Fara í efni

Heilsutengdar áskoranir

Ef þú ert að glíma við heilsutengdar áskoranir sem hafa áhrif á starfið þitt er mikilvægt að þú finnir þær leiðir sem henta þér best og þá jafnvel í samráði við þinn heimilislækni. Það er svo margt sem við getum gert sjálf til að styrkja okkur og um leið stöðu okkar á vinnumarkaði. Ef það er hins vegar eitthvað í vinnuumhverfinu sem hefur áhrif á heilsu þína eða þú átt erfitt með væri gott að ræða það við yfirmann.

Veikindi

Þurfir þú að efla heilsu þína, ert að koma úr veikindum eða þarft að lifa með viðvarandi vanda þá gætir þú haft áhuga á að vinna með Heilsuhjólið eða önnur verkfæri og ráð hér að neðan. Það er svo margt sem við getum gert sjálf til að styrkja okkur.

Leitaðu aðstoðar heilbrigðisstarfsfólks hjá Heilsugæslunum ef þú telur að um alvarleg veikindi sé að ræða sem þurfa læknisaðstoðar með eða leitaðu upplýsinga á Heilsuveru.

Heilsuhjólið

Heilsuhjólið býður þér upp á nýja leið til að horfa á heilsu þína og skoða hvernig þú getur bætt hana. Heilsuhjólið er myndrænt verkfæri sem þú getur fyllt út í til að fá góða mynd af heilsunni. Myndina getur þú svo skoðað í einrúmi eða með vinum, fjölskyldu eða heilbrigðisstarfsfólki til að finna út hvað þú þarft að gera til að bæta líðan þína.

Þunglyndi, kvíði og þrálátir verkir

Glímir þú við þunglyndi, kvíða eða þráláta verki? Þá gætir þú mögulega nýtt þér sjálfshjálparefnið sem er að finna í handbókinni HAM - Hugræn atferlismeðferð. Þú ættir að gefa þér tíma í að skoða þessa leið og vita hvort þú nærð árangri upp á eigin spýtur eða getir nýtt þér meðfram öðrum úrræðum. Hafðu samt í huga að það gæti verið þörf á aðstoð fagaðila á borð við sálfræðing. 

App til að bæta líðan

Langar þig að auka andlega vellíðan? Þá gæti Happ appið verið lausn fyrir þig. Í appinu eru jákvæð inngrip í formi æfinga sem fólk getur gert til þess að auka hamingju/vellíðan og draga úr einkennum þunglyndis og kvíða. Appið var unnið í samstarfi við embætti landlæknis og er ókeypis fyrir alla landsmenn.

Verkir

Glímir þú við verki? Verkir geta verið flóknir, en þeir eru alltaf raunverulegir.

Í greininni Verkir eru alltaf raunverulegir er fjallað um hvernig mögulega er hægt að koma í veg fyrir eða sigrast á langvinnum verkjum.

Bakverkir eru ein algengast orsök fjarveru frá vinnu. Þegar verkir eru í baki er mikilvægt að hafa í huga að hreyfing og aukin virkni er líklegri til að flýta fyrir bata.  Hér finnur þú 10 ráðleggingar um hvernig takast á við bakverki og minnka líkur á að þeir endurtaki sig.

Einnig er hér í greininni Að hlífa sér of mikið getur hindrað bata áhugaverð umfjöllun sem þér gæti fundist gagnlegt að lesa. Svo má hafa í huga að leita aðstoðar sjúkraþjálfara. 

Virkni

Hefur þú hugsað út í hvað það getur haft góð áhrif á heilsuna að halda virkni og vera á hreyfingu? Ef hreyfing hefur verið í lágmarki hjá þér undanfarið gæti það hjálpað þér að bæta smá hreyfingu inn í líf þitt eða einhverri skemmtilegri virkni til að ná betri heilsu og líðan.

Hugmyndir að hreyfingu

Það er úr mörgu að velja ef þig langar að auka hreyfingu og útivist. Í Hugmyndir að hreyfingu finnur þú fullt af góðum hugmyndum og ráðleggingum sem gætu dugað til að taka fyrstu skrefin í átt að hressandi lífsstíl.

Lækningamáttur hreyfingar

Getur verð að þú getir bætt heilsuna með því að hreyfa þig meira? Hreyfingarleysi er einn af mikilvægum áhrifaþáttum algengra sjúkdóma. Þú gætir því viljað ræða við lækninn þinn um þann möguleika að nota Hreyfiseðil til að bæta heilsuna.

Útivist bætir hressir og kætir

Hefur þú áttað þig á þeim styrk sem þú getur sótt í íslenska náttúru? Í Náttúrukortinu finnur þú hugmyndir sem nýtast til að styrkja heilsuna og halda góðu jafnvægi. Góður göngutúr leiðir okkur niður að sjó eða vatni, mólendi eða skógum. Á göngunni getum við andað að okkur fersku loftinu og notið þess sem fyrir augu ber. 

Getur vinnan flýtt fyrir bata?

Ef þú ert að glíma við veikindi meðfram vinnu eða að velta fyrir þér hvort þú ættir að fara aftur að vinna að loknu veikindaleyfi getur verið gagnlegt fyrir þig að vita að rannsóknir sýna að ávinningur af atvinnuþátttöku og samstaf við vinnufélaga getur flýtt verulega fyrir bata. Nokkuð augljós er ávinningurinn af fjárhagslegu öryggi en ánægjan og lífsfyllingin sem þú færð þegar þú getur lagt af mörkum til samfélagsins og notið virðingar fyrir störf þín er ekki síðri. 

Ertu að koma til baka í starfið þitt?

Á Aftur í fyrra starf er að finna góð ráð fyrir þig ef þú hefur verið í veikindaleyfi um einhvern tíma og ert að koma aftur til starfa. Það er fullkomlega eðlilegt að finna fyrir fyrir bæði tilhlökkun og kvíða fyrir fyrsta daginn og því gott að renna yfir hvað sé gott að hafa í huga.

Ertu að fara í nýtt starf eftir langt hlé?

Ef þú hefur ekki verið á vinnumarkaði í langan tíma og ert að byrja i nýju starfi gæti verið gagnlegt að skoða Endurkoma til vinnu eftir langt hlé - góð ráð svona til að ná að draga úr óöryggi og geta mætt til leiks með bros á vör.

Streita og álag

Þjónusta VIRK