðhald.
 • Skortur á nýliðaþjálfun og þekkingu eykur hættu á slysum.
 • Tungumála- og samskiptavandamál fjölga slysum.

3. Einstaklingsþættir

 • Karlar slasast oftar en konur.
 • Yngra og eldra fólk slasast oftar en aðrir.
 • Starfsreynsla og menntun skiptir máli, ófaglærðir og nýir starfsmenn eru í mestri hættu.

Mikilvæg atriði í forvörnum

 • Góð yfirsýn.
  Vinnustaðurinn á að vera opinn, bjartur og hreinn. Því betur sem starfsmenn sjá í kringum sig og aðrir sjá þá, því færri vinnuslys verða. Skipulag þarf að vera gott og umferðarleiðir þurfa að vera greinilega merktar. Merkingar, skilti og viðvörunarljós þurfa að vera eins auðskilin og kostur er.
 • Vinnufélagar.
  Markviss fræðsla og staðgóð þekking skiptir máli, reynslan sýnir að nýliðar slasast oftar en reyndir starfsmenn. Samskipti um vinnuverndarmál þurfa að vera mikil og opin. Á vinnustöðum þar sem vinnuandinn er góður eru slys fátíðari en annars staðar. Allir starfsmenn ættu að kunna skyndihjálp og rifja hana reglulega upp.
 • Öryggisbúnaður.
  Viðeigandi hlífar eða aðgangshindranir eiga að vera á hlutum sem t.d. hreyfast, eru heitir, kaldir eða oddhvassir. Neyðarrofar þurfa að vera aðgengilegir og prófaðir reglulega. Með öllum vélum, tækjum og búnaði eiga að fylgja notkunarleiðbeiningar á íslensku til að tryggja örugga notkun. Aðgengi að neyðarbúnaði þarf að vera í lagi, t.d. að sjúkrakassa og slökkvitækjum. Nota skal viðeigandi persónuhlífar þegar ekki er hægt að fjarlægja hættur.
 • Heilsa starfsmanna og lífsstíll.
  Reynslan sýnir að ungir karlar slasast oftar en aðrir. Stjórnendur bera ábyrgð á störfum þeirra. Þreyttir og veikir starfsmenn slasast og valda slysum, því þarf að virða hvíldartíma. Þeir sem eru undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna eru hættulegir sjálfum sér og öðrum. Huga þarf að því að starfsmenn hafi andlega og líkamlega getu til að ráða við vinnuna. Vinnuslys eru algeng fyrir og eftir orlof t.d. páskafrí og sumarfrí.
 

Hvaða vinnuslys á að tilkynna Vinnueftirlitinu?

Atvinnurekandi skal tilkynna til Vinnueftirlitsins öll slys þar sem starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings. Atvinnurekandi skal svo innan viku tilkynna um slysið til Vinnueftirlitsins.

Áhættumat

Samkvæmt vinnuverndarlögum nr. 46/1980 ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem byggir á áhættumati. Markmiðið er að stuðla að öryggi og heilbrigði starfsfólks og koma í veg fyrir heilsutjón vegna vinnunnar eða vinnuumhverfisins.

Mat á áhættu skal ná til allra þeirra þátta í vinnuumhverfinu sem geta haft áhrif á heilsu og öryggi. Sérstaklega skal litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi starfsfólks sé hætta búin.

Þegar áhættumat gefur til kynna að vandamál sé fyrir hendi skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á atvinnutengdu heilsutjóni, óþægindum og slysum.

Öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn taka þátt í gerð áætlunarinnar og fylgjast með því hvernig henni er framfylgt. Í því felst þátttaka í gerð áhættumats og áætlunar um heilsuvernd og forvarnir.

Ítarefni: 

 • Öryggishjálmar

Heilsuefling

Hreyfing á vinnutíma