Fara í efni

Atvinnumissir og líðan

Atvinnumissir

Mikilvægt er að bregðast við sem fyrst
Ef þú ert í þeirri stöðu að hafa misst vinnuna eða sérð fram á að missa starfið þitt á næstunni er mjög mikilvægt að þú áttir þig á mikilvægi þess að bregðast sem fyrst við og hefja strax vinnu við að taka stefnu aftur inn á vinnumarkaðinn eða í nám. Veltu fyrir þér hvar þú viljir sjá þig á nýju ári, næsta sumar eða haust? 
Áfall
Það er vissulega áfall að missa vinnuna og vel þekkt að það mun hafa afgerandi áhrif á líðan þína og framtíð hvernig þú bregst við og hvaða stefnu þú tekur. Atvinnumissir getur dregið úr sjálfstrausti og með tímanum getur þú farið að efast um getu þína til að fá starf að nýju. Það er ofur eðlilegt að slíkar tilfinningar vakni en líka gott fyrir þig að vita að þú getur náð stjórn á þeim. Það gerir þú með því að taka stefnu sem er góð fyrir þig og þína. Hafðu hugfast að framtíð þín veltur á því sem þú gerir núna. 
Tækifæri
Margir sem hafa misst vinnuna óvænt tala um að þessi óvænta staða hafi falið í sér tækifæri sem þeir eru þakklátir fyrir að hafa getað nýtt sér. Í raun hafi það orðið þeim til góðs að missa vinnuna því að við þær breytingar hafi þeir valið að fara nýjar leiðir sem gerðu líf þeirra enn betra. Oft erum við svolítið föst í farinu og þá getur svona skellur virkað vel á okkur og ýtt okkur áfram til nýrra ákvarðana í átt að enn betra lífi fyrir okkur. Í því getur falist að flytja milli hverfa eða landshluta, fara í nám, ráða sig í nýtt starf sem reynir á styrkleika sem við vissum ekki að við byggjum yfir eða kynnast nýju fólki og fyrirtækjum. Mögulega gefst þér nú tækifæri til að láta gamla eða nýja drauma rætast. 
 
Tilfinningasveiflur
Til að forðast þær tilfinningasveiflur sem geta farið af stað við atvinnumissi er mikilvægt að þú sættist sem fyrst við orðinn hlut. Það getur verið freistandi að nýta fyrstu vikurnar í frí og slökun og fresta því að takast á við stöðuna, en það er farsælast að komast sem fyrst aftur í starf svo atvinnuleitin dragist ekki á langinn. Hafir þú hins vegar náð að taka þér smá frí ættu batteríin að vera vel hlaðin og þú í góðu standi til að marka þér nýja stefnu.
Sértu aftur á móti í þeirri stöðu að atvinnuleitin hefur dregist á langinn og þér finnst þú engum árangri ná, ert jafnvel við það að gefast upp, þá skaltu bregðast við sem allra fyrst og leita eftir aðstoð vina, kunningja, fjölskyldu eða sérfræðinga. Langvarandi dvöl með neikvæðum hugsunum er ávísun á vanlíðan og jafnvel veikindi. 
Þeir fiska sem róa
Þegar samdráttur er í landinu getum við staðið frammi fyrir auknu atvinnuleysi og um leið aukinni samkeppni um störf. Í slíku ástandi er hætta á að við höfum ekki nógu mikla trú á að okkur takist að finna starf og hugsum þá gjarna að  það séu engin laus störf þarna úti. En staðreyndin er sú að það losna alltaf störf og að það eru þeir sem eru vakandi, taka frumkvæði, fylgjast vel með og sækja um sem ná störfunum sem losna. Störf losna þegar starfsfólk veikist, tekur fæðingarorlof eða sumarleyfi, fer á eftirlaun eða ákveður að breyta til.
Hafðu í huga að þú átt jafn mikla möguleika og allir hinir og stundum jafnvel meiri. Það er því mjög mikilvægt fyrir þig að vera á tánum og kynna þig svo vel að eftir þér sé tekið. 
Stækkaðu leikvöllinn
Þegar staðan er sú að leitin að starfi hefur dregist á langinn gætir þú þurft að skoða fjölbreyttari möguleika til að fá ráðningu í starf. Þú ættir að spyrja þig af einlægni spurninga um aðferðir þínar, viðhorf og val á þeim störfum sem þú ert að sækja um. Þú gætir þurft að slá af kröfunum til að fá starf í því atvinnuástandi sem nú er og tileinka þér sveigjanleika. Góður leikur getur verið að stækka leikvöllinn og horfa til starfa eða náms sem þú hefur ekki verið að velta fyrir þér til þessa. 

 
Það getur komið á óvart hvað er margt spennandi hægt að gera og svo má alltaf halda áfram að leita að óskastarfinu meðfram öðru starfi enda gott að vera í starfi þegar atvinnuviðtal í draumastarfið býðst. 
Laun eða framfærsla
Það er nokkuð ljóst að fyrir flesta er það verulegur fjárhagslegur skellur að missa vinnuna. Það er því til mikils að vinna að finna leið út úr þeirri stöðu. Flestir sem hafa þá reynslu tala um að það sé mikill léttir að fá greidd laun að nýju fyrir vinnuframlag frekar en að þiggja lágmarks framfærslu og nokkuð ljóst er að laun fyrir vinnuframlag eru nær alltaf hærri en framfærsla frá hinu opinbera. Það má vera að þér takist ekki að finna draumastarfið í fyrsta kastinu en með launuðu starfi, hvort sem það er fullt starf, hlutastarf eða tímabundið starf, getur þú aukið innkomuna og betur tryggt þér og þínum farborða. 
Jákvæð skref í átt að starfi
Leggðu þig fram um að halda í jákvætt hugarfar og gera góða hluti fyrir þig. Þú gætir byrjað hvern dag á að spyrja þig „Hvað er það besta sem ég get gert fyrir mig í dag til að komast í vinnu?“ – Gerðu svo það sem er best fyrir þig þann daginn til að færast í áttina að starfi. 
Gjöf til vinar
Ef þig vantar hugmyndir gætir þú reynt að ímynda þér hvaða ráð þú myndir gefa besta vini þínum eða vinkonu sem væri í sömu stöðu. Þér gæti dottið í hug eitthvað af eftirfarandi:
  • Taktu frá hálftíma til að finna bestu leiðina fyrir þig í dag.
  • Fáðu vin eða sérfræðing til að lesa yfir ferilskrána og kynningarbréfið. Breyttu og bættu.
  • Farðu í göngutúr og leitaðu að fyrirtækjum sem þú gætir skoðað að vinna hjá.
  • Vaknaðu klukkan átta og gefðu þér tíma til að fá þér svalandi drykk og skrifa niður nokkrar hugmyndir að störfum eða fyrirtækjum.
  • Gerðu tímasetta framkvæmdaáætlun og haltu þig við hana.
  • Leitaðu á vefnum að auglýstum störfum, góðum ráðum eða hugmyndum.
  • Hafðu samband við gamlan eða nýjan vin eða félaga sem gæti mögulega „reddað“ starfi.
  • Framkvæmdu – Hafðu samband við fyrirtæki, sæktu um störf eða leitaðu þér aðstoðar.
  • Finndu út hver er stærsta hindrunin og finndu leið fram hjá henni.
  • Kæri vinur mundu að þú hefur svo margt að gefa. Hvað heldur þú að væri sniðugt að gera?
Láttu þér líða vel
Góð andleg og líkamleg heilsa er mikilvæg til að halda út við leitina að starfi. Hér á Velvirk.is finnur þú mörg góð ráð sem þú getur nýtt þér til að vera í góðu jafnvægi og auka vellíðan. 
Góð ráð í atvinnuleit
Gagnlegt efni um atvinnumissi og atvinnuleit getur þú fundið hjá VIRK og Vinnumálastofnun

Rússíbani tilfinninga

Þegar við tökum stjórn líður okkur betur
Hafir þú misst vinnuna er mikilvægt að hlusta eftir eigin tilfinningum. Það er vel þekkt hve mikið áfall það getur verið að missa vinnuna. Höfum samt í huga að tilfinningarnar búa innra með okkur sjálfum og að við getum haft stjórn á þeim, jafnvel þegar það virðist nánast ómögulegt.
Einstaklingar sem hafa lenti í erfiðu atvinnuleysi hafa líkt því við að setjast upp í rússíbana sem þeir hafi enga stjórn á. Það er því mikilvægt að þú áttir þig á því sem fyrst að þú þarft að forðast að fara upp í þennan rússíbana, eða ef þú ert þar nú þegar þarftu að gera allt sem í þínu valdi stendur til að taka stjórn á aðstæðum og stöðva vagninn.
Myndræna framsetningin á rússíbananum á að túlka þá rússíbanareið tilfinninga sem fer af stað við atvinnumissi og sýna að það sem við gerum hefur áhrif á tilfinningar okkar. Myndin sýnir að þegar við tökum stjórn líður okkur betur og leiðin að nýju starfi styttist. 
Til að forðast þennan rússíbana tilfinninga sem getur farið af stað er mikilvægt að tíminn frá atvinnumissi þar til þú viðurkennir stöðuna og hefur atvinnuleit sé sem allra stystur. Farsælast er að þú náir að koma þér sem fyrst í nýtt starf eða nám og sleppir alfarið frekari ferð í þessum rússíbana.
Reyndu umfram allt að forðast það að láta aðgerðaleysi og doða draga þig niður. Ef þér finnst þú upplifa höfnun og tengir við hana á myndinni mundu þá að það eru alltaf til leiðir í jákvæða átt sem þú getur valið að fara. Langvarandi dvöl í aðgerðaleysi er ávísun á vanlíðan og jafnvel veikindi. Ef þér finnst þú ekki ráða við aðstæður skaltu bregðast við sem allra fyrst, taka stjórn og stýra vagninum upp vonarbrautina í átt að nýju starf eða námi. Það gætir þú gert með því að finna nýjar leiðir fyrir þig eða leita þér aðstoðar.
_________________________________________________________________________________________
Á Aftur í vinnu – á síðu VIRK finnur þú góð ráð og verkfæri fyrir atvinnuleit ásamt gagnvirka sjálfshjálparefninu Hver ert þú? sem getur verið gagnlegt að fara í gegnum ef þú stendur frammi fyrir breytingum á starfsvettvangi.

Einnig hefur ASÍ útbúið upplýsingasíðuna Atvinnulaus? sem gæti verið gagnlegt að skoða.

Góð andleg og líkamleg heilsa er mikilvæg til að halda út við leitina að starfi. Hér á Velvirk.is finnur þú mörg góð ráð sem þú getur nýtt þér til að vera í góðu jafnvægi og auka vellíðan. 

Frekari aðstoð

Aðstoð gætir þú fengið frá vinum og fjölskyldu, fagaðilum eða hjá heilbrigðisstarfsfólki. Einnig bendum við á Hjálparsímann 1717 og netspjall ásamt síma Pieta-samtakanna 552 2218. 
_________________________________________________________________________________________

Láttu þér líða vel

Mikilvægt er að huga vel að andlegri og líkamlegri heilsu til að halda út tímann á milli starfa eða starfstímabila. Hér á Velvirk.is finnur þú mörg góð ráð sem þú getur nýtt þér til að vera í góðu jafnvægi og auka vellíðan. 

Fjármál

Þegar fólk missir vinnuna tekur við talsverð óvissa hvað varðar tekjur. Á vef Umboðsmanns skuldara er einmitt rætt sérstaklega um atvinnumissi og sagt að gott sé að setjast niður, fara yfir stöðuna og gera áætlun út frá neðangreindum þáttum:
  • Hvaða tekjur munt þú hafa?
  • Ef þú átt sparnað er gott að gera áætlun um nýtingu á honum svo hann dugi sem lengst.
  • Getur þú dregið úr útgjöldum heimilisins tímabundið?
  • Hvaða skuldbindingar ertu með, lán sem þarf að greiða af o.s.frv.
Hvað þarftu mikið til framfærslu og í önnur föst útgjöld heimilisins?
Bent er á útgjaldadagbókina Kladdann og að nota heimilisbókhald til að ná utan um stöðuna, en hægt er að hlaða niður formi fyrir einfalt heimilisbókhald á síðunni.

Þú gætir líka viljað kynna þér réttindi þín hjá stéttarfélaginu þínu, en þau bjóða félagsmönnum upp á ýmiskonar stuðning, fræðslu og styrki sem gætu nýst vel.

Upplýsingar um atvinnuleysisbætur færð þú hjá Vinnumálastofnun. Einnig hefur ASÍ útbúið upplýsingasíðuna Atvinnulaus?

Eigir þú ekki rétt á atvinnuleysisbótum og metur það svo að þú getir ekki séð þér og þínum farborða án aðstoðar bendum við á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

Starfslok