Fara í efni

Heilsuhjólið á heilbrigðisþingi 2020

Fólk er oft ekki virkt í bataferlinu sjálft.
Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA), hélt erindi á Heilbrigðisþingi 2020 sem hann nefndi „Er ég sjúkur eða frískur – Hvað segir fagmaðurinn? Guðjón sagði að mögulega vanti heildræna nálgun í heilbrigðiskerfið, tilhneigingin sé sú að fólk leiti til læknis og fái í kjölfar greiningar lyf og/eða aðra meðferð. Fólk sé oft ekki virkt í bataferlinu sjálft heldur bíði eftir bata vegna utanaðkomandi inngripa.
„Styrkurinn er fagsins og fagmannsins en vanmátturinn er minn vegna þess að það þarf að laga það sem er að sem er fyrst og fremst á ábyrgð fagmannsins, en minna á mína eigin ábyrgð. Þetta eykur hættu á að gera sjúkling óvirkan vegna þess að frá honum er tekin ábyrgð. Sjúklingurinn telur sig í mörgum tilfellum eiga heimtingu á því að fagmaðurinn lagi sig“ segir Guðjón.
Hann ræðir um aðra nálgun á heilbrigði og ræðir um Machteld Huber og heilsuhjólið sem samanstendur af sex þáttum heilsu sem einstaklingur getur sjálfur metið hjá sér. „Með því er hægt að sjá heildrænt styrkleika og veikleika að mati viðkomandi og veita ráðleggingar út frá þeim.“ Dæmin sýna að ef vel tekst til að hafa góð áhrif á einn þáttinn þá eru líkur á að hinir þættirnir styrkist samhliða að mati viðkomandi.
Þess má geta að Heilbrigðisstofnun Austurlands var fyrst íslenskra heilbrigðisstofnana til að innleiða hugmyndafræði um jákvæða heilsu. Á heimasíðu stofnunarinnar kemur fram að með því sé „að vissu leyti snúið við ríkjandi hugsun í heilbrigðisþjónustu sem einblínir oft á skyndilausnir við óþægindum og einstaklingurinn skilgreindur sem sjúklingur. Í staðinn er horft á einstaklinginn sjálfan og almenna líðan hans út frá sex meginstoðum: Andlegri heilsu, tilgangi í lífinu, daglegri virkni, félagslegri þátttöku, lífsgæðum og líkamlegri getu. Út frá þessu mati er einstaklingum vísað á viðeigandi úrræði, sem oft eru hvorki frekari læknismeðferð né lyfjagjöf.“
Hér að neðan má sjá Heilsuhjólið ásamt fullyrðingum sem eiga við um hvern af þáttunum sex. Ef smellt er á mynd opnast pdf-útgáfa sem hægt er að prenta út.