Fara í efni

Streita. Er brjálað að gera?

Uppsöfnuð streita

Hver er þín leið til að fá útrás fyrir uppsafnaða streitu? Neðangreindar hugmyndir er alltaf gott að nýta sér en sérstaklega þegar streita hefur náð að safnast fyrir í líkamanum í nokkurn tíma.
 • Hreyfing er eitt mikilvægasta verkfæri okkar til að draga úr streitu. Það gæti virst mótsagnakennt en álag á líkamann dregur úr andlegu álagi. Hreyfing minnkar streituhormón til lengri tíma og hjálpar til við að losa endorfín sem léttir skap og minnkar verki. Hún bætir einnig gæði svefns og eykur sjálfsöryggið. 
 • Nægur svefn er alltaf mikilvægur en ekki hvað síst þegar við finnum til mikillar streitu. Þetta hafa flestir reynt, vandamál sem virðast yfirþyrmandi að kvöldi virðast auðleysanlegri eftir góðan nætursvefn.   
 • Farðu út í náttúruna og reyndu að gleyma öllu öðru um stund.  
 • Taktu eins mikið á og þú getur í eina mínútu. Gakktu hratt eða hlauptu, spenntu alla vöðva, kýldu út í loftið eða gerðu annað sem tekur verulega mikið á. Þetta hjálpar líkamanum að „vinna úr“ streitu sem hefur safnast upp og þér líður mun betur á eftir.
 • Andaðu djúpt í tvær mínútur. Þetta hefur strax áhrif á líkamann enda eru náin tengsl milli öndunar og streitu. 
 • Hlæðu eins og þú mögulega getur í nokkrar mínútur. Horfðu á grínefni á netinu eða hlæðu með vinum að einhverju spaugilegu frá fyrri tíð. Hlátur getur hjálpað til við að losa endorfín sem getur minnkað streitu. 


 

 • Leyfðu þér að gráta. Öllum virðist líða betur eftir að hafa grátið um stund. Góð útrás sem hjálpar við að ná djúpri öndun í kjölfarið.

 • Það gæti hjálpað að öskra. Það er reyndar glettilega erfitt í framkvæmd því taka þarf tillit til annarra, en mögulegt væri að öskra ofan í púða og forðast hryllingsmyndaöskur. Annar vandræðaminni möguleiki er að syngja af fullri innlifun í bílnum. 
 • Fáðu knús. Jákvæð snerting og nánd getur hjálpað til við að losa oxýtósín og minnka streituhormónið kortisól. Blóðþrýstingur lækkar og hjartsláttur róast.  
 • Hlustaðu á róandi tónlist sem þú kannt að meta. Róandi tónlist og náttúruhljóð geta haft slakandi áhrif á líkamann.
 • Prófaðu að dansa af krafti við gott lag. Dansinn hefur jákvæð áhrif á margan hátt og tónlistin líka. Ef þú finnur fyrir mikilli streitu í vinnunni er upplagt að skjótast inn á salerni og taka nokkur spor.
 • Að fara í sturtu eða bað er einföld og góð leið til að endurstilla sig, „trufla“ kvíðahugsanir og minnka streitu. Reyndu að gleyma öllu öðru og njóta.
 • Leggstu á bakið og settu fætur upp á vegg í 10 mínútur. Þessi staða eykur blóðflæði í efri hluta líkamans.
 • Nudd getur hjálpað við streitueinkennum. Hví ekki að verðlauna sig með nuddtíma, biðja um nudd hjá makanum eða nudda sig sjálfur.
 • Settu heitan bakstur yfir háls og herðar í 10 mínútur og lokaðu augunum. Reyndu að slaka á í andliti, hálsi og herðum.

 • Hugsaðu inn á við um stund og finndu hvernig líkamanum líður. Þetta er gott mótvægi við viðbrögð þín við streituvekjandi aðstæðum og kyrrir hugann. Sjá umfjöllun um núvitund.  

 • Talaðu við einhvern um streituna. Það gæti verið léttir fyrir þig að ræða málin og þú færð eflaust góð ráð, hjálp og hughreystingu.
 • Rannsókn hefur sýnt að það að tyggja tyggjó tengist minnkun á streitu og jákvæðara skapi. Óvanalegt ráð sem gæti hentað þegar öðrum aðferðum verður ekki við komið. Gott er að hafa í huga að gegndarlaust japl getur verið truflandi fyrir aðra og tyggjó telst seint vera hollustufæða.
 • Hafðu ekki áhyggjur af því sem þú getur ekki breytt og snertir þig lítið sem ekkert. Ein leið er prófa að taka hlé frá samfélagsmiðlum og fylgjast aðeins minna með fréttum ef þær valda þér áhyggjum.  
 • Þú getur ekki gert allt eða stjórnað öllu, reyndu að sleppa takinu. Getur verið erfitt en á sama tíma mikill léttir.

  

Ef þú átt gæludýr njóttu samskipta við það eins mikið og þú mögulega getur. Það getur hjálpað til við að minnka streitu og að létta skapið.

Að eiga dýr gefur okkur tilgang, hvetur til virkni og veitir okkur félagsskap, en allt eru þetta þættir sem hjálpa til við að minnka kvíða og streitu.

Ekki má gleyma því að dýrin njóta athygli þinnar í ríkum mæli, enda ertu miðpunkturinn í þeirra lífi.

Rannsóknir hafa sýnt að þegar fólk sinnir hundum sínum, til dæmis með því að tala við þá, klappa, klóra og ná augnsambandi eykst magn hormónsins oxýtosín hjá báðum. Magn streituhormónsins kortisól minnkar hjá fólki en eykst hjá hundum. Rannsakendur telja að það geti verið merki um jákvæða spennu hjá dýrinu og væntingar um að nú eigi að fara að gera eitthvað skemmtilegt, til dæmis að fara í göngutúr eða leika.   

- Ráðin eru fengin úr bókinni The Stress Solutiongrein á healthline.com og nokkrum greinum á wikihow.com, t.d. þessari. Skýringar og dæmi staðfært að hluta. 
Vinnum saman að jafnvægi

Er brjálað að gera?

Æfum okkur að taka frá tíma fyrir okkur sjálf. Það er mikilvægt. Vinnum saman að jafnvægi.

Sleppum takinu

Æfum okkur að taka frá tíma fyrir okkur sjálf. Það er mikilvægt. Vinnum saman að jafnvægi.

Of mikið?

Desember er dásamlegur. Það er svo margt skemmtilegt í boði og allt í svo hátíðlegum búningi. En erum við nokkuð að reyna að gera of mikið? Jafnvægi í lífinu skiptir máli. Líka í desember.

Fleiri myndbönd

Áhugamál – vörn gegn streitu?

Við vitum að mikilvægt er að taka frá tíma til að gera eitthvað sér til hreinnar ánægju og gleði. Hér á síðunni höfum við rætt hve jákvætt er að sinna áhugamálum þegar við þurfum að aftengja okkur frá vinnu eða streituvekjandi aðstæðum. Áhugamál geta hjálpað okkur við að byggja upp þrautseigju og upplifa flæði þannig að við gleymum stað og stund. Gott áhugamál hefur oft jákvæð áhrif á aðra hluta lífsins, það hjálpar okkur að finna tilgang, dregur úr streitu og bægir frá neikvæðum hugsunum.
Hér eru nokkur dæmi um tómstundir sem gætu létt af okkur álagi.

Ljósmyndun. Hvort sem þú vilt æfa þig í að taka betri myndir af fjölskyldu og vinum eða kafa dýpra ofan í listræna myndatöku, er ljósmyndun frábært áhugamál. Þú gætir farið að sjá heiminn í öðru og fegurra ljósi í gegnum myndavélina.

Garðrækt. Garðrækt getur dregið úr streitu á margan hátt. Þú ert á hreyfingu úti við fjarri streituvöldum og fegrar umhverfið í leiðinni. Sjá meira um garðrækt hér.

Að prjóna. Margir njóta þess að prjóna fallegar flíkur til eigin nota eða til gjafa, en það að prjóna getur einnig veitt útrás fyrir spennu og hjálpað okkur að slaka á. 

 

Að teikna eða mála. Virkjaðu listrænu hæfileikana með því að teikna eða mála myndir. Með því tjáirðu tilfinningar, færð tilbreytingu og dregur úr streitu. Útkoman getur líka verið falleg og persónuleg.   

Að púsla. Að sökkva sér niður í púsl fær þig til að leiða hugann frá því sem veldur streitu og þjálfar heilann í leiðinni. Hægt er að ná flæði í púsli og gleyma sér um tíma. Eftir góða törn ertu líklegri til að geta tekist á við verkefni dagsins.

   

Að útbúa úrklippubók. Það er skapandi að búa til úrklippubók og tengir saman mörg áhugamál í eina afurð; ljósmyndun, skapandi skrif, heimildaöflun, teikningar og föndur. Útkoman er oft falleg og fræðandi heimild fyrir okkur sjálf og afkomendur.

Að skrifa. Margir skrifa sér til ánægju, hvort sem þeir halda dagbók eða skrifa t.d. skáldsögur og ljóð. Það hefur oft jákvæð áhrif, minnkar streitu og getur stundum losað út erfiðar hugsanir. 

Að leika á píanó. Tónlist getur haft jákvæð áhrif á heilsu okkar og minnkað streitu. Að hlusta á tónlist er áhugamál út af fyrir sig en það að leika á hljóðfæri er enn öflugra til streitulosunar því það krefst fullkominnar einbeitingar og getur á sama tíma orðið vettvangur fyrir skapandi tjáningu.

- Hugmyndir úr grein frá Verywell Mind. 

Skrautfiskarækt. Það hefur góð áhrif á fólk að horfa á vel viðhaldið fiskabúr. Það krefst reglulegrar vinnu en gefur möguleika á að velja saman tegundir, gróður og fylgihluti, ásamt því að kynnast öðrum með sama áhugamál.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi og fjölmörg önnur koma upp í hugann svo sem eldamennska, krossgátur/sudoku, tungumálanám, sagnfræðigrúsk, söfnun, borðspil, útskurður, listmunagerð og fluguhnýtingar. Fleiri hugmyndir má finna hér og hér.  
Mestu skiptir að þú njótir þess sem þú ert að gera og að það sé ólíkt því sem þú ert annars að fást við – ekki er verra að það sé skapandi.
Hver eru þín áhugamál?   

Andleg líðan

Dagatöl

Náttúrukort