Fara í efni

Hreyfing á vinnutíma

Margir láta hreyfingu mæta afgangi
Í grein á BBC Worklife vefnum kemur fram að stundum getur einn klukkutími ráðið úrslitum um hvort við náum afkastamiklum degi eða ekki. Þetta gæti verið auka klukkustund í svefn, hreyfingu eða í vinnu þar sem við náum flæði, en það getur haft mjög jákvæð áhrif á hvernig við vinnum og lifum lífinu.
Við vitum öll að við þörfnumst hreyfingar en margir láta hana mæta afgangi. Flestir eiga einnig erfitt með að finna tíma til að sinna hreyfingu. Ólíkt svefni er hreyfing ekki eitthvað sem kemur af sjálfu sér. Við verðum að finna tíma til að láta hana passa inn í dagatalið okkar.

Einstaklingar verja um helmingi vökutímans í vinnu og liggur því beinast við að reyna að koma hreyfingu að innan þess ramma. Það að stunda hreyfingu á vinnutíma leiðir oftar en ekki til betri líðanar og meiri skilvirkni í starfi.

Bresk rannsókn frá 2008 leiddi í ljós að starfsmenn sem voru með aðgang að og notuðu líkamsræktaraðstöðu á vinnutíma voru skilvirkari og fóru ánægðari heim að loknum vinnudegi þá daga sem þeir notuðu aðstöðuna en aðra daga. Önnur rannsókn frá 2013 sýndi að starfsfólk upplifir samstundis bætt hugarstarf í kjölfarið á æfingu. Æfingin þarf ekki að vera löng, stutt æfing eins og 15 mínútur á líkamsræktarhjóli skilar árangri. Þetta gæti bent til þess að það sé jafnvel betra upp á athygli og skilvirkni að æfa á vinnutíma í stað þess að æfa fyrir eða eftir vinnu. 

Einstaklingar sem æfa á vinnutíma upplifa meiri skilvirkni og taka færri veikindadaga. Að auki hefur það góð áhrif á andlega heilsu að fá hlé á miðjum vinnudegi frá streituvöldum sem tengjast starfinu.

En hreyfing á vinnutíma getur einnig leitt af sér ávinning í stærra samhengi. Heilbrigðisstofnanir og stjórnendur í Bretlandi hafa átt samtal um hvort gera ætti hana að skyldu inn í vinnudaginn til að sporna við lífsstílstengdum heilsufarsvandamálum í samfélaginu. Sem dæmi má nefna að talið er að meira en 20 milljónir Breta hreyfi sig nær ekkert og kostnaður breska heilbrigðiskerfisins (NHS) við óvirkan lífsstíl er metinn á um 1,2 milljarð punda á ári.

Erfitt getur verið að halda uppi sterkum teymum hjá fyrirtækjum og stofnunum ef starfsfólk er að kljást við lífsstílstengdan heilsufarsvanda. Hreyfing á vinnutíma þarf ekki að taka langan tíma og það skiptir ekki máli hvort hún stendur yfir í 5 eða 60 mínútur – hún er alltaf til bóta. Mælt er með því að nýta þær pásur sem eru mögulegar til að hreyfa sig, eins og að taka stigann ef hægt er eða fara lengri leið í vinnuna (fótgangandi). Ekki er nauðsynlegt að það sé líkamsræktarstöð á staðnum, möguleikar fyrir hreyfingu eru alls staðar.
Að taka frá tíma í dagbókinni
Mikilvægt er að hugarfarið sé rétt, að taka frá tíma á deginum til að koma hreyfingu inn, skrá hana í dagbókina eins og gert er með vinnufundi og gefa þann tíma ekki eftir. Ef unnið er í teymum er mikilvægt að ræða við hópinn um hvenær þú ert frá og jafnvel hvers vegna, til að ræða ávinning þess og jafnvel til að hvetja fleiri að feta sama veg.
Í nýrri skýrslu frá Syddansk Universitet kemur fram að til að hreyfingin sé komin til að vera er þörf á að menningin á vinnustaðnum breytist á þann hátt að það sé tími og pláss til að stunda hana. Mikilvægt er að stjórnendur taki þátt og sýni fordæmi svo líklegra sé að sem flestir taki þátt. Gott getur verið að fá þjálfara í byrjun sem skipuleggur þjálfunina eða einhvern sem er ábyrgur fyrir því að halda hreyfingunni við. Mælt er með að hún sé eðlilegur hluti af vinnudeginum, ekki bara eitthvað sem starfsfólk tekur afstöðu til í hvert sinn. Þjálfa þarf þol (70% af hámarks púlsi) fyrir þá einstaklinga sem eru í kyrrsetustörfum og takmarka settíma. 

Mælt er með lotuþjálfun (85-95% af hámarks púlsi) fyrir störf sem krefjast þess að standa eða ganga mikið. Fyrir líkamlega erfiða vinnu er mælt með styrktarþjálfun fyrir stóru vöðvahópana, um það bil 60% af hámarksþyngd. Styrktarþjálfun getur einnig dregið úr verkjum í starfi ásamt því að fyrirbyggja að einstaklingur upplifi verki tengda starfi. Mælt er með að metnar séu þarfir hvers og eins vinnustaðar með tilliti til líkamlegra krafna í starfi. Hægt er að skipta þjálfuninni upp, til dæmis í 5x12 mínútur eða 3x20 mínútur. Mikilvægt er að hafa rétta stignun (e. progression) á æfingunum og ætla sér ekki um of.

 Sjá meira um hreyfingu á vinnutíma í kaflanum Vinnan og hreyfing.

Líkamsbeiting við skrifstofuvinnu

Vinnueftirlitið hleypti af stokkunum fræðsluátaki um góða vinnuaðstöðu og líkamsbeitingu við skrifstofuvinnu í byrjun október 2020. Sem dæmi um gagnlegt efni má nefna umfjöllun um setstöðu og stillingu á skrifborðsstólum. Rætt er um vinnuhæð, „knapastöðuna“ svokölluðu, notkun á mús og hæð skjás.

Átakið tengdist vefráðstefnunni Meira vinnur vit en strit (19. nóvember 2020), en ráðstefnan var liður í samstarfsverkefni Vinnueftirlitsins, félagsmálaráðuneytisins, samtaka aðila vinnumarkaðarins og VIRK sem ber yfirskriftina Vinnuvernd er allra hagur – hæfilegt álag – heilbrigt stoðkerfi 2020-2022.

Markmið ráðstefnunnar var að varpa ljósi á þann víðtæka stoðkerfisvanda sem vinnandi fólk um heim allan glímir við þrátt fyrir hversu mikið er vitað um mikilvægi góðrar líkamsbeitingar og áhrif stoðkerfisvanda á heilbrigðiskerfið. Markmiðið er sömuleiðis að benda á lausnir.

Mynd af facebook-síðu Vinnueftirlitsins.