Fara í efni

Náttúrukort

Útivist bætir hressir og kætir

Á Íslandi erum við svo lánsöm að búa í nálægð við náttúruna sama hvar við erum. Góður göngutúr leiðir okkur niður að sjó eða vatni, mólendi eða skógum. Á göngunni getum við andað að okkur fersku loftinu og notið þess sem fyrir augu ber.

Svo virðist sem hugarfarsbreyting sé að eiga sér stað í heiminum og við séum að átta okkur á þeim styrk sem við getum sótt í umhverfi okkar og náttúru. Læknar á Hjaltlandseyjum hafa verið að bjóða sjúklingum upp á náttúrudagatal með hugmyndum að hreyfingu og náttúrupplifun sem meðferðarúrræði og kollegar þeirra í Kanada ávísa á heimsóknir í listasöfnJapönsk skógarböð hafa einnig fengið aukna athygli en talsmenn þeirra benda á lækningarmátt skóglendis og hvetja til skógarferða til að bæta heilsu og líðan.

Í ljósi alls þessa viljum við því bjóða ykkur upp á 10 hugmyndir fyrir hvern mánuð ársins sem þið getið notað til að styrkja heilsuna og halda góðu jafnvægi.

Njótið náttúrunnar í samræmi við eigin getu – Njótið vel!

September

  • Ganga á á fjall í þínu nágrenni. Finna góðan útsýnisstað og reyna að átta þig á örnefnum sem sjást þaðan.
  • Bjóða fjölskyldunni út að borða, bókstaflega. Bjóða upp á þriggja rétta máltíð á skjólsælum stað úti í náttúrunni.
  • Fylgjast með öldunum í góðri haustlægð.
  • Kíkja á lífið í sveitinni. 
  • Finna góða mosabreiðu og leggja höfuðið á hana ofurvarlega til að raska ekki mosanum því hann vex svo hægt. Er nokkurn mýkri kodda að finna?
  • Fylgjast með oddaflugi farfuglanna – hvaða fuglar eru að æfa brottför?
  • Finna stað úti í náttúrunni sem þér finnst eiga best við þig. Skyldi hann vera uppi á fjalli, niður í fjöru, inni í skógi, út á engi . . . ?
  • Taka upp kartöflur eða grænmeti (hjá þér eða hjálpa öðrum).
  • Fara í berjamó. Tína ber og læra að þekkja lyngið.
  • Plokka. Leggja þitt af mörkum, ganga um og tína upp rusl.