Fara í efni

Gott vinnuumhverfi

Gott vinnu­umhverfi er hvetjandi fyrir starfsmenn og eykur almenna vellíðan
Umhverfi í vinnunni skiptir okkur öll verulegu máli hvort sem við vinnum á skrifstofu, við smíðar eða út á sjó. Umhverfi er vítt hugtak og getur átt við húsnæði, húsgögn, lýsingu, loftgæði, næringu og fleiri þætti.
Það er lögbundið hlutverk Vinnueftirlits ríkisins að setja fram kröfur um aðbúnað á vinnustað og sinna eftirliti um að þeim sé fylgt. Fyrirtækjum ber að gera áhættumat varðandi líkamlegan aðbúnað en ekki síður andlegt eða félagslegt öryggi starfsmanna. 
Gott vinnuumhverfi er hvetjandi fyrir starfsmenn og eykur almenna vellíðan og oft þarf ekki dýrar framkvæmdir eða innkaup til að bæta verulega aðstöðu starfsmanna.

Félagslegt umhverfi

Getum við verið hamingjusöm í vinnunni?

Anna Lóa Ólafsdóttir, Hamingjuhornið.
 
Hin síðari ár hefur verið fjallað mikið um jákvæða sálfræði og hamingjurannsóknir. Jákvæð sálfræði er byggð á sama grunni og önnur sálfræði og ekki um nýja fræðigrein að ræða, frekar viðbót. Það sem einkennir fræðigreinina er áherslan á að skoða hvaða þættir það eru sem hafa áhrif á vellíðan okkar. Hvað er það sem gengur vel, hefur jákvæð áhrif á tilfinningar okkar og samskipti. Til að einfalda þetta, þá leitast jákvæð sálfræði við að finna hvað nýtist okkur til að lifa góðu lífi, gera það besta úr okkur sjálfum og öðlast meiri hamingju.

Hugtakið hamingja er skilgreint á marga og mismunandi vegu en rétt er að taka það fram að það er ekki verið að tala um ofsagleði og kæti sem við upplifum við einstaka atburði eða athafnir.

Benjamín Franklín setti fram einfalda skýringu á hamingjunni og taldi hana ekki byggjast á stórkostlegri heppni sem gerist sjaldan – heldur á litlu jákvæðu hlutunum sem við sköpum á hverjum degi. Rannsakandinn Sonja Lyubomirsky vísar í heildstæðar upplifanir þar sem manneskjan er sátt við lífið í heild sinni þrátt fyrir hinn ýmsu verkefni sem allir fá.

Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur Psy. D. talar um jákvæða sálfræði á heimasíðu sinni:

„Jákvæð sálfræði fæst við að rannsaka lífshamingju, manngildi, s.s. heiðarleika og hugrekki, og margvíslega karakterstyrkleika. Þar er skoðað hvernig menn geta nýtt eigin hæfileika markvissar og staðið betur með sér og öðrum, ræktað sjálfa sig, aukið heilbrigði sitt og gæði lífs síns“.

Í bókinni „Leading with Happiness – How the best leaders put happiness first to create phenomenal business results and a better world“ (Alexander Kjerulf, 2017) eru hagnýt ráð fyrir bæði stjórnendur og starfsmenn þegar kemur að því að auka hamingjuna á vinnustaðnum.

Það er til mikils að vinna, því aukin hamingja á vinnustaðnum hefur margvísleg áhrif og má þar nefna að starfsmenn:

  • eru tilbúnir að skoða hvað þeir geta lagt af mörkum til að bæta andrúmsloftið (hver og einn skiptir máli)
  • taka á samskiptavanda strax – vandinn ekki látinn krauma þar til sýður upp úr
  • skipuleggja verkefni sem auka líkur á meiri hamingju til lengri tíma – en þarfnast jafnvel auka vinnu í byrjun
  • forgangsraða verkefnum betur
  • skipuleggja sig betur
  • sýna samkennd með samstarfsfólki
  • eru bjartsýnni
  • hafa jákvæð áhrif á aðra í kringum sig (hamingjan er smitandi)
  •  ná meiri árangri í starfi

Stjórnendur bera þarna mikla ábyrgð og geta gert ýmislegt til að auka hamingjuna á vinnustöðum. Stjórnendur þurfa að byrja á sjálfum sér því maður getur einfaldlega ekki gefið öðrum það sem maður á ekki sjálfur. Stjórnendur sem eru fullir af eldmóði hafa t.d. jákvæð áhrif á starfsfólkið sitt.

Til að auka á hamingjuna þurfum við að vera tilbúin að gera en ekki bara vera sem má segja að sé jákvæða sálfræðin í hnotskurn – það sem við gerum til að auka við góðu stundirnar í lífi okkar. Flestir dagar eru venjulegir dagar og þar eigum við að sækja fram.

Stjórnendur geta til dæmis: 
  • Veitt jákvæða endurgjöf – eykur hamingjuna, minnkar streitu og eykur afköst.
  • Hlustað á starfsfólkið – hlusta og bregðast við því sem þeir heyra.
  • Minnt á tilgang og merkingu – af hverju erum við að gera það sem við erum að gera í þessu fyrirtæki/stofnun.
  • Veitt meira frelsi – góðir stjórnendur gefa góðar skipanir, frábærir stjórnendur gefa engar skipanir. Meira frelsi er ávísun á meiri hamingju.
  • Tekið á óviðeigandi vinnustaðarmenningu – einelti, óvirðing, dónaskapur, baktal og neikvæðni líðst ekki.
  • Byggt upp góð samskipti við samstarfsfólk – sýna að þeim er annt um fólkið sitt.
  • Komið starfsfólkinu skemmtilega á óvart – þessir litlu hlutir sem skipta máli.
  • Fagna áföngum sem nást – að fagna áföngum með einhverju skemmtilegu skilar sér í meiri eldmóði meðal starfsfólks.
  • „Fagna“ mistökum – Hvað getum við lært, hvernig getum við gert þetta öðruvísi, höfum kjark til að prófa nýja hluti, viðurkenna mistök og læra af þeim.
  • Starfsmenn sem gera aldrei mistök koma sjaldnar með nýjar hugmyndir.

Þegar fólk er óhamingjusamt í vinnu hefur það áhrif á lífið almennt og jafnvel líkamlega heilsu. Meiri hætta er á streitu og andlegum erfiðleikum með tilheyrandi fjarvistum og jafnvel langtíma veikindum sé ekki brugðist við.

Fyrrnefndur Alexander Kjerulf heldur því fram að með því að stjórna með hamingjuna að leiðarljósi séu stjórnendur að ná að uppfylla tvö mikilvæg markmið – búa til stórkostlegt fyrirtæki og skapa betri heim. Hann tileinkar því bókina öllum þeim sem eru nógu hugrakkir (kannski smá klikkaðir líka) til að trúa því að hlutverk okkar hér á þessari plánetu sé að auka á hamingju hvers annars.
 
Ítarefni um málefnið: 
  • Alexander Kjerulf (2017). Leading with Happiness – How the Best Leaders put Happiness First to Create Phenomenal Business Results and a Better World. Sjá einnig umfjöllun hér
  • Sonja Lyubomirsky (2007). The How of Happiness: A New Approach to Getting the Life You Want.

Lýsing og áhrif hennar

Samtalið við notendur vill gleymast
Fæstir leiða hugann að því hvaða áhrif birta og lýsing hafa á skap okkar og almenna líðan. Ef við hugsum um muninn á andlegri líðan okkar og orku á björtum sólardegi annars vegar og á grámyglulegum rigningardegi hins vegar gefur það ákveðna vísbendingu. Við verðum einnig fyrir áhrifum af tilbúinni lýsingu á heimilinu og í vinnuumhverfinu sem getur haft áhrif á skap, árvekni, orku, framleiðni og sköpunargáfu.
Kristján Kristjánsson, lýsingarhönnuður (MSLL) hjá Hildiberg, svaraði nokkrum spurningum Velvirk-síðunnar um lýsingu:  
  • Hvað þurfa fyrirtæki helst að hafa í huga í sambandi við lýsingu á vinnustaðnum?
Það er alltof algengt að lýsing sé hugsuð út frá þörfum bygginga og reglugerða en samtalið við notendur gleymist. Þarfir notenda og fyrirtækis eru ekki endilega þær sömu. Til að tryggja góða lýsingarhönnun þarf að kanna hvað hentar starfsemi og notendum. Við erum öll misjöfn og góð lýsing á að tryggja að lýsing henti jafnt þeim sem eru yngri og eldri.
Það er kostur ef hægt er að bjóða starfsmönnum upp á að geta stýrt birtumagni á sínu vinnusvæði sjálfir. Einföld leið er að bjóða upp á borðlampa á starfstöðvum og með tilkomu LED ljósabúnaðar eru fleiri möguleikar í boði með snjallljósastýringar sem fyrirtæki ættu að kynna sér. 

Vinnustaðir ættu að skoða lýsinguna og ljósastýringar saman sem eina heild til að tryggja að búnaðurinn vinni vel saman. Ef lýsing passar illa við ljósastýringar getur orðið vandamál með flökt til dæmis. Eitt af þeim vandamálum sem hefur aukist í vinnuumhverfi með tilkomu LED búnaðar er flökt í ljósabúnaði sem hefur margs konar áhrif á heilsu og líðan starfsmanna. 

Við erum að sjá meiri upplýsingar en áður um hve miklu máli það skiptir að huga að vali á réttum búnaði og tryggja heildargæði lýsingarkerfisins. Með nýjungum eins og því að geta stýrt ljósahitastigi frá kaldri birtu yfir í hlýja er hægt að huga enn frekar að heilsu starfsmanna í gegnum lýsinguna.

  • Hafa komið nýjungar á markaðinn sem vinnustaðir gætu litið til, svo sem búnaður sem hindrar blátt ljós?

Vandamál með of háa bláa ljósgeisla frá ljósabúnaði eru hverfandi í dag. Við sjáum þetta lítið með búnað frá viðurkenndum birgjum. Þegar farið er í að skipta út ljósabúnaði ætti alltaf að kalla eftir gögnum frá framleiðendum um gæði lýsingar og samsetningu ljóslitrófsins. Vandamálið er samt til staðar og sérstaklega með ódýrari búnað frá óþekktum vörumerkjum sem erfitt er að greina hvaðan koma og fá upplýsingar um gæði lýsingar.

Varðandi skjái eru flestir skjáir sem gerðir eru fyrir vinnustaði með stillanlegu birtustigi og hægt er að draga úr bláum ljósgeislum. Að auki er framleiðendur LED ljósabúnaðar að setja á markað sér ljóslitróf sem er án bláljósgeisla. Slíkar lausnir myndu henta fyrir svefnrými einstaklinga, á sjúkrahúsum og hótelum sem dæmi. Ég heyri fleiri og fleiri dæmi um þá sem mæla með sérgleraugum sem hindra bláljósgeisla. Allar einstaklingsmiðar lausnir þar sem notandi hefur valdið eru góðar.

  • Orðið hefur bylting með tilkomu LED tækninnar. Eru einhverjir gallar við þessa þróun að þínu mati?

Ef horft er til orkutölu milli LED lýsingar annars vegar og eldri hefðbundins ljósabúnaðar hins vegar erum við að sjá mikinn sparnað. En LED tæknibyltingin er ekki að hafa þau áhrif á umhverfið eða sýna þann orkusparnað sem vonast var eftir. Vandamálið er neytandinn, hvort sem um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki eða stofnanir. Það er verið að framleiða miklu meira af ljósabúnaði en þörf er á sem kostar orku, flutning og endurvinnslu. Neytendur eru að nota miklu meira af ljósabúnaði en áður og markaðurinn er uppfullur af óvönduðum búnaði sem hægt er að fá á kostakjörum en stenst engar kröfur um gæði eða endingu og endar fljótlega í landfyllingu.

Fosfór er eitt lykilefni í framleiðslu á LED og þrátt fyrir eða vera í snefilmagni þá er verið að opna aftur fosfórnámur í Kína til að halda framleiðslunni gangandi með tilheyrandi mengun og alvarlegum áhrifum á jörð, menn og dýr. Endurvinnslu er líka ábótavant þar sem búnaður er fluttur úr landi og endurunninn á stöðum utan Evrópu þar sem aðstæður eru ekki góðar. Sem neytendur ættum við að vanda valið betur og versla af viðurkenndan framleiðendum og njóta betri búnaðar og meiri gæða.
  • Er eitthvað sem fólk ætti að huga að í tengslum við lýsingu á heimilinu?

Lýsing fyrir heimilið skiptir gríðarlega miklu máli og þarf að geta boðið upp á að hægt sé að aðlaga hana að fjölbreytileika heimila. Heimili eru byggð upp af mismunandi rýmum með mismunandi þarfir og best er að geta stýrt birtustigi til að aðlaga rými að þörfum okkar og viðfangsefnum. Hvort sem við erum að slaka á og viljum deyfa lýsinguna og kveikja kertaljós sem dæmi, eða hafa góða birtu á eldhúsborði fyrir heimanám.

Íslendingar og aðrir sem búa norðarlega kjósa að hafa hlýtt birtustig fremur en kalt og myndi ég alltaf mæla með að velja hlýja birtu. En með tilkomu LED eru margar lausnir fyrir heimili þar sem boðið er upp á að geta stýrt ljósahitastiginu frá köldu í hlýtt. Þessar lausnir geta verið frábærar en mörgum þeirra fylgja vandamál með flökt og léleg gæði ljóssins. 

Flökt frá ljósabúnaði ættum við alltaf að reyna að varast. Við sjáum ekki endilega flöktið með berum augum en við erum að nema það sem hefur truflandi áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Til dæmis eru þeir sem eru með mígreni sérstaklega viðkvæmir fyrir flökti þar sem það getur kallað fram mígreniskast.
Gott er að hafa í huga að velja búnað út frá gæðum lýsingar og fá faglega ráðgjöf - að hugsa lausnina til framtíðar segir Kristján Kristjánsson.  

Fundafargan

Skipta hlé milli funda máli?

Við könnumst eflaust flest við þreytuna sem getur fylgt mörgum fundum og þá ekki síst ef þeir eru rafrænir og margir í röð. Þeir hjá Microsoft Human Factors Lab ákváðu að skoða málið nánar og þá sérstaklega hvort að hlé milli funda skipti miklu máli.
Gott að hvíla heilann milli funda
Í mars mánuði 2021 framkvæmdu þeir rannsókn á virkni í heila 14 einstaklinga sem voru látnir taka þátt í fjórum hálftíma löngum rafrænum fundum hverjum á fætur öðrum. Þátttakendunum var skipt í tvo hópa og annars vegar fengu þeir 10 mínútna hlé á milli fundanna til að taka þátt í núvitund en hins vegar fengu þeir ekkert hlé. Allir þátttakendurnir voru tengdir við heilarafritun (EEG) á meðan á tilrauninni stóð. Niðurstöðurnar koma kannski ekki á óvart en þær sýndu að fundirnir ollu streituviðbrögðum hjá báðum hópum þátttakenda en það að taka hlé á milli funda hjálpaði mikið við einbeitingu þátttakendanna.

Þetta var auðvitað lítil tilraun sem ekki er hægt að alhæfa út frá en hver hefur ekki upplifað hversu gott það er að fá hlé á milli funda hvort sem þeir eru rafrænir eða í raunheimum? Þeir hjá Microsoft benda jafnframt á að hægt sé að stilla póstkerfið þeirra, Microsoft Outlook, þannig að sjálfkrafa verði til hlé á milli funda.

Öryggi á vinnustað

Heilsuefling

Hreyfing á vinnutíma