Útivera og gjafir náttúrunnar
Að rækta garðinn sinn
Við tengjum garðvinnu yfirleitt við ræktarlegan gróður og væna uppskeru, en hugsum síður út í heilsufarslegt gildi vinnunnar sjálfrar. Garðrækt hefur margháttuð jákvæð áhrif á líf okkar, við fáum mikilvæga og fjölbreytta hreyfingu, styrkjumst, öndum að okkur fersku lofti, lifum í núinu um stund, reynum á minni okkar og kunnáttu, fáum útrás fyrir sköpunargleði og uppskerum oft ríkulega, hvort sem við erum að rækta grænmeti eða fegra umhverfið. Það er eitthvað sérstakt við að sjá plöntur vaxa og dafna.
Í samantekt frá árinu 2016 voru skoðaðar um 20 rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum garðræktar á fólk. Höfundar álykta að henni fylgi margvíslegir heilsufarslegir kostir. Það eru tengsl milli garðræktar og almennrar ánægju með lífið, hún bætir þrek og léttir skap, eykur andlega vellíðan og eflir hugræna virkni. Hún dregur úr streitu, þunglyndi, kvíðaeinkennum og þreytu. Með aukinni hreyfingu eykst almennur styrkur og fólk á auðveldara með að létta sig og sporna gegn vandamálum sem tengjast lífsstíl.
- Bein tenging við náttúruna gerir okkur gott. Svo virðist sem við náum að jafna okkur á andlegri þreytu og eigum auðveldara með einbeitingu eftir að hafa notið hennar.
- Hreyfingin sem nauðsynleg er í garðvinnu hefur víðtæk jákvæð áhrif á okkur og bætir andlega og líkamlega heilsu.
- Félagsleg tengsl geta styrkst. Stundum vinnur fjölskyldan saman og tengsl geta skapast ef menn eru með matjurtagarð, stunda skógrækt eða vinna á sameignarlóðum. Margir eiga líka í óbeinum samskiptum við aðra í áhugahópum um garðrækt, t.d. á samfélagsmiðlum.
- Óbein áhrif eru svo mögulega hollt mataræði ef ræktaðar eru matjurtir.
Skógarböð
Jákvæð áhrif skógarbaða samkvæmt rannsóknum eru:
-
Efla ónæmiskerfið
-
Minnka blóðþrýsting
-
Draga úr streitu
-
Létta lund
-
Auka einbeitingu - einnig hjá börnum með ADHD
-
Hraða bata eftir skurðaðgerðir eða veikindi
-
Auka orku
-
Bæta svefn
Þeir sem stunda skógarböð daglega geta að auki gert sér vonir um:
-
Aukið innsæi
-
Aukið orkuflæði
-
Aukna færni í að nálgast náttúruna og fjölbreytileika hennar
-
Aukið flæði lífs-kraftsins
-
Nánari vináttu
-
Aukna hamingju
Útivera í matartímanum
Í skammdeginu getur verið erfitt að fara í og úr vinnu í svarta myrkri. Á sumum vinnustöðum er ekki mikla dagsbirtu að hafa yfir daginn eða ekki tóm til að horfa út um gluggann. Sumir starfsmenn sjá því varla dagsbirtu á virkum dögum mánuðum saman. Þá er frábær hugmynd að skreppa aðeins út í hádeginu, þó ekki sé nema í 15 mínútur. Best er að taka röskan göngutúr, en í raun er öll útivera góð til að ná í hina mikilvægu dagsbirtu sem hefur áhrif á dægursveifluna og hjálpar okkur að sofa betur á nóttunni. Útiveran brýtur upp daginn, léttir lund og gefur ákveðna fjarlægð á verkefnin svo við verðum ferskari seinni partinn. Ef við höfum tök á að líta út um gluggann yfir daginn er um að gera að nýta sér að „safna“ þeirri birtu sem við mögulega getum.
Sjá umfjöllun um svefn hér.
Nálægð við vatn, lykill að hamingju?
Stór rannsókn á hamingju í náttúrlegu umhverfi var gerð árið 2014 en þá voru 20.000 snjallsímanotendur beðnir að tiltaka með handahófskenndu millibili í hvaða umhverfi þeir voru staddir og hvernig þeim leið þá stundina. Í ljós kom að þeir sem voru staddir nálægt strönd voru talsvert ánægðari en þeir sem staddir voru í borgarumhverfi.
Það er samband milli þess að búa nálægt sjó og betri almennrar og andlegrar heilsu en það hefur einnig góð áhrif að heimsækja ströndina, til dæmis tvisvar i viku. Rannsakendur telja að tveir tímar á viku nálægt sjó gætu verið gagnlegir fyrir marga. Sjávarútsýni hefur einnig verið tengt við betri andlega heilsu.
Svo virðist sem nálægð við vatn hafi jákvæð áhrif á vellíðan, heilsu og hamingju á þrjá vegu. Í fyrsta lagi er oftast minni mengun og fólk nýtur meiri sólar nálægt sjó. Í öðru lagi er fólk sem býr nálægt vatni oft líkamlega virkara, stundar íþróttir í vatni, gengur eða hjólar meira en aðrir. Í þriðja lagi virðist vatnið sjálft vera andlega endurnærandi og með því að verja tíma á vatnasvæði getur dregið úr neikvæðni og streitu.
Við finnum líka fyrir jákvæðum áhrifum við læki, vötn, fossa og jafnvel gosbrunna. Vatnshljóð og ljósbrot í vatni virðist auka á endurnærandi áhrif.

Ráðlagður dagskammtur af náttúrunni
Andstæða þess að sitja og stara á símann klukkutímum saman er að fara úr húsi og njóta náttúrunnar. Margir þekkja af eigin raun hve slakandi það er að fara niður að sjó eða vatni og rölta um í skóglendi. Að horfa til himins og sjá skýjamyndir, líta til fjalla eða fram eftir strandlengju.
Áhugaverð kenning er um að við mannfólkið bregðumst við á ákveðinn og jákvæðan hátt þegar við sjáum form og mynstur náttúrunnar, svokallaðar brotamyndir (e. fractals). Mynstrin eru flókin og byggja á endurtekningu, dæmi má sjá í plöntunum á mynd hér til hægri.
Það virðist okkur eðlislægt að skilja og þekkja þessi form þegar í stað og þau eru ekki krefjandi eins og annað sem fyrir augu ber í okkar daglegu tilveru. Rannsókn hefur sýnt að brotamyndir virðast auðvelda fólki að jafna sig á streitu.