Kynning á bókum
Harður skellur
„Get ég litið á það sem vinnu að halda dagbók, safna gögnum og vinna úr þeim? Get ég komið efninu á framfæri? Við hverja...? Ef ég skrifa bók kemur hún einhvern tímann út? Hverjum gæti hún gagnast?" – úr dagbók höfundar.
Brot úr bókinni:
„Sumir atburðir eru þess eðlis að þeir hafa djúpstæð áhrif á hvern þann sem í þeim lendir. Að vakna til nýrrar tilvistar eftir fyrirvaralaust og óafturkræft líkamstjón fylgir óheyrilegt álag og yfirþyrmandi streita.
Alvarleg umferðarslys eru eitt þurftarfrekasta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar. Þau kosta samfélagið mikla fjármuni, að ekki sé minnst á sorg, sálarkvalir og vonbrigði sem af þeim hljótast þegar fólki er fyrirvaralaust kippt í burtu eða það svipt færni til að lifa og starfa með eðlilegum hætti.
Fyrirsagnir fjölmiðla af alvarlegum umferðaslysum eru gjarna eitthvað á þessa leið:
- Harður árekstur, engin slys á fólki
- Nokkuð harður árekstur, meiðsli eru ekki talin alvarleg.
Er það virkilega svo?"
Þann 13.11.2021 var viðtal við Svanhvíti á mbl.is undir yfirsögninni: „Ekki sama manneskja og ég var fyrir þessi áföll“.
Þegar kona brotnar
Í bókinni er einnig fjallað um konur fyrri tíma og hvernig þær brugðust við örmögnun. Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur ræðir um konur sem örmagnast í dag og konur sem lögðust í kör fyrr á árum og hvað við getum lært af formæðrum okkar. Dr. Linda Bára Lýðsdóttir sálfræðingur ræðir líka um hvað gerist þegar kona brotnar og hver bjargráð hennar eru.
Í blaðaviðtali í tilefni af útkomu bókarinnar segir Sirrý að viðmælendur hennar séu dæmigerðar íslenskar konur, vanar að vera alltaf duglegar. „Margar þeirra hafa glímt við langvarandi álag allt frá barnæsku. Slíkt álag tekur toll af heilsu fólks.“ Konurnar fóru ýmsar leiðir til að ná sér aftur á strik. Sumar þurftu til dæmis að læra að forgangsraða og segja nei. Aðrar þurftu að slá af kröfum um fullkomnun og reyndu að vera meðvitaðar um óæskileg áhrif samanburðar á samfélagsmiðlum. Sirrý tekur undir með viðmælendum um að dugnaður sé ofmetinn og krafan um að vera stöðugt stritandi sé úrelt.
Þegar karlar stranda
Sirrý tekur saman nokkur gullkorn úr viðtölunum í bókarlok. Hér eru tvö dæmi:
- „Það reynist mörgum karlmönnum erfitt að biðja um hjálp. Karlmennskuímyndin er þannig að við eigum að geta „tekið þetta á kassann“ og „tekið þetta á hnefanum“ og svo allt í einu var ég farinn að fara til sálfræðings og biðja um hjálp. Ég leit á mig sem bölvaðan aumingja, það er ekkert flóknara en það. Ég hafði svo mikla fordóma gagnvart mér sjálfum – það var kannski með því erfiðara sem ég gerði, að sættast við sjálfan mig og láta af fordómunum.“
- „Myrkrið getur jafnvel orðið svo mikið að það verður líkamlega vont, en þá er gott að vita að það er í lagi að finna stundum til. Skilaboð mín til þeirra sem halda að menn þurfi alltaf að vera sterkir og megi ekki láta á sjá eru að það er allt í lagi að viðurkenna vanmátt og leita sér hjálpar. Maður kemur sterkari út.“
Hér má finna hlekk á upplestur Sirrýjar úr bókinni.