Fara í efni

Breytingaskeiðið

Breytingaskeiðið og líðan í starfi

Breytingaskeið kvenna hefur löngum legið í þagnargildi og harla ólíklegt að þetta tímabil hafi verið rætt á vinnustöðum almennt. Þetta er sem betur fer að breytast og mikilvægt að við opnum augun fyrir því að þetta skeið getur haft töluverð áhrif á konur og líðan þeirra í starfi. Ekki má heldur gleyma því að ekki er eingöngu um konur að ræða þar sem trans fólk sem hefur blæðingar fer að sjálfsögðu líka í gegnum þetta skeið. Auðvitað er hægt að fá margvíslega aðstoð vegna einkenna breytingarskeiðs og um að gera að leita sér upplýsinga t.d. á Heilsuveru og ræða við lækni ef einkenni eru hamlandi en hér verður fókusinn settur á breytingarskeiðið og vinnustaði.

Stjórnvöld í Bretlandi eru með puttann á púlsinum og hafa sett af stað sérstaka nefnd, the UK Menopause Taskforce, sem hefur það hlutverk að finna út hvernig stjórnvöld geta sem best stutt þá sem eru að fara í gegnum þetta skeið. Nefndin mun m.a. skoða hvernig hægt sé að bæta aðgengi að meðferð og eyða tabúum í þjóðfélaginu um breytingarskeiðið og þá einnig á vinnustöðum.

Svo virðist sem að heilmikil vakning sé að eiga sér stað í Bretlandi nú þegar og á vef breska heilbrigðiskerfisins NHS er til að mynda fjallað um breytingarskeiðið og vinnustaði. Þar er bent á að breytingaskeiðið sé ekki eingöngu tengt kyni og aldri því að samstarfsfólk geti einnig orðið fyrir beinum og óbeinum áhrifum. Í raun sé það þannig að það beri að líta á þetta skeið sem eitthvað sem hefur áhrif á vinnustaðinn í heild sinni. Allir stjórnendur þurfi að vera meðvitaðir um breytingarskeiðið og hvernig þeir geti stutt sem best við starfsfólk sitt. Stjórnendur ættu líka að vera meðvitaðir um óbeinu áhrifin á starfsfólk sem tengist þeim sem eru að ganga í gegnum þetta skeið, hvort sem það er á vinnustaðnum eða heima fyrir, svo þeir geti vísað á réttan stuðning. Grundvallaratriði sé að það sé vitneskja um breytingarskeiðið til staðar á vinnustaðnum og það ríki fordómaleysi svo hægt sé að ræða um hlutina opinskátt.

 

NHS bendir á að það séu 3,5 milljónir kvenna yfir fimmtugt á vinnumarkaði í Bretlandi og meðalaldur breytingarskeiðsins sé 51 ár, þá geti einkenni staðið yfir í allt að fjögur eða jafnvel tíu ár. Ein af hverjum 100 konum fara þó í gegnum þetta tímabil fyrir fertugt. Bretarnir benda á að þarlend rannsókn sýni að þriðjungur kvenna missi úr vinnu vegna einkenna breytingarskeiðsins. 
Einkenni breytingarskeiðsins geta verið líkamleg og andleg svo sem hitakóf, vöðvaverkir, erfiðleikar með einbeitingu, kvíði og höfuðverkir. Þrjár af hverjum fjórum konum upplifa eitthvað af þessum einkennum og ein af fjórum upplifir alvarleg einkenni sem hafa áhrif á daglegt líf. Nærri 60% kvenna á aldrinum 45 til 55 ára sem eru að upplifa einkenni breytingarskeiðs telja að þau hafi neikvæð áhrif á starfsgetu þeirra og að allt að milljón breskra kvenna gæti hætt á vinnumarkaði eingöngu á þessu ári (2022) vegna slíkra einkenna og skorts á stuðning á vinnustað.
Á vef ACAS stofnunarinnar sem styður við vellíðan á vinnumarkaði er bent á mikilvægi þess að styðja við þá sem eru að ganga í gegnum breytingarskeiðið. Með því að skapa styðjandi og opið umhverfi stjórnenda og starfsfólks sé hægt að koma í veg fyrir að starfsfólk missi trúna á getu sína og hæfni, taki veikindadaga og skammist sín of mikið til að tala um ástæðuna, finni fyrir einkennum á borð við streitu, kvíða og þunglyndi eða hreinlega hætti í starfi. Bent hefur verið á að ef konur á besta aldri, á einmitt þeim aldri þegar þær hafa náð sem lengst í sínum starfsframa, heltast af vinnumarkaði vegna einkenna breytingarskeiðs geti það skekkt kynjahlutföll í efstu lögum þjóðfélagsins.
NHS hefur sett fram leiðbeiningar fyrir sína vinnustaði um hvernig best sé að styðja við starfsfólk sem er að ganga í gegnum þessar breytingar og koma í veg fyrir ónauðsynlega fjarveru. Rannsóknir hafa sýnt að ekki er líklegt að konur ræði einkenni sín við sinn yfirmann svo það er mikilvægt að auka meðvitund á vinnustöðum um breytingarskeiðið og möguleg áhrif þess. Best er að fræða alla á vinnustaðnum. Auk þess geti jákvæð umfjöllun um breytingarskeiðið bætt móral, áhugahvöt og afköst. Með því að koma á stefnu varðandi breytingarskeiðið á vinnustaðnum staðfestir vinnustaðurinn líka að líta skuli á breytingarskeiðið sem eitthvað sem vinnustaðurinn lætur sig varða. Vinnuveitendur hafa jú skildum að gegna gagnvart starfsfólki sínu og er það að sjálfsögðu tilfellið líka hér á landi eins og kemur skýrt fram í 1. grein vinnuverndarlaga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Starfsfólk sem upplifir mikil einkenni breytingarskeiðs gæti þurft aðlögun á sínu vinnuumhverfi því óöruggt og óheilbrigt vinnuumhverfi getur gert einkenni mun verri.
Millistjórnendur eru síðan í kjör aðstöðu til að styðja starfsfólk sem er að takast á við breytingarskeiðseinkenni og mikilvægt að þeir séu vel upplýstir um þau einkenni sem um ræðir og í stakk búnir til að veita stuðning. Einnig getur verið um að ræða stuðning við starfsfólk sem á maka sem er að takast á við erfið einkenni. Mikilvægt er að starfsfólk sem upplifir slæm einkenni fái réttláta meðferð innan vinnustaðarins og ef það treystir sér ekki til að ræða við næsta yfirmann að það geti þá rætt við mannauðsstjóra eða aðra aðila.
Vinnuveitendur ættu líka að hafa í huga að í sumum tilfellum eru einkennin svo slæm að fólk gæti þurft að fara í lengra veikindaleyfi . Um getur verið að ræða langvarandi svefnleysi og miklar blæðingar sem hvoru tveggja getur valdið miklu orkuleysi. Í NHS leiðbeiningunum er lögð áhersla á að fræða líka starfsfólkið á vinnustaðnum og bent er á leiðir eins og plaköt, rafrænar upplýsingar og jafnvel sérstakar kaffisamkomur þar sem rætt er um breytingarskeiðið á notalegum stað.

Að lokum má nefna að þeim hugmyndum hefur verið fleygt fram m.a. hér á landi að hluta mikillar aukningar á streitu og kulnun í starfi megi í einhverjum tilfellum rekja til breytingarskeiðsins. Hér má lesa nánar um þær hugmyndir og eins eru hér vísanir í fleiri greinar:

Frekari umfjöllun í Bretlandi um breytingarskeiðið:

Aukin starfsánægja

Vinnan og hreyfingin