Fara í efni

Snjallsíminn

Snjallsímanotkun

Er síminn streituvaldur?
Mikil snjallsíma- og tölvunotkun getur dregið úr hefðbundnum mannlegum samskiptum og jafnvel leitt til aukinnar streitu. Eins og tæknin hefur leitt til mikilla framfara og auðveldað okkur lífið er kannski komið að því að við þurfum að endurskoða hvernig við viljum nota samfélagsmiðla okkur til gagns og ánægju. 
Er komið að því að skoða hversu mikil áhrif snjallsíminn hefur á líf þitt? Almennt er fólk að tala um að síminn taki frá þeim tíma og athygli sem það hefði viljað beina í annan og jákvæðari farveg og ýmsar rannsóknir sýna að hann er raunverulegur streituvaldur. 

12 leiðir til að draga úr snjallsímanotkun

 1. Leggja símann frá sér á ákveðinn stað þegar heim er komið
 2. Sleppa símanum í rúminu, við matarborðið og í fjölskyldu- og vinahóp
 3. Eiga úr og vekjaraklukku
 4. Matmálstímar án snjallsíma
 5. Slökkva á öllum tilkynningum
 6. Engin óþarfa öpp
 7. Beina athygli að þeim sem við erum að tala við
 8. Stilla símann á flugham
 9. Búa til símafrían stað á heimilinu
 10. Gera einn dag vikunnar að snjallsímalausum degi eða hluta úr degi
 11. Sleppa síma í ræktinni og þegar þú ætlar að slaka á
 12. Minnka birtustig og stilltu á síu fyrir blátt ljós ef hægt er

Til eru ýmis öpp sem geta hjálpað þér að átta þig á hvað þú ert að eyða miklum tíma í símanum. Hér er slóð sem þú getur kíkt á: Best Apps To Track & Limit Social Media Usage On iPhone & Android (2021).

 
Um 70% ökumanna nota síma undir stýri.
Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar frá árinu 2018 kom fram að tæplega 70% ökumanna sögðust nota síma undir stýri. Nokkur munur var eftir aldri en um 90% aðspurðra á aldursbilinu 18-44 sögðust nota símann við akstur. Tæplega tveir þriðju þessa hóps lesa eða skrifa skilaboð og um 75% líta á símann og lesa tilkynningar. At­hygl­is­vert er að þátt­tak­endur voru vel meðvitaðir um að sím­anotkun undir stýri væri hættu­leg og hefði mikil áhrif á akst­urs­hæfni. Meirihluti svarenda vissi einnig um hækkun á sektum við þessari notkun, frá 5.000 upp í 40.000. Þetta gefur sláandi vísbendingu um hve háð við erum kalli símans.

Síminn kallar á athygli!

Svo virðist sem nálægð við snjallsímann okkar hafi áhrif á einbeitingu og takmarki vitsmunalega getu okkar.

Bara það að vita af símanum í sama herbergi hefur áhrif samkvæmt rannsókn Adrian F. Ward og félaga. Því meira sem við notum símann og erum háð honum því sterkari eru áhrifin.

Síminn er svo mikilvægur lykill að upplýsingum, gögnum, tengslum og skemmtun að hann hefur algera sérstöðu í lífi flestra. Þó slökkt sé á honum niðri í tösku úti í horni virðist hann kalla á okkur – án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Þetta er umhugsunarvert fyrir þá sem hafa símann við höndina allan sólarhringinn.

Ný snjallsímaforrit frá Google

Hugbúnaðarfyrirtæki eru í auknum mæli farin að þróa verkfæri til að hjálpa fólki að ná stjórn á símanotkun sinni og fá yfirsýn yfir hana. Google hefur nýlega gert nokkur öpp aðgengileg sem enn eru á tilraunastigi en gefa hugmynd um í hverju möguleikarnir felast. Forritin eru hluti af verkefninu Digital Wellness hjá Google og eru opin fyrir aðra hönnuði til að þróa áfram (e. open source). 

Unlock Clock er eitt af nýju forritunum. Það er í raun veggfóður á símann sem telur hversu oft þú aflæsir honum yfir daginn. Talningin hjálpar til við að sjá hve oft við tékkum á símanum og reiðum okkur á hann. Hægt er því að setja sér mælanlegt markmið um að fækka skiptum sem við opnum símann. 

Það má líta á We Flip sem félagslega tilraun fyrir hópa og fjölskyldur. Allir í hópnum þurfa að hafa forritið á símanum og ræsa á sama tíma. Það mælir svo hversu lengi hópurinn getur verið án símanna. Þegar sá fyrsti gefst upp endar lotan og hægt er að sjá hve lengi haldið var út.

Post Box aðstoðar við að minnka áreiti vegna truflandi skilaboða og tilkynninga. Það stöðvar boðin, safnar þeim saman í flokka og skilar á þeim tímum sem þú velur, allt að fjórum sinnum á dag. Kannski er nóg að skoða boðin einu sinni á dag?

Morph býður upp á að sníða notkun símans eftir staðsetningu eða tíma dags. Þú getur t.d. sett upp vinnuham og ham sem hentar heima. Þú færð aðeins tilkynningar frá þeim ham sem þú ert stillt/ur á, t. d. færðu ekki tilkynningu um vinnupóst þegar þú ert heima og ekki tilkynningar frá Snapchat  í vinnunni (ef þú stillir appið þannig). Morph og svipuð forrit geta hjálpað til við að setja skýrari mörk milli vinnu og einkalífs ef þau eru sett upp og notuð á markvissan hátt.

Desert Island. Þarna velurðu sjö (eða færri) mikilvægustu öppin og þú sérð engin önnur á skjánum, en getur nálgast hin á auðveldan hátt. Eftir sólarhring færðu yfirlit yfir hvernig þér gekk að halda þig við þau sem þú valdir og hve oft þú opnaðir önnur forrit. Eins og nafnið gefur til kynna er ætlunin að aðstoða fólk við að einfalda símanotkunina og forgangsraða. Með tímanum gætirðu fækkað forritunum enn frekar.

Paper Phone er óvenjulegt app sem gefur möguleika á að taka hlé frá símanum yfir daginn en hafa jafnframt tiltækar upplýsingar sem þú þarft úr honum á útprentuðu blaði sem brotið er í tvennt (þrisvar sinnum). Forritið er enn á tilraunastigi en það á að geta prentað út dagatal, leiðarlýsingu, veðurspá, verkefni, tengiliði og fleira sem þú velur að hafa við höndina yfir daginn. Hægt er að vista upplýsingarnar sem pdf-skjal ef fólk vill síður prenta út.

 

Sjá frekari upplýsingar um forritin hér og hér.

Á öðrum stað hér á síðunni höfum við rætt um að hægt er að velja grátóna stillingu á símann sem gerir hann minna aðlaðandi og við getum sótt forrit til að fylgjast með hve löngum tíma við verjum á einstaka síðum. Við getum einnig læst öppum eða sett tímamörk á notkun þeirra (sjá t.d. hér). Með þessum forritum og öðrum álíka fáum við verkfæri til að nýta tæknina á einfaldari hátt sem gæti hjálpað okkur að ná stjórninni aftur.

Tölvupóstur

Samfélagsmiðlar

Upplýsingaflóðið

Stafrænn niðurskurður?