1. Skýr stefna og vinnureglur: Nauðsynlegt er að hafa skýra stefnu og vinnureglur varðandi fjarveru frá vinnu. Starfsfólk þarf að vita hvenær og við hvern á að hafa samband, hvernig má og á að hafa samband (t.d. með símtali, tölvupósti eða SMS). Einnig þarf að vera ljóst hvenær krafist er læknisvottorðs og hvernig tekið er á tíðum veikindafjarvistum. Sanngirni og samræmi eru mikilvæg.
2. Stuðningur: Að sýna starfsfólki stuðning ef þarf að vera lengur frá en eina vinnuviku vegna veikinda. Hringja og kanna hvort vinnustaðurinn getur gert eitthvað. Láta vita að viðkomandi er saknað. Flest eru viðkvæmari en ella þegar þau eru veik eða slösuð og því er mikilvægt að sýna jákvæðan stuðning. Ef einstaklingurinn finnur jákvæða strauma frá vinnustaðnum langar hann fyrr að fara aftur í vinnuna.
3. Góð stjórnun: Hvetja þarf stjórnendur til að viðhafa góða stjórnun þegar kemur að veikindafjarveru. Þeir sem sýna starfsfólki skilning, stuðning og traust ná betri árangri en þeir sem hugsa bara um framleiðnina. Vænlegasta leiðin til árangurs er ekki sú sem einblínir á tapaðan vinnutíma starfsfólks.
4. Svigrúm: Svigrúm til fjarveru án þess að um veikindi sé að ræða þarf að vera til staðar. Æskilegt að bjóða starfsfólki sveigjanlegt vinnufyrirkomulag ef það er mögulegt. Fólki er mikilvægt að geta viðhaldið jafnvægi í einkalífi sínu án þess að þurfa að tilkynna sig veikt. Til dæmis hafa rannsóknir sýnt að veikindafjarvistir aukast þegar frí er í skólum og foreldraskyldur og vinnuskyldur takast á um tíma fólks.
5. Jákvætt starfsumhverfi: Ef einstaklingi líður ekki vel í vinnunni eru meiri líkur á að hann sé oftar frá vinnu vegna veikinda. Vinnustaðir þar sem hlustar er á starfsfólk, vinnuálag er hæfilegt og stjórnendur og samstarfsfólk eru styðjandi, stuðla að vellíðan. Þegar fólki líður vel í vinnunni vill það vera þar.
6. Hreinskilni og skilningur: Starfsfólk sem upplifir óöryggi í vinnu er oftar frá vegna veikinda en þau sem eru örugg í starfi. Ef raunveruleg ástæða er fyrir óöryggi starfsfólks, þarf að ræða það viðkomandi af hreinskilni og skilningi.
7. Góður starfsandi: Ágreiningur milli starfsfólks eða starfsfólks og stjórnenda er skaðlegur ef ekki er tekið á honum strax og af festu. Hann getur leitt til aukinna fjarvista og streitu á vinnustað og verður flóknari og dýrari eftir því sem hann nær að búa um sig lengur. Ekki láta togstreitu eyðileggja starfsandann.
8. Hrós og umbun: Látið starfsfólk vita að vinna þess er metin. Starfsfólk sem veit að það skilar góðu verki er ánægt í vinnunni. Það getur haft áhrif á fjarveru og marga aðra þætti sem varða vellíðan og árangur í vinnu.
9. Sveigjanleiki: Að gefa kost á aðlögun (á vinnuskyldu og vinnutíma) að vinnugetu ef hún er skert tímabundið og sýna skilning ef einstaklingur þarf að „skreppa“ frá skamma stund vegna viðtals við sálfræðing eða lækni. Ef mikið mál er gert úr slíku er eins líklegt að næst þegar viðkomandi þarf að hitta meðferðaraðila tilkynni hann sig veikann til að losna við óþægindi.
10. Fjarverustefna og vinnuferli: Brýnt er að fylgja fjarverustefnu fast eftir og samræmdu vinnuferli sem henni tengjast. Það þarf að vera skilningur og sveigjanleiki til staðar en starfsfólkið þarf að átta sig á að ef það misnotar kerfið þá fylgja því afleiðingar. Ef um er að ræða reglubundnar og/eða tíðar fjarvistir þarf að taka á því fljótt, á sanngjarnan hátt og samkvæmt vinnureglum.
Styðjast má við efni inn á virk.is varðandi fjavistastefnu og fjarverusamtal.