Fara í efni

Aukin starfsánægja

Getum við gert starf okkar ánægjulegra?

Hverjar eru væntingar okkar til starfsins?
Starfsánægja er samspil margra þátta og hefur mikið verið rannsökuð af fræðimönnum. Hér verður skoðað hvort við getum sjálf gert starfið meira gefandi svo við njótum þess betur að sinna því og kunnum betur að meta það.
Í grein á vefsíðu Mayo Clinic er rætt um að gagnlegt geti verið að skoða hvernig við lítum á starfið og hverjar væntingar okkar eru. Er starfið einungis leið til að framfleyta okkur, er það áfangi í starfsframa til framtíðar eða er starfið köllun sem hefur gildi í sjálfu sér en er ekki aðeins leið að öðru marki? Þess má geta að ekkert af framangreindu er betra en annað og við getum metið alla þættina mikilvæga að einhverju leyti. Svarið gæti þó hjálpað til við að endurskoða væntingarnar og taka ákvarðanir sem gætu mögulega aukið starfsánægjuna.
Í greininni eru tilteknar nokkrar leiðir til að blása nýju lífi í starf þitt:

Áttaðu þig á mikilvægi vinnu þinnar. Hugsaðu um að það sem þú gerir hjálpar öðrum eða hefur vægi fyrir samfélagið. Það að skynja gildi vinnunnar getur hjálpað til við að auka starfsánægju.

Hjálpaðu öðrum í vinnunni. Með því að leggja þig enn meira fram við að aðstoða viðskiptavini og samstarfsfólk verður starfið innihaldsríkara og ánægjulegra. Hugleiddu að taka að þér nýtt verkefni fyrir viðskiptavin eða leiðbeindu vinnufélaga.

Skiptu út verkefnum. Ef hægt er, reyndu að leggja áherslu á þá þætti starfsins sem hafa mest að segja fyrir þig. Kannaðu hjá yfirmanni hvort þú getir fengið viðbótar þjálfun eða tekið að þér önnur verkefni. Ef fyrirtækið er að taka að sér nýtt verkefni, bjóddu þig fram í vinnuteymið.

Sæktu í að vinna með fólki sem þú kannt að meta. Það getur dregið úr ánægju þinni að verja miklum tíma með samstarfsfélögum sem eru neikvæðir eða tillitslausir. Hins vegar færir það þér aukinn kraft að vinna með jákvæðu fólki ef þú hefur tök á því.

 

Farðu vel með þig. Öll hegðun sem bætir líkamlega heilsu, svo sem hreyfing, holl næring og streitustjórnun geta hjálpað þér að vera jákvæðari í vinnu og finna meiri ánægju í starfi.

Vertu þakklát/ur. Þakklæti hjálpar okkur að sjá hvað er jákvætt við starfið. Spurðu sjálfa/n þig „hvað er ég þakklát/ur fyrir í vinnunni í dag?“. Ef svarið er að borða hádegismat með vinalegum samstarfsmanni þá er það nóg.

Leitaðu að því jákvæða í neikvæðum aðstæðum. Með því að beina sjónum að hinu jákvæða áttu auðveldara með að vinna þig út úr aðstæðunum. Ef þú upplifir streitutímabil í vinnu hugsaðu sem svo að aðeins sé um tímabundið ástand að ræða sem gæti leitt til nýrra tækifæra í framtíðinni.     

Ræktaðu ástríðu þína. Ef ánægja þín í starfi hefur dvínað en þú telur ekki raunhæft að skipta um vinnu gætirðu hugsað um starfið sem leið til að geta sinnt ástríðu þinni í frítímanum. Stundum er vinnan einfaldlega leið að öðru marki.

Hvort sem þú lítur fyrst og fremst á vinnuna sem tæki til framfærslu, lið í starfsframa eða köllun er hægt að stíga skref til að endurheimta merkingu hennar. Með því að viðhalda jákvæðu viðhorfi er hægt að gera það besta úr erfiðum aðstæðum. Vertu skapandi þegar þú upphugsar leiðir til að breyta aðstæðunum – eða hvernig þú lítur á þær.

Orkustjórnun

Við þekkjum öll hve miklu við náum í verk ef við erum vel úthvíld og til í að takast á við verkefnin. Við fáum oft nýjar hugmyndir og finnum betri leiðir eftir að hafa „sofið á“ vandamálum og úrlausnarefnum. Það er eðlilegt að fjari undan ferskleikanum eftir að hafa tekist á við verkefni dagsins án hvíldar í marga klukkutíma. Hvaða aðferðir getum við nýtt í starfi og frítíma til að hafa orku til að gera allt sem við þurfum og viljum ná að gera á degi hverjum. Orkustjórnun hefur rutt sér til rúms í stjórnunarfræðunum, en öfugt við tímastjórnun sem byggir á því að nýta takmarkaða auðlind eða tímann betur byggir orkustjórnun á því að viðhalda og endurnýja orkuna. Fritz og félagar gerðu samantekt á þeim þáttum sem rannsóknir höfðu helst sýnt að væru að stela frá okkur orku, væru orkusugur (sjá til hægri):

  • Langur vinnudagur. Því lengur sem við vinnum því minni tími gefst til að jafna sig og hlaða batteríin.
  • Sítenging. Með tilkomu snjalltækja eru margir að svara erindum heima við og ná illa að aftengja sig frá vinnustaðnum.
  • Lítil fríðindi á vinnustað. Ekki boðið upp á líkamsræktaraðstöðu, ókeypis máltíð, auka frídaga eða afdrep fyrir starfsfólk til að hlaða batteríin.
  • Óöruggt vinnuástand. Menn veigra sér við að taka frí ef þeir finna fyrir óöryggi um störf sín.  
  • Mikil samvinna. Störf krefjast sífellt meiri samskipta og samhæfingar sem getur tekið á, ekki síst ef samskiptin eru erfið.
Verkefni og skyldur á heimilinu geta haft áhrif á orkuna á vinnutíma. Óhollt mataræði og kyrrseta gera ástandið verra. Ef svefn er ekki nægur og menn ná illa að jafna sig um helgar og eftir vinnu á virkum dögum hefur það sömuleiðis neikvæð áhrif. Þeir þættir sem höfðu jákvæða fylgni við starfsorku á vinnustað sögðu greinarhöfundar vera...
  • Að læra nýja hluti.
  • Að geta einbeitt sér að því sem þú hefur mesta ánægju af að gera í starfinu.
  • Að setja sér nýtt markmið og leita eftir endurgjöf.
  • Að gera eitthvað sem gleður samstarfsmenn og sýnir þeim þakklæti.
  • Að hugleiða hvernig þú getur haft áhrif í vinnunni og um tilganginn með starfinu.

Í grein sem birtist í Harvard Business Review árið 2012 má finna eftirfarandi ráð um hvernig fyrirtæki geta stuðlað að sem bestri orkustjórnun hjá starfsmönnum:

  • Gefið öllum starfsmönnum færi á að því að taka þátt í ákvörðunum sem skipta máli fyrir starf þeirra. Það er afar hvetjandi og lærdómsríkt. Ef mistök eru gerð er mikilvægt að halda sama striki því starfsmenn og aðrir sem að máli koma læra langmest af mistökum.  
  • Það er hvetjandi að starfsmenn hafi vitneskju um markmið og gildi fyrirtækisins og sjái stóru myndina. Menn koma frekar með nýjar hugmyndir og lausnir ef þeir vita hvernig starf þeirra tengist stefnunni.    
  • Góð samskipti skipta miklu máli. Óvirðing og ókurteisi draga úr áhuga allra á að sinna starfi sínu eins og best má vera og koma með nýjar hugmyndir. Erfið samskipti smita út frá sér.
  •  Regluleg endurgjöf til starfsmanns skiptir miklu máli, hún minnkar óöryggi og bætir frammistöðu.   

Sjá einnig grein Guðjóns Svanssonar um orkustjórnun hér á síðunni.

Ábyrgð starfsmanna

Ingrid Kuhlman hjá Þekkingarmiðlun skrifar meðal annars um ábyrgð starfsmanna á eigin vellíðan í ársrit VIRK 2019. Hún segir að þó að stjórnendur spili vissulega stórt hlutverk í að skapa umhverfi sem eftirsóknarvert er að starfa í má ekki gera lítið úr ábyrgð starfsmanna.
Það er á okkar ábyrgð að hlúa að okkur sjálfum með því að hreyfa okkur, nærast á hollum og góðum mat og tryggja góðan nætursvefn. Að stunda núvitund hefur reynst einföld en öflug leið til að draga úr streitu og bæta almenna vellíðan. Mikilvægt er að við gefum okkur tíma til að rækta samband við fjölskyldu og vini og sinna hugðarefnum. Við þurfum einnig að gæta þess að setja okkur mörk, t.d. hvað varðar svörun vinnutengdra tölvupósta utan hefðbundins vinnutíma.

„Á vinnustað er það á ábyrgð starfsmanna að mæta með bestu útgáfuna af sjálfum sér, vinna starf sitt af eldmóð og leggja sig fram um að skila vel unnu verki á hverjum degi. Þá er mikilvægt að þeir leggi sig fram um að læra nýja hluti og tileinka sér nýja þekkingu til að vera í stakk búnir til að takast á við síbreytilegar kröfur atvinnulífsins og samfélagsins. Aukin þekking eykur möguleika á fjölbreyttara starfi, meira krefjandi verkefnum og aukinni starfsánægju.“

Mikilvægt er að við veljum okkur jákvætt viðhorf til vinnunnar. „Rannsóknir síðustu áratugi hafa sýnt að hægt er að auka vellíðan meðvitað með svokölluðum jákvæðum æfingum eða inngripum en þau hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðum tilfinningum, jákvæðri hegðun og jákvæðum hugsunum. Dæmi um jákvætt inngrip sem eykur vellíðan er „Þrír góðir hlutir“ en þá skrifar einstaklingur niður þrjá góða hluti sem áttu sér stað yfir daginn og hver var hlutdeild hans í þeim. 

Ástæðan fyrir því að mikilvægt er að skrifa niður þátt manns í því sem gekk vel er að þetta beinir athyglinni að því hvernig við getum haft áhrif á daglegar jákvæðar upplifanir. Reglulegar og meðvitaðar þakklætishugsanir geta einnig aukið vellíðan. Þakklæti stuðlar að því að við dveljum við og njótum jákvæðra upplifana og aðstæðna.“

 

„Við erum ekki viljalaust verkfæri..”

 

Fræðimenn hafa beint sjónum að styrkleikum fólks, hvernig við getum komið auga á þá og nýtt þá til auka vellíðan í starfi. Þegar við hlúum að styrkleikunum verðum við orkumeiri og bætum frammistöðuna. Með því að nýta styrkleikana getum við bætt innsæi okkar, tekið betri ákvarðanir og tryggt að við séum á réttri hillu í lífinu. „Ef okkur finnst við hins vegar ekki vera á réttri hillu eða teljum að við fáum ekki næg tækifæri til að sýna hvað í okkur býr er mikilvægt að hafa í huga að við erum ekki viljalaust verkfæri eða leiksoppur örlaganna. Við berum sjálf ábyrgð á lífi okkar, hugsunum, líðan og gjörðum. Og við höfum alltaf val. Við getum t.d. rætt líðan okkar við yfirmann og beðið um tilfærslu eða önnur verkefni. Við getum reynt að breyta viðhorfi okkar til vinnunnar. Eða við getum tekið ákvörðun um að yfirgefa vinnustaðinn. Í öllu falli er mikilvægt að bíða ekki og vona að eitthvað gerist heldur taka stjórnina. Því að það er eins og sagt er að hver er sinnar gæfu smiður.“
Ingrid skrifar einnig um stjórnunarhætti og áhrif þeirra á vellíðan starfsmanna í grein sinni í ársriti VIRK en hana má finna í heild sinni hér

Geðheilsan og vinnustaðurinn

Rannsóknir hafa endurtekið sýnt fram á orsakasamband milli þunglyndis- og kvíðaraskana og hinna ýmsu streituvaldandi þátta í vinnuumhverfinu, s.s. vinnuálags, starfsóöryggis og vinnustreitu. Búið er að greina ýmsa þætti í starfsumhverfinu sem geta, ef ekki er góð stjórn á þeim, haft slæm áhrif á heilsu og líðan starfsmanna, dregið úr framleiðni þeirra og aukið fjarveru þeirra frá vinnu. Þessir þættir geta snúið að því hversu miklar kröfur eru gerðar til starfsmanna, hve mikla stjórn starfsmenn hafa á störfum sínum, hve mikill stuðningur er í boði, hver eðli tengsla og samskipta eru innan vinnustaðarins, hver hlutverk starfsmanna eru á vinnustaðnum og hvernig skipulagsbreytingum þar er stjórnað og miðlað. Streita og kvíði eru eðlilegar tilfinningar við ákveðnar aðstæður. Langvarandi streita getur þó haft alvarleg heilsufarsleg áhrif og verið mjög hamlandi. Sama á við um kvíða. Þegar kvíði er orðinn meiri en eðlilegt er, gerir vart við sig í tíma og ótíma og er farinn að trufla líf fólks, er litið svo á að um kvíðaröskun sé að ræða.

Er gaman í vinnunni hjá þér?

Það eru fáir sem komast með tærnar þar sem John Cohn, einn virtasti verkfræðingur IBM, hefur hælana þegar kemur að því að hafa gaman í vinnunni. John hélt m.a.s. fyrirlestur á Íslandi á vegum Origo árið 2018. John sem hefur verið kallaður klikkaði vísindamaðurinn heldur því fram að til að hægt sé að ná árangri í vinnunni þurfi að vera gaman, því þannig örvum við best sköpunarkraftinn. Ef vinnan sé ekki skemmtileg er hún „bara“ vinna. John segist vera nörd með nördastarf en hann hefur unnið hjá IBM í 38 ár í alls 80 löndum og stendur að baki meira en 120 einkaleyfa vegna hugmynda sinna.

Hann segist hafa uppgötvað mikilvægi þess að hafa gaman þegar honum fannst hann vera að sigla inn í of mikla skriffinnsku og leiða í starfi. Á sama tíma fylgdist hann með fólki í kringum sig týna ástríðu sinni eftir því sem aldurinn færðist yfir. Hann segist plata sjálfan sig og kerfið og búa til tíma þar sem hann er ekki til. Við séum ekki að gefa okkur tíma fyrir leik og því ákvað hann að gera það að reglu að haga sér illa. John segist vera heppinn því að einn af hans helstu styrkleikum sé frestunarárátta og því sé auðvelt fyrir hann að finna tíma á hverjum degi til að haga sér illa þegar hann ætti að vera að gera eitthvað annað. Hann bendir á að þar sem 150% tíma okkar flestra er þegar frátekinn þá sé ekki um að ræða neinn lausan tíma og því þurfi hann að plata sjálfan sig, yfirmann sinn og samstarfsfólk til að halda að hann sé að vinna að einhverju merkilegu þegar hann er að prufa og búa til alls kyns hluti a.m.k. 15% tímans. Þetta gefi honum innblástur og nýja sýn á hlutina.
John mælir með því að vinnustaðir taki frá tíma fyrir starfsfólk til að geta dembt sér í ómótaðan leik þar sem þau skapa og prufa alls kyns hluti og fá að gera mistök. Ekki sé gott að þurrausa starfsfólkið með kröfum um framleiðni því þá sé verið að drepa sköpunarkraftinn; engin vél sé gerð til að fúnkera 100%. Hann bendir á að við þurfum að læra að treysta starfsfólki og fagna því þegar þau bregða á leik því stundum verðum við að stoppa og hreinsa hugann til að hleypa nýjum hugmyndum að og þannig hafi einmitt margar af hans bestu hugmyndum orðið til. Ekki megi heldur setja of fastan ramma utan um slíkan leiktíma.
Hér er hægt að horfa á TED fyrirlestur sem John Cohn hélt árið 2019.
Það virðist vera eitthvað til í því sem John er að segja og Catherine Price, vísindablaðamaður, heldur því fram í skemmtilegum TED fyrirlestri sínum frá því í júlí 2022 að það að hafa gaman geti verið lykillinn að heilsusamlegu lífi. Og þar sem að við eyðum flest miklum tíma í vinnunni þá er upplagt að leggja áherslu á að hafa gaman þar. Rannsóknir sýna meira að segja að það að skemmta sér í vinnunni hafi jákvæð áhrif á helgun í starfi, sköpunargáfu og það að finna tilgang í starfi. Við þekkjum það öll að við leggjum okkur meira fram þegar okkur finnast verkefni skemmtileg og þegar við gefum okkur tíma til að hlæja saman þá eykst seigla okkar.
Þeir félagar Bob Nelson og Mario Tamayo skrifuðu bók um hvernig störf gætu verið skemmtileg; „Work Made Fun Gets Done“. Þeir lögðust yfir tölfræði úr könnunum Great Place To Work sem velur 100 bestu vinnustaði Bandaríkjanna árlega. Þeir komust að því að niðurstöður mælinga á vinnumenningu voru svipaðar ár eftir ár hvað varðar að 81% starfsfólks fyrirtækja sem lentu í besta flokknum lýstu vinnustaðnum sem skemmtilegum á meðan aðeins 62% starfsfólks fyrirtækja sem komust ekki á listann töldu sína vinnustaði skemmtilega. Þeir félagar tóku síðan hundruðir viðtala og komust að því að það er ýmislegt sem við getum gert til að hafa meira gaman í vinnunni dags daglega.
Eftirfarandi fjórir þættir virka vel til að hafa gaman í vinnunni.
  • Breyttu verkefnalistanum í leik.  Það er gaman að komast áfram í leik og því upplagt að hugsa verkefnin sem leik með því að búta þau niður í minni einingar sem við setjum okkur markmið að ná fyrir vissan tíma og hugsum okkur að við séum að vinna „borð“ í leiknum í hvert sinn sem við náum áfanga. Skemmtilegast er auðvitað ef við finnum leiðir til að gefa okkur smá verðlaun s.s. að taka okkur pásu, heyra í skemmtilegum vinnufélaga, fara í stutta göngu eða hvað sem hentar.
  • Gerðu eina litla breytingu.  Oft þarf ekki mikið til að gera vinnuna skemmtilegri. Til dæmis bara það að finna nýtt nafn á verkefnalistann og kalla hann t.d. „Game of Thrones“ eða hvað sem okkur dettur í hug. Svo getur verið mjög ánægjulegt að skrifa það sem þarf að gera á gula miða og krumpa þá saman í ruslið þegar við náum að klára.
  • Fátt er eins gott og tónlist.  Ef þú hefur ekki uppgötvað ánægjuna af því að vinna með tónlist í eyrunum þá er kannski kominn tími til að prufa. Hver og einn velur auðvitað tónlist sem þeir hafa ánægju af en því ekki að hlusta á Yo-Yo Ma spila Bach svítur? Í þessari upptöku spilar hann í þrjá klst. allt eftir minni sem hlýtur að virka hvetjandi.
  • Breyttu um staðsetningu.  Stundum getur það eitt að færa sig á annan stað til að vinna gefið okkur ferska innspýtingu. Kannski gætir þú fengið auka orku með því að vinna á kaffihúsi eða í almenningsgarði?
Það eru kannski ekki margir sem vita það en 1. apríl ár hvert hefur verið tekinn frá fyrir alþjóðlegan dag til að hafa það gaman í vinnunni (International Fun at Work Day) og ef dagsetningin lendir á helgi þá ber að halda upp á daginn á fyrsta fimmtudegi apríl mánaðar. Hér er hægt að finna nokkra tillögur um hvað hægt sé að gera til að halda upp á daginn í vinnunni.

Vinnan og hreyfingin