Fara í efni

Upplýsingaflóðið

Upplýsingaflæði og truflandi skilaboð

Bandaríkjamenn hafa framkvæmt þó nokkrar rannsóknir á notkun á rafrænum miðlum og komust að því að árið 2008 hefði upplýsingaflóðið sem dundi á þjóðinni samsvarað því að hver íbúi hefði verið útsettur fyrir 100.500 orðum eða 34 gígabætum á dag. Við getum rétt ímyndað okkur hvað þessar tölur hafa aukist mikið í dag. Góðu fréttirnar eru þær að sumir vísindamenn telja að heilinn muni stækka með tímanum og taugafrumum og tengingum á milli þeirra eigi eftir að fjölga sem svörun við upplýsingaflæðinu.

Truflandi skilaboð

Flest skilaboð sem koma upp á snjallsímum og í forritum eins og Facebook eru óþörf og trufla einbeitingu svo um munar. Við fáum alltof mikið af upplýsingum sem við höfum ekki beðið um og þetta áreiti mun aðeins færast í aukana. Skilaboð frá póstforritum um nýjan póst eru einnig óheppileg, nema starf okkar felist beinlínis í því að vakta póst og bregðast tafarlaust við. Tímanum er vel varið í að fara kerfisbundið í gegnum það sem er að pípa og blikka á okkur og slökkva á sjálfvirkum skilaboðum. Með því móti getum við sjálf ákveðið hvað við viljum sjá og hvenær. 

Tæknivitglöp

Við könnumst eflaust mörg við þreytu og einbeitingarskort sem getur gert vart við sig eftir mikla tölvuvinnu eða snjallsímanotkun en taugasérfræðingurinn Manfrek Spitzer gengur svo langt að bera áhrifin saman við vitglöp og talar um tæknivitglöp eða “digital dementia”. Hann er þá að vísa til áhrifa á vistmunalega hæfileika og telur að skammtímaminnisbrautir byrji að hrörna vegna vannotkunar sem stafar af ofnotkun á stafrænni tækni. 

Aðrir ganga ekki eins langt en benda samt á að rannsóknir hafi sýnt tengsl á milli tölvuleikjanotkunar og aukinnar hættu á að þróa með sér sálfræðileg vandamál og jafnvel vitglöp. Svo virðist sem tölvuleikjanotendur nýti svæði heilans sem nefnist dreki (hippocampus) sem geti leitt til breytinga sem gætu aukið hættu á sjúkdómum á borð við þunglyndi og jafnvel vitglöpum. 

Enn sem komið er er umfjöllun um áhrif stafrænnar tækni í formi getgáta og ekki búið að sýna fram á orsakatengsl svo það er mikilvægt að halda ró sinni. Hér á eflaust við gamla góða spekin um allt sé best í hófi.

 

Valda fréttir þér kvíða?

Aðgengi að fréttum aldrei jafn mikið

Aldrei hefur aðgengi okkar að fréttum alls staðar að úr heiminum verið eins mikið. Nánast daglega erum við svo að segja viðstödd þegar hamfarir dynja yfir oft á tíðum í fjarlægjum löndum. Myndir af hræðilegum atburðum birtast nánast stöðugt og við getum fengið á tilfinninguna að ástandið hafi aldrei verið eins slæmt og akkúrat núna. En er það rétt? Í ræðu sem Obama fyrrverandi forseti Bandaríkjanna flutti í september árið 2017 kemst hann svo að orði að ef við gætum valið tíma til að vera uppi hvenær sem er í veraldarsögunni þá ættum við að velja einmitt núna þar sem fólk hefur aldrei verið við betri heilsu, haft það eins gott fjárhagslega, verið eins vel menntað eða á margan hátt verið eins fordómalaust og friðsælt. Það getur verið gott stundum að lesa um það sem hefur áunnist í heiminum til batnaðar:

  • Á sl. 20 árum hefur þeim sem búa við sára fátækt fækkað um næstum helming
  • Fyrir um einni öld höfðu fæstar konur í heiminum kosningarétt en í dag hafa flestar konur kosningarétt.
  • Árið 2016 létust 5.6 milljónir barna fyrir 5 ára aldur en árið 1966 létust 19.89 milljónir barna fyrir 5 ára aldur 
  • Þó að loftslagsbreytingar valdi tíðari og alvarlegri náttúruhamförum í dag en áður þá deyja færri af völdum þeirra eða 25% færri en fyrir 100 árum og er það helst að þakka öruggari byggingum.
  • Um miðja 18. öld var meðalævilengd í heiminum í kringum 29 ár en árið 2016 72 ár.
  • Fyrir 45 árum voru 35% af fólksfjölda heimsins vannærð en 13% árið 2015 þrátt fyrir mikla aukningu á mannsfjölda.

 

Er ástandið eins slæmt og við upplifum?
Kannski er málið að ástandið sé ekki svo slæmt þegar litið er á heildarmyndina heldur að það sé fréttaflutningurinn sem hefur aldrei verið eins mikill og ágengur. Það er góðra gjalda vert að fjölmiðlar flytji okkur fréttir og að þær berist tímanlega en spurningin er hvort allur þessi fréttaflutningur sé eitthvað sem við sem tilfinningaverur getum höndlað án þess að upplifa vanlíðan og hjálparleysi því sjaldnast getum við brugðist við á neinn hátt. Stundum getur verið gott að setja hlutina í annað eða víðara samhengi og má í þessu sambandi einnig velta fyrir sér hvernig nútíma fréttaflutningur hefði hljómað á víkingaöld. Fyrirsagnir á borð við eftirfarandi hefðu eflaust valdið ónotum og kvíða hjá einhverjum og við getum verið þakklát fyrir að ástandið sé ekki svona í dag:
  • Maður klofinn í herðar niður á Vesturlandi í gær
  • Flokkur að minnska kosti þrjátíu alvopnaðra manna er á leið norður til að hefna fyrir mannvíg 
  • Einn komst lífs af þegar þrennt var brennt inni á Suðurlandi um helgina en hann leitaði skjóls í sýrutunnu
  • Tvö börn voru borin út á Norðurlandi um helgina
Svona mætti lengi telja en eitt gott ráð til að forðast kvíða vegna frétta er að takmarka áhorf og hlustun á fréttir og hreinlega slökkva ef fréttir vekja óhug hjá okkur. Það má síðan deila um hvort slík hegðun sé eins og að stinga hausnum í sandinn eða skynsamleg ráðstöfun til að halda geðheilsu.  

Áreiðanleg tölfræði getur hjálpað

Heimurinn hefur aldrei verið minna slæmur
Til að mynda okkur skoðanir og forðast drama er ekki úr vegi að skoða reglulega tölfræði á síðum eins og þeirri sem óháðu sænsku samtökin Gapminder halda úti. Gapminder berjast á móti misskilningi varðandi alþjóðlega þróun og setja fram áreiðanlega tölfræði á einfaldan hátt í samstarfi við háskóla, Sameinuðu þjóðirnar og fleiri stofnanir. Á síðunni þeirra kemur fram að rétt eins og mannfólkið sækir í fitu og sykur sækjum við einnig í drama og veitum dramatískum sögum athygli og okkur fer að leiðast ef ekkert gerist. Blaðamenn og hagsmunaaðilar (lobbyists) segja dramatískar sögur, það er þeirra starf að segja sögur af óvenjulegum atburðum og óvenjulegu fólki. Þessar sögur safnast upp í hugum okkar og geta leitt til neikvæðrar sýnar á heiminn og okkur finnst heimurinn fara versnandi; það séum „við á móti þeim“, „aðrir eru skrítnir“, „öllum er sama“ og „fólksfjöldinn bara eykst“. Þeir benda á að í fyrsta skipti í veraldar-sögunni sé fyrir hendi áreiðanleg tölfræði sem sýnir allt aðra heimsmynd en þá sem fjölmiðlar birta okkur eða sem sagt þá staðreynd að flest sé að lagast og að heimurinn sé ekki sundraður. Til dæmis verði hin mikla aukning á fólksfjölda bráðum yfirstaðin þar sem heildarfjöldi barna í heiminum hefur hætt að aukast. Fleirum en nokkru sinni er annt um alþjóðlega þróun og heimurinn hefur aldrei verið „minna slæmur“ sem þýðir þó ekki að hann sé fullkominn. Gapminder leggur áherslu á að það þurfi að stoppa dramatíkina því auk þess sem að hún sé streituvaldandi og röng leiði hún einnig til rangra ákvarðana. Alþjóðleg fáfræði þeirra sem taka ákvarðanir í heiminum sé mikil rétt eins og blaðamanna og almennings og það tengist ekkert gáfum. Því sé mikil þörf á því að kenna um alþjóðlegar staðreyndir í skólum og stofnunum.

Stafrænn niðurskurður?