Fara í efni

Jafnvægi vinnu og einkalífs

Mörkin milli vinnu og einkalífs

Ólíkar aðferðir við að skilja (eða skilja ekki) á milli 

Er ætlast til að við séum til taks eftir vinnu?
Mörkin milli vinnu og einkalífs hafa orðið óljósari síðustu ár. Oft vitum við ekki hvort ætlast er til að við vinnum yfirvinnu eða séum til taks eftir að hefðbundnum vinnudegi lýkur. Hvað eigum við að gera þegar við sjáum vinnupóst berast að kvöldlagi eða þegar við erum í orlofi? Er ætlast til að við lesum hann og vinnum að verkefnum utan vinnutíma?
Þeir sem eru mjög helgaðir vinnu sinni, gegna ákveðnum störfum eða telja sig mögulega í viðkvæmri stöðu eru líklegir til að svara erindum í frítíma og aðrir geta ekki stillt sig um að lesa en svara kannski næsta virka dag. Þó einhverjir telji ekki eftir sér að sinna viðvikum utan vinnutíma er ljóst að erfiðara er fyrir vikið að aftengja sig frá starfinu og ná nauðsynlegri hvíld. Gott er að hafa í huga að það að fylgjast með vinnunni í fríium getur líka haft neikvæð áhrif þó að við bregðumst ekki við með beinum hætti, við förum þá að hugsa um og reyna að leysa ákveðin vandamál í huganum sem getur tekið álíka tíma frá okkur og það að svara póstum og vinna verkefnin.
Sumir eiga þó auðveldara með að skilja á milli vinnu og frítíma og búa þannig um hnútana að þeir verði þess ekki varir þegar vinnupóstar berast í frítíma eða vinnusíminn hringir. 
Þess má geta að sett voru lög í Frakklandi 2017 til að vernda rétt starfsmanna til að aftengja sig eftir vinnutíma. Lögin ná yfir fyrirtæki með 50 eða fleiri starfsmenn og ber þeim að setja mörk varðandi tíma sem starfsfólk sendir ekki eða svarar netpóstum. Lögin voru sett meðal annars til að koma í veg fyrir kulnun meðal starfsfólks með því að virða persónulegan tíma og koma í veg fyrir að starfsfólk upplifi að það sé sítengt vinnustaðnum.

7 aðferðir við að skilja á milli vinnu og einkalífs

Kristina Palm hjá Karolinska Institutet og KTH hefur unnið að rannsókn á sjálfbæru stafrænu atvinnulífi (Vägar till ett hållbart digitalt arbetsliv) ásamt Ann Bergman og Calle Rosengren. Hópurinn er að skoða hvernig stjórnendur og starfsmenn geta unnið á mörkum starfs og einkalífs á sjálfbærari hátt. Mörkin þarna á milli eru mjög loðin segir Kristina, margir taka vinnuna með heim og einkalífið blandast inn í starfið. Við sjáum að þetta flæðir í báðar áttir. Markalausa starfið getur leitt til streitu og vanlíðunar en tæknin getur einnig gefið ákveðið frelsi sem við kunnum líka að meta.
Hver er þín aðferð?
7 ólíkar aðferðir.
Þátttakendur í rannsókninni héldu dagbók í eina viku og skráðu niður hvenær þeir sinntu einkaerindum í vinnu og vinnutengdum málum utan vinnutíma. Forsenda var að þeir væru í starfi sem hægt var að sinna heima að einhverju leyti. Með því að greina dagbækurnar og taka viðtöl fundu rannsakendur 7 ólíkar aðferðir sem fólk notaði til að dansa á mörkum starfs og einkalífs. Kristina segir að hægt sé að nota þessar aðferðir/leiðir/mynstur til að ræða um mörk á vinnustaðnum.
Fyrstu þrjár aðferðirnar eru tengdar aðskilnaði vinnu og einkalífs (separerare) en mynstrin þar á eftir lýsa mismunandi aðferðum við að samþætta eða blanda þessu tvennu saman (integrerare).

1. Skýr skil – þessi starfsmaður heldur starfi og einkalífi alveg aðskildu, svarar t.d. ekki vinnusíma eða skoðar vinnupóst heima.

2. Staðarskil – þessi einstaklingur dregur mörkin út frá staðsetningu og getur unnið á vinnustaðnum eftir hefðbundinn vinnudag. Hann tekur þó ekki vinnuna með sér heim.

3. Tímaskil – þessi vinnur ekki eftir tiltekinn tíma og ekki á kvöldin eða um helgar. Hann er þó ekki bundinn af því að vinna á vinnustaðnum, heldur getur hann unnið heima eða t.d. á kaffihúsi.  

 

4. Einkalífsbland – þessi lætur einkalífið flæða inn í vinnuna en ekki öfugt. Hann sinnir ýmsum persónulegum málum í vinnutíma en vinnur ekki heima.

5. Vinnubland – þessi starfsmaður lætur starfið flæða inn í einkalífið og frítímann en ekki öfugt, hann sinnir ekki einkamálum í vinnunni.   

6. Markaleysi - þessi hefur engin mörk og vinnur heima og í frítíma ef hann telur þurfa. Hann sinnir einnig einkamálum á vinnutíma.  

7. Víxlari – þessi starfsmaður er ekki með eina fasta aðferð en skiptir um út frá aðstæðum.

 

Aðferðin sem við notum hefur áhrif á aðra.
Kristina vill ekki dæma um hvaða aðferð er best, það geti farið eftir aðstæðum í vinnu og í einkalífi. Til dæmis getur það hentað barnafólki að samþætta frekar en að hafa alveg skýr skil, þá er t.d. hægt að sækja barnið fyrr úr pössun og vinna það upp að heiman um kvöldið.
Nokkrir þátttakendur hafa valið að draga skýr mörk því þá líður þeim betur, þeir hafa meiri frítíma og möguleika á að jafna sig eftir vinnudaginn. Þeir sem hafa lent í aðstæðum þar sem þeir sem hafa unnið of mikið og vinnan flætt yfir í einkalífið hafa þurft að setja skýrari mörk af heilsufarsástæðum. Sumir telja sig ekki taka vinnuna með heim en eru samt að fylgjast með símanum sem hefur áhrif á fjölskyldulífið.
Mikilvægasta niðurstaðan er sú að vinnuveitendur og vinnuhópar þurfa að skilja að fólk er ólíkt að þessu leyti og sá skilningur getur dregið úr spennu og hindrað árekstra að mati Kristinu. Einnig má nefna að aðferðin sem við notum hefur áhrif á samstarfsmenn. Ef sá sem dregur mjög skýra línu milli vinnu og einkalífs vinnur náið með starfsmanni sem er alveg markalaus getur það valdið árekstrum og vanlíðan. Þetta þarf að ræða í vinnuhópnum, hvaða væntingar höfum við til annarra og hvernig kjósum við að haga málum.

Stjórnendur verða að láta starfsmenn vita hverjar væntingarnar eru og líka til hvers er ekki ætlast. Kristina segist sjálf vilja hafa skýr skil en því meira sem er að gera því erfiðara geti það verið. Hún reynir þó að skilja á milli í smáum stíl með því að fá t.d. ekki sjálfvirk skilaboð um vinnupóstinn í símann.  

- Greinin byggir á viðtali við Kristinu Palm á nyteknik.se, grein í suntarbetsliv.se, umfjöllun á afaforsakning.se og viðtali við Calle Rosengren á prevent.se. Sjá stutt myndband sem sýnir vel þessar ólíku aðferðir og viðtal við Kristinu (á sænsku). 

Vinnum saman að jafnvægi

Ertu að missa af einhverju?

Staður og stund

Það er í lagi að vera ekki alltaf á vaktinni og vera til staðar í eigin lífi. Vinnum saman að jafnvægi.

Of mikið?

Desember er dásamlegur. Það er svo margt skemmtilegt í boði og allt í svo hátíðlegum búningi. Jafnvægi í lífinu skiptir máli. Líka í desember.

Er þetta veruleikinn?

Mörgum líður vel þegar mikið er að gera. En er gott ef það er alltaf brjálað að gera? Vinnum saman að jafnvægi.

Fleiri myndbönd

Er hugurinn alltaf í vinnunni?

Það er í sjálfu sér ekkert athugavert við að hugsa um vinnuna þegar heim er komið, en einhverjir kannast við að hugsa stöðugt um sama vandamálið á þráhyggjukenndan hátt (e. rumination), jafnvel í draumum sínum. Slíkt ástand skapast stundum þegar álag í vinnu er mikið. Við göngum út frá því að lausnin skjóti upp kollinum ef nógu mikið er gruflað – það hljóti bara að vera.

En sköpunargáfan nær ekki að njóta sín við þessar aðstæður og viðkomandi líður illa með þessar tímafreku hugsanir. Það er ekki endilega nóg að reyna að sannfæra sig um að hætta að hugsa á þessum nótum heldur þarf að gera eitthvað allt annað til mótvægis.

  • Búðu til skýr skil í daginn. 
    Skiptu um gír strax á leið úr vinnu. Hlustaðu á léttmeti sem tengist vinnunni ekki á nokkurn hátt. Þótt þú verðir að taka vinnutörn síðar að deginum, reyndu að aftengja þig alveg í nokkra tíma. 
  • Ekki tala um vinnuna heima. 
    Það er ekki góð hugmynd að rifja upp vanda í vinnunni við kvöldmatarborðið. Spurðu frekar aðra heimilismenn um þeirra dag og reyndu að hlusta með athygli. Þú færð þá frið á meðan fyrir eigin vinnutengdu áhyggjum.
  • Taktu á við öðruvísi heilabrot. 
    Gott er að finna sér verkefni í frítímanum sem reyna hæfilega mikið á hugsun og athygli, það getur verið krefjandi eldamennska, garðyrkjupælingar eða ýmsar tómstundir.  
  • Skipuleggðu næsta frí. 
    Við að skipuleggja fríið ertu að nota sömu lausnamiðuðu ferla og í starfi, en viðfangsefnið er mun ánægjulegra.
  • Afmarkaðu tíma fyrir áhyggjur. 
    Frestaðu áhyggjum af málum með því að merkja inn sérstakan tíma fyrir þær í dagatalinu. Það gefur þér hlé til að hugsa um aðra hluti í millitíðinni og hleypir sköpunargáfunni að. Þegar tíminn svo rennur upp er vandamálið mögulega þegar leyst. Þú gætir líka rætt við reynt samstarfsfólk eða vin um mál sem sækja á þig til að losa um áhyggjur eða mögulega leysa málið.
- Ofangreindar tillögur má finna í greininni How To Stop Obsessing About Work When You’re Not There eftir Lauru Vanderkam en sjá einnig greinarnar Með vinnuna á heilanum og Að stöðva endurteknar hugsanir hér á velvirk.is. 
 

Jafnvægi sem hreyfanlegt markmið

Orðræðan um jafnvægi milli vinnu og einkalífs hefur lengi vel snúist um að ná því markmiði að tryggja skýr mörk á milli þessara tveggja póla og að við séum hólpin þegar jafnvægi er náð í eitt skipti fyrir öll. En er þetta svona einfalt? Sumir rannsakendur eru farnir að hvetja til þess að við hættum að hugsa um jafnvægi á milli vinnu og einkalífs sem eitthvað sem við annað hvort náum eða ekki og sé stöðugt ástand. Í staðinn vilja þeir meina að um sé að ræða ferli sem krefst stöðugrar árverkni.

 

Þær Ioana Lupu og Mayra Ruiz-Castro birtu niðurstöður rannsóknar árið 2020 þar sem þær tóku viðtöl við 78 sérfræðinga sem störfuðu hjá alþjóðlegu fyrirtæki í London, jafnt konur og karla á aldrinum 30-50 ára. Þátttakendur voru allir með a.m.k. eitt barn á framfæri og voru í stjórnunarstöðum. Meirihluti þeirra lýstu starfi sínu sem mjög krefjandi og kaótísku og töldu nauðsynlegt að vinna langan vinnudag til að ná árangri í starfi. Hluti hópsins (30% karlanna og 50% kvennanna) sögðust þó reyna að forðast langa vinnudaga og það kom í ljós að þau notuðustu öll við áþekkar aðferð til að halda jafnvæginu. Aðferðin felst í því að staldra við og taka stöðuna með því að spyrja sjálfa sig hvað sé að valda streitu, ójafnvægi eða óánægju þá stundina og hvernig kringumstæðurnar hafi áhrif á frammistöðu og helgun í starfi. Einnig hvernig staðan hafi áhrif á persónulegt líf þeirra og forgangsröðun hverju sinni. Sumir þátttakendur höfðu fyrst náð að staldra við á þennan hátt eftir að þeir eignuðust börn og breyttu vinnuvenjunum í kjölfarið. En það er hægt að staldra við hvenær sem er og endurhugsa jafnvægið í lífinu.
Taktu eftir líðan þinni
Ef þú ætlar að nýta þér fyrrnefnda aðferð er gott að hugsa hana í fimm skrefum:
  • Staldra við - Fyrst er að staldra við og horfa fram hjá viðteknum hugmyndum um að fólk í þinni stöðu eigi að vinna endalaust og spyrja spurninga á borð við „Hvað er að valda mér streitu akkúrat núna?“
  • Taka eftir líðan - Þegar þér hefur tekist að horfast í augu við stöðuna eins og hún er þá er næsta skref að taka eftir líðaninni. Finnur þú fyrir reiði, sorg eða jafnvel mikilli orku? Með því að tengja við líðanina náum við að setja hlutina í samhengi og ákveða hvort og þá hverju við ætlum að forgangsraða í þetta sinn.
  • Spyrja hvort það sé þess virði - Svo er að spyrja hvort að það að vinna lengur í dag sé þess virði og fórna þá í staðinn tíma með fjöslkyldunni. Forgangsröðun er ekki ferli sem gerist í eitt skipti fyrir öll heldur í hvert sinn sem aðstæðurnar bjóða upp á það.
  • Er hægt að breyta einhverju? - Fjórða skrefið er að skoða hvort hægt sé að breyta einhverju í vinnunni almennt til að ekki sé þörf á mikilli yfirvinnu.
  • Útfæra breytingar - Lokaskrefið er síðan að útfæra breytingar sem gera forgangsröðun auðveldari. Það getur tekið tíma að finna rétta taktinn og stundum er þörf á að skipta opinberlega um gír, t.d. að færa sig til í starfi eða gera einhverjar breytingar persónulega t.d. að setja skýr mörk varðandi yfirvinnu.
Til að ná góðum tökum á jafnvæginu getur þú leitað í skrefin fimm aftur og aftur þar til þú kemst á þann stað að þú átt auðvelt með að átta þig á stöðunni hverju sinni og ná þeirri forgangsröðun sem hentar þínu lífi.
Niðurstaða
Jafnvægið milli vinnu og einkalífs er lifandi ferli þar sem við þurfum stöðugt að vera að endurmeta stöðuna og gera breytingar. Það er auðvelt að hrökkva til baka í vinnugírinn, sérstaklega ef menningin á vinnustaðnum ýtir undir markaleysi.

Vinnutengd streita og einkalífið