Fara í efni

Heilsuefling

Aukin vellíðan á vinnustað

Heilsuefling á vinnustöðum er sameiginlegt verkefni vinnuveitenda, starfsfólks og samfélagsins alls og miðar að því að bæta heilsu og líðan vinnandi fólks. Með heilsueflingu á vinnustöðum er stefnt að því að auka vellíðan með því að bæta vinnuskipulag, vinnuumhverfi og samskipti á vinnustað. Meiri áhersla er nú lögð á möguleika starfsfólks og að það geti þróast í starfi og þetta hefur leitt til víðtækari skilnings á mikilvægi heilbrigðis, lífsgæða og frekara náms. 

Það er allra hagur að gera vinnustaðinn að stað þar sem starfsfólk nýtur sín og líður vel. Með heilsueflingu geta fyrirtæki og stofnanir einnig bætt ímynd sína og orðið eftirsóknarverðari vinnustaðir.

Ávinningur starfsfólks er aukin vellíðan, bætt heilsa, aukin starfsánægja, minni streita og meira jafnvægi í lífinu almennt auk færri slysa og sjúkdóma. Starfsgeta hvers og eins verður meiri og fólk getur jafnvel átt lengri starfsævi. Hagur vinnustaðarins getur falist í aukinni framleiðni, meiri nýsköpun, minni starfsmannaveltu og minni kostnaði vegna fjarveru, veikinda og slysa.

Vinnuveitendur sem hlúa að heilsu og vellíðan starfsfólks hafa ekki eingöngu jákvæð áhrif á starfsfólkið heldur einnig á fjölskyldu þess og samfélagið í heild. Mikilvægt er að á sem flestum vinnustöðum sé heilsuefling sjálfsagður þáttur í stefnu vinnustaðarins og unnið sé markvisst að henni. Sjá meira um um heilsueflingu á vinnustöðum hér

Hægt er að vinna að heilsueflingu á nokkrum stigum og er árangursríkast ef heilsueflingarstarf tekur til allra þriggja þátta sem koma hér fyrir neðan:

  • Byggja upp heilsusamlegt og styðjandi vinnuumhverfi þar sem stefna og hlutverk eru skýr, þjálfun og fræðsla fer fram og stjórnunarhættir fela í sér stuðning við starfsfólk. Þetta gagnast öllu starfsfólki, hvetur til heilbrigðra lífshátta og hefur jákvæð áhrif á líðan.
  • Skoða áhættuþætti í vinnuumhverfi og bregðast við þeim. Með þessu má koma auga á þá einstaklinga og þær vinnuaðstæður sem þarf að sinna sérstaklega og þarfnast sérstakra aðgerða.
  • Mikilvægt er að taka tillit til ólíkrar vinnufærni fólks og stuðla að því að einstaklingar með minna úthald eða færni haldist á vinnumarkaði og komi aftur til starfa eftir slys eða veikindi, hvort sem þau eru andlegs eða líkamlegs eðlis.

Tóbaksvarnir

Reykingar eru algengasta orsök margra sjúkdóma og ótímabærra dauðsfalla. Reykingar valda mörgum banvænum sjúkdómum, s.s. krabbameini, hjarta og æðasjúkdómum auk langvarandi veikinda og heilsubrests sem skerðir lífsgæði fólks verulega, oft langt um aldur fram. Reykingar eru ekki aðeins skaðlegar þeim sem reykja heldur öllum sem í kringum þá eru. Ekki er til það loftræstikerfi sem ræður við að hreinsa reykmettað andrúmsloft þannig að tryggt sé að það sé skaðlaust.

Í ljósi þessa eru reyklausir vinnustaðir eina leiðin til að tryggja öruggt umhverfi hvað þetta varðar. Samkvæmt vinnuverndar- og tóbaksvarnalögum ber vinnuveitanda að vernda starfsfólk gegn óbeinum reykingum í vinnunni.

Sjá nánar um tóbaksvarnir hér

Áfengis- og vímuvarnir á vinnustöðum

Áfengi er engin venjuleg neysluvara. Þótt það sé oftast notað í tengslum við skemmtanir er það róandi vímugjafi og hefur sljóvgandi áhrif á notandann. Afleiðingar áfengisnotkunar geta verið mjög skaðlegar en skaðsemin fer eftir neyslumynstri og magni áfengis sem neytt er.

Samkvæmt skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er áætlað að rekja megi um 3 milljónir dauðsfalla á ári til áfengis, það er um 5,4% allra dauðfalla. Auk þess að hafa líkamleg skaðleg áhrif hefur áfengisnotkun áhrif á töpuð góð æviár, vinnuframleiðni og margvísleg félagsleg- og andleg vandamál. Þar kemur einnig fram að engin lægri mörk áfengisnotkunar eru algerlega skaðlaus og áhættan eykst með aukinni notkun.

Sjá nánar um áfengis- og vímuvarnir hér

 

Hollt mataræði á vinnustað

Starfsfólk ver oft miklum tíma í vinnunni og því er mikilvægt að aðgengi sé gott að hollum og næringarríkum mat sem fylgir ráðleggingum Embættis landlæknis um mataræði. Maturinn hefur ekki aðeins áhrif á líðan og lund fólks heldur getur heilsan og starfsorkan beinlínis verið undir því komin að hollur og góður matur sé í boði. Aðstaða og umhverfi skiptir einnig máli og ætti að leitast við að hafa matarumhverfið rólegt og notalegt svo fólk geti komið saman og snætt holla og góða máltíð og notið matarins. Vinnustaðir þurfa að huga að næringarmálum, t.d. við gerð stefnu vinnustaðarins, og er æskilegt að slík vinna sé unnin náið með starfsfólki. Stjórnendur vinnustaða eru enn fremur hvattir til að bjóða upp á fræðslu um hollt mataræði.

Vinnustaðir eru hvattir til að halda utan um skráningu á fæðuofnæmi og fæðuóþoli starfsfólks og ávallt þarf að huga að þessum hópi við val á veitingum, hvort sem er í mötuneytinu, á fundum eða öðrum uppákomum þannig að eitthvað sé í boði fyrir alla.

 

Leiðir til að stuðla að góðu mataræði starfsmanna á vinnustað

Hægt er að gera holla matinn meira aðlaðandi með lægra verði, fjölbreyttu úrvali og með því að hafa hann vel sýnilegan. 
Æskilegt er að velja fyrst og fremst matvæli sem eru rík að næringarefnum frá náttúrunnar hendi, svo sem grænmeti, ávexti, ber, hnetur, fræ, heilkornavörur, baunir og linsur, feitan og magran fisk, olíur, fituminni og hreinar mjólkurvörur og kjöt og vatn til drykkjar. Takmarka ber hinsvegar neyslu á unnum matvörum sem innihalda oft mikið af mettaðri fitu, sykri eða salti. Sem dæmi má nefna gosdrykki, sælgæti, kex, kökur, snakk, skyndibita og unnar kjötvörur.

Bjóða ókeypis ávexti og grænmeti

  • Vinnustaðir eru hvattir til að bjóða starfsfólki sínu ókeypis ávexti og grænmeti á vinnustaðnum.

  • Tilvalið er að hafa ávexti og grænmeti á áberandi stað, t.d. inni á hverri deild eða kaffistofu.

Hafa gott aðgengi að köldu, fersku vatni

  • Hafa kranavatn, vatnsvélar eða vatnsbrunna aðgengilega fyrir starfsfólk sem víðast.

  • Bjóða einnig upp á kolsýrt vatn, án sítrónusýru (E330), til að auka fjölbreytni.

Bjóða upp á hollt fundarfæði

  • Kranavatn, kolsýrt vatn (án sítrónusýru E330), kaffi og te.

  • Niðurskornir ávextir/grænmeti.  

  • Hnetur og þurrkaðir ávextir.

  • Trefjaríkt heilkornabrauð með hollu áleggi

  • Ef vitað er af ofnæmi eða óþoli fundargesta fyrir einhverri fæðutegund skal taka tillit til þess við val á meðlæti.  

Ávextir og mikið af grænmeti

Bjóða mikið úrval af grænmeti með mat eða í salatbar. Tilvalið er að hafa grænmeti fremst á hlaðborðinu þegar fólk skammtar sér sjálft á diskinn. Hafa grænmeti í sem flestum réttum þar sem það á við en einnig að bjóða uppá grænmetis- og baunarétti reglulega.

Heilkornavörur

Bjóða heilkorna brauð af ýmsu tagi með a.m.k. 5 g trefja í 100 g. Velja skáargatsmerkt brauð og nota gjarnan bygg, heilkornapasta og hýðishrísgrjón sem meðlæti auk kartaflna oftar en fínunnar vörur.

Fiskur

Bjóða upp á fisk í mötuneytinu tvisvar í viku, bæði magran og feitan fisk.

Kjöt

Þegar kjöt er í boði að velja magurt óunnið kjöt sem oftast. Kjöt í hófi og takmarka unnar vörur.

Hollari fita

Nota ýmsar tegundir af matarolíu í matargerð t.d. rapsolíu og ólífuolíu í staðinn fyrir smjör, smjörlíki, kókósolíu eða aðra harða fitu.

Bjóða uppá baunamauk (hummus), pestó eða lárperur (avókadó) ofan á brauð.

Minna salt

Minnka notkun salts og saltríkra krydda en nota þess í stað önnur krydd án salts og velja saltminni vörur þegar sá möguleiki er fyrir hendi. Sjá nánar á landlaeknir.is/skodadusaltid

Minni viðbættur sykur

Mælt er með að draga úr framboði á sælgæti, kökum og kexi og bjóða frekar uppá ávexti og hnetur.

Hafa gott aðgengi að vatni og minnka aðgengi að gosdrykkjum.               

Minni matarsóun

Mikilvægt er að skipuleggja innkaup og eldamennsku því þannig má stuðla að hollu mataræði, draga úr matarsóun og vernda umhverfið. Sjá nánar á matarsoun.is

Hreyfing á vinnutíma