Fara í efni
Vinnan og einkalífið

Er jafnvægi milli vinnu og einkalífs í þínu lífi?

Hvernig getur þú sem best náð góðu jafnvægi?

Deila
Margir upplifa svo mánuðum eða jafnvel árum skiptir að þeir hafi lítinn sem engan tíma sem ekki er skipulagður út í hörgul. Það er himinn og haf á milli slíkrar tilveru og tilveru fólks í löndum þar sem vestræn menning hefur ekki rutt sér til rúms nema að litlum hluta og streitu- og álagseinkenni eru nánast óþekkt eins og í sumum löndum Afríku. Kannski er það rétt lýsing að Vesturlandabúar eigi klukku til að mæla tíma á meðan að Afríkubúar eiga tímann sjálfan. Hvað sem því líður þá virðist vera þörf á því að við stöldrum aðeins við og hugsum okkar gang.

Að snúa aftur á vinnustað

Ekkert okkar hefur verið í þessum sporum áður
Eftir að tilslökun var gerð á samkomubanni þann 4. maí snúa nú margir sem unnið hafa heima eða verið alveg frá vinnu vegna Covid-19 aftur á vinnustaðinn að hluta eða öllu leyti. Flestir eru eflaust fegnir að komast aftur á vinnustað, hitta góða vinnufélaga og ná upp fyrri rútínu, en þessar breytingar geta skapað ákveðna streitu og óöryggi – ekkert okkar hefur jú verið í þessum sporum áður. Við þurfum öll eftir sem áður að gæta að handþvotti/sprittun og virða tveggja metra regluna og stjórnendur fyrirtækja þurfa að undirbúa komu fólks afar vel með tilliti til sóttvarna (sjá leiðbeiningar fyrir vinnustaði frá Vinnueftirlitinu).
Hræðsla við að smitast eða smita aðra. Í könnun Gallup sem gerð var fyrri hluta apríl kemur í ljós að nær 85% landsmanna eru hræddir við að annað hvort þeir sjálfir eða einhver í fjölskyldu þeirra gæti smitast af Covid-19. Þessi ótti er því mjög útbreiddur þótt mismikill sé. Í sömu könnun kemur í ljós að um 96% svarenda telja stjórnvöld vera að takast vel á við Covid-19. Tölulegar upplýsingar um árangurinn styðja líka vel við þá skoðun og því má leiða líkur að því að áhyggjur okkar séu að minnka og að skrefið aftur til starfa verði ekki svo erfitt.
Með því að fara eftir leiðbeiningum sóttvarnaryfirvalda, passa upp á næringu, hreyfingu og svefn, taka frá tíma til slökunar, takmarka fréttalestur og viðhalda góðum tengslum við ástvini getum við dregið úr áhyggjum og streitu. Finna má gagnlegar slóðir um líðan okkar á covid.is, þar á meðal bækling sem fjallar um hvernig takast á við áhyggjur og kvíða í heimsfaraldri. Hér á síðunni (velvirk.is) má einnig finna mikið almennt efni um streitu og bjargráð við henni.       

Óvenjuleg samskipti við samstarfsfólk. Það verður frábært að hitta vinnufélaga aftur augliti til auglitis, en dagleg samskipti gætu þó verið nokkuð stirð til að byrja með því við erum orðin hálf ómannblendin og sumir finna fyrir kvíða og óöryggi i návist annarra. Við vitum betur en þurfum tíma til að fara til baka í fyrri hegðun og getum raunar ekki enn leyft okkur að fara alla leið þó útlitið lofi góðu. Við verðum að vera meðvituð um fjarlægðarmörk og sýna fyllstu tillitssemi því vinnufélaginn gæti verið óöruggur og liðið illa. 

Best er að byrja strax á að tileinka sér þá rútínu sem vinnustaðurinn hefur undirbúið og vanda sig mjög vel í samskiptum. Spritta samkvæmt tilmælum til að passa sjálfan sig og kannski ekki síður til að sýna vinnufélögum að þú takir ábyrgð og berir hag þeirra fyrir brjósti. 

Þó að vinnustöðvar séu stilltar af með tilliti til tveggja metra reglunnar þarf að passa sig við kaffivélina, á göngum og í almennum rýmum þar sem meiri tilhneiging gæti verið til að falla í sama far og áður. Eftir örfáa daga verða samskiptin mun auðveldari!  
Það getur fylgt því óöryggi að snúa aftur á vinnustaðinn en það hefur líka marga kosti sem geta unnið á móti kvíðanum. Nefna má dæmi: 
 • Við hittum vinnufélaga (og viðskiptavini) og upplifum ákveðna samkennd með því að deila upplifunum og koma saman sem hópur sem hefur gengið í gegnum sameiginlega erfiðleika. Þetta er jafnvel enn kærkomnara fyrir þá sem hafa ekki hitt vinnufélaga á fjarfundum og/eða hafa ekki stórt tengslanet.
 • Lífið verður litríkara og við fáum um annað að hugsa en undanfarnar vikur. Bros og hlátur bæta líðan og auka bjartsýni.  
 • Við náum fyrri tengingu við yfirmann og fáum mögulega skýrari ramma fyrir vinnudaginn og hvatningu/viðurkenningu sem skilar sér ekki alltaf í gegnum fjarfundabúnað.
 • Sumir komast aftur í langþráða rútínu sem hefur jákvæð áhrif á heilsu og líðan. Við kunnum hugsanlega betur að meta hin daglegu störf og taktinn á vinnustaðnum.    
 • Það dregur úr óöryggi að vera „á staðnum“.
Ath. ef fólk þjáist af undirliggjandi sjúkdómum og/eða hefur mjög miklar áhyggjur af því að snúa til vinnu er mikilvægt að ræða við yfirmann. 
Nokkrar greinar sem sérfræðingar VIRK hafa skrifað og eiga vel við á óvissutímum.

Að vinna heima á tímum sóttvarna

Fjarvinna gæti orðið stærri hluti af starfi margra í framtíðinni 
Talsvert hefur verið skrifað um hvernig best er að bera sig að við heimavinnu á þessum tímum og þau ráð gagnast einnig við fjarvinnu yfirleitt. Í framtíðinni gæti þróunin verið sú að fjarvinna verði stærri hluti af starfi margra enda kemur í ljós að hún getur hentað vel í sumum tilvikum, jafnvel mun betur en talið var mögulegt. Í öðrum störfum hentar fjarvinna illa eða er útilokuð vegna eðlis starfanna.
Fyrirtæki og starfsmenn hafa þurft að taka upp og tileinka sér nýjar aðferðir til samskipta og margir starfsmenn hafa nú prófað fjarvinnu yfir lengri tíma í fyrsta sinn. Sumir hafa komið sér upp góðu verklagi, ná vel að halda sér að verki og ná nokkurn veginn að sinna starfinu á sama hátt og fyrr. Aðrir eiga í meiri erfiðleikum með að einbeita sér, sumir vegna aðstæðna heima fyrir, óöryggis vegna ástands í þjóðfélaginu og/eða skorts á skipulagi. Einnig má nefna að eðli verkefnanna ræður nokkru um hvernig gengur að vinna heima og hve mikilla samskipta þörf er á. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þeir sem vinna fjarvinnu eru að öðru jöfnu í minni samskiptum við samstarfsfólk en aðrir þrátt fyrir að fullnægjandi tækni sé til staðar.
Umskiptin yfir í heimavinnu geta verið áskorun fyrir stjórnendur og þurfa þeir að gæta þess að sinna samskiptum sérlega vel, huga að því að allir hafi verkefni við hæfi, koma til skila hvers ætlast er til af hverjum og einum og sýna skilning á að starfsmenn eiga misauðvelt með að vinna heima. Auk þess þarf að huga að hvatningu og að samvinna haldist áfram góð meðal samstarfsmanna.  
Hér eru nokkur atriði sem gætu hjálpað við heimavinnu og fleiri má finna í ítarefni neðst í greininni:
 • Halda sömu rútínu og þegar farið er á vinnustað. Fara í háttinn á skynsamlegum tíma, vakna á sama tíma og sinna öllum hefðbundnum morgunverkum, þar með talið að klæða sig í vinnufötin.
 • Hefja störf og ljúka á sama tíma og áður. Setja sig í vinnustellingar frá upphafi vinnudags og ekki sinna öðru svo vinna þurfi fram á kvöld. Forðast að láta starfið flæða inn í frítímann.
 • Útbúa eins góða vinnuaðstöðu heima og kostur er. Hafa umhverfið snyrtilegt til að losna við óþarfa áreiti. Reyna að finna góðan stól og stilla hæð á skjá.  
 • Að vinna heima með ung börn getur verið flókið. Stjórnendur þurfa að sýna skilning og gera raunhæfar væntingar til starfsmanna við þær aðstæður sem nú eru uppi.
 • Fylgjast með líkamsstöðu og taka stuttar pásur af og til. Liðka sig og hreyfa.
 • Takmarka verulega tíma á frétta- og samfélagsmiðlum á vinnutíma en það skilar sér í betri einbeitingu, minni kvíða og meiri afköstum. Auðveldara er að gleyma sér á netinu heima en á vinnustað og við erum jú í vinnunni!
 • Vera í sambandi við yfirmann eða teymisstjóra að minnsta kosti einu sinni á dag, helst snemma dags. Óska eftir stuttu samtali ef yfirmaður er ekki fyrri til. Leita ráða eftir þörfum.
 • Væntingar til starfsmanna þurfa að vera alveg skýrar. Kröfur verða að vera jafnvel enn skýrari en vanalega þegar fólk vinnur fjarvinnu.
 • Setja skýr mörk fyrir aðra á heimilinu. Koma því til skila að ekki sé hægt að sinna erindum eða verða fyrir truflun á vinnutíma, loka sig af eins og hægt er.  
 • Ekki nota pásur í heimilisstörf. Stilla sig inn á að vera alveg í vinnunni á vinnutíma, mörkin renna til í huganum þegar þessu er blandað saman. Muna svo að kúpla sig alveg út þegar vinnudegi lýkur og gera eitthvað allt annað, t.d. skella í vél. 
Góð samskipti og skýrar kröfur eru forsendur þess að vel gangi
Í nýrri grein á BBC Worklife er fjallað um heimavinnu og nefnt að alþjóðleg stórfyrirtæki hafi nú tekið upp fjarvinnu vegna Covid-19 svo sem Google, Microsoft, Twitter, Apple og Spotify. Forsendurnar fyrir því að geta unnið heima á skilvirkan hátt er að mati greinarhöfundar skýr samskipti við yfirmanninn og að vita nákvæmlega til hvers er ætlast. Þetta á við um alla fjarvinnu.
Flestir vinna daglega í sama rými og næsti yfirmaður svo að samskipti eru næsta auðveld. Þessu er alveg öfugt farið þegar fólk þarf að vinna heima og samskiptavandi er enn líklegri ef vinnustaðurinn er óvanur fjarvinnu. Yfirmenn eru til dæmis ekki endilega vanir að stjórna fólki í gegnum netið og það hafa ekki allir komið sér upp nógu góðum verkfærum fyrir heimavinnu.
Í könnun sem gerð var af Buffer meðal 2500 fjarvinnustarfsmanna var helsta umkvörtunarefni þeirra að geta ekki „slökkt“ á vinnunni að vinnudegi loknum (22%). Það að ferðast eða fara inn og út af vinnustaðnum virðist hjálpa til við að setja skýrari línur. Í greininni er stungið upp á að hreyfa sig eftir vinnu til að loka deginum.
Þó að fólk sé vant fjarvinnu getur hún virst óskipulögð og einangrandi. Í ofangreindri könnun var einmanaleiki önnur helsta áskorunin sem nefnd var (19%). Einmanaleiki getur orðið til þess að fólk telur sig vera áhugalausara og ekki afkasta eins miklu. Það skiptir því máli að samskiptin séu augliti til auglitis þegar þau eiga stað eins og t.d. með video-spjalli, Skype og Zoom. Í greininni er minnst á að bestu fjarvinnustarfsmennirnir hafi samband við stjórnendur og samstarfsmenn reglulega eftir fjölbreyttum leiðum.

Eins og fram kemur hér að ofan er hvatt til að fólk líti á fjarvinnu sem raunverulegt starf, fari í sturtu, klæði sig og liggi ekki með fartölvuna upp í sófa.

Einnig er talað um að mikilvægt sé að starfsfólk hafi viðeigandi búnað svo að afköst minnki síður þegar skipt er yfir í fjarvinnu.

Setja þarf mörk á heimilinu sem aðrir heimilismenn geta áttað sig á. En þó að ekki séu börn á heimilinu er annað sem getur truflað, svo sem troðfull þvottakarfa. Þá þarf að stilla sig inn á að maður sé í vinnunni og að heimilisstörfin þurfi að bíða.     

Það geta líka verið kostir við fjarvinnu
Þegar fólk hefur fundið sér tilgreint vinnusvæði heima þar sem hægt er að einbeita sér má einnig sjá kostina við fjarvinnu. Í könnun Flexjobs meðal 7000 fjarvinnustarfsmanna árið 2019 sögðu 65% svarenda að þeir kæmu meiru í verk þegar þeir væru heima og nefndu atriði eins og færri truflanir almennt, minni truflun frá vinnufélögum og þann kost að losna við ferðir til og frá vinnu.
Þessi snöggu umskipti yfir í heimavinnu sem nú hafa orðið geta verið erfið fyrir marga. Í greininni er vitnað í TED fyrirlestur Nicholas Bloom hagfræðiprófessors í Stanford um heimavinnu frá 2017. Hann segir að til séu tvær útgáfur af heimavinnu, fjarvinna í stuttan tíma eða af og til og síðan föst fjarvinna. Hann líkir þessu tvennu við létta æfingu annars vegar á móti þjálfun fyrir maraþonhlaup hins vegar, svo ólíkt sé það.

Eins og ástandið er núna er óljóst hve lengi fólk þarf að vinna heima. Þetta getur verið erfitt fyrir foreldra ef skólar eru lokaðir og yfirmenn þurfa þá að leggja sérstaka áherslu á samskipti og að sýna skilning.

Löng einangrun getur haft áhrif á starfsanda og framleiðni. Í greininni er stungið upp á að líkja eftir hefðbundinni samveru af og til, t.d. með pizzaveislum eða happy hour á netinu. Það getur létt aðeins andrúmsloftið og aukið samheldni í erfiðu umhverfi. Það gæti líka verið hugmynd að halda uppákomum sem annars væru haldnir á vinnustaðnum til streitu eins og hægt er á netinu. Halda upp á afmæli, hrósa fyrir markmið sem nást og verkefni sem klárast. Gefa smá tíma fyrir almennt spjall.


Yfirmenn bera síðan ábyrgð á að halda samskiptum opnum og halda uppi jákvæðum starfsanda. Þetta er tímabil streitu; neikvæðar fyrirsagnir, áhyggjur af veikum eða öldruðum ættingjum og fleira getur fært vinnupóstinn neðar á forgangslistann en hann var. Því meiri sem samskiptin eru við vinnufélaga því auðveldara eigum við með að forðast einangrun. Og best er að samskiptin séu augliti til auglitis á netinu. Þetta á ekki síst við um það starfsfólk sem býr eitt og gæti fundið til einangrunar.   
Yfirmenn bera síðan ábyrgð á að halda samskiptum opnum og halda uppi jákvæðum starfsanda. 

Ítarefni um fjarvinnu

 • Góð ráð um heimavinnu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
 • Að vinna heima og sinna börnum. Grein af vef Vinnueftirlitsins.
 • Vinnuumhverfið og líkamsbeiting við heimavinnu. Grein af vef Vinnueftirlitsins.
 • Líkamleg álagseinkenni í fjarvinnu. Af velvirk.is.
 • Heilræði um heimavinnu frá mannauðssviði Advania.
 • Eru teymin þín tilbúin í fjarvinnu? Grein Sigurjóns Þórðarsonar, Capacent.
 • Fjarvinna í Microsoft Office 365, ókeypis námskeiðspakki frá Tækninám.is.
 • Fimm ráð til foreldra á tímum heimsfaraldurs. Grein frá Heimili og skóla.

 • Hollráð Sóleyjar: „Ekki fyrir alla að vinna í fjarvinnu“. Grein á visir.is.

 • Gott og ítarlegt efni um fjarvinnu og að vinna einn frá BrancheFællesskabet for Arbejdsmiljø for Velfærd og Offentlig administration.
 • Eru Zoom-fundirnir orkusugur? Grein á velvirk.is.
 • Léttar æfingar frá NIVA Education, aðeins 2,27 mín. Henta vel til að liðka sig á milli verkefna.

Hvernig áætlanir geta dregið úr kvíða

Mikilvægt að halda áfram að gera áætlanir
Í grein á vefnum BBC Worklife er rætt um að faraldurinn hafi snúið öllum áætlunum ársins 2020 á hvolf. En það að skipuleggja hluti fram í tímann og gera áætlanir hefur þó sjaldan verið mikilvægara. Það getur verið erfitt að vera sífellt í biðstöðu, að geta ekki spáð fyrir um aðstæður og finna ekki þá stjórn sem við áður höfðum. Rannsóknir hafa sýnt sterk tengsl milli óljósrar framtíðar og kvíða og óþol gagnvart óvissu hefur tengsl við þunglyndi.  
Því er mikilvægt að halda áfram að gera áætlanir - jafnvel þó þær gangi ekki upp segir Shevaun Neupert sálfræðiprófessor við North Carolina State University. Áætlanir geta hjálpað til við að halda í jákvæðni og komið í veg fyrir að við verðum útkeyrð af streitu. Að skipuleggja fram í tímann er okkur eðlislægt og við erum fær í því. Við erum eina dýrategundin sem ver svo mikilli orku í að gera áætlanir segir Neupert.

Skipulagning sem bjargráð

Skipulagning getur hjálpað okkur að koma í veg fyrir streitu í gegnum vitsmunaferli sem kallast „forvirk bjargráð” (e. proactive coping), þ.e. að hugsa til framtíðar, sjá fyrir hindranir og gera áætlanir um hvernig hægt er að takast á við þær. Í rannsókn sem Neupert gerði var fylgst með 200 þátttakendum í 9 daga og kannað hvernig þeir tókust á við daglegt álag. Þeir sem notuðu forvirk bjargráð voru síður viðkvæmir fyrir streitu.

Það að skipuleggja fram í tímann er viðurkenning á því að það verði framtíð og að hægt sé að gera þá hluti sem við viljum gera. Neupert leggur til að við veljum eitthvað sem fær okkur til að vera við sjálf, t.d. að panta tíma í klippingu þó óvíst sé að við getum farið þegar þar að kemur. 

Það þarf ekki einu sinni að fastsetja dag eða panta tíma, það hefur líka góð andleg og tilfinningaleg áhrif að gera lista yfir það sem þú vilt gera, allt frá því hversdagslega til metnaðarfyllri viðburða. Tilhlökkunin um eitthvað gott er mjög öflug og það er róandi að vera búin/n að setja atriði á blað þó tímasetning liggi ekki fyrir.

Hvers vegna við þolum ekki lausa enda

Áætlanagerð getur minnkað kvíða 

Áætlanagerð færir okkur ekki aðeins eitthvað til að hlakka til heldur getur hún einnig minnkað kvíða með því að draga úr hugrænni ringulreið og ágengum hugsunum. Heilinn getur aðeins unnið með takmarkað magn upplýsinga á hverjum tíma. Þegar óvissa gerir okkur erfitt fyrir með að klára hlutina sitjum við uppi með þá ofan á annað sem hvílir á okkur. Til að bæta gráu ofan á svart höfum við tilhneigingu til að einblína á lausa enda og ókláruð markmið. 

Svo virðist sem það að gera áætlun um verkefni hafi sömu róandi áhrifin á ágengar hugsanir og að klára þau. Það getur jafnvel verið gagnlegt að ýta máli á undan sér og hugsa; ég get ekkert gert í stöðunni núna svo ég ætla að bíða fram í (x-mánuð) með að hafa áhyggjur af þessu.

Gerðu áætlun um hvað sem er

Í stuttu máli getur óvissa komið fólki í uppnám, við finnum til vanmáttar sem getur valdið streitu. En ef við höfum áætlun, jafnvel óraunsæja, hjálpar það okkur að hreinsa hugann og koma lagi á hugsanir okkar. Þetta á ekki síst við um stærri viðburði sem krefjast mikillar skipulagningar.

Sumir finna til svo mikillar streitu að þeir geta ekki gert áætlanir langt fram í tímann en Neupert stingur upp á að taka þá frekar lítil skref og skipuleggja morgundaginn, eða síðdegið ef hitt er of yfirþyrmandi.

Í greininni Streita vegna óvissu má finna ráð sem gætu hjálpað á óvissutímum. 

 

Mörkin milli vinnu og einkalífs

Ólíkar aðferðir við að skilja (eða skilja ekki) á milli 

Er ætlast til að við séum til taks eftir vinnu?
Mörkin milli vinnu og einkalífs hafa orðið óljósari síðustu ár. Oft vitum við ekki hvort ætlast er til að við vinnum yfirvinnu eða séum til taks eftir að hefðbundnum vinnudegi lýkur. Hvað eigum við að gera þegar við sjáum vinnupóst berast að kvöldlagi eða þegar við erum í orlofi? Er ætlast til að við lesum hann og vinnum að verkefnum utan vinnutíma?
Þeir sem eru mjög helgaðir vinnu sinni, gegna ákveðnum störfum eða telja sig mögulega í viðkvæmri stöðu eru líklegir til að svara erindum í frítíma og aðrir geta ekki stillt sig um að lesa en svara kannski næsta virka dag. Þó einhverjir telji ekki eftir sér að sinna viðvikum utan vinnutíma er ljóst að erfiðara er fyrir vikið að aftengja sig frá starfinu og ná nauðsynlegri hvíld. Gott er að hafa í huga að það að fylgjast með vinnunni í fríium getur líka haft neikvæð áhrif þó að við bregðumst ekki við með beinum hætti, við förum þá að hugsa um og reyna að leysa ákveðin vandamál í huganum sem getur tekið álíka tíma frá okkur og það að svara póstum og vinna verkefnin.
Sumir eiga þó auðveldara með að skilja á milli vinnu og frítíma og búa þannig um hnútana að þeir verði þess ekki varir þegar vinnupóstar berast í frítíma eða vinnusíminn hringir. 
Þess má geta að sett voru lög í Frakklandi 2017 til að vernda rétt starfsmanna til að aftengja sig eftir vinnutíma. Lögin ná yfir fyrirtæki með 50 eða fleiri starfsmenn og ber þeim að setja mörk varðandi tíma sem starfsfólk sendir ekki eða svarar netpóstum. Lögin voru sett meðal annars til að koma í veg fyrir kulnun meðal starfsfólks með því að virða persónulegan tíma og koma í veg fyrir að starfsfólk upplifi að það sé sítengt vinnustaðnum.

7 aðferðir við að skilja á milli vinnu og einkalífs

Kristina Palm hjá Karolinska Institutet og KTH hefur unnið að rannsókn á sjálfbæru stafrænu atvinnulífi (Vägar till ett hållbart digitalt arbetsliv) ásamt Ann Bergman og Calle Rosengren. Hópurinn er að skoða hvernig stjórnendur og starfsmenn geta unnið á mörkum starfs og einkalífs á sjálfbærari hátt. Mörkin þarna á milli eru mjög loðin segir Kristina, margir taka vinnuna með heim og einkalífið blandast inn í starfið. Við sjáum að þetta flæðir í báðar áttir. Markalausa starfið getur leitt til streitu og vanlíðunar en tæknin getur einnig gefið ákveðið frelsi sem við kunnum líka að meta.
Hver er þín aðferð?
7 ólíkar aðferðir.
Þátttakendur í rannsókninni héldu dagbók í eina viku og skráðu niður hvenær þeir sinntu einkaerindum í vinnu og vinnutengdum málum utan vinnutíma. Forsenda var að þeir væru í starfi sem hægt var að sinna heima að einhverju leyti. Með því að greina dagbækurnar og taka viðtöl fundu rannsakendur 7 ólíkar aðferðir sem fólk notaði til að dansa á mörkum starfs og einkalífs. Kristina segir að hægt sé að nota þessar aðferðir/leiðir/mynstur til að ræða um mörk á vinnustaðnum.
Fyrstu þrjár aðferðirnar eru tengdar aðskilnaði vinnu og einkalífs (separerare) en mynstrin þar á eftir lýsa mismunandi aðferðum við að samþætta eða blanda þessu tvennu saman (integrerare).

1. Skýr skil – þessi starfsmaður heldur starfi og einkalífi alveg aðskildu, svarar t.d. ekki vinnusíma eða skoðar vinnupóst heima.

2. Staðarskil – þessi einstaklingur dregur mörkin út frá staðsetningu og getur unnið á vinnustaðnum eftir hefðbundinn vinnudag. Hann tekur þó ekki vinnuna með sér heim.

3. Tímaskil – þessi vinnur ekki eftir tiltekinn tíma og ekki á kvöldin eða um helgar. Hann er þó ekki bundinn af því að vinna á vinnustaðnum, heldur getur hann unnið heima eða t.d. á kaffihúsi.  

 

4. Einkalífsbland – þessi lætur einkalífið flæða inn í vinnuna en ekki öfugt. Hann sinnir ýmsum persónulegum málum í vinnutíma en vinnur ekki heima.

5. Vinnubland – þessi starfsmaður lætur starfið flæða inn í einkalífið og frítímann en ekki öfugt, hann sinnir ekki einkamálum í vinnunni.   

6. Markaleysi - þessi hefur engin mörk og vinnur heima og í frítíma ef hann telur þurfa. Hann sinnir einnig einkamálum á vinnutíma.  

7. Víxlari – þessi starfsmaður er ekki með eina fasta aðferð en skiptir um út frá aðstæðum.

 

Aðferðin sem við notum hefur áhrif á aðra.
Kristina vill ekki dæma um hvaða aðferð er best, það geti farið eftir aðstæðum í vinnu og í einkalífi. Til dæmis getur það hentað barnafólki að samþætta frekar en að hafa alveg skýr skil, þá er t.d. hægt að sækja barnið fyrr úr pössun og vinna það upp að heiman um kvöldið.
Nokkrir þátttakendur hafa valið að draga skýr mörk því þá líður þeim betur, þeir hafa meiri frítíma og möguleika á að jafna sig eftir vinnudaginn. Þeir sem hafa lent í aðstæðum þar sem þeir sem hafa unnið of mikið og vinnan flætt yfir í einkalífið hafa þurft að setja skýrari mörk af heilsufarsástæðum. Sumir telja sig ekki taka vinnuna með heim en eru samt að fylgjast með símanum sem hefur áhrif á fjölskyldulífið.
Mikilvægasta niðurstaðan er sú að vinnuveitendur og vinnuhópar þurfa að skilja að fólk er ólíkt að þessu leyti og sá skilningur getur dregið úr spennu og hindrað árekstra að mati Kristinu. Einnig má nefna að aðferðin sem við notum hefur áhrif á samstarfsmenn. Ef sá sem dregur mjög skýra línu milli vinnu og einkalífs vinnur náið með starfsmanni sem er alveg markalaus getur það valdið árekstrum og vanlíðan. Þetta þarf að ræða í vinnuhópnum, hvaða væntingar höfum við til annarra og hvernig kjósum við að haga málum.

Stjórnendur verða að láta starfsmenn vita hverjar væntingarnar eru og líka til hvers er ekki ætlast. Kristina segist sjálf vilja hafa skýr skil en því meira sem er að gera því erfiðara geti það verið. Hún reynir þó að skilja á milli í smáum stíl með því að fá t.d. ekki sjálfvirk skilaboð um vinnupóstinn í símann.  

- Greinin byggir á viðtali við Kristinu Palm á nyteknik.se, grein í suntarbetsliv.se, umfjöllun á afaforsakning.se og viðtali við Calle Rosengren á prevent.se. Sjá stutt myndband sem sýnir vel þessar ólíku aðferðir og viðtal við Kristinu (á sænsku). 

Ertu með vinnuna á heilanum?

Það er í sjálfu sér ekkert athugavert við að hugsa um vinnuna þegar heim er komið, en einhverjir kannast við að hugsa stöðugt um sömu málin á þráhyggjukenndan hátt (e. rumination) og þær hugsanir skjóta jafnvel upp kollinum í draumum okkar. Við göngum út frá því að lausn hljóti að finnast ef nógu lengi er gruflað, en sköpunargáfan nær ekki að njóta sín við þessar aðstæður og okkur líður illa með þetta tímafreka stagl. 
Það er ekki nóg að reyna að sannfæra sig um að hætta að hugsa á þessum nótum heldur þarf að gera eitthvað allt annað til mótvægis.
 • Búðu til skýr skil í daginn.

  Skiptu um gír strax á leið úr vinnu. Hlustaðu á léttmeti sem tengist vinnunni ekki á nokkurn hátt. Þótt þú verðir að taka vinnutörn síðar að deginum, reyndu að aftengja þig alveg í nokkra tíma.

 • Ekki tala um vinnuna heima.

  Það er ekki góð hugmynd að rifja upp vanda í vinnunni við kvöldmatarborðið. Spurðu frekar aðra heimilismenn um þeirra dag og reyndu að hlusta með athygli. Þú færð þá frið á meðan fyrir eigin vinnutengdu áhyggjum.

 • Takstu á við öðruvísi heilabrot.

  Gott er að finna sér verkefni í frítímanum sem reyna hæfilega mikið á hugsun og athygli, það getur verið krefjandi eldamennska, garðyrkjupælingar eða ýmsar tómstundir.

 • Skipuleggðu næsta frí.

  Við að skipuleggja fríið ertu að nota sömu lausnamiðuðu ferla og í starfi, en viðfangsefnið er mun ánægjulegra.

 • Taktu frá tíma fyrir áhyggjur.

  Frestaðu áhyggjum af málum sem þú ert með á heilanum með því að merkja inn sérstakan tíma fyrir þær í dagatalinu. Það gefur þér hlé til að hugsa um aðra hluti í millitíðinni og hleypir sköpunargáfunni að. Þegar dagurinn rennur svo upp er vandamálið mögulega þegar leyst. Þú gætir líka rætt við reynt samstarfsfólk eða vin um mál sem sækja á þig til að losa um áhyggjur eða mögulega leysa málið.

 

Streita

Hæfileg streita eykur hæfni okkar til að lifa af og ná árangri.
Við erum öll ólík og mismunandi aðstæður geta valdið okkur streitu. Það sem veldur þér streitu hefur lítil áhrif á mig og öfugt.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að streita er fullkomlega eðlileg og í raun nauðsynleg þegar staðið er frammi fyrir áskorunum eða ógnum. Líkami okkar þolir vel að vinna undir miklu álagi svo fremi hann fái tækifæri til að ná sér inn á milli. Það er ekki hættulegt að finna fyrir streitu, þvert á móti þá er hún okkur eðlislæg og eykur hæfni okkar til að lifa af og ná árangri.

Af hverju stafar streita?

 • Streita stafar af álagi sem við upplifum í vinnu eða einkalífinu.

 • Oft stafar hún af kröfum sem við setjum á okkur sjálf.

 • Við skynjum álag þegar okkur finnast kröfur meiri en þær sem við teljum okkur ráða vel við eða aðstæður eru á einhvern hátt óljósar eða valda vanlíðan.

 • Þegar um langvarandi álag er að ræða hjá einstaklingi þá er orsakirnar oftast að finna bæði í vinnu og einkalífi.

 • Rannsóknir hafa sýnt að viðhorf okkar til streitu geti haft áhrif á það hversu streitan hefur mikil áhrif á heilsu okkar. Samkvæmt þeirri rannsókn ættum við að reyna að líta streituna jákvæðum augum.

Streituviðbrögð og einkenni

Við streitu fer viðvörunarkerfi líkamans af stað sem gerir okkur hæfari til að takast á við krefjandi og ógnandi aðstæður.
 • Steituhormón streyma um æðarnar
 • Sjón og athygli skerpist
 • Hjartsláttur verður hraðari
 • Öndun verður hraðari og grynnri
 • Blóðflæði til vöðva eykst
 • Meltingarstarfsemi dregst saman
 • Ónæmiskerfi virkjast

Allt þetta miðar að því að gera okkur tilbúin fyrir árás, flótta eða vörn. Athygli þarf að vera skörp og beinast að því sem við er að glíma en útiloka önnur áreiti. Ónæmiskerfið þarf að vera við öllu búið ef við skyldum meiðast. Aftur á móti er meltingarstarfsemi ekki í forgangi í þessum aðstæðum og því er hún sett til hliðar.

Þegar við erum í tímaþröng, föst í umferðarteppu, stöndum frammi fyrir verkefnum sem við ráðum illa við eða eigum í samskiptaerfiðleikum geta þessi viðvörunarkerfi líkamans virkjast. Í slíkum aðstæðum eru þessi viðbrögð þó yfirleitt ekki hjálpleg því þegar þörf er á yfirsýn er ekki gott að hafa athyglina aðeins á þröngt sjónarhorn vera í vörn eða árásarham þegar við eigum í samskiptum við aðra.

Það er því mikilvægt að hafa stjórn á streitunni og vera í góðu jafnvægi.

 • Kona með kaffi við klukku
Streituviðbrögð koma að góðum notum þegar við lendum í óvæntum eða hættulegum aðstæðum. Þau hjálpa okkur við að halda einbeitingu, við verðum næmari og fljótari að bregðast við. Viðbrögðin geta verið óþægileg en þau eru alveg eðlileg og hjálpa okkur að bregðast við aðstæðum. Ef við höfum jákvæða reynslu af svipuðum aðstæðum og trú á að við getum leyst verkefnin eru streituviðbrögðin hvetjandi og við verklok ganga þau yfirleitt hratt til baka.
Ef við náum ekki að leysa málin eða losna við viðvarandi álag yfir lengri tíma, jafnvel vikum, mánuðum eða árum saman getum við mögulega fengið einkenni þunglyndis og aukið líkur okkur á að fá hjarta- og æðasjúkdóma.
Sjá áhugaverða umfjöllun um streitustigann og annað gagnlegt efni um streitu hér á síðu VelVIRK.is.

Sambönd og langvarandi streita

Langvarandi streita getur haft neikvæð áhrif á öll sambönd.
Langvarandi streita getur haft áhrif á öll sambönd en ekki síst sambandið við makann. Svo virðist sem mikil streita valdi því að erfiðara geti verið að komast í gegnum vandamál sem fyrir eru og búi þar að auki til nýjan vanda. Orku vantar til að sinna þeim atriðum sem stuðla að farsælum tengslum og í stað ánægjulegrar og gefandi samveru dregur annar aðilinn sig meira í hlé og virðist fjarlægur og annars hugar. Hann er ekki eins reiðubúinn að gefa af sér, hlusta og taka virkan þátt í samræðum. Minni áhugi er fyrir því að gera eitthvað með makanum og líkamleg nánd minnkar. Sá tími sem gefst fer mögulega í að ræða og reyna að leysa erfið mál, svo sem fjármál heimilisins og tími til endurnærandi samverustunda og nálægðar verður af skornum skammti. Þar sem fjárhagsáhyggjur og langur vinnudagur fara saman eru samverustundir fáar og enn minni tími gefst til jákvæðra gæðastunda sem næra samböndin.
Reynt getur á þolinmæði og skilning hjá báðum aðilum. Sá sem finnur fyrir langvarandi streitu þarf oft tóm til að jafna sig eftir vinnudaginn en hinn aðilinn í sambandinu finnur mögulega til þarfar fyrir að fá endurgjöf og njóta samveru á sama tíma. Þegar orkuleysi og þreyta taka völdin þarf að hafa meira fyrir að sýna sjálfsaga í samskiptum og hafa hemil á neikvæðni. Í þessum aðstæðum er hætta á að fólk sýni sínar verstu hliðar svo sem pirring og óþolinmæði.

Rannsóknir hafa sýnt að tengsl eru milli streitu og óhamingju í samböndum. Streitan getur breytt smámálum í stórmál og hindrað fólk í að leysa vanda á uppbyggilegan hátt. Svo virðist sem hún geti skapað neikvæða „túlkunarsíu“ og haft smitáhrif þannig að ef fólk á slæman dag í vinnu smitast það yfir á allt annað og hefur t.d. áhrif á hvernig fólk túlkar hegðun makans.

Streita getur verið sérlega skeinuhætt fyrir óstöðug sambönd en hún getur einnig valdið vandræðum í traustustu samböndum á þann veg að fólk fer að sjá vandamál sem eru í raun ekki til staðar og túlka skort á samskiptum og ástúð á erfiðum tímabilum sem vanda í sambandinu í stað þess að átta sig á rót vandans – streitunni sjálfri.

Nokkrar leiðir til að minnka áhrif streitu í samböndum: 
 • Líkamleg nánd. Ástrík snerting og augnsamband getur haft jákvæð áhrif á líðan para, sérstaklega þegar streita er mikil. Horfist í augu, haldist í hendur og knúsist. Rannsóknir sýna fram á jákvæð áhrif allra þessara þátta.   
 • Sýna þakklæti og ást á hverjum degi. Fólk sem þjáist af langvarandi streitu telur sig stundum vanmetið og til lítils gagns. Það hjálpar báðum aðilum að þakka fyrir smá og stór viðvik og sýna væntumþykju á hverjum degi, svo sem með því að senda hlýleg smáskilaboð eða skilja eftir skilaboð á miða. Það gæti virkað yfirborðslegt en þetta hjálpar til við að rifja upp hvers vegna parið varð ástfangið til að byrja með og hvað það kann að meta í fari makans.  
 • Rifja upp sigrana. Gott getur verið að rifja upp hvernig þið hafið tekist á við verkefni ykkar saman og sigrast á vanda í gegnum tíðina. 
 • Gera eitthvað aukalega. Ef einstaklingur er í vanda vegna streitu hefur hann minni líkamlega og andlega orku til að sinna daglegum verkefnum. Sá sem er betur staddur gæti létt álagi með því að taka tímabundið að sér fleiri húsverk. 
 • Gera eitthvað nýtt saman. Sýnt hefur verið fram á að ef pör gera eitthvað nýtt og skemmtilegt saman eykur það ánægju þeirra með sambandið. Það þarf hvorki að vera dýrt né tímafrekt, sem dæmi má nefna 10 mínútna göngutúr eftir matinn eða að horfa á sólarupprásina saman.
 • Gefa makanum slaka. Best er að gefa makanum sem finnur fyrir streitu tóm til að ná áttum eftir að heim úr vinnu er komið í stað þess að gera strax á hann kröfur. Því meiri sem streitan er yfir daginn því erfiðara er að ná að aftengja sig. 
 - Efni að mestu úr grein á thriveglobal.com og grein á Psychology Today. 
 

 

Þegar kona brotnar

Dugnaður er ofmetinn og krafan um að vera stöðugt stritandi er úrelt.
Sirrý Arnardóttir skrifaði viðtalsbókina ,,Þegar kona brotnar – og leiðin út í lífið á ný” í samstarfi við VIRK. Þar ræðir hún við 12 konur sem örmögnuðust og gengu á vegg, en sóttu sér aðstoð við að byggja sig upp að nýju. Konurnar hafa margar fengið aðstoð frá VIRK og allar hafa þær fundið starfsorkuna og lífsgleðina aftur. Þær hafa breytt viðhorfum sínum og ýmsu í lífi sínu og koma sterkar út úr þessari erfiðu reynslu, þó sumt hafi þær misst sem þær fá ekki til baka. Konurnar í bókinni eru á ólíkum aldri, vinna ólík störf og eru með mismunandi menntun. Sumar hafa upplifað mikinn missi eða áföll og allar hafa upplifað að langvarandi álag getur orðið fólki um megn.  

Í bókinni er einnig fjallað um konur fyrri tíma og hvernig þær brugðust við örmögnun. Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur ræðir um konur sem örmagnast í dag og konur sem lögðust í kör fyrr á árum og hvað við getum lært af formæðrum okkar. Dr. Linda Bára Lýðsdóttir sálfræðingur hjá VIRK ræðir líka um hvað gerist þegar kona brotnar og hver bjargráð hennar eru.

Í blaðaviðtali í tilefni af útkomu bókarinnar segir Sirrý að viðmælendur hennar séu dæmi­gerðar ís­lensk­ar kon­ur, van­ar að vera alltaf dug­leg­ar. „Marg­ar þeirra hafa glímt við langvar­andi álag allt frá barnæsku. Slíkt álag tek­ur toll af heilsu fólks.“ Konurnar fóru ýmsar leiðir til að ná sér aftur á strik. Sumar þurftu til dæmis að læra að forgangsraða og segja nei. Aðrar þurftu að slá af kröfum um fullkomnun og reyndu að vera meðvitaðar um óæskileg áhrif samanburðar á samfélagsmiðlum. Sirrý tekur undir með viðmælendum um að dugnaður sé ofmetinn og krafan um að vera stöðugt stritandi sé úrelt.

 

Streita vegna óvissu

Flestir eru vanafastir og þegar hlutirnir ganga samkvæmt áætlun teljum við okkur hafa góða stjórn í lífinu. Þegar eitthvað fer úrskeiðis eða óvænt atvik koma upp getum við fundið fyrir kvíða og aukinni streitu. Rannsóknir sýna að fólk bregst við óvissu á ólíkan hátt, þeir sem eiga verst með að höndla hana virðast hafa minni þrautseigju og eru líklegri til að vera neikvæðir og kvíðnir.
Enginn getur komist hjá hinu óvænta, en hér eru nokkur ráð sem gætu hjálpað:

Ekki dæma þig of hart. Þó þú upplifir að þú eigir erfiðara með að höndla óvissu en sumir í kringum þig mundu þá að fólk bregst misjafnlega við.

Hugsaðu um fyrri sigra. Líklega hefurðu komist í gegnum streituvekjandi aðstæður áður og lifðir það af. Hugsaðu um hvað það var sem hjálpaði þér í gegnum aðstæðurnar síðast og hvað þú vilt mögulega gera öðruvísi núna.

Tileinkaðu þér nýja hæfni. Þegar þú hefur tök á reyndu að prófa hluti sem ögra þér og eru utan við þægindarammann. Þannig byggirðu upp sjálfsálit og hæfni til að ráða betur við aðstæður þegar lífið tekur óvænta stefnu.

Takmarkaðu áhorf á fréttir. Ef þú glímir við of mikla streitu er erfitt að jafna sig ef þú ert stöðugt að kanna hvort eitthvað nýtt hafi gerst á fréttamiðlunum. Reyndu að fækka heimsóknum á þá og sleppa því að skoða fréttir fyrir svefninn.

Ekki dvelja við hluti sem þú getur ekki breytt. Ef óvissa skapast þá fara margir að hugsa um það versta sem gæti gerst. Reyndu að venja þig af því að hugsa stöðugt um neikvæða atburði.

Hvað myndirðu ráðleggja öðrum? Það getur verið gagnlegt að hugleiða hvað þú myndir ráðleggja vini að gera í sömu sporum og þú ert nú. Með því má fá aðra sýn og ferskar hugmyndir.

Passaðu upp á þig. Farðu vel með þig þegar þú finnur fyrir mikilli streitu; borðaðu hollan mat, hreyfðu þig og reyndu að sofa vel.

Leitaðu stuðnings hjá fólki sem þú treystir. Margir einangra sig þegar þeir hafa áhyggjur eða finna fyrir mikilli streitu. En félagslegur stuðningur er mikilvægur, svo leitaðu til vina og ættingja.

Stjórnaðu því sem þú getur. Einbeittu þér að hlutum sem þú getur stjórnað, þó ekki sé nema að ákveða hvað verður í matinn í vikunni eða að taka til fötin fyrir næsta dag. Búðu til rútínu sem skapar ákveðinn þægindaramma.

Biddu um hjálp. Ef þú átt í vandræðum með að ráða við streitu og óöryggi á eigin spýtur leitaðu aðstoðar hjá fagaðilum.

- Byggt á The Great Unknown: 10 Tips for Dealing With the Stress of Uncertainty. Af vef American Psychological Association.

Í könnun Embættis landlæknis árið 2017 kom fram að um fjórðungur fullorðinna finnur oft eða mjög oft fyrir mikilli streitu í daglegu lífi, en rúmur þriðjungur finnur sjaldan eða aldrei fyrir mikilli streitu. Fleiri konur en karlar finna fyrir mikilli streitu og yngri aldurshópar frekar en þeir eldri.

24%

24% fullorðinna Íslendinga finna oft eða mjög oft fyrir mikilli streitu í daglegu lífi.

 • Aðeins tæpur helmingur þeirra sem finnur fyrir mikilli streitu í daglegu lífi metur andlega heilsu sína góða á móti 90% þeirra sem finna sjaldan eða aldrei fyrir mikilli streitu.
 • Tæp 40% þeirra sem finna fyrir mikilli streitu telja sig hamingjusama á móti 75% þeirra sem finna sjaldan eða aldrei fyrir mikilli streitu.
 • 10% þeirra sem finna fyrir mikilli streitu eru óhamingjusamir, en aðeins 2% þeirra sem finna sjaldan eða aldrei fyrir mikilli streitu.
Stundum þarf að fækka verkefnum. 
Á vef Heilsuveru eru nokkuð ráð sem gætu gagnast gegn of mikilli streitu. Rætt er um slökun og vísað á góða slökunaræfingu, fjallað um jákvæð áhrif hreyfingar og samveru við vini og ættingja. Bent er á að gagnlegt sé að taka frá tíma fyrir ánægjustundir í daglegu rútínunni, að það sé mikilvægt að sleppa takinu á því sem ekki er í okkar höndum og að reyna að draga úr áreiti eins og kostur er. Jafnframt er talað um að stundum sé ekki nóg að forgangsraða verkefnum, heldur þurfi að fækka þeim eða fá aðstoð.

Umfjöllun um vinnutengda streitu og streitustigann má finna hér.
Vinnum saman að jafnvægi

Á vinnan hug þinn allan?

Minningar

Sýnum einkalífinu jafn mikla virðingu og vinnunni. Minningar með ástvinum verða bara til ef við búum þær til sjálf. Vinnum saman að jafnvægi.

Er þetta veruleikinn?

Mörgum líður vel þegar mikið er að gera. En er gott ef það er alltaf brjálað að gera? Vinnum saman að jafnvægi.

Forgangsröðun

Það er mikilvægt að staldra við og hlúa að einkalífinu. Leyfum vinnunni að vera í vinnunni. Vinnum saman að jafnvægi.

Fleiri myndbönd

Minningar

Sýnum einkalífinu jafn mikla virðingu og vinnunni. Minningar með ástvinum verða bara til ef við búum þær til sjálf. Vinnum saman að jafnvægi.

Er þetta veruleikinn?

Mörgum líður vel þegar mikið er að gera. En er gott ef það er alltaf brjálað að gera? Vinnum saman að jafnvægi.

Forgangsröðun

Það er mikilvægt að staldra við og hlúa að einkalífinu. Leyfum vinnunni að vera í vinnunni. Vinnum saman að jafnvægi.

Fullkomnun?

Fullkomnunarárátta (e. perfectionism) eða hlítarárátta er skilgreind í íðorðabanka fyrir uppeldis- og menntunarfræði sem „tilhneiging til að heimta sífellt af sjálfum sér og öðrum það besta, sem verða má, án þess að taka réttmætt tillit til vandkvæða“.
Dr. Holly Philips segir í grein á thriveglobal.com að það sé ekkert athugavert við að stefna að því að bæta sig, en ef sú löngun verður að áráttu geti viðkomandi verið vandi á höndum þar sem vísindamenn hafi fundið tengsl milli fullkomnunaráráttu og kvíða, streitu og kulnunar. Philips ræðir um þrjár gerðir fullkomnunaráráttu og að þeir sem hafi tilhneigingu til félagslegrar fullkomnunaráráttu (e. socially prescribed perfectionism) geti lent í hvað mestum vanda.

Þeir trúa því að sífellt sé verið að dæma þá og að fullkomnun sé leiðin til að fá viðurkenningu. Þeir hafa viðvarandi áhyggjur af því að missa starfið eða að upp komist um þá sem svikara (e. imposter syndrome).    

Fullkomnunarárátta hefur ekki aðeins áhrif á andlega vellíðan heldur einnig líkamlegu heilsu. Stöðug óánægja með frammistöðu í starfi, fjölskyldu eða aðra þætti lífsins auka á streitu sem getur leitt til þess að langvinnir sjúkdómar versni, að fram komi bakverkir eða meltingarvandamál eða að fólk venji sig á óheilbrigða lifnaðarhætti.

Það getur verið afar erfitt að vinna gegn fullkomnunaráráttu en hér eru nokkrar leiðir:

 • Takmarkaðu tíma á samfélagsmiðlum. Fólk birtir yfirleitt bestu útgáfu af sjálfu sér á samfélagsmiðlum og það getur vakið upp sjálfsgagnrýni hjá lesendum. Ef þú finnur fyrir meiri kvíða en gleði á samfélagsmiðlum hugleiddu að taka hlé um stund eða takmarka hve miklum tíma þú verð á miðlunum.
 • Talaðu við aðra. Það getur verið gagnlegt að heyra hve gagnrýninn maður getur verið á sjálfan sig. Einnig að átta sig á því að aðrir geta glímt við svipaðar hugsanir. Kannski bendir þér einhver vinsamlega á að þú ert of harður/hörð við sjálfa/n þig.
 • Æfðu væntumþykju í eigin garð. Það er meira en að segja það að leyfa sér að vera ófullkominn. Gerðu lista yfir þá þætti í fari þínu sem þú ert sátt/ur við og örugg/ur með, þó þeir virðist litlir eða kjánalegir. Hugleiðsla og jóga hafa sýnt sig að hjálpa við grufl og sjálfsgagnrýni. 
 • Taktu mistök með í reikninginn. Ekki reikna með að verkefni gangi smurt og án mistaka frá upphafi til enda. Gerðu ráð fyrir óvæntum uppákomum. 
 • Líttu út fyrir rammann. Gerðu eitthvað þar sem þú ert ekki sjálf/ur í aðalhlutverki. Prófaðu að gefa af þér til samfélagsins, t.d. með því að vinna félags- eða sjálfboðaliðastörf. Fólk kann að meta framlag þitt hvort sem það er fullkomið eða ekki.   

Í grein á heimasíðu Þekkingarmiðlunar má finna fleiri ráð til að stemma stigu við fullkomnunaráráttu.

Atvinnumissir

Mikilvægt er að bregðast við sem fyrst
Hvar sérð þú þig í haust, næsta vetur eða vor? Ef þú ert í þeirri stöðu að hafa misst vinnuna eða sérð fram á að missa starfið þitt á næstunni er mjög mikilvægt að þú áttir þig á mikilvægi þess að bregðast sem fyrst við og hefja strax vinnu við að taka stefnu aftur inn á vinnumarkaðinn eða í nám.
Áfall
Það er vissulega áfall að missa vinnuna og vel þekkt að það mun hafa afgerandi áhrif á líðan þína og framtíð hvernig þú bregst við og hvaða stefnu þú tekur. Atvinnumissir getur dregið úr sjálfstrausti og með tímanum getur þú farið að efast um getu þína til að fá starf að nýju. Það er ofur eðlilegt að slíkar tilfinningar vakni en líka gott fyrir þig að vita að þú getur náð stjórn á þeim. Það gerir þú með því að taka stefnu sem er góð fyrir þig og þína. Hafðu hugfast að framtíð þín veltur á því sem þú gerir núna. 
Tækifæri
Margir sem hafa misst vinnuna óvænt tala um að þessi óvænta staða hafi falið í sér tækifæri sem þeir eru þakklátir fyrir að hafa getað nýtt sér. Í raun hafi það orðið þeim til góðs að missa vinnuna því að við þær breytingar hafi þeir valið að fara nýjar leiðir sem gerðu líf þeirra enn betra. Oft erum við svolítið föst í farinu og þá getur svona skellur virkað vel á okkur og ýtt okkur áfram til nýrra ákvarðana í átt að enn betra lífi fyrir okkur. Í því getur falist að flytja milli hverfa eða landshluta, fara í nám, ráða sig í nýtt starf sem reynir á styrkleika sem við vissum ekki að við byggjum yfir eða kynnast nýju fólki og fyrirtækjum. Mögulega gefst þér nú tækifæri til að láta gamla eða nýja drauma rætast. 
Tilfinningasveiflur
Til að forðast þær tilfinningasveiflur sem geta farið af stað við atvinnumissi er mikilvægt að þú sættist sem fyrst við orðinn hlut. Það getur verið freistandi að nýta fyrstu vikurnar í frí og slökun og fresta því að takast á við stöðuna, en það er farsælast að komast sem fyrst aftur í starf svo atvinnuleitin dragist ekki á langinn. Hafir þú hins vegar náð að taka þér smá frí ættu batteríin að vera vel hlaðin og þú í góðu standi til að marka þér nýja stefnu.
Sértu aftur á móti í þeirri stöðu að atvinnuleitin hefur dregist á langinn og þér finnst þú engum árangri ná, ert jafnvel við það að gefst upp, þá skaltu bregðast við sem allra fyrst og leita eftir aðstoð vina, kunningja, fjölskyldu eða sérfræðinga. Langvarandi dvöl með neikvæðum hugsunum er ávísun á vanlíðan og jafnvel veikindi. 
Þeir fiska sem róa
Með þeim samdrætti sem er í landinu stöndum við allt í einu frammi fyrir auknu atvinnuleysi og um leið aukinni samkeppni um störf. Í slíku ástandi er hætta á að við höfum ekki nógu mikla trú á að okkur takist að finna starf og hugsum þá gjarna að  það séu engin laus störf þarna úti. En staðreyndin er sú að það losna alltaf störf og að það eru þeir sem eru vakandi, taka frumkvæði, fylgjast vel með og sækja um sem ná störfunum sem losna. Störf losna þegar starfsfólk veikist, tekur fæðingarorlof eða sumarleyfi, fer á eftirlaun eða ákveður að breyta til.
Hafðu í huga að þú átt jafn mikla möguleika og allir hinir og stundum jafnvel meiri. Það er því mjög mikilvægt fyrir þig að vera á tánum og kynna þig svo vel að eftir þér sé tekið. 
Stækkaðu leikvöllinn
Þegar staðan er sú að leitin að starfi hefur dregist á langinn gætir þú þurft að skoða fjölbreyttari möguleika til að fá ráðningu í starf. Þú ættir að spyrja þig af einlægni spurninga um aðferðir þínar, viðhorf og val á þeim störfum sem þú ert að sækja um. Þú gætir þurft að slá af kröfunum til að fá starf í því atvinnuástandi sem nú er og tileinka þér sveigjanleika. Góður leikur getur verið að stækka leikvöllinn og horfa til starfa sem þú hefur ekki verið að velta fyrir þér til þessa. 
Það getur komið á óvart hvað er margt spennandi hægt að gera og svo má alltaf halda áfram að leita að óskastarfinu meðfram öðru starfi enda gott að vera í starfi þegar atvinnuviðtal í draumastarfið býðst. 
Laun eða framfærsla
Það er nokkuð ljóst að fyrir flesta er það verulegur fjárhagslegur skellur að missa vinnuna. Það er því til mikils að vinna að finna leið út úr þeirri stöðu. Flestir sem hafa þá reynslu tala um að það sé mikill léttir að fá greidd laun að nýju fyrir vinnuframlag frekar en að þiggja lágmarks framfærslu og nokkuð ljóst er að laun fyrir vinnuframlag eru nær alltaf hærri en framfærsla frá hinu opinbera. Það má vera að þér takist ekki að finna draumastarfið í fyrsta kastinu en með launuðu starfi, hvort sem það er fullt starf, hlutastarf eða tímabundið starf, getur þú aukið innkomuna og betur tryggt þér og þínum farborða. 
Jákvæð skref í átt að starfi
Leggðu þig fram um að halda í jákvætt hugarfar og gera góða hluti fyrir þig. Þú gætir byrjað hvern dag á að spyrja þig „Hvað er það besta sem ég get gert fyrir mig í dag til að komast í vinnu?“ – Gerðu svo það sem er best fyrir þig þann daginn til að færast í áttina að starfi. 
Gjöf til vinar
Ef þig vantar hugmyndir gætir þú reynt að ímynda þér hvaða ráð þú myndir gefa besta vini þínum eða vinkonu sem væri í sömu stöðu. Þér gæti dottið í hug eitthvað af eftirfarandi:
 • Taktu frá hálftíma til að finna bestu leiðina fyrir þig í dag.
 • Fáðu vin eða sérfræðing til að lesa yfir ferilskrána og kynningarbréfið. Breyttu og bættu.
 • Farðu í göngutúr og leitaðu að fyrirtækjum sem þú gætir skoðað að vinna hjá.
 • Vaknaðu klukkan átta og gefðu þér tíma til að fá þér svalandi drykk og skrifa niður nokkrar hugmyndir að störfum eða fyrirtækjum.
 • Gerðu tímasetta framkvæmdaáætlun og haltu þig við hana.
 • Leitaðu á vefnum að auglýstum störfum, góðum ráðum eða hugmyndum.
 • Hafðu samband við gamlan eða nýjan vin eða félaga sem gæti mögulega „reddað“ starfi.
 • Framkvæmdu – Hafðu samband við fyrirtæki, sæktu um störf eða leitaðu þér aðstoðar.
 • Finndu út hver er stærsta hindrunin og finndu leið fram hjá henni.
 • Kæri vinur mundu að þú hefur svo margt að gefa. Hvað heldur þú að væri sniðugt að gera?
Láttu þér líða vel
Góð andleg og líkamleg heilsa er mikilvæg til að halda út við leitina að starfi. Hér á Velvirk.is finnur þú mörg góð ráð sem þú getur nýtt þér til að vera í góðu jafnvægi og auka vellíðan. 
Góð ráð í atvinnuleit
Gagnlegt efni um atvinnumissi og atvinnuleit getur þú fundið hjá VIRK og Vinnumálastofnun.

 

Lyfjanotkun

Þunglyndis og svefnlyfjanotkun er nú í sögulegu hámarki á Íslandi samkvæmt upplýsingum frá Landlæknisembættinu.
 • 18% allra kvenna á Íslandi fengu ávísað þunglyndislyfjum í fyrra og rúmlega 10 prósent karla.
 • Á árinu 2017 leystu 31 þúsund konur út þunglyndislyf og 17 þúsund karlar.
 • Á fyrstu 11 mánuðum ársins 2018 fengu 33 þúsund Íslendingar ávísað svefnlyfjum.
 • Íslendingar nota tvöfalt magn þunglyndislyfja á við meðaltal OECD ríkjanna og 24% meira en næsta OECD-þjóð; Ástralir.
 • Mesta aukningin í ávísunum svefnlyfja er hjá konum, 15-40 ára.
 

Tölfræði frá VIRK

Á tímabilinu frá maí 2018 til júlí 2019 töldu 33% af þeim sem hófu þjónustu hjá VIRK sig vera með einkenni starfsþrots / kulnunar.

Frá því að VIRK hóf starfsemi hefur langstærstur hluti þeirra sem leita til VIRK verið með geðrænan vanda, eða 45% kvenna og 41% karla. Stoðkerfisvandi er einnig algengur hjá þeim sem hófu þjónustu, en 40% kvenna og 26% karla voru með stoðkerfisvanda.

Af öllum þeim sem hófu þjónustu hjá VIRK frá árinu 2015 fram á mitt ár 2018 voru 27% greindir með kvíða og 20% með þunglyndi. Alls voru 40% greindir með bæði kvíða og þunglyndi.

Af öllum þeim sem hófu þjónustu hjá VIRK frá árinu 2015 fram á mitt ár 2018 voru 6% greindir með vefjagigt.

Þeir sem hefja þjónustu hjá VIRK svara spurningu um hvað þeir telji að hafi verið erfitt við starf þeirra og þeir sem hófu þjónustu hjá VIRK frá árinu 2015 fram á mitt ár 2018 svöruðu á eftirfarandi hátt:

 • 42% of mikið álag
 • 28% að halda athygli og einbeitingu
 • 24% of mörg verkefni
 • 23% að takast á við tilfinningar
 • 12% að takast á við breytingar

Þeir sem hefja þjónustu hjá VIRK svara spurningu um aðstæður og líðan og þeir sem hófu þjónustu hjá VIRK frá árinu 2015 fram á mitt ár 2018 svöruðu á eftirfarandi hátt:

 • 70% töldu að andleg streita hefði áhrif á starfsgetu þeirra
 • 80% töldu að veikindi sín hefðu haft áhrif á fjárhaginn
 • 71% töldu að depurð eða kvíði hefði áhrif á starfsgetu sína
 • 58% sögðust kvíða því að veikindin myndu versna við að fara aftur til vinnu
 • 58% töldu að starf þeirra sé eða hafi verið líkamleg erfitt
 • 59% töldu að starf þeirra sé eða hafi verið andlega erfitt

 

Í könnun meðal félagsmanna VR í byrjun árs 2018 kemur fram að einn af hverjum fjórum svarendum segist oft vera svo þreyttur eftir að vinnudegi lýkur að hann eigi erfitt að með að gera nokkurn skapaðan hlut. Þetta hlutfall var 18% árið 2013.

Tæp 30% eiga erfitt með að hætta að hugsa um vinnuna eftir að vinnudegi lýkur og hefur það neikvæð áhrif á frítíma þeirra og einkalíf. Tæplega þriðjungur sagðist oft vinna lengri vinnudag en þeir ráðgerðu.   

Konur finna frekar fyrir streitu- og álagseinkennum en karlar þegar á heildina er litið.

 • Kona liggur á maga í rúmi
Ráð

Við aukum lífsgæði og lengjum lífið með góðum svefni.

Nánar