Fara í efni
Umhverfið

Er allt í sómanum?

Ytri umgjörð, félagslegir þættir og líkamleg og andleg næring hafa áhrif á líðan í starfi.

Deila

Gott vinnuumhverfi

Gott vinnu­umhverfi er hvetjandi fyrir starfsmenn og eykur almenna vellíðan
Umhverfi í vinnunni skiptir okkur öll verulegu máli hvort sem við vinnum á skrifstofu, við smíðar eða út á sjó. Umhverfi er vítt hugtak og getur átt við húsnæði, húsgögn, lýsingu, loftgæði, næringu og fleiri þætti.
Það er lögbundið hlutverk Vinnueftirlits ríkisins að setja fram kröfur um aðbúnað á vinnustað og sinna eftirliti um að þeim sé fylgt. Fyrirtækjum ber að gera áhættumat varðandi líkamlegan aðbúnað en ekki síður andlegt eða félagslegt öryggi starfsmanna. Hér fyrir neðan má meðal annars sjá ýmsar gagnlegar upplýsingar frá Vinnueftirlitinu varðandi aðbúnað og Landlækni varðandi næringu og hreyfingu. 
Gott vinnuumhverfi er hvetjandi fyrir starfsmenn og eykur almenna vellíðan og oft þarf ekki dýrar framkvæmdir eða innkaup til að bæta verulega aðstöðu starfsmanna.

Félagslegt umhverfi

Getum við verið hamingjusöm í vinnunni?

Anna Lóa Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá VIRK.
 
Hin síðari ár hefur verið fjallað mikið um jákvæða sálfræði og hamingjurannsóknir. Jákvæð sálfræði er byggð á sama grunni og önnur sálfræði og ekki um nýja fræðigrein að ræða, frekar viðbót. Það sem einkennir fræðigreinina er áherslan á að skoða hvaða þættir það eru sem hafa áhrif á vellíðan okkar. Hvað er það sem gengur vel, hefur jákvæð áhrif á tilfinningar okkar og samskipti. Til að einfalda þetta, þá leitast jákvæð sálfræði við að finna hvað nýtist okkur til að lifa góðu lífi, gera það besta úr okkur sjálfum og öðlast meiri hamingju.

Hugtakið hamingja er skilgreint á marga og mismunandi vegu en rétt er að taka það fram að það er ekki verið að tala um ofsagleði og kæti sem við upplifum við einstaka atburði eða athafnir.

Benjamín Franklín setti fram einfalda skýringu á hamingjunni og taldi hana ekki byggjast á stórkostlegri heppni sem gerist sjaldan – heldur á litlu jákvæðu hlutunum sem við sköpum á hverjum degi. Rannsakandinn Sonja Lyubomirsky vísar í heildstæðar upplifanir þar sem manneskjan er sátt við lífið í heild sinni þrátt fyrir hinn ýmsu verkefni sem allir fá.

Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur Psy. D. talar um jákvæða sálfræði á heimasíðu sinni:

„Jákvæð sálfræði fæst við að rannsaka lífshamingju, manngildi, s.s. heiðarleika og hugrekki, og margvíslega karakterstyrkleika. Þar er skoðað hvernig menn geta nýtt eigin hæfileika markvissar og staðið betur með sér og öðrum, ræktað sjálfa sig, aukið heilbrigði sitt og gæði lífs síns“.

Í bókinni „Leading with Happiness – How the best leaders put happiness first to create phenomenal business results and a better world“ (Alexander Kjerulf, 2017) eru hagnýt ráð fyrir bæði stjórnendur og starfsmenn þegar kemur að því að auka hamingjuna á vinnustaðnum.

 

Það er til mikils að vinna, því aukin hamingja á vinnustaðnum hefur margvísleg áhrif og má þar nefna að starfsmenn:
 • eru tilbúnir að skoða hvað þeir geta lagt af mörkum til að bæta andrúmsloftið (hver og einn skiptir máli)
 • taka á samskiptavanda strax – vandinn ekki látinn krauma þar til sýður upp úr
 • skipuleggja verkefni sem auka líkur á meiri hamingju til lengri tíma – en þarfnast jafnvel auka vinnu í byrjun
 • forgangsraða verkefnum betur
 • skipuleggja sig betur
 • sýna samkennd með samstarfsfólki
 • eru bjartsýnni
 • hafa jákvæð áhrif á aðra í kringum sig (hamingjan er smitandi)
 •  ná meiri árangri í starfi

Stjórnendur bera þarna mikla ábyrgð og geta gert ýmislegt til að auka hamingjuna á vinnustöðum. Stjórnendur þurfa að byrja á sjálfum sér því maður getur einfaldlega ekki gefið öðrum það sem maður á ekki sjálfur. Stjórnendur sem eru fullir af eldmóði hafa t.d. jákvæð áhrif á starfsfólkið sitt.

Til að auka á hamingjuna þurfum við að vera tilbúin að gera en ekki bara vera sem má segja að sé jákvæða sálfræðin í hnotskurn – það sem við gerum til að auka við góðu stundirnar í lífi okkar. Flestir dagar eru venjulegir dagar og þar eigum við að sækja fram.

Stjórnendur geta til dæmis: 

 • Veitt jákvæða endurgjöf – eykur hamingjuna, minnkar streitu og eykur afköst.
 • Hlustað á starfsfólkið – hlusta og bregðast við því sem þeir heyra.
 • Minnt á tilgang og merkingu – af hverju erum við að gera það sem við erum að gera í þessu fyrirtæki/stofnun.
 • Veitt meira frelsi – góðir stjórnendur gefa góðar skipanir, frábærir stjórnendur gefa engar skipanir. Meira frelsi er ávísun á meiri hamingju.
 • Tekið á óviðeigandi vinnustaðarmenningu – einelti, óvirðing, dónaskapur, baktal og neikvæðni líðst ekki.
 • Byggt upp góð samskipti við samstarfsfólk – sýna að þeim er annt um fólkið sitt.
 • Komið starfsfólkinu skemmtilega á óvart – þessir litlu hlutir sem skipta máli.
 • Fagna áföngum sem nást – að fagna áföngum með einhverju skemmtilegu skilar sér í meiri eldmóði meðal starfsfólks.
 • „Fagna“ mistökum – Hvað getum við lært, hvernig getum við gert þetta öðruvísi, höfum kjark til að prófa nýja hluti, viðurkenna mistök og læra af þeim.
 • Starfsmenn sem gera aldrei mistök koma sjaldnar með nýjar hugmyndir.

Þegar fólk er óhamingjusamt í vinnu hefur það áhrif á lífið almennt og jafnvel líkamlega heilsu. Meiri hætta er á streitu og andlegum erfiðleikum með tilheyrandi fjarvistum og jafnvel langtíma veikindum sé ekki brugðist við.

Fyrrnefndur Alexander Kjerulf heldur því fram að með því að stjórna með hamingjuna að leiðarljósi séu stjórnendur að ná að uppfylla tvö mikilvæg markmið – búa til stórkostlegt fyrirtæki og skapa betri heim. Hann tileinkar því bókina öllum þeim sem eru nógu hugrakkir (kannski smá klikkaðir líka) til að trúa því að hlutverk okkar hér á þessari plánetu sé að auka á hamingju hvors annars.

Ítarefni um málefnið

Alexander Kjerulf (2017). Leading with Happiness – How the Best Leaders put Happiness First to Create Phenomenal Business Results and a Better World. Sjá einnig umfjöllun hér

Sonja Lyubomirsky (2007). The How of Happiness: A New Approach to Getting the Life You Want.

Öryggi á vinnustað

„Stjórnendur bera megin­ábyrgð á að vinnu­umhverfi sé öruggt“
Það eru mannréttindi að vinnuaðstæður og vinnuumhverfi séu þannig að starfsmenn séu öruggir um heilsu sína og verði ekki fyrir slysum. Það er eðlileg krafa að starfsmenn komi heim úr vinnu jafn vel á sig komnir eða jafnvel betur en þegar þeir fóru til vinnu.
Stjórnendur bera meginábyrgð á að vinnuumhverfi sé öruggt en starfsmenn verða einnig að bera ábyrgð á sjálfum sér og öðrum sem gætu verið í hættu.

Fyrirtæki bera ábyrgð á að tryggja starfsumhverfi þar sem hægt er að vinna á öruggan og heilsusamlegan hátt. Þegar kemur að vinnuaðstöðu og umhverfi á vinnustöðum er margt hægt að gera til þess að minnka líkur á að starfsmenn þrói með sér vinnutengd stoðkerfisvandamál. Má þar nefna vinnuskipulag, vinnurými og sálfélagslegt umhverfi vinnustaðarins. Til að starfsmenn geti beitt sér rétt við vinnu er nauðsynlegt að þeir fái viðeigandi búnað, þjálfun í notkun hans og fræðslu um líkamsbeitingu. Að auki geta starfsmenn nýtt sér ýmsar aðferðir í og utan vinnu til að viðhalda góðri líkamlegri og andlegri heilsu.

Algengast er að stoðkerfisvandamál vegna vinnu geri vart við sig í mjóbaki, höndum, úlnliðum eða öxlum. Einnig má nefna höfuðverk vegna vöðvaspennu og verki í hálsi og herðum. Skaðleg áhrif óslitinnar setu hafa á síðustu árum komið skýrt í ljós. Samfelld seta hefur ekki eingöngu slæm áhrif á stoðkerfið heldur einnig hjarta- og æðakerfið. Mikilvægt er að allur búnaður, t.d. skrifborð, stóll og skjár sé stillanlegur til að einstaklingar eigi auðvelt með að breyta um stellingar og aðlaga búnaðinn að sér.

Erfiðisvinna

Erfiðisvinna innan ýmissa starfsgreina getur falið í sér meðhöndlun þungra byrða og einhæfa álagsvinnu, titring, vinnu með hendur fyrir ofan axlir og með bogið eða snúið bak og háls. Þessir áhættuþættir auka líkur á stoðkerfisvandamálum og því ber að meta sérstaklega áhættu af þeim þegar gert er áhættumat og áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað.

Áhersla skal lögð á að fjarlægja þær hættur sem kunna að vera til staðar. Ef það er ekki unnt að öllu leyti er nauðsynlegt að takmarka tímann sem varið er í þessa skaðlegu þætti vinnunnar.

Líkur á vinnutengdum stoðkerfisvandamálum aukast þegar starfsmenn glíma við streitu eða önnur andleg og félagsleg vandamál, svo sem mikla tímapressu eða takmarkað athafnafrelsi.

 

 

Jákvæð áhrif hreyfingar

Sýnt hefur verið fram á jákvæð áhrif hreyfingar og skaðleg áhrif hreyfingarleysis á andlega og líkamlega heilsu okkar. Reglubundin hreyfing getur verið allt frá stuttum göngutúrum, eða að taka stigann, upp í íþróttaiðkun af mikilli ákefð. Það fer eftir því hvað hentar hverjum og einum, en allir ættu að stunda einhverja hreyfingu.

Besta leiðin til að halda blóðflæði vöðva í lagi er að hreyfa þá. Þannig dælum við blóði til vöðvanna og úrgangsefnum frá þeim. Styrktarþjálfun minnkar líkur á stoðkerfisverkjum til muna. Hún hjálpar yfirspenntum vöðvum að slaka og eykur blóðflæði. Slík þjálfun getur t.d. verið með lóðum, teygjum eða líkamsþyngd. Allt niður í tveggja mínútna styrktarþjálfun á dag getur dregið úr stoðkerfisverkjum. Blóðrásaraukandi æfingar og styrktaræfingar henta þeim sem stunda erfiðisvinnu en eru einnig tilvaldar fyrir kyrrsetufólk til að standa upp frá skrifborðinu og bæta líðan.

 • Fætur á kvenmanni og kúabjalla (styrking)

Munum að lyfta rétt:

 • Halda byrðinni nálægt líkamanum

 • Ekki lyfta upp fyrir axlarhæð

 • Beygja hné

 • Nota léttitæki!

 • Ekki snúa upp á hrygg eða háls

Finnur þú fyrir óþægindum?

Ef þú finnur fyrir óþægindum frá stoðkerfi sem þú telur orsakast af vinnu eða hafa versnað vegna hennar er mikilvægt að ræða við yfirmann þinn. Meta skal í sameiningu hvort eitthvað í vinnuumhverfi eða vinnuskipulagi mætti betur fara til að minnka líkur á frekari vanda. Einnig skal leita til heimilislæknis sem beinir þér til viðeigandi fagaðila ef meðferðar er þörf.

Heimilislækni ber skylda til að tilkynna atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma til Vinnueftirlitsins.

Ítarefni

 

Vinnuslys

Um 4% vinnandi fólks verða fyrir vinnuslysum árlega með ómældum sársauka og kostnaði fyrir einstaklingana og samfélagið. Orsakir vinnuslysa eru oftast margþættar. Við forvarnir skiptir miklu að horfa til allra þeirra atriða og aðstæðna sem geta valdið slysi.

Markvisst vinnuverndarstarf, góður vinnuandi, stuðningur og vinsamleg samskipti stuðla að öryggishegðun og fækka vinnuslysum.

 • Lyftari

Helstu áhættuþættir vinnuslysa

1. Tækni og umhverfi

 • Það fækkar slysum að setja hlutina á sinn stað og þrífa.
 • Ástand véla og tækja, bilanir og ófullnægjandi öryggisráðstafanir skapa hættu.
 • Hávaði kemur í veg fyrir eðlileg samskitpi og að fólk heyri viðvörunarhljóð.
 • Hönnun vinnustaðar. Það þarf að vanda alla hönnun, breytingar geta skapað nýjar hættur.
 • Lýsing skiptir miklu máli svo menn greini hættur.

2. Skipulag og stjórnun

 • Of langur vinnutími og ónóg hvíld eykur hættu á vinnuslysum.
 • Launafyrirkomulag má ekki hvetja til óvarkárni. Vinnuslys eru algengari þar sem unnið er eftir afkastahvetjandi launakerfi.
 • Vinnuhraði fjölgar slysum. Vinnuslys eru algeng við rekstrartruflanir og viðhald.
 • Skortur á nýliðaþjálfun og þekkingu eykur hættu á slysum.
 • Tungumála- og samskiptavandamál fjölga slysum.

3. Einstaklingsþættir

 • Karlar slasast oftar en konur.
 • Yngra og eldra fólk slasast oftar en aðrir.
 • Starfsreynsla og menntun skiptir máli, ófaglærðir og nýir starfsmenn eru í mestri hættu.

Mikilvæg atriði í forvörnum

 • Góð yfirsýn.
  Vinnustaðurinn á að vera opinn, bjartur og hreinn. Því betur sem starfsmenn sjá í kringum sig og aðrir sjá þá, því færri vinnuslys verða. Skipulag þarf að vera gott og umferðarleiðir þurfa að vera greinilega merktar. Merkingar, skilti og viðvörunarljós þurfa að vera eins auðskilin og kostur er.
 • Vinnufélagar.
  Markviss fræðsla og staðgóð þekking skiptir máli, reynslan sýnir að nýliðar slasast oftar en reyndir starfsmenn. Samskipti um vinnuverndarmál þurfa að vera mikil og opin. Á vinnustöðum þar sem vinnuandinn er góður eru slys fátíðari en annars staðar. Allir starfsmenn ættu að kunna skyndihjálp og rifja hana reglulega upp.
 • Öryggisbúnaður.
  Viðeigandi hlífar eða aðgangshindranir eiga að vera á hlutum sem t.d. hreyfast, eru heitir, kaldir eða oddhvassir. Neyðarrofar þurfa að vera aðgengilegir og prófaðir reglulega. Með öllum vélum, tækjum og búnaði eiga að fylgja notkunarleiðbeiningar á íslensku til að tryggja örugga notkun. Aðgengi að neyðarbúnaði þarf að vera í lagi, t.d. að sjúkrakassa og slökkvitækjum. Nota skal viðeigandi persónuhlífar þegar ekki er hægt að fjarlægja hættur.
 • Heilsa starfsmanna og lífsstíll.
  Reynslan sýnir að ungir karlar slasast oftar en aðrir. Stjórnendur bera ábyrgð á störfum þeirra. Þreyttir og veikir starfsmenn slasast og valda slysum, því þarf að virða hvíldartíma. Þeir sem eru undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna eru hættulegir sjálfum sér og öðrum. Huga þarf að því að starfsmenn hafi andlega og líkamlega getu til að ráða við vinnuna. Vinnuslys eru algeng fyrir og eftir orlof t.d. páskafrí og sumarfrí.

 

 • Öryggishjálmar

Hvaða vinnuslys á að tilkynna Vinnueftirlitinu?

Atvinnurekandi skal tilkynna til Vinnueftirlitsins öll slys þar sem starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings. Atvinnurekandi skal svo innan viku tilkynna um slysið til Vinnueftirlitsins.

Áhættumat

Samkvæmt vinnuverndarlögum nr. 46/1980 ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem byggir á áhættumati. Markmiðið er að stuðla að öryggi og heilbrigði starfsfólks og koma í veg fyrir heilsutjón vegna vinnunnar eða vinnuumhverfisins.

Mat á áhættu skal ná til allra þeirra þátta í vinnuumhverfinu sem geta haft áhrif á heilsu og öryggi. Sérstaklega skal litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi starfsfólks sé hætta búin.

Þegar áhættumat gefur til kynna að vandamál sé fyrir hendi skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á atvinnutengdu heilsutjóni, óþægindum og slysum.

Öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn taka þátt í gerð áætlunarinnar og fylgjast með því hvernig henni er framfylgt. Í því felst þátttaka í gerð áhættumats og áætlunar um heilsuvernd og forvarnir.

 

Lýsing og áhrif hennar

Samtalið við notendur vill gleymast
Fæstir leiða hugann að því hvaða áhrif birta og lýsing hafa á skap okkar og almenna líðan. Ef við hugsum um muninn á andlegri líðan okkar og orku á björtum sólardegi annars vegar og á grámyglulegum rigningardegi hins vegar gefur það ákveðna vísbendingu. Við verðum einnig fyrir áhrifum af tilbúinni lýsingu á heimilinu og í vinnuumhverfinu sem getur haft áhrif á skap, árvekni, orku, framleiðni og sköpunargáfu.
Kristján Kristjánsson, lýsingarhönnuður (MSLL) hjá Hildiberg, svaraði nokkrum spurningum Velvirk-síðunnar um lýsingu:  
 • Hvað þurfa fyrirtæki helst að hafa í huga í sambandi við lýsingu á vinnustaðnum?
Það er alltof algengt að lýsing sé hugsuð út frá þörfum bygginga og reglugerða en samtalið við notendur gleymist. Þarfir notenda og fyrirtækis eru ekki endilega þær sömu. Til að tryggja góða lýsingarhönnun þarf að kanna hvað hentar starfsemi og notendum. Við erum öll misjöfn og góð lýsing á að tryggja að lýsing henti jafnt þeim sem eru yngri og eldri.
Það er kostur ef hægt er að bjóða starfsmönnum upp á að geta stýrt birtumagni á sínu vinnusvæði sjálfir. Einföld leið er að bjóða upp á borðlampa á starfstöðvum og með tilkomu LED ljósabúnaðar eru fleiri möguleikar í boði með snjallljósastýringar sem fyrirtæki ættu að kynna sér. 

Vinnustaðir ættu að skoða lýsinguna og ljósastýringar saman sem eina heild til að tryggja að búnaðurinn vinni vel saman. Ef lýsing passar illa við ljósastýringar getur orðið vandamál með flökt til dæmis. Eitt af þeim vandamálum sem hefur aukist í vinnuumhverfi með tilkomu LED búnaðar er flökt í ljósabúnaði sem hefur margs konar áhrif á heilsu og líðan starfsmanna. 

Við erum að sjá meiri upplýsingar en áður um hve miklu máli það skiptir að huga að vali á réttum búnaði og tryggja heildargæði lýsingarkerfisins. Með nýjungum eins og því að geta stýrt ljósahitastigi frá kaldri birtu yfir í hlýja er hægt að huga enn frekar að heilsu starfsmanna í gegnum lýsinguna.

 • Hafa komið nýjungar á markaðinn sem vinnustaðir gætu litið til, svo sem búnaður sem hindrar blátt ljós?

Vandamál með of háa bláa ljósgeisla frá ljósabúnaði eru hverfandi í dag. Við sjáum þetta lítið með búnað frá viðurkenndum birgjum. Þegar farið er í að skipta út ljósabúnaði ætti alltaf að kalla eftir gögnum frá framleiðendum um gæði lýsingar og samsetningu ljóslitrófsins. Vandamálið er samt til staðar og sérstaklega með ódýrari búnað frá óþekktum vörumerkjum sem erfitt er að greina hvaðan koma og fá upplýsingar um gæði lýsingar.

Varðandi skjái eru flestir skjáir sem gerðir eru fyrir vinnustaði með stillanlegu birtustigi og hægt er að draga úr bláum ljósgeislum. Að auki er framleiðendur LED ljósabúnaðar að setja á markað sér ljóslitróf sem er án bláljósgeisla. Slíkar lausnir myndu henta fyrir svefnrými einstaklinga, á sjúkrahúsum og hótelum sem dæmi. Ég heyri fleiri og fleiri dæmi um þá sem mæla með sérgleraugum sem hindra bláljósgeisla. Allar einstaklingsmiðar lausnir þar sem notandi hefur valdið eru góðar.

 • Orðið hefur bylting með tilkomu LED tækninnar. Eru einhverjir gallar við þessa þróun að þínu mati?

Ef horft er til orkutölu milli LED lýsingar annars vegar og eldri hefðbundins ljósabúnaðar hins vegar erum við að sjá mikinn sparnað. En LED tæknibyltingin er ekki að hafa þau áhrif á umhverfið eða sýna þann orkusparnað sem vonast var eftir. Vandamálið er neytandinn, hvort sem um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki eða stofnanir. Það er verið að framleiða miklu meira af ljósabúnaði en þörf er á sem kostar orku, flutning og endurvinnslu. Neytendur eru að nota miklu meira af ljósabúnaði en áður og markaðurinn er uppfullur af óvönduðum búnaði sem hægt er að fá á kostakjörum en stenst engar kröfur um gæði eða endingu og endar fljótlega í landfyllingu.

Fosfór er eitt lykilefni í framleiðslu á LED og þrátt fyrir eða vera í snefilmagni þá er verið að opna aftur fosfórnámur í Kína til að halda framleiðslunni gangandi með tilheyrandi mengun og alvarlegum áhrifum á jörð, menn og dýr. Endurvinnslu er líka ábótavant þar sem búnaður er fluttur úr landi og endurunninn á stöðum utan Evrópu þar sem aðstæður eru ekki góðar. Sem neytendur ættum við að vanda valið betur og versla af viðurkenndan framleiðendum og njóta betri búnaðar og meiri gæði lýsingar.
 • Er eitthvað sem fólk ætti að huga að í tengslum við lýsingu á heimilinu?

Lýsing fyrir heimilið skiptir gríðarlega miklu máli og þarf að geta boðið upp á að hægt sé að aðlaga hana að fjölbreytileika heimila. Heimili eru byggð upp af mismunandi rýmum með mismunandi þarfir og best er að geta stýrt birtustigi til að aðlaga rými að þörfum okkar og viðfangsefnum. Hvort sem við erum að slaka á og viljum deyfa lýsinguna og kveikja kertaljós sem dæmi, eða hafa góða birtu á eldhúsborði fyrir heimanám.

Íslendingar og aðrir sem búa norðarlega kjósa að hafa hlýtt birtustig fremur en kalt og myndi ég alltaf mæla með að velja hlýja birtu. En með tilkomu LED eru margar lausnir fyrir heimili þar sem boðið er upp á að geta stýrt ljósahitastiginu frá köldu í hlýtt. Þessar lausnir geta verið frábærar en mörgum þeirra fylgja vandamál með flökt og léleg gæði ljóssins. 

Flökt frá ljósabúnaði ættum við alltaf að reyna að varast. Við sjáum ekki endilega flöktið með berum augum en við erum að nema það sem hefur truflandi áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Til dæmis eru þeir sem eru með mígreni sérstaklega viðkvæmir fyrir flökti þar sem það getur kallað fram mígreniskast.
Gott er að hafa í huga að velja búnað út frá gæðum lýsingar og fá faglega ráðgjöf - að hugsa lausnina til framtíðar segir Kristján Kristjánsson.  

 

Líkamsbeiting við skrifstofuvinnu

Vinnueftirlitið hleypti af stokkunum fræðsluátaki um góða vinnuaðstöðu og líkamsbeitingu við skrifstofuvinnu í byrjun október 2020. Sem dæmi um gagnlegt efni má nefna umfjöllun um setstöðu og stillingu á skrifborðsstólum. Rætt er um vinnuhæð, „knapastöðuna“ svokölluðu, notkun á mús og hæð skjás.

Átakið tengdist vefráðstefnunni Meira vinnur vit en strit (19. nóvember 2020), en ráðstefnan var liður í samstarfsverkefni Vinnueftirlitsins, félagsmálaráðuneytisins, samtaka aðila vinnumarkaðarins og VIRK sem ber yfirskriftina Vinnuvernd er allra hagur – hæfilegt álag – heilbrigt stoðkerfi 2020-2022.

Markmið ráðstefnunnar var að varpa ljósi á þann víðtæka stoðkerfisvanda sem vinnandi fólk um heim allan glímir við þrátt fyrir hversu mikið er vitað um mikilvægi góðrar líkamsbeitingar og áhrif stoðkerfisvanda á heilbrigðiskerfið. Markmiðið er sömuleiðis að benda á lausnir.

Mynd af facebook-síðu Vinnueftirlitsins. 

 

Heilsuefling

Aukin vellíðan á vinnustað

Heilsuefling á vinnustöðum er sameiginlegt verkefni vinnuveitenda, starfsfólks og samfélagsins alls og miðar að því að bæta heilsu og líðan vinnandi fólks. Með heilsueflingu á vinnustöðum er stefnt að því að auka vellíðan með því að bæta vinnuskipulag, vinnuumhverfi og samskipti á vinnustað. Meiri áhersla er nú lögð á möguleika starfsfólks og að það geti þróast í starfi og þetta hefur leitt til víðtækari skilnings á mikilvægi heilbrigðis, lífsgæða og frekara náms. Það er allra hagur að gera vinnustaðinn að stað þar sem starfsfólk nýtur sín og líður vel. Með heilsueflingu geta fyrirtæki og stofnanir einnig bætt ímynd sína og orðið eftirsóknarverðari vinnustaðir.

Ávinningur starfsfólks er aukin vellíðan, bætt heilsa, aukin starfsánægja, minni streita og meira jafnvægi í lífinu almenn auk færri slysa og sjúkdóma. Starfsgeta hvers og eins verður meiri og fólk getur jafnvel átt lengri starfsævi. Hagur vinnustaðarins getur falist í aukinni framleiðni, meiri nýsköpun, minni starfsmannaveltu og minni kostnaði vegna fjarveru, veikinda og slysa.

Vinnuveitendur sem hlúa að heilsu og vellíðan starfsfólks hafa ekki eingöngu jákvæð áhrif á starfsfólkið heldur einnig á fjölskyldu þess og samfélagið í heild. Mikilvægt er að á sem flestum vinnustöðum sé heilsuefling sjálfsagður þáttur í stefnu vinnustaðarins og unnið sé markvisst að henni. Sjá meira um um heilsueflingu á vinnustöðum hér

Hægt er að vinna að heilsueflingu á nokkrum stigum og er árangursríkast ef heilsueflingarstarf tekur til allra þriggja þátta sem koma hér fyrir neðan:

 • Maður að hlaupa á stétt
 • Byggja upp heilsusamlegt og styðjandi vinnuumhverfi þar sem stefna og hlutverk eru skýr, þjálfun og fræðsla fer fram og stjórnunarhættir fela í sér stuðning við starfsfólk. Þetta gagnast öllu starfsfólki, hvetur til heilbrigðra lífshátta og hefur jákvæð áhrif á líðan.
 • Skoða áhættuþætti í vinnuumhverfi og bregðast við þeim. Með þessu má koma auga á þá einstaklinga og þær vinnuaðstæður sem þarf að sinna sérstaklega og þarfnast sérstakra aðgerða.
 • Mikilvægt er að taka tillit til ólíkrar vinnufærni fólks og stuðla að því að einstaklingar með minna úthald eða færni haldist á vinnumarkaði og komi aftur til starfa eftir slys eða veikindi, hvort sem þau eru andlegs eða líkamlegs eðlis.

Tóbaksvarnir

Reykingar eru algengasta orsök margra sjúkdóma og ótímabærra dauðsfalla. Reykingar valda mörgum banvænum sjúkdómum, s.s. krabbameini, hjarta og æðasjúkdómum auk langvarandi veikinda og heilsubrests sem skerðir lífsgæði fólks verulega, oft langt um aldur fram. Reykingar eru ekki aðeins skaðlegar þeim sem reykja heldur öllum sem í kringum þá eru. Ekki er til það loftræstikerfi sem ræður við að hreinsa reykmettað andrúmsloft þannig að tryggt sé að það sé skaðlaust.

Í ljósi þessa eru reyklausir vinnustaðir eina leiðin til að tryggja öruggt umhverfi hvað þetta varðar. Samkvæmt vinnuverndar- og tóbaksvarnalögum ber vinnuveitanda að vernda starfsfólk gegn óbeinum reykingum í vinnunni.

Sjá nánar um tóbaksvarnir hér

Áfengis- og vímuvarnir á vinnustöðum

Áfengi er engin venjuleg neysluvara. Þótt það sé oftast notað í tengslum við skemmtanir er það róandi vímugjafi og hefur sljóvgandi áhrif á notandann. Afleiðingar áfengisnotkunar geta verið mjög skaðlegar en skaðsemin fer eftir neyslumynstri og magni áfengis sem neytt er.

Samkvæmt skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er áætlað að rekja megi um 3 milljónir dauðsfalla á ári til áfengis, það er um 5,4% allra dauðfalla. Auk þess að hafa líkamleg skaðleg áhrif hefur áfengisnotkun áhrif á töpuð góð æviár, vinnuframleiðni og margvísleg félagsleg- og andleg vandamál. Þar kemur einnig fram að engin lægri mörk áfengisnotkunar eru algerlega skaðlaus og áhættan eykst með aukinni notkun.

Sjá nánar um áfengis- og vímuvarnir hér

 

Hollt mataræði á vinnustað

Starfsfólk ver oft miklum tíma í vinnunni og því er mikilvægt að aðgengi sé gott að hollum og næringarríkum mat sem fylgir ráðleggingum Embættis landlæknis um mataræði. Maturinn hefur ekki aðeins áhrif á líðan og lund fólks heldur getur heilsan og starfsorkan beinlínis verið undir því komin að hollur og góður matur sé í boði. Aðstaða og umhverfi skiptir einnig máli og ætti að leitast við að hafa matarumhverfið rólegt og notalegt svo fólk geti komið saman og snætt holla og góða máltíð og notið matarins. Vinnustaðir þurfa að huga að næringarmálum, t.d. við gerð stefnu vinnustaðarins, og er æskilegt að slík vinna sé unnin náið með starfsfólki. Stjórnendur vinnustaða eru enn fremur hvattir til að bjóða upp á fræðslu um hollt mataræði.

Vinnustaðir eru hvattir til að halda utan um skráningu á fæðuofnæmi og fæðuóþoli starfsfólks og ávallt þarf að huga að þessum hópi við val á veitingum, hvort sem er í mötuneytinu, á fundum eða öðrum uppákomum þannig að eitthvað sé í boði fyrir alla.

 • Næring

Leiðir til að stuðla að góðu mataræði starfsmanna á vinnustað

Hægt er að gera holla matinn meira aðlaðandi með lægra verði, fjölbreyttu úrvali og með því að hafa hann vel sýnilegan.

Æskilegt er að velja fyrst og fremst matvæli sem eru rík að næringarefnum frá náttúrunnar hendi, svo sem grænmeti, ávexti, ber, hnetur, fræ, heilkornavörur, baunir og linsur, feitan og magran fisk, olíur, fituminni og hreinar mjólkurvörur og kjöt og vatn til drykkjar. Takmarka ber hinsvegar neyslu á unnum matvörum sem innihalda oft mikið af mettaðri fitu, sykri eða salti. Sem dæmi má nefna gosdrykki, sælgæti, kex, kökur, snakk, skyndibita og unnar kjötvörur.

 

Bjóða ókeypis ávexti og grænmeti

 • Vinnustaðir eru hvattir til að bjóða starfsfólki sínu ókeypis ávexti og grænmeti á vinnustaðnum.

 • Tilvalið er að hafa ávexti og grænmeti á áberandi stað, t.d. inni á hverri deild eða kaffistofu.

Hafa gott aðgengi að köldu, fersku vatni

 • Hafa kranavatn, vatnsvélar eða vatnsbrunna aðgengilega fyrir starfsfólk sem víðast.

 • Bjóða einnig upp á kolsýrt vatn, án sítrónusýru (E330), til að auka fjölbreytni.

Bjóða upp á hollt fundarfæði

 • Kranavatn, kolsýrt vatn (án sítrónusýru E330), kaffi og te.

 • Niðurskornir ávextir/grænmeti.  

 • Hnetur og þurrkaðir ávextir.

 • Trefjaríkt heilkornabrauð með hollu áleggi

 • Ef vitað er af ofnæmi eða óþoli fundargesta fyrir einhverri fæðutegund skal taka tillit til þess við val á meðlæti.  

Ávextir og mikið af grænmeti

Bjóða mikið úrval af grænmeti með mat eða í salatbar. Tilvalið er að hafa grænmeti fremst á hlaðborðinu þegar fólk skammtar sér sjálft á diskinn. Hafa grænmeti í sem flestum réttum þar sem það á við en einnig að bjóða uppá grænmetis- og baunarétti reglulega.

Heilkornavörur

Bjóða heilkorna brauð af ýmsu tagi með a.m.k. 5 g trefja í 100 g. Velja skáargatsmerkt brauð og nota gjarnan bygg, heilkornapasta og hýðishrísgrjón sem meðlæti auk kartaflna oftar en fínunnar vörur.

Fiskur

Bjóða upp á fisk í mötuneytinu tvisvar í viku, bæði magran og feitan fisk.

Kjöt

Þegar kjöt er í boði að velja magurt óunnið kjöt sem oftast. Kjöt í hófi og takmarka unnar vörur.

Hollari fita

Nota ýmsar tegundir af matarolíu í matargerð t.d. rapsolíu og ólífuolíu í staðinn fyrir smjör, smjörlíki, kókósolíu eða aðra harða fitu.

Bjóða uppá baunamauk (hummus), pestó eða lárperur (avókadó) ofan á brauð.

Minna salt

Minnka notkun salts og saltríkra krydda en nota þess í stað önnur krydd án salts og velja saltminni vörur þegar sá möguleiki er fyrir hendi. Sjá nánar á landlaeknir.is/skodadusaltid

Minni viðbættur sykur

Mælt er með að draga úr framboði á sælgæti, kökum og kexi og bjóða frekar uppá ávexti og hnetur.

Hafa gott aðgengi að vatni og minnka aðgengi að gosdrykkjum.               

Minni matarsóun

Mikilvægt er að skipuleggja innkaup og eldamennsku því þannig má stuðla að hollu mataræði, draga úr matarsóun og vernda umhverfið. Sjá nánar á matarsoun.is

 

Hreyfing á vinnutíma

Margir láta hreyfingu mæta afgangi
Í grein á BBC Worklife vefnum kemur fram að stundum getur einn klukkutími ráðið úrslitum um hvort við náum afkastamiklum degi eða ekki. Þetta gæti verið auka klukkustund í svefn, hreyfingu eða í vinnu þar sem við náum flæði, en það getur haft mjög jákvæð áhrif á hvernig við vinnum og lifum lífinu.
Við vitum öll að við þörfnumst hreyfingar en margir láta hana mæta afgangi. Flestir eiga einnig erfitt með að finna tíma til að sinna hreyfingu. Ólíkt svefni er hreyfing ekki eitthvað sem kemur af sjálfu sér. Við verðum að finna tíma til að láta hana passa inn í dagatalið okkar.

Einstaklingar verja um helmingi vökutímans í vinnu og liggur því beinast við að reyna að koma hreyfingu að innan þess ramma. Það að stunda hreyfingu á vinnutíma leiðir oftar en ekki til betri líðanar og meiri skilvirkni í starfi.

Bresk rannsókn frá 2008 leiddi í ljós að starfsmenn sem voru með aðgang að og notuðu líkamsræktaraðstöðu á vinnutíma voru skilvirkari og fóru ánægðari heim að loknum vinnudegi þá daga sem þeir notuðu aðstöðuna en aðra daga. Önnur rannsókn frá 2013 sýndi að starfsfólk upplifir samstundis bætt hugarstarf í kjölfarið á æfingu. Æfingin þarf ekki að vera löng, stutt æfing eins og 15 mínútur á líkamsræktarhjóli skilar árangri. Þetta gæti bent til þess að það sé jafnvel betra upp á athygli og skilvirkni að æfa á vinnutíma í stað þess að æfa fyrir eða eftir vinnu. 

Einstaklingar sem æfa á vinnutíma upplifa meiri skilvirkni og taka færri veikindadaga. Að auki hefur það góð áhrif á andlega heilsu að fá hlé á miðjum vinnudegi frá streituvöldum sem tengjast starfinu.

En hreyfing á vinnutíma getur einnig leitt af sér ávinning í stærra samhengi. Heilbrigðisstofnanir og stjórnendur í Bretlandi hafa átt samtal um hvort gera ætti hana að skyldu inn í vinnudaginn til að sporna við lífsstílstengdum heilsufarsvandamálum í samfélaginu. Sem dæmi má nefna að talið er að meira en 20 milljónir Breta hreyfi sig nær ekkert og kostnaður breska heilbrigðiskerfisins (NHS) við óvirkan lífsstíl er metinn á um 1,2 milljarð punda á ári.

Erfitt getur verið að halda uppi sterkum teymum hjá fyrirtækjum og stofnunum ef starfsfólk er að kljást við lífsstílstengdan heilsufarsvanda. Hreyfing á vinnutíma þarf ekki að taka langan tíma og það skiptir ekki máli hvort hún stendur yfir í 5 eða 60 mínútur – hún er alltaf til bóta. Mælt er með því að nýta þær pásur sem eru mögulegar til að hreyfa sig, eins og að taka stigann ef hægt er eða fara lengri leið í vinnuna (fótgangandi). Ekki er nauðsynlegt að það sé líkamsræktarstöð á staðnum, möguleikar fyrir hreyfingu eru alls staðar.
Að taka frá tíma í dagbókinni
Mikilvægt er að hugarfarið sé rétt, að taka frá tíma á deginum til að koma hreyfingu inn, skrá hana í dagbókina eins og gert er með vinnufundi og gefa þann tíma ekki eftir. Ef unnið er í teymum er mikilvægt að ræða við hópinn um hvenær þú ert frá og jafnvel hvers vegna, til að ræða ávinning þess og jafnvel til að hvetja fleiri að feta sama veg.
Í nýrri skýrslu frá Syddansk Universitet kemur fram að til að hreyfingin sé komin til að vera er þörf á að menningin á vinnustaðnum breytist á þann hátt að það sé tími og pláss til að stunda hana. Mikilvægt er að stjórnendur taki þátt og sýni fordæmi svo líklegra sé að sem flestir taki þátt. Gott getur verið að fá þjálfara í byrjun sem skipuleggur þjálfunina eða einhvern sem er ábyrgur fyrir því að halda hreyfingunni við. Mælt er með að hún sé eðlilegur hluti af vinnudeginum, ekki bara eitthvað sem starfsfólk tekur afstöðu til í hvert sinn. Þjálfa þarf þol (70% af hámarks púlsi) fyrir þá einstaklinga sem eru í kyrrsetustörfum og takmarka settíma. 

Mælt er með lotuþjálfun (85-95% af hámarks púlsi) fyrir störf sem krefjast þess að standa eða ganga mikið. Fyrir líkamlega erfiða vinnu er mælt með styrktarþjálfun fyrir stóru vöðvahópana, um það bil 60% af hámarksþyngd. Styrktarþjálfun getur einnig dregið úr verkjum í starfi ásamt því að fyrirbyggja að einstaklingur upplifi verki tengda starfi. Mælt er með að metnar séu þarfir hvers og eins vinnustaðar með tilliti til líkamlegra krafna í starfi. Hægt er að skipta þjálfuninni upp, til dæmis í 5x12 mínútur eða 3x20 mínútur. Mikilvægt er að hafa rétta stignun (e. progression) á æfingunum og ætla sér ekki um of.

 Sjá meira um hreyfingu á vinnutíma í kaflanum Vinnan og hreyfing.

Hreystigarðar

Þol- og styrktarþjálfun á útisvæðum.
Í nokkrum bæjarfélögum má finna svokallaða hreystigarða sem eru eins konar útileikvellir fyrir fullorðna. Garðarnir eru öllum aðgengilegir og opnir allt árið. Í þeim má gera fjölbreyttar æfingar og tilvalið er að taka göngutúr eða skokka á það svæði sem næst er.
Fólk notar sína eigin líkamsþyngd í tækjunum sem gerir þau einföld í notkun og dregur úr slysahættu. Í tækjunum má bæta styrk, auka þol og liðleika, auk þess að vinna með jafnvægi.
Um að gera að drífa sig út, klæða sig eftir veðri og njóta þess að hreyfa sig undir berum himni. Við flesta hreystigarða er leikvöllur og því tilvalið að eiga heilsusamlega gæðastund með börnunum.

Garðarnir eru meðal annars hér:

 • Reykjavík – við Bríetartún (milli Bríetartúns og Laugavegar) og bakvið Miðbæ (við Háaleitisbraut)
 • Hafnarfjörður – við Suðurbæjarlaug
 • Garðabær – við Arnarneslæk, Bæjargarð, Sunnuflöt og á Álftanesi
 • Kópavogur – í Fossvogsdal Kópavogsmegin og við tjörnina í Kópavogsdal
 • Mosfellsbær – á græna svæðinu við Klapparhlíð
 • Akranes – við Langasand
 • Reykjanesbær – við skrúðgarðana í Keflavík og Njarðvík, á Ásbrú við Sporthúsið og í Innri Njarðvík við Akurskóla