Fara í efni

Starfstengd kulnun

Afleiðing langvarandi streitu á vinnustað sem ekki hefur verið hægt að ná stjórn á með áranguríkum hætti.

Mikil samfélagsleg umræða hefur verið um kulnun og áhrif langvarandi streitu síðast liðin ár. 

Rannsóknir hafa aukist talsvert og aukin þekking að verða. Alþjóðaheilbirgðismálastofnunin (WHO) gaf út nýja skilgreiningu á kulnun í uppfærðu flokkunarkerfi sínu ICD-11 árið 2019, sem leysti þá af hólmi eldra kerfi frá árinu 1994. Talsverður munur var á útgáfunum sem er ekki óeðlilegt. Áfram eykst þekkingin og árið 2020 kom út ný skilgreining og mælitæki sem lofar mjög góðu og þýtt hefur verið á íslensku. Hér að neðan er hægt að lesa sér til kulnun til dæmis um skilgreiningu WHO, nýtt mælitæki, tölfræði og hagnýt ráð.

Til eru fjölmargar skilgreiningar á kulnun. Á Íslandi er stuðst við alþjóðlegt kerfi þegar kemur að viðmiðum um sjúkdóma, raskanir og heilsufarsvanda.

Samkvæmt því kerfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er kulnun heilkenni sem er afleiðing langvarandi streitu á vinnustað sem ekki hefur tekist á árangursríkan hátt að ná stjórn  á.  Einkenni kulnunar eru á þrem víddum:  

  • Orkuleysi eða örmögnun;
  • Andlega fjarverandi í vinnu, neikvæð viðhorf eða tortryggni tengd vinnustað;
  • Minni afköst í vinnu. 

Kulnun vísar til fyrirbæris í tengslum við vinnuumhverfið og ætti ekki að vera nýtt til að lýsa reynslu á öðrum sviðum lífsins 

Undanskilið:  Aðlögunarröskun, raskanir tengdar streitu, kvíði eða ótta-tengdar raskanir og lyndisraskanir 

 

Síða WHO (QD85 Kulnun): https://icd.who.int/

Til eru margs konar spurningalistar sem ætlað er að mæla og meta kulnun eða einkenni kulnunar. 

Þeir eru þó ekki allir að mæla það sama þar sem mismunandi viðmið og skilgreiningar liggja að baki þeim. Einn nýjasti listinn, en þó vel rannsakaður, er Burnout assessment tool (BAT). Það er sjálfsmatslisti sem metur hvort hætta sé á kulnun hjá starfsfólki. Ekki er um greiningartæki að ræða og listinn eingöngu nýttur til að taka stöðuna hverju sinni. Hann metur einkenni á 4 víddum; Örmögnun, aftenging, hugræn,- og tilfinningaleg skerðing

Viðmið þessa lista eru að kulnun sé "vinnutengt þreytuástand sem á sér stað meðal starfsmanna. Einkennist af mikilli þreytu, breytingu á hugrænni getu, tilfinningalegum óstöðugleika og aftengingu. Þessum fjórum kjarnavíddum fylgja gjarnan depurð eða þunglyndi sem og ósértæk sálræn og sállíkamleg einkenni."

Hér má lesa sér til um listann og sækja hann á yfir 30 tungumálum. Listinn hefur verið þýddur á íslensku. Þegar rannsóknum verður lokið á íslensku útgáfu listans verður hann einnig aðgengilegur á sömu síðu. 

Virk starfsendurhæfingarsjóður hefur á síðast liðnum árum verið með þróunar- og rannsóknarverkefni í gangi er snýr að kulnun í starfi.

Markmiðið hefur verið að ná betur utan um vandann, skilja betur eðli hans, umfang og síðast en ekki síst mæta þessum einstaklingum með bestu mögulegum leiðum. 

Í samræmi við nýjustu rannsóknir hefur verið aukin áhersla á stigskiptingu vandans á alþjóðlegum vettvangi.

Gott getur verið að vísa til þess megin munar að annars vegar er um að ræða vægan vanda þar sem einungis eru ákveðin teikn á lofti um vanda eða einhver áhætta á frekari vanda til staðar (e. burnout complaints) og hins vegar að fjalla um klínískan vanda (e. clinical burnout). En þá eru einstaklingar gjarnan farnir að takast á við talsverða færniskerðing og viðkomandi líklegast orðinn óvinnufær að einhverju leiti. 

Ef miðað er við ofangreinda skiptingu má líta til eftirfarandi talna hvað Ísland varðar; 

12,2%* einstaklinga sem voru virkir á vinnumarkaði í október 2023 mælast í talsverðri hættu á kulnun í starfi. 

  4,8%** af þeim einstaklingum sem komu til VIRK voru óvinnufærir árið 2023 og leituðu í    starfsendurhæfingu hjá VIRK á forsendum kulnunar í starfi. 

Þessar tölur eru í takt við það sem hefur verið skoðað og mælt með samskonar hætti erlendis. Í nokkrum löndum í kringum okkur hafa skimanir verið gerðar með sama lista og raðast Ísland þar um miðju hvað varðar hlutfall þeirra sem voru í talsverðri hættu á kulnun í starfi. 

Mikilvægt er þá að taka fram að sá hópur sem var ekki metinn í neinni hættu er stærstur. En í könnuninni í október 2023 voru 75% einstaklinga í þeim hópi.  

Hlutfall í þjónustu VIRK síðast liðin ár

Fjöldi þeirra sem koma í þjónustu VIRK á forsendum kulnunar í starfi hefur verið nokkuð sambærilegur síðast liðin ár. Á myndinni hér að neðan má sjá þessa þróun frá árunum 2021-2024.

Hægt að lesa nánar um verkefnið hér: 

https://www.virk.is/is/um-virk/upplysingar/frettir/kulnun-i-starfi 

https://www.virk.is/is/um-virk/upplysingar/frettir/enginn-titill-18 

 

*Byggt á gögnum sem safnað var í október 2023 af Gallup fyrir VIRK og HR.

**Hlutfall þeirra sem leituðu til VIRK vegna kulnunar í starfi árið 2023. 

  • Staldraðu við - hvað gæti verið að hafa áhrif á líðan þína?
  • Farðu yfir verkefnastöðuna  - Forgangsröðun
  • Hvernig eru samskiptin við samstarfsfólkið? Kynntu þér efnið hér á síðunni um samskipti
  • Hvernig er vinnuumhverfið? Kynntu þér efnið hér á síðunni um vinnuumhverfi
  • Gæti forvarnaþjónusta VIRK gagnast þér? Kynntu þér málið hér