Að vinna heima
Margir hafa spáð því að fjarvinna muni aukast á næstu misserum í ljósi nýfenginnar reynslu. Hér á velvirk.is má finna talsvert efni um fjarvinnu sem snýr bæði að almennum starfsmönnum og stjórnendum.
Kannanir sem gerðar hafa verið sýna ýmsa góða kosti fjarvinnu fyrir bæði starfsfólk og fyrirtæki en þó ljóst að hún hentar ekki öllum verkefnum og ekki endilega öllu starfsfólki. Áhugavert verður að sjá í framtíðinni hvort fjarvinna geti raunverulega aukið jafnvægið á milli vinnu og einkalífs og dregið úr streitu.
Ávinningur af heimavinnu
- Ánægðara starfsfólk og veruleg aukning í afköstum. Starfsfólkið er við vinnu allan vinnutímann og einbeiting mun meiri en í áreitinu á vinnustað.
- Verulega dregur úr starfsmannaveltu. Hægt að spara tíma í ráðningum og þjálfun nýs starfsfólks.
- Fjárhagslegur ávinningur er töluverður. Ávinningur er vegna aukinna afkasta, minni starfsmannaveltu og lægri kostnaðar vegna húsnæðis.
Auk þessa þekkjum við ávinning samfélagsins þegar færra fólk er á ferðinni, bæði hvað varðar mengun og skipulag. Þetta ásamt ýmsu öðru áhugaverðu um fjarvinnu og tvinnvinnu má lesa um á vef Apollo Technical.
Í nýrri Buffer könnun frá árinu 2022 kemur fram að 97% starfsfólks myndi vilja vinna áfram í fjarvinnu og mæla með henni. Þá sögðust 90% hafa jákvæða reynslu af fjarvinnu. Helstu kostina við fjarvinnu segir starfsfólk vera sveigjanleika í hvernig tíma þeirra er varið og sveigjanleika í hvar þeir vinna. Einnig að það hafa meiri tíma þegar ekki þurfi að ferðast til vinnu og svo að geta valið eigin búsetu. Þá sé fjárhagslegur ávinningur af fjarvinnu og auðveldara að einbeita sér að verkefnunum. Helstu ókostirnir séu hins vegar að ná að slíta sig frá vinnunni í dagslok og svo einmanaleikinn, en hvoru tveggja gætu að vísu líka verið fylgifiskar covid tímans.
Ráð við heimavinnu
- Hafa fastan vinnutíma. Best er að byrja á föstum tíma á morgnana, setja upp vinnuáætlun og halda sig við hana. Sveigjanleiki er einn af kostunum við heimavinnu en mikilvægt að byggja á venjum og góðu skipulagi.
- Hefja störf og ljúka á sama tíma. Setja sig í vinnustellingar frá upphafi vinnudags og ekki sinna öðru svo vinna þurfi fram á kvöld. Forðast að láta starfið flæða inn í frítímann.
- Viðhafa morgunrútínu. Fara í háttinn á skynsamlegum tíma, vakna á sama tíma, sinna hefðbundnum morgunverkum, klæða sig í vinnufötin og láta venjur leiða sig inn í starfið.
- Setja skýr mörk fyrir aðra á heimilinu. Koma því til skila að ekki sé hægt að sinna erindum eða verða fyrir truflun á vinnutíma, loka sig af eins og hægt er.
- Taka pásur og passa upp á líkamsstöðu. Það er mikilvægt að taka pásur til að hvílast eða standa upp, liðka sig og hreyfa, jafnvel fara út.
- Útbúa góða vinnuaðstöðu. Hafa umhverfið snyrtilegt, huggulegt og án áreitis. Stilla vel af borð, stól og skjái.
- Takmarka tíma á frétta- og samfélagsmiðlum á vinnutíma. Það skilar sér í betri einbeitingu og meiri afköstum.
- Vera í sambandi við yfirmann og samstarfsfólk helst daglega. Þekkja þarf verkefni dagsins og ekki hika við að biðja um aðstoð, aðföng eða úrræði. Samstarf og spjall er mjög mikilvægt (helst í mynd) til að koma í veg fyrir einangrun.
- Ekki nota pásur í heimilisstörf. Stilla sig inn á að vera alveg í vinnunni á vinnutíma, mörkin renna til í huganum þegar þessu er blandað saman.
- Mikilvægt að minna á sig. Mæta á fundi og taka þátt. Hafa samband og láta vita af sér, upplýsa um viðveru, þegar verkefnum er skilað eða farið er í orlof.
- Sýna jákvæðni. Vanda skrifleg samskipti því þegar líkamstjáningin fylgir ekki með er aukin hætta á mistúlkun. Nota broskalla og önnur jákvæð tákn.
- Kúpla sig alveg út þegar vinnudegi lýkur og gera eitthvað allt annað. Þá má skella í vél, fara í ræktina eða út að viðra sig.
Ítarefni um fjarvinnu
- Vinnuvernd í fjarvinnu af vef Vinnueftirlits.
- Líkamleg álagseinkenni í fjarvinnu. Af velvirk.is.
- Góð ráðum fjarvinnu í teymum frá Sigurjóni Þórðarsyni. Af velvirk.is.
- Hollráð Sóleyjar: „Ekki fyrir alla að vinna í fjarvinnu“. Grein á visir.is.
- Gott og ítarlegt efni um fjarvinnu og að vinna einn frá BrancheFællesskabet for Arbejdsmiljø for Velfærd og Offentlig administration.
- Eru Zoom-fundirnir orkusugur? Grein á velvirk.is.
- Léttar æfingar frá NIVA Education, aðeins 2,27 mín. Henta vel til að liðka sig á milli verkefna.
- 10 hugmyndirað hreyfingu í fjarvinnu.