Fara í efni

Að snúa aftur á vinnustað

Þessar breytingar geta skapað ákveðið óöryggi
Eftir að tilslakanir verða gerðar snúa margir sem unnið hafa heima eða verið alveg frá vinnu vegna Covid-19 aftur á vinnustaðinn að hluta eða öllu leyti. Flestir eru eflaust fegnir að komast aftur á vinnustað, hitta góða vinnufélaga og ná upp fyrri rútínu, en þessar breytingar geta skapað ákveðna streitu og óöryggi. Við þurfum öll eftir sem áður að gæta að sóttvörnum og virða reglur sem í gildi eru. Stjórnendur fyrirtækja þurfa að undirbúa komu fólks vel með tilliti til sóttvarna.
Hræðsla við að smitast eða smita aðra. Í könnun Gallup sem gerð var fyrri hluta apríl 2020 kemur í ljós að nær 85% landsmanna eru hræddir við að annað hvort þeir sjálfir eða einhver í fjölskyldu þeirra gæti smitast af Covid-19. Þessi ótti er því mjög útbreiddur þótt mismikill sé. Í sömu könnun kemur í ljós að um 96% svarenda telja stjórnvöld vera að takast vel á við Covid-19. Tölulegar upplýsingar um árangurinn styðja líka vel við þá skoðun og því má leiða líkur að því að áhyggjur okkar séu að minnka og að skrefið aftur til starfa verði ekki svo erfitt.
Með því að fara eftir leiðbeiningum sóttvarnaryfirvalda, passa upp á næringu, hreyfingu og svefn, taka frá tíma til slökunar, takmarka fréttalestur og viðhalda góðum tengslum við ástvini getum við dregið úr áhyggjum og streitu. Finna má gagnlegar slóðir um líðan okkar á covid.is, þar á meðal bækling sem fjallar um hvernig takast á við áhyggjur og kvíða í heimsfaraldri. Hér á síðunni (velvirk.is) má einnig finna mikið almennt efni um streitu og bjargráð við henni.       

Óvenjuleg samskipti við samstarfsfólk. Það verður frábært að hitta vinnufélaga aftur augliti til auglitis, en dagleg samskipti gætu þó verið nokkuð stirð til að byrja með því við erum orðin hálf ómannblendin og sumir finna fyrir kvíða og óöryggi i návist annarra. Við vitum betur en þurfum tíma til að fara til baka í fyrri hegðun og getum raunar ekki enn leyft okkur að fara alla leið þó útlitið lofi góðu. Við verðum að vera meðvituð um fjarlægðarmörk og sýna fyllstu tillitssemi því vinnufélaginn gæti verið óöruggur og liðið illa. 

Best er að byrja strax á að tileinka sér þá rútínu sem vinnustaðurinn hefur undirbúið og vanda sig mjög vel í samskiptum. Spritta samkvæmt tilmælum til að passa sjálfan sig og kannski ekki síður til að sýna vinnufélögum að þú takir ábyrgð og berir hag þeirra fyrir brjósti. 

Þó að vinnustöðvar séu stilltar af með tilliti til tveggja metra reglunnar þarf að passa sig við kaffivélina, á göngum og í almennum rýmum þar sem meiri tilhneiging gæti verið til að falla í sama far og áður. Eftir örfáa daga verða samskiptin mun auðveldari!  
Það getur fylgt því óöryggi að snúa aftur á vinnustaðinn en það hefur líka marga kosti sem geta unnið á móti kvíðanum. Nefna má dæmi: 
  • Við hittum vinnufélaga (og viðskiptavini) og upplifum ákveðna samkennd með því að deila upplifunum og koma saman sem hópur sem hefur gengið í gegnum sameiginlega erfiðleika. Þetta er jafnvel enn kærkomnara fyrir þá sem hafa ekki hitt vinnufélaga á fjarfundum og/eða hafa ekki stórt tengslanet.
  • Lífið verður litríkara og við fáum um annað að hugsa en undanfarnar vikur. Bros og hlátur bæta líðan og auka bjartsýni.  
  • Við náum fyrri tengingu við yfirmann og fáum mögulega skýrari ramma fyrir vinnudaginn og hvatningu/viðurkenningu sem skilar sér ekki alltaf í gegnum fjarfundabúnað.
  • Sumir komast aftur í langþráða rútínu sem hefur jákvæð áhrif á heilsu og líðan. Við kunnum hugsanlega betur að meta hin daglegu störf og taktinn á vinnustaðnum.    
  • Það dregur úr óöryggi að vera „á staðnum“.
Ath. ef fólk þjáist af undirliggjandi sjúkdómum og/eða hefur mjög miklar áhyggjur af því að snúa til vinnu er mikilvægt að ræða við yfirmann. 

Áætlanir geta dregið úr kvíða

Í faraldrinum hafa áætlanir farið úr skorðum en það að skipuleggja fram í tímann hefur þó sjaldan verið mikilvægara. Rannsóknir hafa sýnt sterk tengsl milli óljósrar framtíðar og kvíða og óþol gagnvart óvissu hefur tengsl við þunglyndi. Því er mikilvægt að halda áfram að gera áætlanir - jafnvel þó þær gangi ekki alltaf upp. Þær geta hjálpað til við að halda í jákvæðni og komið í veg fyrir að við verðum útkeyrð af streitu. Að skipuleggja fram í tímann er okkur eðlislægt og við erum fær í því.
Sjá umfjöllun um kosti þess að gera áætlanir hér.

Ráð til stjórnenda á tímum sóttvarna