Heilbrigt vinnuumhverfi
Heilsueflandi vinnustaður
Viðmið fyrir heilsueflandi vinnustaði og gagnvirkt verkfæri
Inn á vefnum heilsueflandi.is er vefsvæði þar sem dregin hafa verið fram helstu viðmið sem heilsueflandi vinnustaðir geta unnið með til að auka vellíðan starfsfólks og styrkja starfsemi vinnustaðar. Þeim hefur verið skipt niður í átta gátlista um helstu þætti sem tengjast heilsueflingu starfsfólks á vinnustöðum. Viðmiðin taka mið af heildrænni nálgun og byggja á vísindalegum grunni. Þau beinast að þeim þáttum sem þekkt er að hafi áhrif á lifnaðarhætti, heilsu og vellíðan starfsfólks. Vefsvæðið er gangvirkt vinnusvæði þar sem vinnustaðir svara hverju viðmiði fyrir sig. Niðurstöður gefa upplýsingar um stöðu vinnustaðarins og út frá henni getur vinnustaðurinn gert áætlanir um úrbætur. Árangur er metinn reglulega, markmið sett og unnið með þau. Þannig getur vinnustaðurinn séð framfarir er varða heilsueflingu.
Hvað er Heilsueflandi vinnustaður?
Heilsueflandi vinnustaður er vinnustaður sem nýtir sér verkfærið á heilsueflandi.is til að auka vellíðan á vinnustaðnum. Margir halda að heilsueflandi vinnustaður snúist um að allir eigi nú að fara út að hlaupa, lyfta eða borða ofurhollt en viðmiðin eru mun víðtækari en svo. Þau taka á öllum þeim þáttum sem rannsóknir sýna að hafi áhrif á heilsu og vellíðan okkar í vinnu. Þau koma fram með heildræna sýn á heilsu sem allir vinnustaðir ættu að geta tileinkað sér, vinnustaðnum og starfsfólki til hagsbóta.
Nánari upplýsingar á Heilsueflandi vinnustaður og þar er jafnframt aðgangur að erindum frá morgunfundum þar sem fjallað var um þætti sem styðja við vellíðan starfsfólks meðal annars frá Christinu Maslach, Karolien Van Den Brekel, Vanessu King, Illonu Boniwell og Henning Bang.
Eru gerð áhættumöt á vinnustaðnum?
Á vef Vinnueftirlitsins er hægt að nálgast gagnlegar upplýsingar um skyldur fyrirtækja hvað varðar vinnuumhverfi og vinnuvernd. Einnig gátlista fyrir áhættumöt á vinnustöðum sem taka mið af fimm meginstoðum vinnuverndar sem eru: efni og efnahættur, félagslegt vinnuumhverfi, hreyfi og stoðkerfi, tæki og vélbúnaður og umhverfisþættir.
Stjórnunarhættir
Hvernig leiðtogi ertu?
Við erum að færast inn á nýjar víddir í stjórnun þar sem hið hefðbundna píramída skipurit á ekki lengur upp á pallborðið. Líklegri til árangurs sé mögulega stíll samstarfsforystu með sínar fimm lykilvíddir eða leiðtogastíla sem taka til fleiri þátta en áður hefur verið horft til. Eða jafnvel stíll Þjónandi forystu þar sem hugmyndafræðin gengur út á að meginverkefni stjórnenda sé að þjóna starfsmönnum. Einnig gætir þú haft áhuga á Umbreytingarforystu sem er forystu- eða leiðtogastíll þar sem leiðtoginn vinnur með samstarfsfólki við að greina þörf á breytingum, mótar sameiginlega sýn og veitir innblástur til að ná fram nauðsynlegum breytingum.
Þá gæti það komið á óvart að ýmislegt sem við höfum talið styrkleika í stjórnun og skipulagi sé það alls ekki og mætti jafnavel ganga svo langt að tala um Lífshættulega stjórnun.
Þú gætir líka haft áhuga á leiðtogahæfni Brené Brown sem kynnt er í greininni Leiðtogar framtíðar. Þar er áherslan á að leiðtogar hafi samkennd að leiðarljósi og þurfi því fyrst og fremst að búa yfir færni í mannlegum samskiptum, tilfinningagreind og að geta hlustað með huga og hjarta.
Virðing og helgun í starfi
Það er til mikils að vinna fyrir vinnustað að sýna starfsfólki virðingu og ná fram helgun í starfi. Rannsóknir hafa sýnt að starfsfólk sem upplifir að yfirmenn sýni þeim virðingu eru 63% líklegri til að vera ánægðir með störf sín, sýna 55% meiri helgun, ná 58% meiri einbeitingu og eru 110% líklegri til að vera áfram á sama vinnustað en þeir sem ekki upplifðu að sér væri sýnd virðing. Kynntu þér Helgun í starfi og laðaðu fram áhuga og framtakssemi starfsfólks þannig að það efli orðspor vinnustaðarins og gæti hagsmuna hans.
Ríkir traust á vinnustaðnum?
Fyrirtækjamenning sem byggir á trausti getur skipt miklu máli fyrir velgengni fyrirtækja. Starfsmenn í fyrirtækjum þar sem traust ríkir eru að öðru jöfnu afkastameiri, hafa meira úthald í vinnu, eru betri í samvinnu og tolla lengur á vinnustað en þeir sem upplifa ekki traust. Á Mikilvægi trausts getur þú kynnt þér hvað þarf að vera til staðar til að traust ríki á vinnustaðnum og einnig hvaða þættir það eru sem gefa vísbendingar um að trausti sé ábótavant.
Eru samskiptin í lagi?
Samskipti á vinnustað geta haft mikil áhrif á líðan okkar, árangur og afköst í starfi. Stjórnendur þurfa að hafa það í huga í daglegum störfum sínum og sjá til þess að samskiptin á vinnustaðnum séu í góðu lagi. Í greininni Samskipti á vinnustað getur þú fundið góð samskiptaráð sem þú getur nýtt þér til að auka vellíðan starfsfólks og einnig vísbendingar um hvernig hegðun beri að varast.
Veikindafjarvera og endurkoma til vinnu
Vinnustaðir eru í auknum mæli að átta sig á því að þau geta lagt sitt af mörkum til að draga úr veikindafjarveru starfsmanna með því að hafa betri yfirsýn yfir veikindafjarveru og styðja við starfsfólk í veikindum. Í Veikindafjarvera og endurkoma til vinnu er að finna gátlista fyrir stjórnendur og fjallað um mikilvægi þess að standa vel að endurkomu starfsfólks til vinnu að loknum veikindum.
Áföll og erfiðleikar hjá starfsfólki
Flestir reyna að aðskilja einkalíf og vinnu en stundum taka erfiðleikar heima fyrir of mikinn toll og hafa veruleg áhrif á líðan og starfsgetu. Sem stjórnandi vilt þú að starfsmaður geti sinnt vinnunni sinni en einnig sýna skilning á aðstæðum og þá gæti efnið á Viðbrögð við áföllum nýst þér vel.