Fara í efni

Þarf allt að vera fullkomið?

Fullkomnunarárátta (e. perfectionism) eða hlítarárátta er skilgreind í íðorðabanka fyrir uppeldis- og menntunarfræði sem „tilhneiging til að heimta sífellt af sjálfum sér og öðrum það besta, sem verða má, án þess að taka réttmætt tillit til vandkvæða“.
Dr. Holly Philips segir í grein á thriveglobal.com að það sé ekkert athugavert við að stefna að því að bæta sig, en ef sú löngun verður að áráttu geti viðkomandi verið vandi á höndum þar sem vísindamenn hafi fundið tengsl milli fullkomnunaráráttu og kvíða, streitu og kulnunar. Philips ræðir um þrjár gerðir fullkomnunaráráttu og að þeir sem hafi tilhneigingu til félagslegrar fullkomnunaráráttu (e. socially prescribed perfectionism) geti lent í hvað mestum vanda.

Þeir trúa því að sífellt sé verið að dæma þá og að fullkomnun sé leiðin til að fá viðurkenningu. Þeir hafa viðvarandi áhyggjur af því að missa starfið eða að upp komist um þá sem svikara (e. imposter syndrome).    

Fullkomnunarárátta hefur ekki aðeins áhrif á andlega vellíðan heldur einnig líkamlegu heilsu. Stöðug óánægja með frammistöðu í starfi, fjölskyldu eða aðra þætti lífsins auka á streitu sem getur leitt til þess að langvinnir sjúkdómar versni, að fram komi bakverkir eða meltingarvandamál eða að fólk venji sig á óheilbrigða lifnaðarhætti.

Það getur verið afar erfitt að vinna gegn fullkomnunaráráttu en hér eru nokkrar leiðir:

  • Takmarkaðu tíma á samfélagsmiðlum. Fólk birtir yfirleitt bestu útgáfu af sjálfu sér á samfélagsmiðlum og það getur vakið upp sjálfsgagnrýni hjá lesendum. Ef þú finnur fyrir meiri kvíða en gleði á samfélagsmiðlum hugleiddu að taka hlé um stund eða takmarka hve miklum tíma þú verð á miðlunum.
  • Talaðu við aðra. Það getur verið gagnlegt að heyra hve gagnrýninn maður getur verið á sjálfan sig. Einnig að átta sig á því að aðrir geta glímt við svipaðar hugsanir. Kannski bendir þér einhver vinsamlega á að þú ert of harður/hörð við sjálfa/n þig.
  • Æfðu væntumþykju í eigin garð. Það er meira en að segja það að leyfa sér að vera ófullkominn. Gerðu lista yfir þá þætti í fari þínu sem þú ert sátt/ur við og örugg/ur með, þó þeir virðist litlir eða kjánalegir. Hugleiðsla og jóga hafa sýnt sig að hjálpa við grufl og sjálfsgagnrýni. 
  • Taktu mistök með í reikninginn. Ekki reikna með að verkefni gangi smurt og án mistaka frá upphafi til enda. Gerðu ráð fyrir óvæntum uppákomum. 
  • Líttu út fyrir rammann. Gerðu eitthvað þar sem þú ert ekki sjálf/ur í aðalhlutverki. Prófaðu að gefa af þér til samfélagsins, t.d. með því að vinna félags- eða sjálfboðaliðastörf. Fólk kann að meta framlag þitt hvort sem það er fullkomið eða ekki.   

Í grein á heimasíðu Þekkingarmiðlunar má finna fleiri ráð til að stemma stigu við fullkomnunaráráttu.

Kynning á bókum