Fara í efni

Streita og álag

Töluvert er talað um streitu og kulnun þessa dagana og svo virðist sem stöðugt fleiri séu að kikna undan álagi. Í skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar segir að kulnun sé hvorki líkamlegur né andlegur sjúkdómur heldur sé um að ræða ástand sem er afleiðing langvarandi streitu á vinnustað sem ekki hefur tekist á árangursríkan hátt að ná stjórn á. Kulnun vísar til fyrirbæra í tengslum við vinnuumhverfið og ætti ekki að nota orðið til að lýsa reynslu á öðrum sviðum lífsins. Almennt höfum við hjá VIRK þó valið að tala um streitu og horfa til þess hvernig hún þróast í stað þess að tala um kulnun.

Streitustiginn

Smelltu á myndina til að hlusta á kynningu á Streitustiganum.

Streitustiginn er verkfæri sem vinnustaðir geta notað til að átta sig á streitu og búa sér til sameiginlegan orðaforða um álag og streitu á vinnustaðnum. Streitustiginn gagnast við að greina hvort streita er til staðar á vinnustaðnum, hversu alvarleg hún er og til að velja leiðir til úrbóta í framhaldinu ef þarf. Hann er hentugt tæki til að fá skýrari mynd af því hvernig streita þróast og auðveldar okkur að tala um hana. Streitustigann má því nota til að skoða streitu á vinnustaðnum, í teymunum eða hjá starfsfólki.

Kynning á Streitustiganum

Þú getur kynnt þér Streitustigann í þessari Kynningarmynd um Streitustigann. Sálfræðingar VIRK Berglind Stefánsdóttir og Guðrún Rakel Eiríksdóttir fara með okkur í ferð um streitustigann og lýsa hverju þrepi fyrir sig. Þær segja frá því hvernig streita getur þróast og fjalla um helstu einkenni streitu. Nánari upplýsingar hér á Streitustiginn.

Streitustiginn kemur úr bókinni Stop stress – håndbog for ledere (2016) eftir Marie Kingston og Malene Friis Andersen.

Hvar er vinnustaðurinn eða teymið á Streitustiganum?

Þú getur notað Streitustigann til að máta vinnustaðinn eða einstök teymi við hann og metið stöðuna með tilliti til streitu. Í efninu sem fylgir Streitustiganum er síðan hægt að finna gagnleg ráð og verkfæri sem stjórnendur og starfsfólk geta notað til að takast á við streituna og skapa gott jafnvægi á vinnustaðnum. Það vilja allir vera svalir!

Hvar ert þú á Streitustiganum?

Þú getur líka notað Streitustigann til að máta þig við hann og meta stöðuna hjá þér með tilliti til streitu. Í efninu sem fylgir Streitustiganum finnur þú gagnleg ráð og verkfæri til að takast á við streituna og vera í góðu jafnvægi.

Hvað er til ráða?

Góðu fréttirnar eru þær að Streitustiganum fylgja nokkur verkfæri sem stjórnendur geta notað í starfi sínu bæði í þeim tilgangi að fyrirbyggja streitu og einnig til að finna leiðir fyrir vinnustaðinn, teymin eða starfsfólk út úr streituástandinu. Verkfærin getur þú nálgast hér undir Streitustiganum.

Þegar þú hefur náð að staðsetja vinnustaðinn, teymið eða starfsmann á Streitustiganum getur þú valið að nota verkfæri sem sálfræðingarnir sem hönnuðu streitustigann mæla með á hverju þrepi fyrir sig.

Svalur

Allir vinnustaðir vilja vera svalir og til að ná því er ekki úr vegi að starfsfólkið Skelli sér í þjónustuskoðun svona einu sinni á ári til að rétta af kúrsinn og viðhalda vinnugleðinni.

Jafnframt getur verið gagnlegt fyrir stjórnendur að kynna sér hvað þarf að vera til staðar til að ná eða viðhalda svala þrepinu og hvernig sé hægt að ná því. Þegar að vinnustaðurinn er svalur ríkir vellíðan í starfsmannahópnum og fyrirtækið nær að hámarka afköst og afkomu.

Volgur

Á volga þrepinu getur verið gott að fara yfir verkefnin, flokka þau eftir mikilvægi og forgangsraða. Til þess getur stjórnandi notað verkfærið fyrir forgagnsröðun verkefna.

Ef vinnustaður, teymið eða starfsmaður mátar sig við volga þrepið er kjörið að tala saman um streitu og álag og hlúa að samskiptum á vinnustaðnum, í teymum eða hjá einstaka starfsmönnum. Volga þrepið þekkjum við flest og ekkert að því að vera á því annað slagið. Nánari upplýsingar fyrir volga þrepið hér.

Það er þó rétt að hafa í huga hvað þarf til að ná og viðhalda svala þrepinu því þar virkar starfsfólkið best.

Logandi

Ef vinnustaðurinn, teymið eða einstökum starfsmönnum finnist þeir vera á logandi þrepi streitustigans eru þeir farnir að strögla í starfi og ekki ólíklegt að þeir séu í ákveðinni afneitun á stöðunni. Í þeim tilvikum er ekki úr vegi að bjóða starfsfólki upp á smá Raunveruleikatékk.

Vegna þess hvað starfsmaður getur fundið sig í viðkvæmri stöðu á þessu þrepi getur verið gott að allir þekki til Streitustigans og geti sjálfir sótt sér verkæri hans til að vinna með. Á logandi þrepinu getur reynst erfitt að tala við aðra um stöðuna og því gott að geta á einfaldan hátt nálgast verkfærið Ræddu við yfirmann þinn til að komast yfir þá hindrun.

Góður leiðtogi gæti haft frumkvæði að því að ræða stöðuna við starfsmann og getur nýtt sér tillögur fyrir Streituviðtalið til þess.

Að endingu er gott að hafa í huga hvað þarf til að ná og viðhalda svala þrepinu.

Bráðnaður

Ef vinnustaðurinn, teymið eða einstaka starfsfólk er að bráðna er full ástæða til að grípa inn í þróun mála með afgerandi hætti og það er á ábyrgð stjórnenda að gera það.

Stjórnandi gæti aðstoðað bráðinn starfsmann eða teymi með því að nota hugmyndir úr Streituviðtalinu og setja síðan upp í samstarfi við starfsmann/starfsfólk/teymið nýtt skipulag fyrir vinnutíma, verkefni og samskipti á vinnustað.

Þá gæti verið gagnlegt fyrir starfsmann í viðkvæmri stöðu á þessu þrepi að hafa aðgang að Jafnvægi á milli virkni og hvíldar til að átta sig á hvar hann tapar út orku og hvar hann getur unnið hana aftur.

Að endingu er gott að hafa í huga hvað þarf til að ná og viðhalda svala þrepinu því vinnustaðurinn þarf að gera sér grein fyrir hvar rót streitunnar liggur. 

Brunninn

Ekki er líklegt að vinnustaður eða heilu teymin máti sig á bruna þrepinu en einstakir starfmenn gætu gert það og eru þeir að öllum líkindum mikið frá vinnu eða hafa verið það í nokkurn tíma.

Góður leiðtogi myndi styðja vel við starfsmann í veikindaleyfi, vera í sambandi við hann á jákvæðum nótum, sýna skilning og umhyggju. Það er vel þekkt að einstaklingur á bruna þrepinu þarf svigrúm og tíma til að ná sér og komast aftur til vinnu.

Eftir einhvern tíma þegar starfsmaður er farinn að ná sér gæti hann haft gagn af að vinna verkfærið Lærðu af streitutímabilinu því það auðveldar honum skrefin fram á við.

Að endingu er gott að vinnustaðurinn hafa í huga hvað þarf til að ná og viðhalda svala þrepinu til að auðvelda starfsmanni endurkomuna og skapa gott vinnuumhverfi fyrir starfsfólkið almennt.

Grunnforsendur að heilbrigðum vinnustað

Mikilvægt er fyrir stjórnendur og leiðtoga á vinnustöðum að þekkja þær sex grunnforsendur sem þurfa að vera til staðar á vinnustað til að stuðla að vellíðan og koma í veg fyrir streitu og kulnun. Grunnforsendurnar sex eru settar fram af Dr. Christina Maslach, prófessor við Berkeley háskóla í Kaliforníu, en alþjóða heilbrigðisstofnunin byggir skilgreiningu á kulnun sem vinnustaðavanda á kenningum hennar.

  • Í Stjórnendahjólinu eru grunnforsendurnar sex settar fram á aðgengilegan hátt og gefin góð ráð um hvað þurfi að gera á vinnustöðum til að bæta stöðuna.

Streita stjórnenda

Starf leiðtogans er spennandi, flókið og krefjandi og þess eðlis að þér sem áhugasömum leiðtoga gæti fundist þú alltaf geta gert aðeins betur. Það reynist því oft erfitt að setja mörk.
  • Streita stjórnandans fjallar um hvernig streita getur þróast hjá leiðtogum og stjórnendum. Þar finnur þú jafnframt efni til að meta stöðu þína með tilliti til streitu og kynnist lífsreglunum fjórum sem geta reynst þér vel til að takast á við eigin streitu.

Þjónusta VIRK