Fara í efni

Hollráð sérfræðinga VIRK á óvissutímum

Hér má finna nokkrar greinar sem sérfræðingar hjá VIRK hafa skrifað og eiga vel við á óvissutímum.

Eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum

Berglind Stefánsdóttir sérfræðingur og Þorsteinn Gauti Gunnarsson ráðgjafi.

Það er óhætt að segja að enginn bjóst við að vera að kljást við heimsfaraldur í upphafi árs 2020. Aðstæður okkar hafa breyst mjög hratt og við erum öll samstíga í því að upplifa sveiflur í andlegri líðan, eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Fræðsla getur hjálpað mikið og virkað sem áttaviti á erfiðum tímum. Það að vera meðvitaður um áhrifaþætti er mikilvægt fyrsta skref. En hvað erum við að upplifa og hvernig er árangursríkt að bregðast við?

Lesið greinina á heimasíðu VIRK.

 
Er stuttur þráðurinn?

Anna Lóa Ólafsdóttir atvinnulífstengill. 

Það reynir á samskipti við aðra þegar álag og óvissa sækja að okkur. Þegar við erum í jafnvægi erum við kannski ekki að hugsa mikið út í þessa hluti en skynjum ákveðnar breytingar þegar álag er mikið. Á góðum degi þar sem samskiptin reynast okkur auðveld, erum við gjarnan frjálsleg og afslöppuð í kringum aðra og segjum skoðanir okkar þrátt fyrir að þær séu á skjön við skoðanir annarra. Við erum tilbúin að hlusta á aðra og ræða málin og það er í samræmi við aðra tjáningu, þar sem orðin, andlitið og líkamstjáningin segja sama hlutinn.

Lesið greinina á heimasíðu VIRK.

 

Núvitund á óvissutímum

Gunnhildur Kristjánsdóttir sérfræðingur.

Núvitund hefur verið talsvert í umræðunni síðustu árin og mikið hefur verið fjallað um gagnsemi hennar. Sjaldan hefur verið eins mikil þörf á að stunda núvitund og einmitt núna þegar sífellt dynja á okkur fréttir um fjölgun COVID-19 smita og alls konar ný boð og bönn. Margir kannast eflaust við að sitja fyrir framan tölvuna og „refresha“ nýjustu fréttir um fjölda smitaðra og eyða kaffitímunum í heimavinnunni í að hlusta á Víði, Ölmu og Þórólf. Þessar aðstæður skapa streitu og áhyggjur hjá okkur flestum ...

Lesið greinina á heimasíðu VIRK. 


Líkamleg álagseinkenni í fjarvinnu
Margir eru nú að vinna heima hjá sér og fæstir eru með eins góða vinnuaðstöðu þar og í vinnunni. Í ofanálag er aukin streita í umhverfinu og þetta tvennt getur gert okkur útsettari fyrir líkamlegum álagseinkennum og aukið líkurnar á því að upp komi gömul eða ný vandamál.
Mikilvægt er því að huga eins vel að vinnuaðstöðunni heima og hægt er, bæði til að lágmarka líkur á líkamlegum álagseinkennum og einnig sem bjargráð ef upp eru komin álagseinkenni.
Sjá grein um líkamleg álagseinkenni í fjarvinnu hér á síðunni.
Andleg þreyta
Andleg þreyta er gjarnan uppsafnaður vandi og kemur í kjölfar of margra ákvarðana sem við þurfum að taka, stöðugra truflana og of margra verkefna á stuttum tíma. Miklar kröfur eru oft gerðar til okkar og athyglin beinist í of margar áttir. Í stuttu máli er of mikið í gangi án þess að við höfum tíma til að taka hlé og jafna okkur.
Því þreyttari sem við erum andlega því erfiðara er að standast daglegar kröfur. Það verður erfiðara að taka réttar ákvarðanir, ganga einbeitt/ur að verkefnum og halda ró sinni. Það getur líka verið erfitt að stjórna tilfinningum sínum. Yfir lengri tíma getur andleg þreyta valdið miklum vanda, en þegar við áttum okkur á orsökum þreytunnar getum við tekið skref í átt að betri líðan.
Sjá nánar í grein um andlega þreytu þar sem farið er í einkenni hennar og aðferðir til að draga úr andlegri þreytu.
Uppsöfnuð streita
Hver er þín leið til að fá útrás fyrir uppsafnaða streitu sem mögulega hefur náð að safnast upp í líkamanum í nokkurn tíma? Í samantekt hér á velvirk.is eru tilteknar margar góðar hugmyndir til að losa út streitu og létta lundina.  

Streita vegna óvissu

Við erum vanaföst og þegar hlutirnir ganga samkvæmt áætlun teljum við okkur hafa góða stjórn í lífinu. Þegar eitthvað fer úrskeiðis eða óvænt atvik koma upp getum við fundið fyrir kvíða og aukinni streitu. Enginn getur komist hjá hinu óvænta, en í þessari grein eru nokkur ráð sem gætu hjálpað.
 

Sjá nánari umfjöllun um streitu í þessum greinum: 


 Hláturinn er okkur hollur

Í grein hér á síðunni er fjallað um hláturinn og fjölmarga góða eiginleika hans. Hlátur styrkir tengsl við annað fólk og vinnur gegn skaðlegum áhrifum streitu. Ef hugsað er út í heilandi og endurnærandi mátt hláturs er vel þess virði að leita uppi hvert tækifæri til að skella upp úr.

Láttu heillast. Vá!

Það að hrífast af því sem við sjáum og upplifum getur haft afar jákvæð áhrif á okkur. Við gleymum stað og stund og komumst í eftirsóknarvert ástand. Allir hafa upplifað svona stundir á lífsleiðinni, til dæmis þegar þeir ganga inn í fallega byggingu, horfa á stjörnubjartan himinn, standa við kraftmikinn foss eða fara á tónleika með uppáhaldshljómsveitinni. Lesa má meira um áhrif hrifningar hér.

Áhugamál – vörn gegn streitu?

Mikilvægt er að taka frá tíma til að gera eitthvað sér til hreinnar ánægju og gleði. Þegar við þurfum að aftengja okkur frá vinnu eða streituvekjandi aðstæðum er upplagt að sinna áhugamálum. Gott áhugamál hefur oft jákvæð áhrif á aðra hluta lífsins, það hjálpar okkur að finna tilgang, dregur úr streitu og bægir frá neikvæðum hugsunum. Með því að sinna einhverju sem við brennum fyrir byggjum við upp þrautseigju og upplifum svokallað flæði svo við gleymum stað og stund.

Í þessari grein má finna hugmyndir að áhugamálum og vísanir í enn fleiri hugmyndir.

Að vinna heima á tímum sóttvarna

Að snúa aftur á vinnustað

Ráð til stjórnenda á tímum sóttvarna