Fara í efni

Náttúrukort

Útivist bætir hressir og kætir

Á Íslandi erum við svo lánsöm að búa í nálægð við náttúruna sama hvar við erum. Góður göngutúr leiðir okkur niður að sjó eða vatni, mólendi eða skógum. Á göngunni getum við andað að okkur fersku loftinu og notið þess sem fyrir augu ber.

Svo virðist sem hugarfarsbreyting sé að eiga sér stað í heiminum og við séum að átta okkur á þeim styrk sem við getum sótt í umhverfi okkar og náttúru. Læknar á Hjaltlandseyjum hafa verið að bjóða sjúklingum upp á náttúrudagatal með hugmyndum að hreyfingu og náttúrupplifun sem meðferðarúrræði og kollegar þeirra í Kanada ávísa á heimsóknir í listasöfnJapönsk skógarböð hafa einnig fengið aukna athygli en talsmenn þeirra benda á lækningarmátt skóglendis og hvetja til skógarferða til að bæta heilsu og líðan.

Í ljósi alls þessa viljum við því bjóða ykkur upp á 10 hugmyndir fyrir hvern mánuð ársins sem þið getið notað til að styrkja heilsuna og halda góðu jafnvægi.

Njótið náttúrunnar í samræmi við eigin getu – Njótið vel!

 • Júní - Mynd

Júní

 • Leggstu á árbakka og hlustaðu á róandi niðinn í ánni. 
 • Rótaðu í moldinni. Plantaðu blómum eða trjám.
 • Útbúðu sumarsalat með t.d. hundasúrum, blóðbergi, skarfakáli, arfa, fíflablöðum eða fíflablómum.
 • Gakktu inn á mismunandi búsvæði plantna og skoðaðu hvað einkennir þau.
 • Safnaðu sóleyjum eða lúpínum í vönd og gefðu góðum vini.
 • Gerðu náttúrulistaverk úr því fallega efni sem náttúran leggur til.
 • Finndu selalátur og gakktu í nágrenni þess til að fylgjast með selunum. Þeir eru svo skemmtilega forvitnir. 
 • Finndu þér skóglendi. Taktu rólegan göngutúr inn á milli trjánna. Hafðu í huga að anda - slaka á – græða - horfa - hlusta - snerta - finna ilminn.
 • Ekki slá garðinn. Farðu frekar út í náttúruna til að skoða smádýr.
 • Veldu þér fugl. Farðu svo í fuglaskoðunarferð til að fylgjast með hegðun fuglanna.