Starfið
Hvað er það í starfinu þínu sem þú þarft að huga að? Er það starfsánægja, þekking og færni, samþætting vinnu og einkalífs, eða ertu að velta fyrir þér hvort sé kominn tími á breytingar? Endilega kynntu þér hér að neðan efni sem gæti gagnast þér til að styrkja stöðu þína og auka vellíðan í starfi.
Starfsánægja
Hvað hentar þér?
Ert þú að velta fyrir þér hvort þú sért í rétta starfinu? Til að þú getir áttað þig betur á hvernig starf hentar þér getur hjálpað að skerpa hugmyndir þínar um hver þú ert og hvað þig langar að gera. Á virk.is finnur þú gagnvirka efnið Hver ert þú? en þar getur þú skoðað viðhorf þín til vinnu og starfa, styrkleika þína, færni og ýmis hagnýt atriði sem skipta þig máli. Þú getur skrifað niður starfsreynslu, menntun og framtíðardraumana sem hafa áhrif á starfsval þitt og fundið út hvaða störf þér finnast áhugaverð. Í kynningarmyndbandinu Hver ert þú? færð þú góðar útskýringar á hvernig þú getur notað efnið til að styrkja þig í starfi eða á starfsvettvangi og finna þínar leiðir til starfsframa.
Finndu tilgang og hugsaðu jákvætt
Starfsánægja er samspil margra þátta og gagnlegt getur verið að skoða hvernig við lítum á starfið okkar og hverjar væntingar okkar eru. Þú getur á markvissan hátt aukið stafsánægju þína með því að hugsa jákvætt um starfið og skoða það út frá ólíkum sjónarhornum. Í greininni Getum við gert starf okkar ánægjulegra? á Velvirk er fjallað um nokkrar leiðir sem þú getur valið til að blása nýju lífi í starfið þitt.
Getur þú látið þér líka betur við starfið þitt?
Viðhorf okkar og gildi geta haft mikil áhrif á hvernig okkur líður í vinnu. Mögulega er ástæða þess að þú finnur ekki vinnugleðina sú að viðhorf þín séu að hafa áhrif á hvernig þú upplifir starfið eða að þú sjáir ekki tilganginn með því. Með því að breyta því hvernig þú hugsar um starfið getur þú að einhverju marki mótað það og gert þannig að þér líki betur. Á Velvirk er grein um Starfsmótun sem þú getur notað til að lyfta starfi sem þér finnst óspennandi á ánægjulegra plan.
Nýtir þú færni þína?
Mörgum reynist erfitt að átta sig á eigin verðleikum og koma auga á hvert þá langar að stefna. Við sinnum margskonar hlutverkum í lífinu sem við hreinlega gerum okkur ekki grein fyrir og sjáum oft ekki hvernig þau hafa mótað okkur og gefið okkur reynslu og styrk til að byggja á. Heimurinn minn er létt og gagnleg æfing sem þú getur prufað að fara í gegnum til að finna þína leið.
Ertu að byrja í nýju starfi?
Flestir finna fyrir spenningi og einhverjum kvíða þegar þeir byrja í nýju starfi og það er fullkomlega eðlilegt. Á Að byrja í nýju starfi finnur þú góð ráð og ábendingar sem geta hjálpað þér að komast vel af stað á nýja staðnum.
Til hamingju með nýja starfið og gangi þér vel!
Þekking og færni
Langar þig að bæta við þig menntun?
Öll störf krefjast tiltekinnar færni og þekkingar sem við þurfum að búa yfir til að sinna þeim. Í hraða nútímans eiga sér stað stöðugar breytingar sem kalla á að við bætum við okkur færni og þekkingu. Þú gætir því viljað skoða leiðir til að bæta við þekkingu þína til að fylgja eftir breytingum á þínum starfsvettvangi. Gagnlegar upplýsingar um námsmöguleika getur þú fundið undir Nám og námskeið. Það er aldrei of seint að bæta við menntun sína og vel framkvæmanlegt í dag að gera það meðfram vinnu.
Hafðu í huga að margir vinnustaðir bjóða upp á stuðning og/eða styrki til endurmenntunar. Einnig eru stéttarfélögin flest með sjóði sem styrkja sí-og endurmenntun.
Gætir þú styrkt þig með námi á netinu?
Meðfram starfi er ekki úr vegi að bæta við sig þekkingu með því að sækja námskeið á netinu. Hægt er með góðu móti að auka og efla þekkingu sína í hinum ýmsu greinum, allt frá bóklegum greinum, yfir í listsköpun, tækni, vísindi, tungumál og sjálfshjálp. Þú getur auðveldlega kynnt þér það sem er í boði hér á Námskeið á netinu. Það er vel þess virði að verja tíma í að bæta við þekkingu og styrkja þannig stöðu þína í starfi og fá meira út úr lífinu í vinnunni.
Hafðu í huga að margir vinnustaðir bjóða upp á stuðning og/eða styrki til endurmenntunar. Einnig eru stéttarfélögin flest með sjóði sem styrkja sí-og endurmenntun.
Hvað færni býrð þú yfir?
Í störfum og lífinu almennt öðlumst við ýmiskonar færni sem við getum nýtt okkur við mismunandi aðstæður. Í gegnum árin hefur þú tekið að þér allskonar verkefni sem gera það að verkum að þú hefur tileinkað þér margskonar færni sem þú getur nýtt þér í ýmsum störfum öðrum en þeim sem þú hefur verið að sinna. Það getur því verið gagnlegt fyrir þig að skoða þá færni sem þú býrð yfir með því að renna yfir þennan gagnvirka Færnilista og velta fyrir þér hvernig færni þín nýtist í starfinu þínu.
Þú gætir líka viljað velta fyrir þér hvaða færni þig langar að leggja áherslu á núna eða hvort þú þurfir eða hafir áhuga á að bæta við þig einhverri tiltekinni færni.
Þá hefur VR gefið út Stafræna hæfnishjólið sem er gagnvirkt verkfæri sem þú getur notað til að máta stafræna hæfni þína.
Vinnan og einkalífið
Hvar liggja mörkin þín milli vinnu og einkalífs?
Mörkin milli vinnu og einkalífs hafa orðið óljósari nú síðustu árin. Við vitum ekki alltaf hvert vinnuframlag okkar á að vera, hvort ætlast sé til að við vinnum yfirvinnu, séum til taks að vinnudegi loknum, hvort við ættum að lesa pósta og vinna að verkefnum utan vinnutíma eða hvort við höfum svigrúm til að sinna persónulegum málum á vinnutíma. Þessi álitamál reynast mörgum erfið, en við finnum öll okkar leið til að leysa úr vandanum og sýnt hefur verið fram á að við gerum það á sjö mismunandi vegu (ekki á íslensku). Þessi kómíska framsetning á hvernig við blöndum saman vinnu og einkalífi getur hjálpað okkur að sjá hvernig við nálgumst úrlausnarefnið og jafnframt hvernig samstarfsfólk okkar gerir það. Þegar við erum betur meðvituð um nálgun okkar og samstarfsfólksins er mögulega kominn grundvöllur til að ræða hvernig við viljum hafa hlutina og finna viðeigandi leiðir. Sjá frekari umfjöllun í Mörkin milli vinnu og einkalífs.
Skilur þú vinnuna eftir á vinnustað?
Þú getur tamið þér að skilja vinnuna eftir á vinnustað. Það getur t.d. verið sniðugt að kveðja hana formlega þegar þú sækir yfirhöfnina þína og íklæðast einkalífinu í lok dags.
Það er algerlega eðlilegt að hugsa eitthvað um vinnuna þegar heim er komið en stundum lendum við í því að hugsa stöðugt um sömu vandamálin og það er ekki gott. Slíkt ástand skapast stundum þegar álag í vinnu er mikið eða hnökrar eru á samskiptum og trausti. Þá er mikilvægt að vera á verði svo áleitnar hugsanir um vinnutengd mál liti ekki okkar daglega líf. Í greininni Er hugurinn alltaf í vinnunni? finnur þú fimm góð ráð til að vinna markvisst að því að stöðva slíkar hugsanir.
Ertu stundum í fjarvinnu?
Í framtíðinni gæti þróunin verið sú að fjarvinna verði stærri hluti af störfum fólks enda hefur nú komið í ljós að hún getur hentað vel í sumum tilvikum. Í fjarvinnu er mikilvægt að koma sér upp góðri vinnuaðstöðu og verklagi til að vel takist til og er gagnleg ráð að finna í greininni Að vinna heima. En af covid tímanum höfum við lært heilmargt sem gagnast okkur til að aðgreina vinnu og einkalíf í fjarvinnu.
Er mikið áreiti í þínu umhverfi?
Nútímasamfélag einkennist af miklu áreiti, bæði í einkalífi og starfi. Fyrir utan öll venjuleg mannleg samskipti hafa á síðustu áratugum bæst við sífellt aukin rafræn samskipti. Við þurfum öll að geta stýrt áreitinu sem á okkur dynur. Hér getur þú kynnt þér hvernig þú getur tekist á við áreiti frá snjallsímum og tölvupóstum. Eins gætir þú viljað skoða að taka þér skjáreitisfrí.