Fara í efni

Samskiptasamningar

Sum fyrirtæki hafa komið sér upp leikreglum um samskipti sem oftast eru byggðar á viðmiðum og ramma sem starfsmenn sjálfir koma sér saman um. Vinna við gerð slíkra samskiptareglna getur verið mjög gagnleg og mikilvægt er að hafa þær aðgengilegar, minna á þær reglulega og kynna fyrir nýjum starfsmönnum. Til að traust skapist um slíkan samskiptasamning er mikilvægt að starfsfólk upplifi að samningurinn gildi um alla á vinnustaðnum og þar með talið stjórnendur. Ef vel tekst til þá verður auðveldara að ræða erfið samskipti sem geta komið upp á vinnustað með tilvísun í samninginn og starfsfólk treystir sér þá jafnvel einnig til að ræða um erfið samskipti yfirmanns. 

Samskiptasamningur VIRK

Á vordögum 2017 var haldin vinnustofa með öllu starfsfólki VIRK um mikilvægi góðra samskipta á vinnustað og gerði starfsfólk með sér Samskiptasamning.
Auður Þórhallsdóttir, mannauðsstjóri VIRK, segir að tilgangur með gerð svona samnings sé að starfsfólk upplifi vellíðan í vinnu og sálrænt öryggi og ákveði í sameiningu hvernig hegðun það vilji að ríki á vinnustaðnum. „Samskiptasamningur VIRK inniheldur níu innihaldsríkar setningar sem við erum afar stolt af og er starfsfólk hvatt til að starfa eftir honum, ásamt gildum VIRK sem eru metnaður, virðing og fagmennska. Við ráðningu nýs starfsfólks er farið vel yfir Samskiptasamninginn og mikilvægi hans í menningu VIRK. Einnig hikum við ekki við að grípa inní og ræða við starfsfólk ef okkur finnst að ekki sé farið eftir honum.“
Á myndinni hér að neðan má sjá setningarnar níu sem eru vel sýnilegar á vinnustaðnum.

 

Samskiptasáttmáli Landspítala

Landspítalinn hefur innleitt ítarlegan samskiptasáttmála sem tæplega 700 starfsmenn þróuðu á 50 vinnufundum. Tilgangur sáttmálans er annars vegar að auka öryggi sjúklinga og hinsvegar að bæta líðan starfsfólks, en það er gert með skýrum, skilvirkum, hlýjum og jákvæðum samskiptum. Sáttmálinn nær til allra sem starfa á spítalanum óháð stöðu og starfsstétt.

Í formála Páls Matthíassonar fyrrverandi forstjóra LSH kemur fram að sáttmálinn sé byggður á raunverulegri reynslu og upplifun starfsfólks spítalans á öllum sviðum. „Allt starfsfólk hefur hlutverki að gegna í eftirfylgni sáttmálans. Við skiptum öll máli í gangverki spítalans. Gagnkvæm virðing, skýr samskipti og boðleiðir, samvinna og samkennd auka bæði öryggi og vellíðan í starfi og skila sér í betri þjónustu við sjúklinga.“

Sáttmálanum samanstendur af átta þáttum: Viðmóti, virðingu, fagmennsku, umhyggju, skilningi, ábyrgð, hreinskilni, jafnræði og viðbrögðum.

Jákvæð samskipti smita út frá sér