Fara í efni

Upplífgandi efni

Láttu heillast. Vá!

Að verða yfir sig hrifinn er hollt á margan hátt.  
Svo virðist sem það að falla í stafi, láta heillast, verða bergnumin/n eða yfir sig hrifinn (e. be in awe) af því sem við sjáum og upplifum geti haft einstaklega jákvæð áhrif á okkur. Við gleymum stund og stað og komumst í sérstakt og eftirsóknarvert ástand, fáum jafnvel gæsahúð og missum andlitið. Allir hafa upplifað svona stundir á lífsleiðinni, til dæmis þegar þeir ganga inn í stórkostlega byggingu, horfa upp í stjörnubjartan himinn, standa við kraftmikinn foss, fara á sigurleik landsliðsins, sjá barn fæðast í heiminn eða fara á tónleika með uppáhaldshljómsveitinni.

Við Íslendingar þurfum yfirleitt ekki að fara langt til þess að upplifa undur náttúrunnar. Þann 19. mars 2021 hófst eldgos í Geldingadölum við Fagradalsfjall. Tugir þúsunda hafa gengið að gosinu og horft með eigin augum á einstakt sjónarspil. Fjölmargir horfa einnig á beinar útsendingar af gosinu á vef mbl.is og á vef RÚV 2.

Í grein á síðu Greater Good Science Center UC Berkeley eru tekin saman tengsl hrifningar og nokkurra þátta sem geta aukið hamingju okkar og bætt heilsu. Það sem kemur mögulega á óvart er að hrifning getur aukið örlæti okkar, auðmýkt, tengsl við annað fólk og jafnvel ýtt undir gagnrýna hugsun. Það gæti því verið góð hugmynd að sækjast eftir hrífandi upplifunum og leyfa sér að njóta. Einnig virðist vera gagnlegt fyrir okkur að rifja upp þessa sérstöku reynslu af og til.

Hrifning getur bætt skapið, minnkað streitu og gert þig ánægðari með lífið ef marka má rannsóknir. Svo virðist sem upplifanir í náttúrunni hafi sérlega jákvæð áhrif og hrifning geti leikið ákveðið hlutverk í endurnærandi krafti hennar.

Hrifning getur haft jákvæð áhrif á heilsuna. Rannsókn sýndi að þeir sem upplifðu hrifningu og undrun voru með minna magn af bólgumyndandi frumuboðum (IL-6) hvort sem þeir voru hrifnæmir að eðlisfari og opnir fyrir nýjum upplifunum eða ekki. Við getum því mögulega öll notið góðs af hrífandi upplifunum þegar litið er til heilsu. Þó er ekki hægt að fullyrða út frá rannsókninni hvort það að hrífast minnki bólgur eða hvort fólk með bólgur sé ólíklegra til að falla í stafi.

Hrifning getur hjálpað til við gagnrýna hugsun. Nokkrar rannsóknir benda til þess að hrifning geti skerpt hugsunina. Ein rannsókn leiddi til dæmis í ljós að fólk sem beðið var um að rifja upp aðstæður þar sem það féll í stafi var síður móttækilegt fyrir hæpnum rökum sem það las í blaðagrein en fólk sem beðið var um að hugsa um hlutlausari athafnir (þvo þvott). Það las greinina ítarlegar og greindi aðstæður á gagnrýnni hátt. Fram kemur í nýlegri fræðigrein að hrifning og undrun geti auðveldað börnum vísindalegt nám og rökhugsun.

Hrifning getur minnkað efnishyggju. Nokkrar rannsóknir sýna að það að falla í stafi geti dregið úr áhuga á efnislegum hlutum. Í einni þeirra var hópur beðinn um að lesa hrífandi sögu og annar las hlutlausari sögu. Í kjölfarið gátu þátttakendur valið úr tveimur gjöfum með sama verðgildið; efnislegan hlut (bakpoka) og upplifun (gjafakort að tónlistarveitu). Þeir sem lásu hrífandi söguna völdu frekar upplifunina en hinn hópurinn. Í annarri rannsókn þar sem þátttakendur rifjuðu ýmist upp hrífandi, skemmtilega eða hlutlausa upplifun, lögðu þeir sem rifjuðu upp hrífandi upplifunina minna upp úr peningum en aðrir. Rannsakendur telja að það að falla í stafi fjarlægi fólk frá hversdagslegum áhyggjum sem meðal annars tengjast fjármunum og efnislegum gæðum. Hrifning getur virkað sem stuðpúði gegn neikvæðum tilfinningum ef fólk missir efnislegar eigur.  

Hrifning fær þig til að finna smæð þína og gerir þig auðmjúkari. Ein djúpstæðustu áhrif hrifningar eru að hún getur breytt skynjun á okkur sjálf í samhengi við heiminn. Margar rannsóknir hafa sýnt að hrifning getur látið okkur finnast við vera lítil og smávægileg peð í samhengi hlutanna. Gerð var áhugaverð könnun meðal gesta á tveimur ferðamannastöðum í Bandaríkjunum. Á öðrum staðnum upplifðu gestir marktækt meiri undrun og hrifningu. Þegar þeir voru beðnir um að velja úr misstórum hringjum til að tákna sjálfa sig eftir heimsóknina völdu þeir minni hring og teiknuðu sjálfsmynd sem var 33% minni en gestir á hinum staðnum. Þeir sem eru hrifnæmir að upplagi virðast finna fyrir meiri auðmýkt að eigin mati og að mati vina. Það að ná að skapa hrifningu í tilraunaaðstæðum auðveldaði fólki að meta eigin styrkleika og veikleika og hjálpaði því að átta sig á mikilvægi ytri þátta í árangri sínum.  

Hrifning getur aukið gjafmildi þína og gert þig samvinnufúsari. Margar rannsóknir sýna að það að hrífast geti stuðlað að því að fólk verði vingjarnlegra og örlátara. Mögulega er það vegna þess að hrifning hvetur okkur til að einbeita okkur minna að okkur sjálfum og gefur okkur tilfinningu um nægan tíma.

Hrifning getur aukið þolinmæði og valdið því að þér finnst þú hafa meiri tíma. Rannsókn sýndi að þegar hrifning var vakin í tilraunaaðstæðum var fólk þolinmóðara og oftar sammála þeirri fullyrðingu að tíminn væri nægur. Rannsakendur telja hugsanlegt að með því að sökkva sér niður í augnablikið geti hrifning gert okkur kleift að njóta hér og nú. Með því að sækjast eftir hrífandi reynslu getum við unnið á móti tilfinningu um tímaskort.  
Hrifning getur hjálpað okkur að finnast við tengdari öðrum. Þegar fólk verður yfir sig hrifið finnur það fyrir meiri tengslum við aðra og reyndar við mannkynið í heild. Þegar fólk var beðið um að lýsa sjálfu sér eftir að hafa horft um tíma á volduga eftirlíkingu af beinagrind risaeðlu notaði það önnur orð en þeir sem höfðu horft inn eftir tómum gangi jafn lengi. Þeir sem höfðu horft á risaeðluna töluðu um sig sem „manneskju“ og „jarðarbúa“ en þeir sem höfðu verið í hinum aðstæðunum notuðu hefðbundin lýsingarorð eins og „hávaxin/n“ og „vinalegur“ sem bendir til þess að hrifning auki þá skynjun að við séum hluti af einhverju stærra. 
Rannsóknir á hrifningu eru frekar nýjar af nálinni og rannsakendur vita enn lítið um fyrirbærið. Lítið er vitað um hvernig áhrifin eru á börn í uppvextinum, hvernig hún tengist trú og andlegum upplifunum eða hvernig hægt er að nota hana í meðferð. 
Hrifning virðist „teygja úr“ tímanum.
Í annarri grein er rætt um nokkrar af ofangreindum tilraunum en einnig að þeir sem upplifa hrifningu séu oftar sammála fullyrðingu um að eigin hversdagsleg vandamál séu fremur lítilvæg. Þar sem hún virðist „teygja úr“ tímanum þá höfum við síður tilfinningu um að þurfa að vera á þönum og höfum möguleika á að finna ró. Með því að finnast við hafa meiri tíma er líklegra að við séum ánægðari með lífið og getum mögulega fundið hamingju. 
Dr. Danny Penman spyr í nýlegri grein hvort hrifning sé sterkasta en jafnframt vanmetnasta tilfinningin. Hann segir að hún geti róað hugann, dregið úr kvíða og óhamingju og vakið forvitni og sköpunargleði.
Sjálfsefi og sjálfsvitund falla í skuggann á hrifningu og menn tengjast öðru fólki sterkari böndum. Hún getur aukið samúð og óeigingirni og minnkað streitu, oft í töluvert langan tíma. Hún getur hjálpað til við að brjóta upp neikvætt hugsanamynstur, bæta minnið, minnka grufl og áhyggjur og gera hugann skýrari og ferskari. Rannsóknir hafa sýnt að þegar fólki eru sýndar heillandi myndir af jörðinni þá kemur það með frumlegri lausnir að vandamálum, er áhugasamara um óhlutbundna myndlist og hefur meira úthald við erfiðar þrautir.
Penman segir að það sé auðvelt að „rækta“ hrifningu. Við þurfum einfaldlega að taka eftir umhverfinu og nota öll skilningarvitin. 
Í lokin má nefna að hrífandi upplifanir þurfa ekki að vera stórbrotnar eða kostnaðarsamar, þær geta falist í hinu smáa og hversdagslega. Hér á Íslandi þurfum við ekki að leita lengi til að njóta hrífandi náttúru, oft er nóg að líta aðeins upp og horfa á fallegt sólarlag, snjó í fjöllum, útsprungið blóm eða fugla himinsins. Einnig má finna stórbrotið sjónvarpsefni um náttúruna og himingeiminn, fara á listsýningar, lesa ævisögur hvetjandi fólks og síðast en ekki síst læra af yngstu börnunum, en í þeirra heimi vekur nær allt undrun og hrifningu.

Forvitni

Með aldrinum dregur úr forvitni
Ertu forvitin/n? Það gæti verið enn jákvæðara en þú heldur. Forvitni hefur verið tengd við sálrænan, tilfinningalegan, félagslegan og jafnvel heilsufarslegan ávinning. Við þekkjum öll hve forvitin börn eru um allt milli himins og jarðar en með aldrinum dregur oft úr forvitninni og fólk hættir að vera eins opið fyrir nýjum upplifunum. Þetta er hálfgerð synd því við vitum jú að forvitni er drifkraftur; hún fær okkur til að ganga lengra ef eitthvað spennandi er handan við næsta hól, lesa meira ef efnið er forvitnilegt og hlusta betur ef eitthvað vekur undrun.
Í grein í Greater Good Magazine er rætt um 6 kosti við forvitni.
 • Forvitni hjálpar okkur að komast af. Hvötin til að kanna og leita að nýjungum hefur hjálpað okkur að vera á tánum og safna þekkingu um síbreytilegt umhverfi okkar í gegnum tíðina.
 • Forvitið fólk er hamingjusamara. Rannsóknir hafa sýnt að forvitni tengist jákvæðum tilfinningum, minni kvíða, meiri ánægju með lífið og betri andlegri líðan. Við gleðjumst að öðru jöfnu yfir nýjungum en rétt er að hafa í huga að hamingjusamara fólk getur verið forvitnara sem skýrir sambandið að hluta. 
 • Forvitni getur aukið samkennd okkar. Þegar við erum forvitin um fólk utan okkar innsta hrings þá skiljum við betur líf, reynslu og skoðanir þeirra sem eru ólíkir okkur.

 

 • Forvitni bætir árangur. Rannsóknir sýna að forvitni leiðir til meiri ánægju, þátttöku og árangurs í skóla og í vinnu. Það segir sig sjálft að þegar við erum forvitin og áhugasöm um það sem við erum að gera þá er auðveldara að taka þátt, leggja sig fram og skila góðum árangri.
 • Forvitni hjálpar til við að styrkja sambönd. Rannsókn leiddi í ljós að ef fólk sýndi raunverulega forvitni um hagi annarra var það metið hlýrra og meira aðlaðandi. Auðveldara er að byggja upp nálægð ef við erum forvitin og sýnum fólki áhuga.
 • Forvitni bætir heilbrigðisþjónustu. Þegar læknar eru forvitnir um sjónarmið sjúklinga finna báðir aðilar síður fyrir ergelsi og teknar eru betri ákvarðanir sem leiða til betri árangurs við meðferð. 

 

Sálfræðingurinn Todd Kashdan hefur skoðað forvitni í yfir 20 ár. Hann segir í grein að búið sé að rannsaka fyrirbærið töluvert og að ljóst sé að forvitni hafi fjölmarga kosti. Í einni rannsókn kom fram að fylgni var milli forvitni barna og þróunar einkunna á greindarprófi. Einnig er talið að hún auki seiglu og bæti helgun og frammistöðu.
Svo virðist sem öflugasta leiðin til að auka forvitni okkar sé að kynnast nýju fólki, kanna nýja staði og hlusta á ný sjónarmið. Kyrrstaða, kvíði og andúð á nýjungum getur á hinn bóginn kæft forvitni.

Hlátur er besta lyfið

Hláturinn vinnur gegn skaðlegum áhrifum streitu.
Hláturinn lengir lífið og lyftir geði tregu söng Ómar Ragnarsson inn á plötu árið 1970 við miklar vinsældir. Hláturinn tengist gleðinni og fátt er betra en endurnærandi hláturskast. Hláturinn styrkir tengsl við annað fólk og vinnur á móti skaðlegum áhrifum streitu. Húmor léttir byrðarnar, vekur bjartsýni og eykur snerpu og árvekni. Hann auðveldar okkur einnig að losa út reiði og fyrirgefa hraðar. Það er mikill kostur að eiga auðvelt með að hlæja og getur hjálpað til við að minnka spennu, styrkja sambönd og auka almenna vellíðan og hamingju. Börn hlæja oft á dag en við fullorðna fólkið höfum tilhneigingu til að vera alvarleg og hlæja sjaldnar. Ef hugsað er út í heilandi og endurnærandi mátt hláturs er vel þess virði að leita uppi hvert tækifæri til að skella upp úr.
Hlátur er heilsunni hollur
Hlátur...
 • ... slakar á öllum líkamanum. Öflugur hlátur dregur úr streitu og minnkar spennu - vöðvar verða slakari í allt að 45 mínútur á eftir.
 • ... styrkir ónæmiskerfið. Hlátur minnkar flæði streituhormóna og eflir varnir gegn sjúkdómum.
 • ... eykur vellíðan og minnkar sársauka. Hlátur eykur losun endorfíns sem eykur tilfinningu um vellíðan og getur jafnvel dregið úr sársauka tímabundið.
 • ... verndar hjartað. Hlátur eykur blóðflæði og bætir súrefnisupptöku, hann örvar hjarta, lungu og vöðva. 
 • ... léttir á reiði. Ekkert dregur hraðar úr reiði og deilum en sameiginlegur hlátur sem setur oft hlutina í nýtt samhengi. 
 • ... hækkar ánægjustigið, gerir fólki auðveldara að fást við erfiðar aðstæður og tengjast öðrum.
 • ... bætir skapið. Hlátur getur hjálpað til við að létta lundina, minnka kvíða og auka hamingju.
 • ... eykur þrautseigju með því að auðvelda okkur að bregðast við streitu. 
 • ... styrkir sambönd, bætir teymisvinnu og dregur fólk að okkur.
 • ... stöðvar erfiðar tilfinningar. Það er ekki hægt að vera kvíðin/n, reið/ur eða leið/ur þegar þú hlærð.
 • ... hjálpar til við að slaka á og hlaða batteríin. Hlátur dregur úr streitu, eykur orku og hjálpar til við einbeitingu og afköst.
 • ... breytir sjónarhorni og gerir mögulegt að sjá aðstæður í raunhæfara og minna ógnandi ljósi. Skondið sjónarhorn veitir sálfræðilega fjarlægð sem minnkar líkur á að þyrmi yfir okkur.
 • ... tengir okkur betur við aðra sem hefur djúpstæð áhrif á allar hliðar andlegrar og tilfinningalegrar heilsu.

Hlátur styrkir sambönd

Hlátur er áhrifarík leið til að halda samböndum ferskum og spennandi.
Við erum margfalt líklegri til að hlæja þegar við erum með öðrum. Það að deila húmor er stór hluti gleðinnar og oft erum við ekki eingöngu að hlæja að bröndurum heldur samskiptunum í heild. Og félagslegi þátturinn skiptir svo miklu máli hvað varðar heilsufarslega kosti hláturs. Við þurfum virkilega að tengjast fólki augliti til auglitis til að hlæja með því. Og við verðum jákvæðari, ánægðari og afslappaðri fyrir vikið.
Hlátur er áhrifaríkt tæki til að halda samböndum ferskum og spennandi. Við verðum glaðari, orkumeiri og seigari og eigum auðveldara með að draga úr gremju, ágreiningi og særindum. Hlátur er sérlega öflugt tæki til að leysa átök og draga úr spennu og hann hefur þann eiginleika að sameina fólk á erfiðum tímum.
Húmor og fjörug samskipti styrkja sambönd okkar með því að kalla fram jákvæðar tilfinningar og hlúa að tilfinningalegri tengingu. 

Þegar við hlæjum saman myndum við jákvæð tengsl sem veita vörn gegn streitu, missætti og vonbrigðum.

Húmor og hlátur í samböndum gera okkur kleift að:

 • vera óþvinguð.
 • vera ekki í vörn.
 • sleppa fram af okkur beislinu.
 • tjá tilfinningar.

 

Að búa til tækifæri til að hlæja   

 • Hafa húmorinn aðgengilegan. Hafa fyndnar ljósmyndir og teikningar í augsýn. Lesa skemmtilegar bækur og horfa á gott grínefni í sjónvarpi/á netinu (af nógu er að taka).
 • Finna leið til að hlæja að eigin aðstæðum og mistökum - þá minnkar álagið og við hættum að taka okkur of alvarlega. Það vandræðalegasta sem fyrir mann hefur komið verður með tímanum oft drepfyndið. „Hlæðu og heimurinn hlær með þér.“
 • Taka eftir, leita að og deila skemmtilegum atvikum og frásögnum. Ef reynt er að sjá spaugilegu hliðina á tilverunni má finna margt óborganlegt sem gaman er að deila með öðrum. 
 • Ekki dvelja við það neikvæða. Staldra ekki of lengi við neikvætt fréttaefni eða annað sem gerir okkur leið eða óhamingjusöm.

 

 • Finna barnið í sér. Reyna að herma eftir börnum, sem eru sérfræðingar í að leika sér, taka lífinu létt og hlæja að hversdagslegum hlutum. 
 • Brosa. Bros er upphafið að hlátri og er smitandi eins og hann.
 • Rifja upp skemmtilegar minningar. Rifja upp eitthvað sem fær okkur alltaf til að brosa, til dæmis eitthvað sem börnin tóku upp á eða hláturskast með vinum.  
 • Vera með fólki sem fær okkur til að hlæja og reyna að leggja í púkkið í staðinn. Þegar þú heyrir hlátur á kaffistofunni færðu þig nær.
 • Æfa sig í hlátri. Þótt gervihlátur sé þvingaður hefur hann góð áhrif á okkur og breytist oft í innilegan hlátur á endanum.
 • Gera eitthvað „kjánalegt“. Það getur verið hvað sem er; valhoppa, gretta sig, ulla eða syngja og dansa á almannafæri.
 • Stinga upp á spilakvöldi með vinum eða ættingjum. 
-          Sjá frekari umfjöllun í grein frá Mayo Clinic og umfjöllun á HelpGuide. 
 
Óvæntar hliðar hláturs
Sophie Scott er sálfræðingur og kennari við University College London. Hún hefur rannsakað hlátur sérstaklega og talar um nokkrar óvæntar uppgötvanir í grein á BBC.
Hún nefnir 10 atriði:
 1. Rottur eru kitlnar. Rottur hlæja eins og simpansar og hundar. Þær hlæja þegar þær eru í leik eins og við mannfólkið, til að sýna að þær séu glaðar og til að hvetja til tengsla. Þær rottur sem léku sér meira hlógu meira og þær sem hlógu meira vildu frekar vera nálægt öðrum rottum sem hlógu. Hjá mönnum er hlátur mikilvæg tilfinningaleg tjáning sem við reynum að koma áleiðis á ýmsan hátt, til dæmis í texta (broskarlar og LOL).  
 2. Hlátur snýst ekki um brandara. Ef við erum spurð hvað okkur þykir fyndið svörum við líklega „brandarar og spaug“. En það er ekki einhlítt. Robert Provine hjá háskólanum í Maryland komst að því að við hlæjum mest þegar við tölum við vini okkar. Reyndar erum við 30 sinnum líklegri til að hlæja að einhverju þegar við erum með öðru fólki. Í þessum samtölum erum við ekki að hlæja að bröndurum, heldur fullyrðingum og athugasemdum sem virðast alls ekki fyndnar. Hláturinn snýst minna um brandara og meira um félagslega hegðun sem við notum til að sýna fólki að okkur líki vel við það og að við skiljum það.
 3. Heilinn gerir ósjálfrátt greinarmun á þvinguðum og innilegum hlátri. Heilinn bregst öðruvísi við þegar hann heyrir gervihlátur og reynir sjálfkrafa að skilja af hverju fólk þvingar fram hlátur.    
 4. Hlátur er smitandi. Þeir sem smitast mest af hlátri annarra eiga auðveldara með að greina á milli hvort hlátur er raunverulegur eða þvingaður. Að smitast af hlátri gæti hjálpað okkur að skilja hvað hláturinn merkir.
 5. Fólk sem þú þekkir er fyndnara. Smitandi áhrif hláturs er ástæða þess að kynnar (oft þekktir) í uppistandssýningum taka sér góðan tíma til að hita áhorfendur upp og halda uppi fjörinu milli atriða. Kunnugleiki og væntingar okkar eru oft kjarninn í hlátri, okkur þykja brandarar til dæmis fyndnari ef frægur grínisti segir þá.    
 6. Hlátur kemur þér ekki í form. Þó að hjartsláttur aukist um 10-20% þá þarf að hlæja í ansa marga klukkutíma til að brenna ígildi eins snakkpoka.
 7. Sambönd endast lengur ef við hlæjum. Bob Levenson hjá Berkeley háskóla bað pör um að ræða eitthvað í fari makans sem pirraði þau (streituvekjandi). Pörin sem notuðu hlátur í aðstæðunum voru fljótari að jafna sig, voru ánægðari í sambandinu og voru lengur saman. Þetta bendir til þess að hlátur sé tilfinning sem nánir einstaklingar geta notað til að bæta líðan sína. Þetta er mikilvægt þegar við erum glöð en jafnvel enn mikilvægara þegar kringumstæður eru erfiðar.
 8. Hlátur krefst nákvæmrar tímasetningar. Í samtölum tímasetur fólk hlátur sinn við lok setningar, jafnvel fólk sem talar táknmál. Reyndir uppistandarar sýna færni við að samstilla textaflutning og viðbrögð áhorfenda og hafa sjálfstraust til að gera hlé á tali til að gefa áhorfendum færi á að hlæja - og vita hvenær á að byrja aftur svo ekki skapist vandræðaleg þögn.  
 9. Hlátur er aðlaðandi. Úttekt sem gerð var á einkamálaauglýsingum leiddi í ljós að kímnigáfa var oftar tilgreind en gáfur, menntun eða starfsgrein. Önnur rannsókn sýndi að við teljum fólk sem hlær að bröndurunum okkar meira aðlaðandi.
 10. Sumt fær næstum alla til að hlæja. Enginn grínisti hefur fundið hinn eina sanna brandara sem öllum þykir fyndinn, óháð tíma og rúmi. Sophie hefur þó í rannsóknum sínum fundið hluti sem virka betur en aðrir til að fá fólk til að hlæja. Eitt af því besta eru klippur af fólki sem er að berjast við að hlæja ekki í aðstæðum þar sem hlátur er í meira lagi óviðeigandi. Klassíska dæmið er bráðfyndin upptaka af breska fréttalesaranum Charlotte Green þegar hún berst við að halda niðri í sér hlátrinum í beinni útsendingu.

Sophie Scott var með fróðlegan TED fyrirlestur um hlátur árið 2015.

Viltu koma út að leika?

Leikur er lækning náttúrunnar við streitu.
Hve langt er síðan þú fórst síðast út að leika? Það er fjarri mörgum fullorðnum sem telja sig vaxna upp úr leikjum og að nú sé alvaran tekin við. En ef við hugsum málið þá sameinar leikur margt sem er hollt fyrir okkur; hreyfingu, (oft) útiveru, jákvæð samskipti, gleði og hlátur. Margt sem við gerum í leik krefst ákveðinnar hæfni og sköpunar, við fáum útrás fyrir spennu og getum slakað vel á að leik loknum.
Góð og viðurkennd leið til að leika sér á fullorðinsaldri er að taka þátt í ýmsum íþróttum og æfingum. Fólk slær oftast tvær flugur í einu höggi; styrkir líkamann og eflir tengsl við aðra, en síðarnefndi þátturinn er ekki síður mikilvægur fyrir heilsuna ef marka má rannsóknir.  

Í The Copenhagen City Heart Study (CCHS) er meðal annars spurt ítarlega um þátttöku í líkamsrækt og íþróttum. Fylgst var með þátttakendum (8577) í allt að 25 ár. Í ljós kom að þeir sem stunduðu hreyfingu með öðru fólki lifðu hvað lengst, lengur en þeir sem stunduðu líkamsrækt einir. Ekki er hægt að fullyrða um orsakasamband en áhugaverð fylgni kemur í ljós.   

Sú líkamsrækt sem virtist skila minnstu var þjálfun innanhúss á líkamsræktarstöð, meðal annars æfingar á hlaupabrettum og öðrum tækjum. Þátttakendur í þessari þjálfun lifðu að meðaltali 1,5 árum lengur en þeir sem stunduðu enga líkamsrækt. Þeir sem hlupu, syntu eða hjóluðu lifðu um 3-4 árum lengur en kyrrsetufólkið, en þeir sem æfðu greinar þar sem annað fólk kemur við sögu, svo sem tennis, badminton, golf og fótbolta lifðu að meðaltali um 5 til 10 árum lengur!

Einn rannsakenda, hjartalæknirinn James O’Keefe, segir að leikur sé lækning náttúrunnar við streitu og telur hann nauðsynlega útrás fyrir okkur. Með leik á hann við ánægjulega hreyfingu í frítíma með að minnsta kosti einum leikfélaga. Ef við leitum að hreyfingu sem stuðlar að langlífi væri því ráð að æfa með öðrum og velja eitthvað sem við höfum virkilega gaman af og getum helst æft utandyra. Hann varar við mjög erfiðum æfingum og telur að ofþjálfun geti mögulega þurrkað út jákvæð áhrif hreyfingar.

Í TED fyrirlestri O‘Keefe ræðir hann mikilvægi félagslegra tengsla og vísar í rannsókn frá 2010 þar sem fram kemur að fullnægjandi félagsleg tengsl hafi sambærileg áhrif á lífslíkur og að hætta að reykja og talsvert meiri áhrif en ofþyngd og kyrrseta.
Félagsleg tengsl hafa verndandi áhrif.     
Hann segir að áður hafi hann efast um gagnsemi þess að stunda mýkri íþróttir þar sem hjartsláttur er undir þjálfunarmörkum, svo sem að fara í keilu eða á hestbak, en nú geri hann sér grein fyrir að ávinningur þess að æfa einn fölnar í samanburði við ávinning af því að æfa með öðrum.
Hann minnist á að leikir og æfingar með öðrum séu sennilega enn gagnlegri fyrir karla en konur því konur séu oft betur í stakk búnar að viðhalda sterkum félagslegum tengslum eftir öðrum leiðum, en þetta sé ein af fáum leiðum karla til að mynda sterk og endingargóð tengsl utan vinnu.    
Hvenær fórst þú síðast út að leika? Hvað fannst þér skemmtilegast að gera sem barn, gætirðu endurtekið leikinn? 
Nokkrir vinsælir útileikir til upprifjunar: 
 • Fótbolti
 • Körfubolti
 • Brennó
 • Eltingaleikur
 • Yfir
 • Fallin spýta
 • Kúreka- og indíánaleikur
 • Reipitog
 • Síðastaleikur
 • Myndastyttuleikur
 • Hlaupa í skarðið
 • Höfrungahlaup
 • Klukk
 • Teygjutvist
 • Snúsnú
 • Hollí hú