Fara í efni

Viðtal við Machteld Huber

Manni getur liðið vel þrátt fyrir veikindi. 
Í ársriti VIRK 2019 er áhugavert viðtal sem Anneleen Vermeire tók við Machteld Huber. Huber er meðal annars spurð hvað átt sé við með „jákvæðri heilsu“. „Fyrir ekki svo löngu lærðu nemendur í læknisfræði að það að vera heilbrigður fæli í sér að vera ekki veikur. Sem ungur heimilislæknir lenti ég sjálf nokkrum sinnum í alvarlegum veikindum. Í þeim veikindum uppgötvaði ég að þessi fullyrðing um heilbrigði væri ekki rétt. Jafnvel þó að ég væri að kljást við líkamleg veikindi gæti mér samt liðið vel.
Í samtölum mínum við aðra í svipaðri stöðu, varð ég vör við sömu upplifun, þ.e. að manni gæti liðið vel þrátt fyrir veikindi. Heilbrigði snýr að lífinu í heild, það snýst um meira en bara líkamlega heilsu. Ég áttaði mig á því að þrautseigja skiptir miklu máli. Hversu heilbrigður finnst þér þú vera? Hvað er það sem þú getur gert þrátt fyrir veikindi? Hvernig getur þú styrkt þig? Það er sú nálgun að horfa á einstaklinginn í víðara samhengi og á jákvæðari hátt sem jákvæð heilsa byggir á,” segir Huber.
 

Hún er spurð út í það sem hún hefur sagt um að það að vera veikur sé ekki það sama og að vera með sjúkdóm. Hvað á hún við? „Að vera veikur er í raun og veru eitthvað annað en að vera með sjúkdóm. Í byrjun ertu raunverulega veikur. Þú færð sjúkdómsgreiningu og í kjölfarið meðferð. En þó að þú náir ekki fullum bata strax eða munir kannski aldrei ná þér að fullu líkamlega, verður þú eftir vissan tíma ekki bara veikur einstaklingur. Annað í lífi þínu skiptir máli, t.d. félagsleg samskipti við aðra og viðhorf þitt til lífsins. Þessi atriði fara að vera meira í forgrunni eftir því sem tíminn líður og þú aðlagar þig að veikindum þínum.”

Með því að vinna með heilsuhjólið er hægt að fá góða innsýn í stöðu mála segir Huber. „Í framhaldi er hægt að skoða hvernig hægt er að bæta heilbrigði á ýmsum víddum. Hægt er að velja hvaða vídd maður vill vinna með en ef unnið er með eina vídd eru líkur á að staða mála í öðrum víddum batni samhliða þar sem víddirnar sex hanga saman. Þá er hægt að svara spurningalistanum seinna til að skoða hvernig manni miðar."

              

Við erum ekki vön að gefa sjálfum okkur gaum.
„Heilsuhjólið gerir þér kleift að vinna með mismunandi þætti hjá sjálfum/sjálfri þér. Heilbrigðisstarfsmenn, vinir eða fjölskyldumeðlimir geta einnig aðstoðað þig við að finna út hvers þú þarfnast til að bæta líðan þína. Þannig öðlast þú meiri þrautseigju og lærir hvernig þú getir bætt líðan þína jafnvel þó að þú sért veik(ur).“
Hún telur að það geti gagnast öllum að fylla út í hjólið, jafnvel þó að við séum heilbrigð og hraust. „Við erum ekki vön að gefa sjálfum okkur gaum. Spurningalistinn gefur okkur tækifæri til að staldra við og skoða ýmsa þætti hjá okkur sjálfum. Jafnvel þó að þér líði vel, getur þú sett þér lítil markmið.“

Slóð á ársrit VIRK 2019 í heild.