Virk starfsendurhæfingarsjóður hefur á síðast liðnum árum verið með þróunar- og rannsóknarverkefni í gangi er snýr að kulnun í starfi.
Markmiðið hefur verið að ná betur utan um vandann, skilja betur eðli hans, umfang og síðast en ekki síst mæta þessum einstaklingum með bestu mögulegum leiðum.
Í samræmi við nýjustu rannsóknir hefur verið aukin áhersla á stigskiptingu vandans á alþjóðlegum vettvangi.
Gott getur verið að vísa til þess megin munar að annars vegar er um að ræða vægan vanda þar sem einungis eru ákveðin teikn á lofti um vanda eða einhver áhætta á frekari vanda til staðar (e. burnout complaints) og hins vegar að fjalla um klínískan vanda (e. clinical burnout). En þá eru einstaklingar gjarnan farnir að takast á við talsverða færniskerðing og viðkomandi líklegast orðinn óvinnufær að einhverju leiti.
Ef miðað er við ofangreinda skiptingu má líta til eftirfarandi talna hvað Ísland varðar;
12,2%* einstaklinga sem voru virkir á vinnumarkaði í október 2023 mælast í talsverðri hættu á kulnun í starfi.
4,8%** af þeim einstaklingum sem komu til VIRK voru óvinnufærir árið 2023 og leituðu í starfsendurhæfingu hjá VIRK á forsendum kulnunar í starfi.
Þessar tölur eru í takt við það sem hefur verið skoðað og mælt með samskonar hætti erlendis. Í nokkrum löndum í kringum okkur hafa skimanir verið gerðar með sama lista og raðast Ísland þar um miðju hvað varðar hlutfall þeirra sem voru í talsverðri hættu á kulnun í starfi.
Mikilvægt er þá að taka fram að sá hópur sem var ekki metinn í neinni hættu er stærstur. En í könnuninni í október 2023 voru 75% einstaklinga í þeim hópi.
Fjöldi þeirra sem koma í þjónustu VIRK á forsendum kulnunar í starfi hefur verið nokkuð sambærilegur síðast liðin ár. Á myndinni hér að neðan má sjá þessa þróun frá árunum 2021-2024.