Stafrænn niðurskurður?
Stafræn naumhyggja í tæknimettuðum heimi
Hann segir frá breytingunni miklu sem varð þegar snjallsímarnir komu til skjalanna og reynt var að fá fólk til að verja lengri tíma á miðlunum. Viðmótið breyttist úr því að vera kyrrstætt yfir í að verða eins og spilakassi sem þarf að tékka á linnulaust. Við tilkomu þess að geta merkt við „Like“, skrifað athugasemdir og deilt efni varð sprenging á þeim tíma sem fólk ver á miðlunum. Áður setti fólk jú inn myndir og færslur um sjálft sig og skoðaði færslur hjá öðrum en það var engin hvati til að tékka eins oft eins og nú er gert.
Hann talar um hagnýtingu eða bestun (optimization) á stafrænni tækni en hann hugsar um stafræn verkfæri eins og iðnaðarmaður hugsar um verkfærin sín; hvaða verkfæri þarf ég til að sinna ákveðnu verkefni og hvernig nýtast þau best? Iðnaðarmaðurinn myndi ekki kaupa verkfæri sem ekki hentuðu starfi hans.
Að hætta á samfélagsmiðlum?
1. Samfélagsmiðlar eru ein grundvallartækni 21. aldarinnar. Að hafna þeim væri eins og fara á hesti í vinnuna.
Þetta er rangt segir Cal, samfélagsmiðlar eru ekki grundvallartækni heldur nýta þeir sér grundvallartækni. Þetta eru afþreyingartæki. Þú færð skemmtun í skiptum fyrir athygli þína og bút af persónuupplýsingum sem hægt er að pakka inn og selja. Því ertu ekki að taka stóra félagslega afstöðu með því að nota ekki miðlana, þú ert aðeins að velja að nota aðra tegund afþreyingar. Líkingin við spilakassa er ekki tilviljun því ef litið er betur á tæknina er um að ræða nokkuð ógeðfellda uppsprettu afþreyingar og reynt er að gera miðlana eins ávanabindandi og mögulegt er.
2. Get ekki hætt á miðlunum því þeir skipta máli fyrir velgengni mína - ef ég er ekki með þekkt vörumerki á samfélagsmiðlum veit fólk ekki af mér, hvar það finnur mig og ég missi af tækifærum.
Þetta er ekki rétt heldur. Markaðurinn kann að meta getuna til að framleiða hluti sem eru fágætir og verðmætir. Og þeir sem leita slíkra hluta finna þá án þess að leita á samfélagsmiðlum.
3. Kannski skiptir samfélagsmiðlanotkun ekki lykilmáli í tengslum við starfsframa en hún er skaðlaus og ég hef gaman af henni.
Þetta er aftur rangt að mati Cals, notkun samfélagsmiðla hefur margvísleg skaðleg áhrif. Við þurfum að horfast í augu við þessa skaðsemi þegar við tökum ákvörðun um að hleypa þessari tækni inn í líf okkar. Einn skaði sem vitað er að fylgir þessari tækni tengist starfsframa okkar og það er skortur á getu til að einbeita sér. Samfélagsmiðlatæki eru hönnuð til að vera ávanabindandi, til að brjóta upp athyglina eins og hægt er allan vökutímann. Sífellt fleiri rannsóknir benda til þess að ef miklum hluta dagsins er varið með dreifða athygli geti það haft varanleg áhrif á getuna til einbeitingar. Svo að notkun samfélagsmiðla er ekki skaðlaus, hún getur haft veruleg neikvæð áhrif.
Cal hefur mestar áhyggjur af ungu kynslóðinni sem notar þessa tækni mest. Það þarf að huga að sálrænum skaða. Við vitum út frá rannsóknum að því meira sem við notum samfélagsmiðla því líklegri erum við til að finna fyrir einangrun eða einmanaleika. Við vitum að við getum fundið til vanmetakenndar þegar við sjáum jákvæða lýsingu vina okkar á lífi sínu. Hann segir að við eigum eftir að heyra meira um að heili okkar sé ekki fær um að verða fyrir svo miklu áreiti með slitróttri umbun allan vökutímann. Það er eitt að standa við spilakassa í Las Vegas í nokkra tíma en ef þú tekur einn kassa með þér heim og snýrð sveifinni allan vökutímann þá ráðum við ekki við það. Það verður skammhlaup í heilanum og við erum byrjuð að sjá að þetta hefur raunverulegar afleiðingar á vitsmuni - ein þeirra er stöðug kvíðasuð í bakgrunninum. Ef rætt er við sérfræðinga í geðheilbrigðismálum á háskólum segja þeir að samhliða vaxandi notkun snjallsíma og samfélagsmiðla hafi orðið sprenging í kvíðatengdum vanda í skólunum.
Síminn og Jobs
Cal segir í grein í The New York Times að Steve Jobs hefði ekki viljað að við notuðum iPhone-símann á þann hátt sem við gerum í dag. Það var ekki ætlunin að símtækið yrði stöðugur ferðafélagi. Síminn er í höndunum á okkur frá því við vöknum og krefst athygli okkar allt þar til við sofnum aftur. Þegar Jobs kynnti iPhone árið 2007 var sýn hans á notkun símans gerólík því hvernig flestir nota síma í dag. Hann virtist líta á símann sem hjálpartæki til að hlusta á tónlist, hringja og rata á milli staða. Hann leitaðist ekki við að breyta taktinum í lífi fólks, vildi einfaldlega auðvelda fólki nokkrar mikilvægar athafnir. Í stað þess að auðvelda okkur þessar athafnir breyta nýju símarnir því hverju við beinum athyglinni að – oft á þann hátt sem hentar hagsmunum fyrirtækja, en eykur hvorki ánægju okkar né vellíðan.
Cal segir að við séum orðin svo vön því að hafa símann sífellt við höndina að við gleymum umfangi þeirra breytinga sem orðið hafa á einum áratug. Hann telur að mörg okkar hefðu gagn af því að notast við naumhyggju-útgáfuna af símanum sem kynnt var 2007. Að nota símann sem gott hjálpartæki við það sem er okkur mikilvægt en að leggja hann frá okkur þess fyrir utan. Með því færum við hann af þeim stalli að vera fastur förunautur yfir í að vera munaðarvara sem er ánægjulegt að nota en stjórnar ekki öllum deginum.
Gagnlegt fyrsta skref segir Cal er að fjarlægja þau smáforrit úr símanum sem græða á athygli þinni, þeirra á meðal samfélagsmiðla, ávanabindandi leiki, tilkynningar og vinnupóst ef hægt er. Þá erum við komin nær því hlutverki símans sem Jobs sá fyrir sér.
Stafrænn niðurskurður
- Taktu frá sérstakan „FOMO“ tíma (fear of missing out) á samfélagsmiðlum. Gefðu þér fastan tíma á dag (klukkutíma eða 2 x hálftíma) til að skoða miðlana. Með þessu móti er ólíklegra að þú venjir þig á að nota allan lausan tíma á netinu.
- Skoðaðu tölvupóstinn í skömmtum. T.d. er gott að skoða hann kl. 14-15 þegar margir eru í lægð og hentar að sinna verkefnum sem ekki krefjast of mikillar einbeitingar. Gott getur verið að senda sjálfvirk skilaboð svo fólk viti að þú lest póst aðeins á þessum tíma.
- Taktu síma-föstu og settu símann á flugstillingu í nokkra tíma á dag.
- Veldu vel hverjum þú vilt fylgja á samfélagsmiðlum til að minnka áreiti.
- Búðu til sérstakt tölvupóstfang fyrir fjölskyldu og vini og skoðaðu ekki vinnupóstinn utan vinnutíma. Það getur einnig verið hugmynd að hafa sérstakt spam-póstfang fyrir það sem þú ert t.d. að panta á netinu þannig að heimapóstfangið þitt fyllist ekki af slíkum skilaboðum.
- Taktu símann úr augsýn þegar þú ert að sinna mikilvægum verkefnum eða ferð á mannamót. Síminn hefur truflandi áhrif þó hann sé hljóðlaus og liggi á hvolfi á borðinu.
- Fylgstu með símanotkun þinni með appi. Yfirleitt áttar fólk sig alls ekki á þeim tíma sem það ver í símanum. Hvetjandi getur verið að efna til keppni við fjölskyldumeðlimi um hver notar símann minnst. Hægt er að velja um nokkur öpp með því að leita að „Screen time tracker“.
- Handskrifaðu glósur og haltu dagbók á pappír. Rannsóknir sýna að þegar við skrifum á pappír fáum við meiri tengingu við og dýpri skilning á því sem við erum að skrifa um en þegar við skrifum á síma/tölvu.
- Á flestum símum er hægt velja grátóna-stillingu. Þetta gerir símann mun meira óaðlaðandi og getur aðstoðað við að draga úr notkuninni.
- Ef þú vilt minnka símanotkun gæti verið ráð að nota frekar geisla- eða plötuspilara til að hluta á tónlist. Ef þú telur þig verða að nota símann til þess arna settu hann þá á flugstillingu.
- Ekki hafa skjái í svefnherbergi. Ef fólk notar skjái fyrir svefn minnkar það losun melatóníns um meira en 50%. Þó að þú náir að sofna skömmu eftir skjánotkun muntu missa út umtalsverðan hluta REM-svefns sem veldur því að þú verður þreyttari daginn eftir.
- Reyndu að minnka fréttalestur á símanum. Ef þú fyllir heilann af myndum af stríði og því versta sem á sér stað í heiminum mun hann túlka það ástand sem norm þó raunin sé önnur. Þetta veldur auknum kvíða og streitu. Veldu sjálf/ur hvort og þá hvenær þú fylgist með fréttum.