Samfélagsmiðlar
Samanburðargildra á samfélagsmiðlum
Vitnað er í unga konu sem er alltaf með lista yfir hluti sem hún ætti að vera að gera og hver hún ætti að vera. Hún furðaði sig á því hvaðan allar þessar hugmyndir á listanum væru komnar, en svarið lá í stöðugum samanburði hennar við jafningja, vinnufélaga og fjölskyldu. Henni gekk vel í lífinu en efaðist um að hafa tekið réttar ákvarðanir, hún hafði ekki ferðast eins og margir vina hennar, ekki unnið fjölbreytt störf, búið á mörgum stöðum eða stofnað fjölskyldu. Þrátt fyrir að hafa gengið vel þá fannst henni hún hafa misst af mörgum tækifærum. Hún sagðist vita að hún ætti ekki að bera sig saman við aðra því það væri ávísun á vonbrigði, en það væri erfitt að komast hjá því.
Fyrir tíma samfélagsmiðlanna fengum við oft stopular fréttir af velgengni annarra en nánustu fjölskyldu og vina og höfðum engin tök á að fylgjast reglulega með fyrrum samferðarfólki okkar í gegnum lífið. Breytingin sem orðið hefur er lyginni líkust, nú rignir yfir okkur upplýsingum frá nær öllum sem við höfum kynnst ásamt fréttum af ókunnugu fólki.
Upplýsingaflæði og „læk“.
Það er sérlega óheppilegt að skoða samfélagsmiðla þegar fólk er óánægt með eigin stöðu. Það mun alltaf einhver virðast hamingjusamari, unglegri, ríkari og í betra formi. Einhver er í skemmtilegra partýi, að borða betri mat og á fleiri vini. Til að bæta gráu ofan á svart eru samfélagsmiðlarnir þannig útbúnir að hægt er að sjá í beinhörðum tölum hve miklu „betri“ aðrir eru; fjöldi „læka“ á facebook, fjöldi fylgjenda á Twitter og fjöldi hjarta á Instagram. Þó að þú setjir inn sniðuga færslu eða flotta mynd muntu aldrei eiga möguleika á að vera jafngóður og sá vinsælasti.
Unglingar er oft mjög uppteknir við að fá viðurkenningu frá jafningjum, sérstaklega þeim sem þeir líta upp til.
Ef þessir mikilvægu aðilar veita athygli og jákvæða endurgjöf virkjar það stöðvar í heila á svipaðan hátt og sum lyf gera. Þetta gæti verið ástæða þess að unglingar geta haft fíkn í samfélagsmiðla. Þessi þörf fyrir viðurkenningu minnkar oft með aldrinum en miðlarnir halda mörgu fullorðnu fólki á gelgjuskeiði hvað þetta varðar, samanburðurinn er það auðveldur og ágengur.
Í greininni er sagt frá móður sem þarf að taka hlé frá samfélagsmiðlum með vissu millibili. Þegar hún fer á netið finnst henni hún vera versta móðir í heimi. „Herbergi barnanna minna líta ekki svona út. Ég baka ekki svona bollakökur. Mér líður 10 sinnum verr með sjálfa mig og fæ þetta á heilann í marga klukkutíma.“
- Ræktaðu sambönd en forðastu samanburð.
Takmarkaðu tímann sem þú notar á samfélagsmiðlum. Í stað þess að vera óvirkur áhorfandi, sendu skilaboð og ræktaðu samband við fólk sem þér þykir vænt um. Náðu tengslum svipuðum þeim sem fólk nær í raunheimum. - Líttu upp á við, en bara örlítið.
Það er hvetjandi að bera sig saman við jafningja sem eru örlítið betur staddir en þú á einhverju sviði. Þetta á einkum við ef þú sérð fram á að geta bætt þig og hefur áhuga á því. Ekki ætla þér of mikið. - Vertu þakklát/ur.
Ef þú setur fókusinn á góðu hlutina í lífi þínu ertu ólíklegri til að verða upptekinn af því sem þú hefur ekki. Miðað við marga aðra lifir þú frábæru lífi þrátt fyrir tilfallandi vanda sem flestir glíma við á lífsleiðinni. - Taktu mið af þér sjálfum/sjálfri.
Hamingjusamt fólk er líklegt til að nota sjálft sig sem viðmiðun. Það tekur eftir því ef öðrum gengur vel en það hefur ekki áhrif á sjálfsálit eða markmið þess. Hinn hamingjusami hlaupari keppir við eigin tíma en ekki endilega við þá sem hlaupa hraðar.
Samanburður getur verið gleðispillir
Ef viðmiðið er alltaf sá/sú sem skarar mest fram úr kemur ekki á óvart að við komum illa út úr samanburði. Sem betur fer getum við reynt að stjórna því hverja við miðum okkur við. Meiri sátt fylgir samanburði við þá sem eru á svipuðum stað í lífinu og hollt að minna sig á að hlutirnir gætu verið verri en þeir eru. Ef við viljum hins vegar bæta okkur á einhverju sviði er ráð að líta til þeirra sem eru komnir heldur lengra en við, en helst aðeins til þeirra sem við höfum raunhæfa möguleika á að líkjast.
- Þú ert líklega með óraunhæf viðmið þegar þú metur sjálfa/n þig – reyndu að stilla þau af og ekki miða við þann sem skarar mest fram úr. Ef þú vilt meta eigin stöðu gerðu raunhæfari samanburð.
- Hverju viltu ná fram með samanburðinum? Ef þú vilt verða betri kokkur mætti skoða hvaða leiðir fyrirmynd þín fer – fer hann/hún á námskeið, notar ferskara hráefni eða brýnir hnífana reglulega?
- Ef þú finnur fyrir vanlíðan yfir samanburði, hugsaðu um hið jákvæða í stöðunni - hvað hefur áunnist yfir tiltekið tímabil og hve miklu verri gæti staðan verið í raun?
- Ekki gleyma því að aðrir gætu litið á þig sem fyrirmynd. Samanburður virkar í báðar áttir!
- Úr bók Sirrýjar Arnardóttur Þegar kona brotnar – og leiðin út í lífið á ný. Haft eftir viðmælanda.
Oft erum við að bera okkur saman við fólk sem er statt á allt öðrum stað í lífinu en við sjálf. Við erum kannski með lítil börn og bágan fjárhag og getum ekki tekið þátt í fimm maraþonum erlendis á ári. En í staðinn erum við örugglega okkar eigin hversdagshetjur.
Virkir á samfélagsmiðlum
JOMO í stað FOMO
Það getur fylgt því ákveðin gleði að aftengja sig frá kröfum um neyslu og umbætur á eigin lífi. Að losna við vafann um hvort maður sé að gera nógu mikið eða lifa nógu góðu lífi.
Það þarf æfingu til að snúa baki við öllum þeim möguleikum sem dynja á okkur og kröfum um neyslu og breytingar segir Brinkmann, en ef það tekst gefur það rými fyrir dýpri tengsl við annað fólk. Það er ekki nóg að treysta á sjálfsagann til að forðast freistingar, það þarf að hanna umhverfið þannig að við getum einbeitt okkur að því sem er mikilvægt og þurfum ekki sífellt að fylgjast með öðrum.

Er slæmt að hafa of mikið val?
Að hafa aðgang að öllu því sem í boði er getur valdið hugarangri ef hluti þess er alls ekki á þínu færi. Þú ferð að bera þig saman við þá sem geta leyft sér hluti sem þú ræður ekki við. Einnig ferðu að efast um dómgreind þína þegar þú sérð að aðrir velja aðra kosti en þú gerðir. Of mikið val og of háar væntingar geta verið slæm blanda.
Í viðtali við Schwartz 10 árum eftir að bókin kom út segir hann að vandinn sem hann ræðir í bókinni hafi fremur aukist en hitt með tilkomu samfélagsmiðla. „Enginn er nógu góður og þú hefur stöðugar áhyggjur af því að missa af einhverju“.
Slóð á TED fyrirlestur Barry Schwartz.
Skjáreitisfrí
- Í tölvu: Hægrismelltu á myndina og veldu að vista t.d. á skjáborði (desktop). Veldu svo að uppfæra forsíðu/opnumynd í Facebook og að hlaða myndinni inn. Að lokum þarf að vista breytingar.
- Í síma: Haltu fingri á mynd og veldu að vista - myndin fer í myndagallerí. Veldu svo að uppfæra/breyta forsíðu/opnumynd í Facebook og að hlaða myndinni inn. Að lokum þarf að vista breytingar.
Herja samfélagsmiðlar markvisst á okkur?
Fyrrum frammámenn í tölvugeiranum halda úti vefsíðunni Center for Humane Technology (CHT) þar sem þeir tala umbúðalaust um þá ógn sem þeir segja að stafi af samskiptamiðlum nútímans og telja brýnt að snúa við blaðinu áður en enn alvarlegri skaði hlýst af.
Einn af ráðgjöfum síðunnar er Jon Kabat-Zinn upphafsmaður núvitundar í hinum vestræna heimi en hann var með mjög vel sóttar vinnustofur í Hörpu vorið 2018. Þeir vilja meina að tæknin sé að riðla öllum okkar raunveruleika og skrumskæla það sem satt er.
Flestir hafa áttað sig á því að síauknum áhuga okkar á samskiptamiðlum megi líkja við fíkn, en það sem við sjáum sem fíkn í samfélagsmiðla segja þessir fyrrum frammámenn í tölvugeiranum að sé birtingarmynd mun stærra máls. Þeir benda á að Facebook, Twitter, Instagram og Google hafi framleitt afurðir sem hafa haft hreint ótrúlega jákvæð áhrif á veröldina okkar. Vandinn sé hins vegar sá að fyrirtækin eru drifin áfram af takmarkalausri samkeppni um athygli okkar til að skila eigendum sínum hagnaði. Þar sem þau berjast um athyglina verða þau stöðugt að koma með nýjungar sem líma okkur enn frekar við þeirra miðil. Þau beina viðstöðulaust upplýsingum, efni og tilkynningum að hugsun okkar og afla sér um leið upplýsinga um hvernig er hægt að krækja enn fastar í okkur. Þá vilja þeir einnig meina að þessi harða samkeppni um athyglina grafi jafnvel undan samfélagsgerðinni okkar.
Er það sem virkar best til að ná athygli okkar mögulega slæmt fyrir velferð okkar?
- Snapchat breytir samskiptum í “streaks” - og býr þannig til ný viðmið fyrir hvernig unga fólkið okkar metur vináttu.
- Instagram upphefur hina fullkomnu ljósmyndaveröld - og dregur úr sjálfsvirðingu okkar.
- Facebook aðskilur okkur í hópa sem „bergmála" áhuga okkar og viðhorf - og tvístrar þannig samfélaginu okkar.
- YouTube spilar sjálfvirkt næsta myndband - jafnvel þó það éti upp svefntímann okkar.
Geðheilsa - Kapphlaupið um að halda okkur við skjáinn allan sólarhringinn gerir okkur stöðugt erfiðara að slíta okkur frá honum - afleiðingin er aukin streita, kvíði og minni svefn.
Börnin okkar - Kapphlaupið um að halda athygli barnanna okkar kennir þeim að meta sig sjálf út frá lækum, ýtir undir stöðugan samanburð við aðra og fær þau til að hafa áhyggjur af að þau séu að missa af einhverju.
Mannleg samskipti - Kapphlaupið um athyglina neyðir samskiptamiðlana til að upphefja rafræn samskipti með umbun (læka og deila) umfram raunverulega samveru.
Lýðræðið - Samskiptamiðlar upphefja hneykslismál og falskar fréttir um leið og þeir velja gaumgæfilega efnið sem þeir birta hverjum og einum því þeir vita hvað virkar til að ná athygli hvers og eins, en um leið sundra þeir okkur því við missum yfirsýnina getum ekki lengur áttað okkur á hver sannleikurinn er.
- Falsfréttum er hægt að beina að póstfangi, kynþætti, trú o.s.frv.
- Hægt er að tengja þá sem virðast auðveld bráð fyrir samsæriskenningar, kynþáttahatur eða þjóðernishyggju við einstaklinga sem miðla slíku efni.
- Tímasetning skilaboða til einstaklinga þegar þeir eru sem veikastir fyrir (t.d. fann Facebook út að þunglyndir unglingar kaupa meiri snyrtivörur en aðrir).
- Milljónir falskra einstaklinga eru búnir til á netinu og látið líta út fyrir að þeir séu raunverulegir einstaklingar.
Gervigreind
Gervigreind er nýtt til að velja hvaða efni þér er sýnt í þeim tilgangi að halda þér fullkomlega föngnum við að skrolla, svæpa og deila.
Sólarhringsvöktun
Samfélagsmiðlar standa vaktina allan sólarhringinn við að stjórna hugsunum 2 milljarða manna um allan heim - sem kíkja á þá 150 sinnum á dag - allan sinn vökutíma.
Ný viðmið í samskiptum
Samfélagsmiðlar hafa búið til ný viðmið um mannleg samskipti, sérstaklega hafa þeir breytt viðmiðum fyrir sjálfsmat og framkalla þá tilfinningu að þú sért að missa af einhverju og fær þig til að halda að aðrir í veröldinni séu þér sammála um flest.
Einstaklingsmiðuð skilaboð
Miðlarnir búa til nákvæma skrá yfir hvern einstakling sem er byggð á því sem hann hefur sagt, deilt, smellt eða horft á - í þeim tilgangi að hafa áhrif á hann.
Hvernig verður þá framtíðin?
Þessir fyrrum frammámenn í tölvugeiranum sem halda úti Center for Humane Technology benda á eftirfarandi fjórar leiðir til úrbóta.
-
Hönnun þurfi að verða mannlegri og Apple, Samsung og Microsoft geti til dæmis lagt sitt af mörkum til að leysa vandann með því að endurhanna síma sína þannig að samskiptamiðlar hafi ekki óheftan aðgang að fólki.
-
Stjórnvöld geta beitt samfélagsmiðlana þrýstingi og gert kröfu um að þeir viðhafi manneskjulegri hegðun.
-
Skapa þurfi aukna samfélagsvitund með því að upplýsa neytendur um neikvæð áhrif samfélagsmiðlanna því enginn vill raunverulega láta fara svona með sig eða börnin sín.
-
Virkja þurfi starfsmenn samfélagsmiðlanna því flestir vilji þeir í raun vinna að verkefnum sem bæta samfélagið.
Sjá nánar um þessi mál á síðu Center for Humane Technology.