Fara í efni

Kynning á bókum

Harður skellur

Bókin byggir á reynslu höfundar, sorg og sigrum.
Bókin Harður skellur fjallar um tvö alvarleg umferðarslys og afleiðingar þeirra. Undirtitillinn er; „Áhrif alvarlegra umferðarslysa á andlega, líkamlega, tilfinningalega og félagslega heilsu".
Höfundur bókarinnar, Svanhvít Vatnsdal Jóhannsdóttir, er hjúkrunarfræðingur að mennt með BA próf í Uppeldis- og menntunarfræði og með 22 ára starfsreynslu úr heilbrigðiskerfinu. Bókin byggir á reynslu höfundar en hún er tjónþoli slysanna, lögregluskýrslum, læknabréfum, greinargerðum fagaðila, heimildum tengdum efninu og dagbókarskrifum hennar eftir seinna slysið. 

Get ég litið á það sem vinnu að halda dagbók, safna gögnum og vinna úr þeim? Get ég komið efninu á framfæri? Við hverja...? Ef ég skrifa bók kemur hún einhvern tímann út? Hverjum gæti hún gagnast?" – úr dagbók höfundar.

Brot úr bókinni:

„Sumir atburðir eru þess eðlis að þeir hafa djúpstæð áhrif á hvern þann sem í þeim lendir. Að vakna til nýrrar tilvistar eftir fyrirvaralaust og óafturkræft líkamstjón fylgir óheyrilegt álag og yfirþyrmandi streita.

Alvarleg umferðarslys eru eitt þurftarfrekasta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar. Þau kosta samfélagið mikla fjármuni, að ekki sé minnst á sorg, sálarkvalir og vonbrigði sem af þeim hljótast þegar fólki er fyrirvaralaust kippt í burtu eða það svipt færni til að lifa og starfa með eðlilegum hætti.

Fyrirsagnir fjölmiðla af alvarlegum umferðaslysum eru gjarna eitthvað á þessa leið:

  • Harður árekstur, engin slys á fólki
  • Nokkuð harður árekstur, meiðsli eru ekki talin alvarleg.

Er það virkilega svo?"

Í fyrsta hluta bókarinnar útskýrir Svanhvít hugtök sem tengjast alvarlegum umferðarslysum, mun á læknisfræðilegri endurhæfingu og starfsendurhæfingu og segir frá líðan sinni og þeirri sársaukafullu reynslu að tapa heilsu og starfsgetu.
Líkaminn var eins og biluð vog. Ég þurfti að vega og meta allt upp á nýtt, en ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég átti að raða lóðunum á þessa biluðu vog." – brot úr bókinni.

Í öðrum hluta fjallar hún um endurhæfingu sína og starfsendurhæfingu og í þriðja hlutanum fjallar hún um bjargráð, hvernig það var að stíga út á vinnumarkað eftir 6 ára hlé, hvaða lærdóm hún dró af reynslu sinni og hvað betur megi gera.

Þann 13.11.2021 var viðtal við Svanhvíti á mbl.is undir yfirsögninni: „Ekki sama manneskja og ég var fyrir þessi áföll“.

Þegar kona brotnar

Dugnaður er ofmetinn og krafan um að vera stöðugt stritandi er úrelt.
Sirrý Arnardóttir skrifaði viðtalsbókina ,,Þegar kona brotnar – og leiðin út í lífið á ný” í samstarfi við VIRK. Þar ræðir hún við 12 konur sem örmögnuðust og gengu á vegg, en sóttu sér aðstoð við að byggja sig upp að nýju. Konurnar hafa margar fengið aðstoð frá VIRK og allar hafa þær fundið starfsorkuna og lífsgleðina aftur. Þær hafa breytt viðhorfum sínum og ýmsu í lífi sínu og koma sterkar út úr þessari erfiðu reynslu, þó sumt hafi þær misst sem þær fá ekki til baka. Konurnar í bókinni eru á ólíkum aldri, vinna ólík störf og eru með mismunandi menntun. Sumar hafa upplifað mikinn missi eða áföll og allar hafa upplifað að langvarandi álag getur orðið fólki um megn.  

Í bókinni er einnig fjallað um konur fyrri tíma og hvernig þær brugðust við örmögnun. Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur ræðir um konur sem örmagnast í dag og konur sem lögðust í kör fyrr á árum og hvað við getum lært af formæðrum okkar. Dr. Linda Bára Lýðsdóttir sálfræðingur ræðir líka um hvað gerist þegar kona brotnar og hver bjargráð hennar eru.

Í blaðaviðtali í tilefni af útkomu bókarinnar segir Sirrý að viðmælendur hennar séu dæmi­gerðar ís­lensk­ar kon­ur, van­ar að vera alltaf dug­leg­ar. „Marg­ar þeirra hafa glímt við langvar­andi álag allt frá barnæsku. Slíkt álag tek­ur toll af heilsu fólks.“ Konurnar fóru ýmsar leiðir til að ná sér aftur á strik. Sumar þurftu til dæmis að læra að forgangsraða og segja nei. Aðrar þurftu að slá af kröfum um fullkomnun og reyndu að vera meðvitaðar um óæskileg áhrif samanburðar á samfélagsmiðlum. Sirrý tekur undir með viðmælendum um að dugnaður sé ofmetinn og krafan um að vera stöðugt stritandi sé úrelt.

Þegar karlar stranda

Það er í lagi að viðurkenna vanmátt og leita sér hjálpar.
„Þegar karlar stranda – og leiðin í land“ er viðtalsbók Sirrýjar Arnardóttur við karlmenn á ólíkum aldri og úr ólíkum áttum sem eiga það sameiginlegt að hafa strandað og upplifað mikla vanlíðan. Þeir gátu ekki unnið og voru við það að sökkva, en gripu til aðgerða, fóru að vinna í sínum málum og komust í land. Í bókinni er einnig rætt við Rúnar Helga Andrason sálfræðing og Þórarinn Þórsson félagsráðgjafa um veruleika þeirra sem stranda í lífinu. Bókin er gefin út í samstarfi við VIRK.
Í kaflanum Áður en lagt er af stað segir Sirrý; „Pressan á karlmenn að standa sig, meika það, gerir það að verkum að margir eiga erfitt með að finna jafnvægi. Sumir vinna svo mikið að þeir keyra sig í þrot. Aðrir gefast upp áður en lagt er af stað, kannski af ótta við að standa ekki undir kröfunum um ofurmanninn sem aflar vel, stjórnar og stýrir.“
Einn þeirra sem rætt er við í bókinni er Pétur Guðjónsson rafmagnsverkfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Marel. Í bókinni kemur fram að hann var á tímabili með um 800 starfsmenn sem heyrðu undir hann í 30 löndum. „Langvarandi álag, mikil ferðalög um heiminn fjarri stórri fjölskyldu, reyndi á og hann tók verulega nærri sér að þurfa að segja upp fólki. Uppsöfnuð streita varð að kulnun, „urrandi þunglyndi og kvíða“.“ Hann átti á tímabili „erfitt með einföldustu verkefni, þoldi ekkert áreiti, fór með eyrnatappa í verslanir og þurfti að taka kvíðastillandi lyf til að geta farið inn í matsal fyrirtækisins.“
Pétur og aðrir viðmælendur lýsa svo leiðinni í land eftir erfiða siglingu.

Sirrý tekur saman nokkur gullkorn úr viðtölunum í bókarlok. Hér eru tvö dæmi:

  • „Það reynist mörgum karlmönnum erfitt að biðja um hjálp. Karlmennskuímyndin er þannig að við eigum að geta „tekið þetta á kassann“ og „tekið þetta á hnefanum“ og svo allt í einu var ég farinn að fara til sálfræðings og biðja um hjálp. Ég leit á mig sem bölvaðan aumingja, það er ekkert flóknara en það. Ég hafði svo mikla fordóma gagnvart mér sjálfum – það var kannski með því erfiðara sem ég gerði, að sættast við sjálfan mig og láta af fordómunum.“
  • „Myrkrið getur jafnvel orðið svo mikið að það verður líkamlega vont, en þá er gott að vita að það er í lagi að finna stundum til. Skilaboð mín til þeirra sem halda að menn þurfi alltaf að vera sterkir og megi ekki láta á sjá eru að það er allt í lagi að viðurkenna vanmátt og leita sér hjálpar. Maður kemur sterkari út.“  

 

Hér má finna hlekk á upplestur Sirrýjar úr bókinni.