Fara í efni

Starfslok

Hugað að starfslokum

Ef þú ert að velta fyrir þér hvort og hvenær þú ættir að hætta að vinna en vantar hugmyndir að því hvað þú ættir að fara að gera og hvað sé gott að hafa í huga þá gæti efnið hér komið að gagni. Þegar kemur að starfslokum þurfum við að endurskipuleggja fjármálin en við þurfum líka að endurskipuleggja líf okkar því allt í einu höfum við viðbótartíma sem við ættum ekki bara að fylla upp í heldur að nýta vel fyrir okkur sjálf.

 

Í samtímanum getum við séð fjölmargar fyrirmyndir sem minna okkur á hvernig við getum notað efri árin eins og til dæmis Joe Biden og þessir þekktu leikara. Ofurhugarnir sem fjallað er um í greininni Growing Old is Optional! . . . eru líka ótrúlegar fyrirmyndir. Smelltu hér til hliðar ⇒ til að skoða hvað er framundan hjá þér. Það gæti komið á óvart.

 

Okkur hættir til að hugsa um starfslok eða þennan skilgreinda eftirlaunaaldur sem einhver endalok en það er hugsanaskekkja. Við ættum frekar að hugsa þau sem upphaf nýs tíma, upphaf frelsis og frítíma. Nú er hægt að fara í „interrailið“ sem aldrei varð af, lesa bækurnar sem liggja í hillunni, fara á siglinganámskeiðið sem aldrei komst á dagskrá og svo mætti lengi telja.

200 hugmyndir fyrir starfslok

Hér koma hugmyndir að viðfangsefnum um og eftir starfslok sem við höfum snarað, staðfært og bætt inn í en koma að miklu leiti af síðunni 120 Big Ideas for What to Do in Retirement.
Gæti eitthvað af þessu hentað þér?

1. Gera það sem ÞIG langar að gera?

Hvort heldur þig langar að stökkva úr fallhlíf, leggja af mörkum til samfélagsins, fara út í eigin rekstur, passa barnabörnin, synda í sjónum, flatmaga á ströndinni, stunda gönguferðir, smíða, lesa eða prjóna þá skaltu hafa í huga að velja fyrir þig.

Gefðu þér smá tíma til að skrifa niður allt sem þig langar að gera. Horfðu svo raunhæft yfir það, flokkaðu eftir mikilvægi fyrir þig. Veldu svo hvað þig langar að byrja á að gera. Ef þig vantar hugmyndir gætir þú fundið þær hér að neðan.

2. Minnka við þig vinnu, taka að þér afleysingar eða ráðgjöf?

Með alla þína sérfræðiþekkingu gætir þú tekið að þér afleysingar eða boðið upp á ráðgjöf og aðstoð eftir að þú hættir störfum. Þannig getur þú tekið tíma í breytingarnar og nýtt þér að vinna þegar þér hentar.

Breytingar á vinnumarkaði hafa leitt til þess að starfslok eru ekki eins afgerandi og bundin við tiltekinn aldur eins og þau voru hér áður fyrr. Nú sjáum við að fólk hættir jafnvel fyrir 67 ára aldur ef það ræður við það fjárhagslega en aðrir kjósa að vinna til sjötugs eða lengur ef það er hægt. Enn aðrir taka einhvern tíma í breytingaferlið t.d. með því að minka við sig. Að því loknu koma þeir svo kannski aftur að fullu eða hætta alveg, eða ráð sig í hlutastarf, veita ráðgjöf eða taka að sér afleysingar. Svo eru þeir sem hætta bara nákvæmlega þegar 67 árin eru í höfn. Mögulega hefur þú eitthvað val um hvernig þú nálgast þessi tímamót.

Umfram allt ættir þú ekki að láta þér koma á óvart að þessi tími renni upp. Það liggur alveg í loftinu hjá okkur öllum og algerlega í þínum höndum hvernig þú nálgast hann. Leggðu þig fram við að mæta möguleikum þínum af jákvæðni. Ef ekki liggja tækifæri á vinnustaðnum þínum til að hafa þetta eins og þig dreymir um þá er líka gott fyrir þig að hafa í huga að það eru fjölmargar aðrar leiðir sem geta veitt þér gleði og vellíðan.

3. Gerast sjálfboðaliði?

Margir kjósa að gerast sjálfboðaliðar þegar þeir hætta að vinna. Þannig leggja þeir áfram af mörkum til samfélagsins, hjálpa öðru fólki og gefa lífi sínu tilgang. Erlendar rannsóknir hafa jafnframt sýnt aukna vellíðan hjá eldra fólki sem sinnir sjálfboðaliða störfum.

Það er úr ýmsu að velja ef þig langar að skoða þennan möguleika og gætir þú byrjað á einhverju af þessu:

Þá væri hægt að finna upp á nýjum sjálfboðaliðaverkefnum og er hér ein hugmynd frá Kanada. Þar tóku sig saman nokkrir einstaklingar sem voru hættir að vinna og buðu sig fram í að vera gestgjafar fyrir flugfarþega í millilandaflugi. Þeir gerðu stoppið áhugavert og kynntu landið sitt fyrir þeim sem annars hefðu bara hangið einir og beðið efir næsta flugtaki.

4. Fara út í sjálfstæðan rekstur?

Þú þarft ekki endilega að bíða eftir eftirlaunaaldrinum til að hætta í fasta starfinu þínu heldur gætir þú séð tækifæri til breytinga með því að fara út í eigin rekstur. Þá gætir þú haldið áfram að afla tekna og unnið að verkefnum sem þér finnast spennandi eins lengi og þig lystir. Þetta þarf að sjálfsögðu að hugsa vel og skipuleggja áður en stökkið er tekið. 

5. Taka þér aukafrí?

Ef þú ert ekki alveg komin/n á eftirlaunaaldurinn en dreymir um langt frí frá vinnu gætir þú kosið að taka þér lengra frí en venjulega í stað þess að hætta alveg að vinna. Þannig getur þú prufað hvernig þú kannt við þig án vinnunnar og komið svo aftur til baka og unnið eins lengi og þú þarft eða hefur áhuga á.

Fríið gæti staðið í mánuð, þrjá mánuði, sex mánuði eða ár allt eftir samráði við vinnuveitanda, þínum efnum og aðstæðum.

6. Gerast giggari?

Ertu svolítið „hip og kúl“ og langar að vinna áfram en ekki tilbúinn í að skuldbinda þig lengur í föstu starfi? Þá gæti möguleikinn á að taka gigg verið þess virði að skoða. Fjallað er um giggara í bókinni Völundarhús tækifæranna. Giggarar eru í raun verktakar eða einstaklingar í sjálfstæðum rekstri en fá greitt út frá virði vinnuframlags en ekki endilega þeim tíma sem fer í verkefnið. Þetta ráðningarform er þó enn nokkuð nýtt af nálinni og fyrirtæki enn að skoða hvernig það geti hentað þeim.

7. Skoða árstíðabundin störf, jafnvel erlendis?

Það má vera að þig langi að vinna á tilteknum árstímum en öðrum ekki og þá getur lausnin verið að ráðast í árstíðabundin störf. Þú getur farið fjölmargar leiðir til að finna störf en gættu þess að vera tímanlega á ferðinni með að sækja um því fyrirtæki eru mun fyrr á ferðinni með að manna en áður var.

Einnig ef þig langar að dvelja erlendis en hefur áhyggjur af peningamálunum gætir þú hugleitt að koma þér í árstíðabundin störf s.s. störf í sumarbúðum, á skíðasvæðum, við ávaxtatínslu o.s.frv. það sakar ekki að skoða og láta sig dreyma, jafnvel prufa að sækja um.

Þú gætir kynnt þér störf á eftirfarandi síðum.

8. Leggjast í ferðalög?

Margir óska sér þess að leggjast í ferðalög þegar þeir hætta að vinna. Suma dreymir um heimsreisu á meðan aðra dreymir um að ferðast á tiltekinn draumastað eða jafnvel um fallega landið okkar. Það kostar sitt að fljúga út í heim og gista á hótelum en það má líka ferðast án mikils tilkostnaðar með smá útsjónarsemi.

Þeir hugmyndaríkustu leika jafnvel ferðamenn í sinni heimabyggð, detta niður á spennandi ævintýri og gera óvæntar uppgötvanir. Aðrir gætu hugsað sér að skrá sig á t.d. Airbnb eða HomeAway til að leigja út íbúðina sína á meðan þeir ferðast og fjármagna þannig ferðirnar eða hafa upp í kostnað. Svo er líka hægt að hugsa sér að taka á móti gestum og fá þannig „heiminn“ heim til sín.

9. Skipta um búsetu eftir árstíðum?

Það er dásamlegt að vera með barnabörnunum en kannski ekki nauðsynlegt alla daga og þá getur verið gaman að flytja til heitari landa þegar kólnar hér. Annar valkostur gæti verið að flytja tímabundið til krakkanna ef þau búa erlendis eða flytjast í aðra menningu, inn í borg eða út í sveit, jafnvel á stað þar sem þér gefst færi á að stunda uppáhalds áhugamálið þitt.

Íbúðaskipti

Sumir kjósa að kaupa sér íbúð á Spáni en það er ekki eini möguleikinn. Til eru fleiri valkostir s.s. að skiptast á íbúðum við aðra. Það er fullt af fólki erlendis sem hefur áhuga á Íslandi og væri til í að búa hér í einhvern tíma ef það dytti niður á íbúð sem hentaði því.

Ef þig langar að skoða þennan möguleika frekar gætir þú byrjað á að kynna þér þessar síður.

10. Taka þátt í áhugahópum?

Leitaðu uppi hópa sem gætu hentað þér s.s. gönguhópa, ferðahópa, prjónahópa eða danshópa. Til að finna það sem þér finnst áhugavert er líklega best að leita á netinu eða spyrja vin. Það getur verið góður stuðningur að gera hlutina með öðrum. Ef þú tilheyrir hópi færðu ákveðið aðhald til að mæta á vissum tíma og svo er alltaf gaman að upplifa með öðrum, fá hvatningu og félagsskap. 

11. Rækta garðinn þinn?

Margir finna sig í því að vinna úti í garði á góðviðrisdögum og rannsóknir benda til að það geti jafnvel lengt lífið. Það má stunda garðrækt á marga og mismunandi vegu. Sumir kjósa að rækta grænmeti á meðan aðrir sækjast eftir fögrum og ilmandi blómagörðum og að sjálfsögðu má gera hvoru tveggja, tækifærin eru óendanleg. Þú gætir jafnvel valið að verða sérfræðingur í rósarækt, moltugerð, sumarblómum eða öðru tengdu ræktun og jafnvel selt á markaði eða bara verið með kryddjurtir á svölunum.

Upplýsingar um ræktun fyrir byrjendur og lengra komna getur þú fundið hjá Náttúrulækningafélagi Íslands og svo má alltaf leita frekari upplýsinga á netinu.

12. Skrifa bók eða blogg?

Þú þarft ekki að uppfylla neinar menntunarkröfur til þess að skrifa bók og þú getur skrifað um hvað sem þú vilt. Með alla þína reynslu gætir þú skrifað fræðirit, fræðigreinar eða einhverskonar leiðbeiningar og ef þú hefur lifað litríku lífi átti kannski efni í sjálfsævisögu. Svo er alltaf svigrúm fyrir góða skáldsögu á bókamarkaðnum.

Ef þú ætlar að skrifa bók þarftu að koma henni í útgáfu og prentun og þá gætir þú mögulega fundið upplýsingar hjá Bókasamlaginu eða þú gætir haft áhuga á að birta hana á netinu.

Vefurinn hefur svo búið okkur til alveg ný tækifæri til að koma efni á framfæri. Þú gætir komið þér upp vefsíðu um efni tengd áhugamálum þínum eða komið þér upp síðu á samfélagsmiðlum eða bloggi til að ná athygli án mikils tilkostnaðar.

13. Taka að þér kennslu eða yfirlestur?

Kæmi til greina fyrir þig að nýta þekkingu þína með því að kenna öðrum? Það gæti verið sniðug lausn og tækifærin fjölbreytt. Þú gætir t.d. valið stundakennslu á grunnskólastigi, framhaldsskólastigi, háskólastigi eða komið að fullorðinsfræðslu á námskeiðum (stuttum eða löngum). Það gæti þó þurft að bæta við menntun til að uppfylla réttindi, allt eftir atvikum.

14. Vera með námskeið á netinu?

Þú gætir líka valið að vera með námskeið á netinu á eigin vegum eða í samstarfi við aðra námskeiðshaldara. Ein hugmynd gæti verið að setja upp námskeið hjá Udemy þar sem þú ræður hvað þú kennir og hvernig þú setur það fram. Hver svo sem sérþekking þín er gætir þú nýtt þér að koma henni á framfæri á þennan hátt, hvort sem það er yfirburða eldamennska, prjónaþekking, tamningar hesta eða hunda, bókmenntarýni, tölvuþekking eða eitthvað allt annað. 

Fjarleiðsögn

Þú gætir líka tekið að þér að aðstoða framhaldsskólanema eða háskólanema á netinu og auglýst þjónustuna þína í viðeigandi byggingum eða á samfélagsmiðlum. Eins gætir þú skráð þig á Wyzant til að finna einstaklinga erlendis sem leita að leiðbeinanda ef það gæti hentað þér.

15. Búa til kennsluefni?

Önnur hugmynd gæti verið að búa til kennsluefni. Þá eru leiðirnar margar sem hægt er að fara og þitt að velja. Þú gætir gert bók, bækling, myndbönd, vefsíðu eða valið það form sem þér hentar.

16. Gera myndbönd eða hlaðvörp?

Nú eru það myndbönd og hlaðvörp sem slá í gegn hjá þjóðinni svo það væri ekki úr vegi að fara út í að taka upp myndbönd eða gera röð hlaðvarpa um valið efni sem þú hefur áhuga á. Það er svo gaman að geta komið dýrmætri þekkingu á framfæri með leiðum sem ná til fólksins og sjá um leið til þess að hún varðveitist á einhvern hátt. Þetta er hægt að gera heima í stofu án mikils tilkostnaðar.

17. Taka húsið í gegn?

Ef þú býrð í eigin húsnæði og ætlar að búa þar áfram þegar þú hættir að vinna og jafnvel þó þú hugsir þér að selja getur verið sniðugt að taka húsið í gegn og aðlaga það nýjum lífsstíl eða auka verðgildi þess. Þú gætir komið þér upp rúmgóðu svefnherbergi á jarðhæð, öruggara og aðgengilegra baðherbergi, hresst upp á eldhúsið og/eða komið þér upp tómstundaherbergi allt eftir þínum þörfum og óskum. Þá er gott að klára af allar stórviðgerðir sem mögulega þarf að fara í.

18. Fara í minna/annað húsnæði?

Annar kostur gæti verið að selja eða velja annan kost á leigumarkaði ef eignin er óþarflega stór eða óhentug. Flest búum við í húsnæði sem var ætlað fyrir fjölskyldu með börn. Nú þegar þau eru ekki lengur heima hafa þarfirnar breyst og mögulega tímabært að líta eftir hentugra húsnæði sem mætir betur þínum framtíðar þörfum. Ekki sakar ef þú getur búið þér til einhvern pening með því að fara í minna, hentugra eða ódýrara húsnæði.

19. Læra eitthvað nýtt?

Það eru margir sem velja að skella sér í nám eða á námskeið við starflok og það er alveg frábær hugmynd. Það jafnast fátt á við að kynnast nýjum heimum, láta reyna á eigin styrkleika og finna gleðina í að ráða við ný verkefni. Þú gætir líka haft áhuga á að kynna þér námsframboð á netinu. Þar er af ótalmörgu að taka og auðveld leið að nálgast námið í gegnum tölvuna heima í stofu.

Læra á hljóðfæri

Þó þú teljir þig ekki hafa tónlistarhæfileika gætir þú dottið miður á hljóðfæri sem þú getur haft gaman af að spila á. Margir byrja á píanói eða gítar og svo er röddin líka hljóðfæri.

Hljóðfæraleikur getur ekki bara auðgað líf þitt heldur er hann líka eilífðar verkefni með engan lokapunkt. Jafnvel hæfustu hljóðfæraleikarar heims æfa af krafti og læra nýja hluti.

Það er vel þekkt hvað það er gott fyrir heilann að læra og takast á við nýja hluti, það heldur honum heilbrigðum og virkum.

20. Komast í betra form en nokkru sinni fyrr?

Sagt hefur verið að ríkidæmið felist í heilsunni. Líkamsrækt er enn eitt eilífðar verkefnið og að ástunda líkamsrækt á efri árum getur gert lífið betra á nær alla vegu. Orkan verður meiri, líkaminn heilbrigðari og þú jákvæðari og hamingjusamari.

Líkamsrækt er í boði í svo fjölbreyttu formi að þér ætti aldrei að leiðast. Það er hægt að mæta í ræktina, sækja jóga tíma, Pilates, spinning og ótal margt fleira. Þá er sagt að kraftlyftingar dagi úr gigt, auki jafnvægi, auki beinþéttingu, hafi áhrif á þyngd og sykursýki, styrki hjartað og framkalli betri svefn.

 

21. Rækta vináttuna?

Það er allt of algengt að fólk haldi sig meira heima við eftir því sem líður frá starfslokum. Þó það sé ekkert að því að njóta þess að vera einn með sjálfum sér þá er það vitað að í gegnum vinina heldur þú tengslum við umheiminn, finnur virði þitt og tilgang. Þú ættir að taka meðvitaða ákvörðun um að hitta vini og eiga með þeim gleðistundir. Það getur hjálpað að ákveða að hittast reglulega og halda sig við það. Maður er manns gaman.

Það getur líka verið sniðugt að eiga nokkra yngri vini því þannig nærð þú að upplifa eitthvað nýtt og spennandi og vinirnir njóta þess sama af kynnum við þig.

22. Mæta á afmælismótin?

Það er svo gefandi að mæta á skólamótin á stórafmælum, eða aðrar afmælishátíðir sem tengjast fyrri tíð. Það jafnast ekkert á við gagnfræðaskólamót, fermingarbarnamót og menntaskólamót til að rifja upp gamlar góðar stundir og sjá hverju þú og samferðafólkið hafið áorkað.

Svona hittingur getur gefið þér innblástur til að koma auga á hvert þig langar að stefna nú þegar starfslok nálgast og setja þér ný markmið.

Þarna er líka frábært tækifæri til að tengjast gömlum og nýjum vinum og átta þig á hvað það er sem þér finnst spennandi og vekur hjá þér ánægju. Sú þekking getur komið að góðum notum fyrir lífið sem framundan er.

23. Mastera áhugamálið?

Þú hefur eflaust komið víða við en líka látið þig dreyma um ýmislegt sem aldrei varð að veruleika. Dreymdi þig til dæmis einhvern tímann að verða meistara kokkur en vannst svo ekki tími til þess? Eða langaði þig að verða virkilega fær vélvirki en náðir ekki að sinna því?

Þegar þú hættir að vinna gefst þér frábært tækifæri til að huga að þessum gömlu áhugamálum og leggja vinnu í að ná góðum tökum á þeim. Þú gætir búið til fallega keramik skál eða pússað til leikni þína í trésmíði. Hvað sem þú velur að gera skaltu leggja þig fram um að ná virkilega góðum tökum á því. Nýttu síðan þekkinguna til að koma henni áfram til annarra.

24. Halda í við tæknina?

Aldamótakynslóðin er sú fyrsta sem er alin upp í heimi internetsins. Eldri kynslóðir þekkja vel lífið án þess og þó flestir hafi tileinkað sér tæknina þá finnst líka mörgum hún nokkuð flókin. Ef það á við um þig er mögulega kominn tími til að læra betur inn á undraheima tækninnar því með henni aukast tækifæri þín til muna.

Tæknin auðveldar okkur samskipti við vini og fjölskyldu og opnar dyr inn í heim stöðugra umbreytinga nútímasamfélags. Við þurfum því öll að vera á tánum, halda áfram að læra og tileinka okkur það nýjasta til að halda í við nútímann.

25. Gerast sérfræðingur í eigin fjármálum?

Áður en þú hættir að vinna er ráðlegt að fá sem bestar upplýsingar um hvernig sé farsælast að haga fjármálunum við starfslok. Kynna þér allt um töku lífeyris og hvernig sé best að leysa út séreignalífeyrinn eða fara með eignir og sparnað. Með tímanum ættu fjármálin að komast í reglubundinn farveg þar sem þú getur haft stjórn á þeim.

Hafir þú fjárráð til að sýsla með peningana þína gæti það verið skemmtileg áskorun að vinna að því að ávaxta þá enn frekar eða fjárfesta. Til að ná þér í sérfræðiþekkingu gætir þú aflað þér upplýsinga á netinu eða hjá vinum og vandamönnum sem hafa þekkingu á fjármálasviði.

Sjá einnig kafla um fjármál við starfslok hér að neðan.

26. Fara á starfslokanámskeið?

Ýmis námskeið eru í boði á vegum símenntunarmiðstöðva vítt og breytt um landið.

Einnig bjóða stéttarfélög og ýmsir námskeiðshaldarar upp á starfslokanámskeið sem hægt er að finna með leit á netinu.

27. Fara í markþjálfun?

Sumir kjósa að nýta sér markþjálfun til að fá aðstoð við að horfa til framtíðar og finna hvað þá langar að gera. Ef þú veist ekkert hvað þig langar að gera gætir þú skoðað þennan möguleika. Þú gæti leitað að markþjálfa á netinu eða nýtt þér upplýsingar af síðu ICF á Íslandi.

28. Rækta sjálfa/n þig?

Við ættum að huga vel að okkur sjálfum alla ævi en vitum vel að ýmislegt gerist á lífsleiðinni sem okkur tekst ekki alltaf fyllilega að vinna úr. Nú er er tækifærið til að huga að því hvaða farangur þú ert að burðast með. Við getum notað líkinguna um bakpokann og þú velt því fyrir þér hvað pokinn sé orðinn þungur og hvort sé ekki kominn tími til að tína úr honum. Það er svo erfitt að burðast með óþarfa farangur.

Þó lífið þitt hafi hugsanlega verið þér erfitt áttu enn tækifær til að ná að blómstra. Þú gætir mögulega haft áhuga á að fá aðstoð hjá sálfræðingi eða öðrum sérfræðingum.

Það getur alltaf hjálpað að hugsa jákvætt, vera á iði og sinna verðugum verkefnum. Góðar hugmyndir ef þig vantar finnur þá t.a.m. í Dagatalinu frá Action for happiness.

Einnig má benda á Náttúrukortið sem getur gefið þér hugmyndir að verkefnum í gönguferðum dagsins. Út í náttúruna getum við sótt jákvæðni og styrk.

29. Skapa þér nýjan starfsferil?

Þú gætir jafnvel skapað þér alveg nýjan starfsferil, launaðan eða ólaunaðan. Það er æ algengara að fólk skapi sér nýjan starfsferil á efri árum og ekki óalgengt hér á landi að fólk sæki til að mynda í störf í ferðaþjónustu eða komi sér upp sjálfstæðum rekstri. Það getur verið kostur að vinna minna eða í fjarvinnu, vera í hlutastarfi eða hafa einhvern sveigjanleika.

Til að finna út hvaða starfsvettvangur gæti hentað þér getur þú horft yfir reynslu þína á vinnumarkaði eða skoðað gagnvirka starfsþróunarefnið Hver ert þú? á síðunni Aftur í vinnu.

Til að finna starf getur þú skoðaða ýmsar leiðir til að finna starf nú eða kynnt þér hvar þú finnir störf.

Það hefur marga góða kosti að halda áfram að vinna og aldrei of seint að breyta til.

 

30. - 200. Eitthvað spennandi sem þér líst á í þessum hafsjó af hugmyndum hér að neðan?

Eins og þú sérð þá þarf ekki að láta sér leiðast því tækifærin eru nær endalaus, vandinn er bara að velja.

  • Akstursíþróttir
    Aktívisti
    Badminton
    Bakstur
    Bardagalistir
    Bílaviðgerðir
    Bíltúrar
    Blak
    Blómaskreytingar
    Bogfimi
    Boomerang
    Borðspil
    Borðtennis
    Bókaklúbbur
    Bókarskrif
    Bókhald
    Bókmenntir
    Bréfaskrif
    Bridge
    Brimbrettabrun
    Brugga bjór
    Brúðuleikur
    Býflugnarækt
  • Dagbókarskrif
    Dansa
    Dreyma dagdrauma
    Drift
    Drónaflug
    Dýrahald
    Eldamennska
    Erlend tungumál
  • Fatahönnun
    Félagsstarf
    Félagsvist
    Fiskveiðar
    Fjallahjól
    Fjallaskíði
    Fjallgöngur
    Fjarstýrðir bílar
    Fjórhjól
    Flug
    Flugdrekaflug
    Folf
    Forngripaáhugi
    Fótbolti
    Fuglaskoðun
    Föndra
  • Geocaching
    Gera upp bíla
    Girðingavinna
    GoKart
    Golf
    Graffiti
    Göngur
    Gönguskíði
  • Hafnabolti
    Handbolti
    Handverk
    Hekla
    Hestamennska
    Hjóla
    Hjólabretti
    Hlaup
    Hljóðfæraleikur
    Hljómsveit
    Hringakstur
    Hrossarækt
    Hundahald
    Hönnun
    Innanhúsarkitektúr
  • Jarðfræði
    Jeppaferðir
    Jóga
    Kajakróður
    Kattahald
    Keila
    Klettaklif
    Klippimyndagerð
    Krossfit
    Krossgátur
    Kvikmyndagerð
    Köfun
    Körfubolti
  • Landafræði
    Laxveiði
    Leikhús
    Leirmunagerð
    Lesa
    Listasöfn/sýningar
    Listir
    Líkamsrækt
    Línuskautar
    Ljósmyndun
    Loftbelgir
    Lyftingar
    Maraþonhlaup
    Mála
    Modelsmíð
    Moltugerð
    Mótorhjól
  • Origami
    Paddling
    Paintball
    Páfagaukaeign
    Pílagrímagöngur
    Pílukast
    Plokka
    Plötuþeytari
    Poker
    Prjóna
    Raftæki
    Rally
    Rallycross
    Ratleikir
    Róður
    Ræktun
  • Safnaðarstarf
    Safnaheimsóknir
    Safnari
    Sagnfræði
    Sandkastalagerð
    Sauma
    Saumaklúbbar
    Siglingar
    Silungaveiði
    Sjóstangveiði
    Sjósund
    Skartgripagerð
    Skauta
    Skák
    Skemmtanir
    Skokk
    Skotfimi
    Skotveiðar
    Skógrækt
    Skrautfiskaræktun
    Skrautritun
    Skrifa
  • Skrifa fjölskyldusöguna
    Skúlptúragerð
    Skútusiglingar
    Smíðavinna
    Smurbrauðsgerð
    Snjóbretti
    Snorkla
    Spilakúbbar
    Spyrna
    Stjórnmál
    Stjörnufræði
    Strandhreinsun
    Sundleikfimi
    Svifflug
    Svigskíði
    Synda
    Syngja í kór
  • Tai Chi
    Teiknimyndagerð
    Tennis
    Textaskrif
    Torfæruakstur
    Torfæruhjól
    Tómstundastarf
    Tónsmíðar
    Trampólín
    Tölvur og samfélagsmiðlar
  • Umhverfismál
    Uppfinningar
    Útilegur
    Útsaumur
    Útskurður
    Vatnslitun
    Veðurfræði
    Vélmennasmíði
    Víngerð
    Vínsmökkun
    Vísindi og fræðibækur
    Zumba
    Þrívíddarprentun
    Ættfræði

Er erfitt að velja?

Ef þér gengur illa að velja úr þessum hugmyndum þá er ágætt fyrir þig að reyna að átta þig á hvar áhugasvið þitt liggur. Eftirfarandi gæti hjálpað þér.
  • Hvað hefur þér fundist mest gaman að gera í gegnum tíðina? 
  • Hvað er það sem þú heldur að þú munir sjá mest eftir að hafa ekki gert?
  • Hver er uppáhalds kvikmyndin þín, eða uppáhaldsbókin? Segir það þér eitthvað um hvað þér finnst skemmtilegt?
  • Hver eða hverjir skipta þig mestu máli?
  • Ef peningar væru ekki fyrirstaða hvað værir þú þá að gera núna?
  • Hvernig liti hinn fullkomni dagur í lífi þínu út? Myndir þú vilja hafa alla daga þannig? Gætir þú það?
Það er enginn skortur á viðfangsefnum í nútímanum fyrir fólk á öllum aldri. Þú gætir valið rólegt og þægilegt líf en líka eldfjörugt og áhættusækið eða sitt lítið af hverju eða eitthvað þar á milli. Þitt er að velja. Gangi þér vel!

Fjármálin

Við starfslok verða töluverðar breytingar á fjármálunum þegar við hættum að hafa fasta innkomu af launavinnu og því er skynsamlegt að huga vel að fjármálunum fyrir starfslok og skoða vandlega hvaða möguleikar eru í stöðunni. Við höfum öll farið mismunandi leiðir og greitt í ólíka lífeyrissjóði. Sumir eiga líka einhvern viðbótarlífeyrissparnað og aðrir ekki. Það er því engin ein leið sem hægt er að mæla með önnur en sú að leita ráðgjafar hjá fólki sem þú treystir, lífeyrissjóðum og sérfræðingum. Hér höfum við tekið saman það sem er að finna á netinu og gæti gagnast þér.

 

Upplýsingasíða lífeyrissjóðanna

Á Lífeyrismál.is finnur þú mikilvægar upplýsingar um fjármál við starfslok. Flest ef ekki öll höfum við greitt í marga lífeyrissjóði yfir starfsævina og í Lífeyrisgáttinni getur þú séð öll þau réttindi sem þú hefur unnið þér inn á starfsævinni, sama í hvaða sjóð þú greiddir.

Upplýsingar um ellilífeyri

Hjá Tryggingastofnun getur þú nálgast upplýsingar um ellilífeyri. Þeir sem eru 65 ára og eldri og hafa búið á Íslandi í minnst þrjú ár eiga einhvern rétt á ellilífeyri. Í reiknivél TR getur þú slegið inn mismunandi forsendur og fundið út hver réttur þinn er til ellilífeyris.

Upplýsingasíða Íslandsbanka

Íslandsbanki heldur úti síðu sem fjallar um Fjármál við starfslok sem hefur reynst mörgum gagnleg við að endurskipuleggja fjármálin þegar kemur að því að hætta að vinna eða hefja töku lífeyris. Þar er einnig fjallað um skatta og skerðingar og samspil við TR, bæði texti og myndbönd.

Gullin ráð!

Umfram allt – Lifðu lífinu lifandi!
Virkni er lykill að vellíðan. Leggðu þig fram um að sinna þeim sem stóla á þig bæði fólki og dýrum. Hafðu reglu á deginum þínum, farðu út á meðal fólks, finndu tilgang með því sem þú gerir og lærðu nýja hluti. Rannsóknir sýna að allt þetta styður við heilsuna, eykur vellíðan og virkni.
Legðu þig fram um að kynnast nýju fólki og rækta sambandið við gömlu vinina.
 
Stundaðu hreyfingu og útiveru!
Regluleg hreyfing er okkur nauðsynleg á öllum aldri fyrir andlega og líkamlega heilsu og vellíðan. Hreyfing er ekki aðeins mikilvæg til að sporna gegn fjölmörgum sjúkdómum, heldur veitir hún styrk til að takast á við dagleg verkefni og stuðlar að betri svefni og hvíld almennt. Þú gætir verið á góðri leið en líka viljað skoða nýjar leiðir og bæta við þig Hugmyndum að hreyfingu.

Áhugaverðar síður

Hér eru að lokum nokkrar síður sem þú gætir haft gagn og gaman af að kynna þér.