Fara í efni

Streita og álag

Töluvert er talað um streitu og kulnun þessa dagana og svo virðist sem stöðugt fleiri séu að kikna undan álagi. Í skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar segir að kulnun sé hvorki líkamlegur né andlegur sjúkdómur heldur sé um að ræða ástand sem er afleiðing langvarandi streitu á vinnustað sem ekki hefur tekist á árangursríkan hátt að ná stjórn á. Kulnun vísar til fyrirbæra í tengslum við vinnuumhverfið og ætti ekki að nota orðið til að lýsa reynslu á öðrum sviðum lífsins. Almennt höfum við þó valið að tala um streitu og horfa til þess hvernig hún þróast í stað þess að tala um kulnun.

Streitustiginn

Streitustiginn er verkfæri sem vinnustaðir geta notað til að átta sig á streitu og búa sér til sameiginlegt orðfæri um álag og streitu á vinnustaðnum. Streitustiginn gagnast við að greina hvort streita er til staðar, hversu alvarleg hún er og til að velja leiðir til úrbóta í framhaldinu ef þarf. Hann er hentugt tæki til að fá skýra mynd af því hvernig streita þróast og auðveldar okkur að tala um hana. Gagnlegt getur líka verið fyrir hvern og einn að nýta stigann til að átta sig á hvar hann er staddur hverju sinni.

Sníðið starfið að fólkinu

Lausnin á streitu og álagi hefur fram til þessa mikið til gengið út á að fá starfsmanninn til að breyta hegðun sinni því vandinn sé hans. Rannsóknir sýna hins vegar að nær væri að athuga hvernig við getum sniðið starfið að starfsfólkinu fremur en fólkið að störfunum til að fyrirbyggja streitu og kulnun. Í greininni Vinnustaðurinn og kulnun er fjallað um grunnþarfirnar sjö sem þurfa að vera til staðar og leiðirnar sex að heilbrigðum vinnustað. 

Streita stjórnenda

Starf leiðtogans er spennandi, flókið og krefjandi og þess eðlis að þér sem áhugasömum leiðtoga gæti fundist þú alltaf geta gert aðeins betur. Það reynist því oft erfitt að setja mörk. Í Streita stjórnandans getur þú lesið þig til um hvernig streita getur þróast hjá leiðtogum og stjórnendum og jafnframt metið stöðu þína. Þar finnur þú einnig fjórar lífsreglur sem geta reynst þér vel til að takast á við eigin streitu.

Þjónusta VIRK