- Afleiðingar óheilbrigðra samskipta eru alvarlegar og birtast í líðan og heilsu starfsfólks m.a. lægri starfsánægju, meiri streitu og svefnvanda. Þau grafa einnig undan trausti og leiða til neikvæðrar menningar meðal starfsfólks sem upplifir sig óöruggt og ekki metið að verðleikum. Þetta hefur líka alvarleg áhrif á skipulagsheildina með aukinni starfsmannaveltu og lakari árangri.
- Skipulag vinnustaðar getur stuðlað að því að starfsfólk treystir hvort öðru, þori að koma með hugmyndir, spurningar og gera mistök. Vinnustaðir sem leggja áherslu á vönduð og góð samskipti uppskera aukið traust, meiri helgun starfsfólks, betri teymisvinnu, betri þjónustu, meiri framleiðni og jarðveg sem ýtir undir skapandi hugsun.
- Stjórnendur og starfsfólk geta unnið saman að því að tryggja heilbrigð samskipti. Það hvernig fólk talar saman segir oft meira en opinber stefna og því skiptir máli að samskipti endurspegli þá menningu sem skipulagsheildin vill standa fyrir. Fátt er mikilvægara í samskiptum en virðing og vinsemd- Þar berum við öll ábyrgð.
Samskipti á vinnustað
Á vinnustöðum eru árekstrar og óheilbrigð samskipti ótrúlega algeng fyrirbæri og geta leitt til alvarlegri tilvika svo sem eineltis, áreitni eða ofbeldis. Slík samskipti geta verið yrt eða óyrt, sýnileg og dulin, meðvituð eða ómeðvituð og birtast oft í endurteknum, neikvæðum atvikum.
Þegar kemur að samskiptum getur verið gagnlegt að líta til vinnustaðarins (skipulagsheildarinnar), stjórnenda, starfsfólks og einstaklinga.

Hvað geta vinnustaðir gert?
Stjórnendur geta haft veruleg áhrif á samskipti með ýmsum hætti. Þetta tengist bæði formlegu skipulagi og óformlegum þáttum eins og vinnumenningu. Mikilvægt er bera kennsl á þá þætti sem hafa áhrif á samskipti og stuðla að sameiginlegri sýn og þann hátt að öll skilji. Þegar boðleiðir eru skýrar, samskipti markviss og traust verða verkefnin einfaldari, flæðið betra og ákvarðanataka skilvirkari. Þetta hefur ekki aðeins áhrif á starfið sjálft heldur eykur starfsánægju og sterkari liðsheild.
Skýr gildi sem endurspeglast í daglegum verkum stjórnenda og starfsfólks markar menningu hvers vinnustaðar.
Mikilvægt er að tryggja að framsetning sé skýr og aðgengileg hvort sem átt er við sýn eða stefnur vinnustaðar. Tilgangurinn með stefnum er að skapa skýran ramma, jafnræði, samræmi og tryggja flæði innan og utan skipulagsheildarinnar. Margar stefnur eru líka nauðsynlegar til að uppfylla lagaskyldur. Starfsfólk þarf að vita hvert fyrirtækið stefnir, hver markmiðin eru og hvernig þeirra starf tengist heildinni. Stefnur og gildi hafa því bæði hagnýtt og menningarlegt hlutverk og styður starfsfólk og stjórnendur við að takast á við áskoranir.
Einn af mikilvægustu forvörnum í tengslum við samskipti á vinnustað er upplýsingagjöf og skýrar boðleiðir.
Skilaboð frá stjórnendum þurfa að vera samræmd og skýr annars skapast ruglingur og ósamræmi. Mikilvægt er að allt starfsfólk noti sömu leikreglur í samskiptum, sama tungumál og að skilaboð endurspegli gildi skipulagsheildarinnar. Gott jafnvægi milli formlegra og óformlegra samskipta stuðlar að flæði upplýsinga og góðum tengslum.
Tilgangur upplýsingastefnu er að tryggja að réttar upplýsingar berist til réttra aðila á réttum tíma. Stefnan skýrir hlutverk og ábyrgð á vinnustað og tekur á því hvernig upplýsingum er miðlað innan sem utan vinnustaðar. Í mörgum tilvikum tekur upplýsingastefna einnig á því hvaða miðlar eru notaðir til upplýsingagjafar. Hún stuðlar að gagnsæi, öryggi og skilvirkni í samskiptum.
Til hliðsjónar er bent á upplýsingastefnu fyrir skipulagsheild ISO 9001:2015 sem byggir á alþjóðlegum stöðlum og hægt að aðlaga að mismunandi fyrirtækjum.
Reglur og verklagslýsingar tryggja að öll vinna eftir sömu aðferð og eftir sömu leikreglum.
Það dregur úr líkum á mistökum, eykur samræmi og auðveldar yfirfærslu þekkingar meðal annars við nýráðningar. Verklagslýsingar eru oft tengdar gæðakerfum (t.d. ISO 9001 staðlinum).
Skipurit
Skipuritið þarf að vera skýrt og aðgengilegt þannig að öll viti hvert ber ábyrgð á hverju og hvernig eiga að hafa samskipti sín á milli hvort sem á við stjórnendur eða milli starfsfólks. Gagnlegt getur verið að notast við flæðirit eða aðra myndræna framsetningu til að auðvelda yfirsýn um boðskipti milli starfsfólks og starfsfólks og stjórnenda.
Siðareglur
Flestar starfsstéttir hafa siðareglur sem umgjörð um starfs sitt og gildi. Tilgangur þeirra er að leiðbeina um góða og samræmda framkvæmd og veita leiðsögn um hvernig bregðast eigi við þegar siðferðileg álitamál koma upp í starfi.
Virk er með siðareglur fyrir ráðgjafa svo og allt starfsfólk Virk.
Starfslýsingar
Eitt af mikilvægu verkfærum fyrir skipulagsheild eru skýrar starfslýsingar fyrir öll störf. Starfslýsingar skilgreina hlutverk, ábyrgð og verkefni starfsfólks. Mikilvægt að þær séu notaðar í samtölum stjórenda og starfsfólks og séu uppfærðar reglulega í samræmi við breytingar.
Einn lykilþáttur í því að styrkja samskipti, fagmennsku og starfsánægju á vinnustað er að stuðla að reglulegri fræðslu og þjálfun starfsfólks.
Það er er hægt á gera á marga vegu. Mikilvægt er að stjórnendur skipulagsheildar greini þörf starfshóps fyrir þjálfun og fræðslu, setji sér stefnu og tryggja að öll hafi jöfn tækifæri til náms og endurmenntunar. Hægt er að nota áhættumat til þess, samtöl við starfsfólk og skoðanakannanir svo dæmi séu tekin.
Mikilvæg er að gæta að þessum þætti sérstaklega við yfirfærslu þekkingar t.d. þegar starfsfólk skiptir um starf innan skipulagsheildar, við nýráðningar, breytingar og þegar atvik koma upp. Þjálfun og fræðsla á ekki síður við stjórnendur en starfsfólk. Með því að vera fyrirmyndir geta stjórnendur skapað menningu þar sem stöðug þekkingaöflun er metin að verðleikum. Mælt er með að starfsfólk og stjórnendur fái reglubundna þjálfun í samskiptum, bæði uppbyggilegum samskiptum á vinnustað og viðbrögðum í krefjandi samskiptum.
Lögum samkvæmt ber öllum atvinnurekendum skylda til að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað án tillits til stærðar hans.
Einn af fimm meginþáttum vinnuverndar er sálfélagslegt vinnuumhverfi. Þar er m.a. tekið á þáttum sem snúa að skipulagi, samskiptum og vinnumenningu. Mælt er með að gerð áætlunarinnar sé samvinnuverkefni atvinnurekenda, stjórnenda og starfsfólks.
Á heimasíðu vinnueftirlitsins eru upplýsingar um áætlun um öryggi og heilbrigði og sálfélagslegt vinnuumhverfi.
Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi getur haft alvarlegar afleiðingar á heilsu og líðan starfsfólk og má aldrei að viðgangast á vinnustöðum.
Mikilvægt er að trygga öflugar forvarnir í samræmi við reglugerð um aðgerðir gegn EKKO.
Á heimasíðu Vinnueftirlitsins er hægt að nálgast frekari upplýsingar.
Finnist starfsfólki það ekki fá viðeigandi úrlausn mála hafi það kvartað undan einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað er hægt að senda ábendingu til Vinnueftirlitsins með því að fylla út form á vef þeirra.
Á vef Samtaka atvinnulífsins má finna sáttmála gegn einelti, áreitni og ofbeldi. Með sáttmálanum vilja þau hvetja starfsfólk og stjórnendur fyrirtækja til að gera gildi hans að hluta af daglegum rekstri. Sáttmálann er hægt að prenta út til að gera veggspjöld sem má hengja upp í kaffistofum eða á göngum vinnustaða til að minna á mikilvægi þess að tryggja vellíðan á vinnustöðum, skapa öryggiskennd og góðan starfsanda. Í sáttmálanum eru dregin fram þau gildi sem geta minnkað hættu á einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustöðum. Með því að hafa þau í heiðri stuðlar starfsfólk og stjórnendur að heilbrigðri vinnustaðamenningu. Frekari upplýsingar um ábyrgð og aðgerðir gegn einelti, áreitni og ofbeldi er að finna á Vinnumarkaðsvef SA.
Hugtök
Einelti
Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir. Einelti er einstaklingsbundin upplifun. Einelti er alvarleg mál sem stjórnendur og starfsfólk eiga að láta sig varða og bregðast við eins fljótt og kostur er þegar slík mál koma upp.
Kynferðisleg áreitni
Kynferðisleg áreitni felur í sér hverkyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Fólk verður sjálft að meta hvaða framkomu það umber og frá hverjum. Það er alltaf huglægt mat hvort framkoman er kynferðisleg eða ekki. Kynferðisleg áreitni getur birst með ýmsum hætti og getur verið bæði orðbundin, táknræn og líkamleg. Kynferðisleg áreitni er alvarlegt mál sem stjórnendur og starfsfólk eiga að láta sig varða og bregðast við eins fljótt og kostur er þegar slík mál koma upp. Alvarleg tilvik áreitni geta fallið undir hegningarlög, jafnvel þótt einungis sé um eitt tilvik að ræða.
Kynbundin Áreitni
Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi. Kynbundin áreitni er alvarlegt mál sem stjórnendur og starfsfólk eiga að láta sig varða og bregðast við eins fljótt og kostur er þegar slík mál koma upp. Alvarleg tilvik áreitni geta fallið undir hegningarlög, jafnvel þótt einungis sé um eitt tilvik að ræða.
Ofbeldi
Ofbeldi er hvers kyns hegðun sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda frelsissviptingu. Ofbeldi getur verið annaðhvort andlegt eða líkamlegt. Ofbeldi er alvarlegt mál sem stjórnendur og starfsfólk eiga að láta sig varða og bregðast við eins fljótt og kostur er þegar slík mál koma upp. Alvarleg tilvik ofbeldis geta fallið undir hegningarlög, jafnvel þótt einungis sé um eitt tilvik að ræða.
Samskipti á vinnustað geta verið flókin og ástæður samskiptavanda margvíslegar.
Stundum skapast óheppilegt samskiptamynstur sem vindur upp á sig og getur haft veruleg áhrif á líðan starfsfólks jafnvel löngu eftir að vinnudegi líkur. Leikreglur í samskiptum sem byggir á viðmiðum og ramma sem starfsfólk hefur komið sér saman um er mikilvægt forvörn. Samskiptasáttmáli þarf að vera aðgengilegur öllu starfsfólki, sérstaklega nýliðum. Til að traust skapist um slíkan sáttmála er mikilvægt að að starfsfólk upplifi að sáttmálinn gildi um öll á vinnustaðnum, þar með talið stjórnendur. Ef vel tekst til þá verður auðveldara að ræða erfið samskipti sem koma upp á vinnustaðnum með tilvísun í samskiptasáttmálann, jafnvel erfið samskipti í teymum eða sem snúa að stjórnendum.
Á heimasíðu vinnueftirlitsins má finna fróðleiksmola um samskiptasáttmála.
Jafnréttisstefna er bæði lagaskylda (fyrir stærri vinnustaði) og verkfæri til að tryggja virðingu, jafna stöðu og jöfn tækifæri fyrir öll á vinnustað, óháð kyni, kynhneigð, kynvitund, kynþætti, aldri, fötlun, trú, uppruna eða öðrum persónulegum þáttum.
Hún þarf að fela í sér markmið, aðgerðir, ábyrgð og eftirlit til að tryggja að lög og reglugerðir séu virt í daglegu starfi.
Jafnréttisstefna þarf að ná utan um lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög nr 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði og reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015.
Hvað geta stjórnendur gert?
Stjórnendur gegna lykilhlutverki þegar kemur að samskiptum á vinnustað. Þeir setja tóninn og eru mikilvægar fyrirmyndir. Á sama tíma er mikilvægt að styðja, þjálfa og viðhalda þjálfun fyrir stjórnendur þegar kemur að samskiptafærni.
Þegar stjórnendur eru opnir, heiðarlegir og aðgengilegir, fylgir starfsfólk því gjarnan eftir.
Stjórnendur ættu að finna leiðir til að hlusta, miðla upplýsingum og skapa vettvang fyrir umræður. Það er oft vandasamt verk að vera stjórnandi. Samskipti á vinnustað geta verið flókin og ástæður óheilbrigðra samskipta margskonar. Þegar skapa á heilbrigt vinnuumhverfi getur verið mikilvægt fyrir stjórnendur að hafa í huga að leggja ríka áherslu á forvarnir og skjót viðbrögð. Markviss endurgjöf og tíð samskipti skipta einnig máli. Stjórnendur ættu að leitast við að leysa úr ágreiningi snemma og á uppbyggilegan hátt.
Stjórnendur eru hvattir til að nýta sér verkfæri við hæfi þegar kemur að því að stuðla að jákvæðum samskiptum.
Virk samtöl við starfsfólk, bæði formleg og óformleg, eru mikilvæg. Stefnur og viðbragðsáætlanir til að takast á við óheilbrigð samskipti geta einnig verið gagnleg. Stjórnendur geta einnig leitað stuðnings innan eða utan vinnustaðar ef á þarf að halda en þá er mikilvægt að gæta fyllsta öryggis og trúnaðar. Það skapar traust og stöðugleika ef ferlar og mennning tekur á óheilbrigðum samskiptum á uppbyggilegan hátt.
Sjá meira í verkfærakassanum, stjórnendur, heilbrigt vinnuumhverfi hér á velvirk en einnig á heimasíðu Vinnueftirlitsins.
Hvað getur starfsfólk gert?
Samskipti starfsfólks skipta gríðarlega miklu máli fyrir vellíðan, árangur og samstarf á vinnustað. Því er mikilvægt að leikreglur í samskiptum séu skýrar og tekið sé á óheilbrigðum samskiptum eins skjótt og auðið er. Lítið þarf út af að bregða í samskiptum til að það hafi áhrif á fleiri á vinnustaðnum. Þegar sálfélagslegt öryggi er til staðar treystir starfsfólk sér til að tjá sig á opinn hátt, koma hugmyndum sínum á framfæri og taka áhættu þrátt fyrir möguleikanum á mistökum.
Koma auga á óheilbrigð samskipti – Á heimasíðu Vinnueftirlitsins er að finna gagnlega gátlista sem geta stutt við greiningu á vanda sem snýr að sálfélagslegu vinnuumhverfi þar með talið samskiptum.
Sjá Sálfélagslegt vinnuumhverfi og Vinnuumhverfisvísir fyrir vinnustaði
Tryggja viðbrögð í samræmi við gildandi reglur, stefnur og viðbragðsáætlanir skipulagsheildarinnar. Ef ekkert er viðhafst er verið að viðhalda vandanum. Því er mikilvægt að starfsfólk þekki leiðir til að koma ábendingum á framfæri.
Sjá undirbúningur fyrir starfsmannasamtal, streitusamtalið og hvernig á að ræða við yfirmann
Leitaðu til næsta stjórnanda og ef traust er ekki til staðar þá eftir öðrum boðleiðum t.d. til mannauðs, öryggisfulltrúa, trúnaðarmanna eða annara stjórnenda eftir því hvar traustið liggur og skipuritið segir til um. Það getur stutt við rétt viðbrögð auk þess sem það er mikilvægt að fá endurgjöf og speglun. Samtöl sem þessi eiga að vera uppbyggileg og draga úr líkum á að óheilbrigð samskipti endurtaki sig.
Sjá Raunveruleikatékk og Leiðir til að efla traust
Gættu að eigin hegðun og forðastu að leika sama leik. Vertu fyrirmynd fyrir aðra í teyminu með lausnamiðaðri nálgun og einbeittu þér að markmiðum vinnunnar. Setjið fram sameiginleg markmið sem styðja við samvinnu og opin tjáskipti.
Passaðu upp á sjálfa þig. Það er mjög auðvelt að láta óheilbrigð samskipti og vinnumenningu hafa áhrif á líðan sína. Því er mikilvægt að við stöldrum við og skoðum bjargráðin okkar og það sem gefur okkur orku. Ef ekkert gengur þarftu að mæta því með mildi. Sumt er ekki í okkar höndum og þá þarf að einblína á hvernig við getum borið ábyrgð á eigin öryggi og vellíðan.
Við sem starfsfólk berum ábyrgð á eigin hegðun. Við þurfum að vera meðvituð um að koma vel fram við hvort annað. Það krefst orku, hugrekkis og þrautseigju að endurbyggja traust og tengsl við samstarfsfólk, þróa nýjar venjur og bæta samskipti en það er til mikils að vinna!
Stundum þróast óhjálplegar samskiptaleiðir yfir lengri tíma vegna samspils margra áhættuþátta sem eru þekktir í sálfélagslegu vinnuumhverfi.
Má þarf nefna áhættuþætti í tengslum við stjórnun, skipulag og vinnumenningu en getur líka tengst persónulegum þáttum hvers og eins. Í slíkum aðstæðum upplifir starfsfólk óöryggi og streitu í stað þess að vera skapandi, eiga í virkum samskiptum og taka áhættu. Óhjálplegar samskiptaleiðir í teymum hefur ekki aðeins áhrif innan teymis heldur dregur úr trausti og trúverðugleika út á við. Stjórnendur þurfa að vera meðvitaðir um að óhjálpleg samskipti í teymum grefur einnig undir gildum skipulagsheildarinnar og skapar ósamræmi.
Algengar óhjálplegar samskiptaleiðir:
- Baktala, gagnrýna og kenna öðru starfsfólki um
- Slúðra og dreifa sögusögnum
- Samþykkja á fundum en fylgja ekki eftir
- Safna og sitja á gögnum
- Grafa undan öðru starfsfólki
- Taka eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni teymis eða skipulagsheildar
Sjá einnig heimasíðu Vinnueftirlitsins um einkenni óheilbrigðar vinnustaðamenningar.
Mikilvægt er að vinnustaðir beri kennsl á hættu tengda krefjandi viðskiptavinum eða þjónustuþegum.
Sé áhætta til staðar skal setja upp viðbragsáætlun og draga úr hættu eins og mögulega hægt er. Það gæti t.d. verið gert með því að koma upp öryggishnöppum, verkferlum, vöktun og æfa viðbrögð starfsfólks og stjórnenda.
Þegar viðskiptavinur eða einstaklingur í þjónustu hefur ekki stjórn á skapi sínu eða sýnir ógnandi tilburði geta okkar eigin viðbrögð haft áhrif á það hvernig samtalið þróast.
Það er eðlilegt að þjónustuþegi eða viðskiptavinur komi með ábendingar um það sem betur má fara. Sýni viðkomandi stillingu og kurteisi erum við líklegri til að gera okkar besta til að bæta úr hlutunum þegar það er hægt.
1. Haltu ró og sýndu kurteisi. Ef við lendum í krefjandi aðstæðum þar sem viðskiptavinur eða þjónustuþegi hellir sér yfir okkur eða er ógnandi á einhvern hátt er mikilvægt að halda ró sinni. Það getur hjálpað að minna okkur á mikilvægi fagmennsku, anda rólega nokkrum sinnum til að gefa sér tóm til að ná áttum og meta stöðuna. Ef við þurfum að svara krefjandi einstaklingi í tölvupósti eða á samfélagsmiðlum gilda sömu reglur. Við öndum rólega, bíðum nokkra stund til að ná tökum á tilfinningum okkar og reynum að ná fjarlægð áður en við svörum. Það er mikilvægt að leita stuðnings hjá næsta yfirmanni. Í svari þarf að halda sig við staðreyndir máls og lýsa yfir vilja til aðstoða.
2. Ekki svara í sömu mynt. Ekki rífast eða þræta við viðkomandi. Það eru eðlileg varnarviðbrögð að svara fyrir sig þegar einhver talar til manns af virðingarleysi. En til að gera stöðuna ekki verri er mikilvægt að forðast slíkt.
3. Hlusta. Leyfum viðkomandi að koma erindi sínu á framfæri og spyrja opinna spurninga. Hlustum vel og notum þagnir til að sýna að við hlustar, ekki grípa fram í. Sýnum að við höfum meðtekið það sem viðkomandi er að segja með því að umorða eða endurtaka það af og til t.d. með „Ef ég skil rétt þá áttu við að . . .“ eða „Ég heyri . . . “. Þannig sýnum við fram á virka hlustun og höfum um leið róandi áhrif. Eins getur það orðið til þess að viðkomandi átti sig betur á hvers er verið að krefjast og að það sé hugsanlega ekki alveg réttlátt eða viðeigandi.
4. Sýna sveigjanleika og lausnamiðaða nálgun. Sýnum sveigjanleika innan ásættanlegra marka. Hafi mistök verið gerð reyndum við að finna einfalda og hraðvirka lausn. Fylgjum verkferlum sem vinnustaður hefur sett eða þeim lögum sem starfað er eftir. Sé ekki um mistök að ræða getur verið góð leið að láta einstaklinginn taka þátt í lausn vandamálsins. Hægt er að spyrja hvað viðkomandi telji ásættanlega lausn. Með því móti höfum við eitthvað áþreifanlegt til að vinna með.
5. Sýna samkennd. Þegar við mætum krefjandi samskiptum gætur það lægt öldurnar að segjast skilja að viðkomandi sé í uppnámi og að okkur þyki leitt að viðkomandi upplifi þjónustuna á þennan neikvæða hátt.
6. Þetta er ekki persónulegt. Oftast eru krefjandi viðskiptavinir og þjónustuþegar óánægðir með vöru eða þjónustu og við erum í þeirri stöðu að vera hálfgert skotmark fyrir gremju þeirra og erfiðar tilfinningar. Í stað þess að taka þetta til okkur er gott að reyna að setja okkur í þeirra spor og útskýra af yfirvegun þær reglur sem við störfum eftir.
7. Líkamstjáning og raddbeiting. Gott er að vera meðvituð um að sýna afslappaða líkamsstöðu með því að hafa hendur niður með síðum, opna lófa, og halla lítillega fram í átt að einstaklingnum. Forðastu að vera í varnarstöðu t.d. með krosslagða handleggi eða gera okkur breiðari t.d. með því að setja hendur á mjöðm. Við reynum að halda eðlilegu augnsambandi til að sýna vinsemd og opið hugarfar.
Ef við erum í síma eða fjarsambandi þá komum við vinsemd og vilja til þjónustu á framfæri með raddbeitingunni. Við tölum rólega og yfirvegað í mildum tón. Við forðumst að hækka röddina og reynum frekar að draga úr raddstyrk. Við brosum þegar við viljum sýna vinsemd, það heyrist á röddinni.
8. Útskýrum mál okkar af yfirvegun. Stundum þarf að koma ákveðnum skýringum á framfæri. Ef viðskiptavinurinn eða þjónustuþegi endurtekur sömu hlutina í sífellu þarf að sýna öryggi og útskýra þær reglur sem okkur ber að fylgja, ekki síst ef viðkomandi fer með rangt mál eða biður okkur um að ganga gegn reglum vinnustaðarins. Mikilvægt er þó að hafa í huga að forðast þrætur.
9. Vísa í annan farveg. Þegar við getum ekki leyst úr málinu sýnum við einstaklingum virðingu og áhuga með því að vísa til annarra aðila sem gætu mögulega aðstoðað. Viðkomandi fer þá sáttari úr samtalinu og finnst að við höfum reynt að aðstoða eftir megni.
10. Tryggjum öryggi. Þegar aðstæður gætu ógnað öryggi skaltu umfram allt tryggja öryggi, bæði viðkomandi, annarra viðskiptavina eða þjónustuþega og/eða starfsfólks.
Komum okkur upp öruggum vinnuaðstæðum með því að staðsetja okkur þannig að við séum nær útgöngu en viðskiptavinurinn eða þjónustuþeginn og gætum þess að þar séu ekki hlutir sem hægt er að nota sem vopn. Köllum eftir aðstoð ef þarf eða komum okkar af vettvangi.
Eftirköst krefjandi hegðunar
Það getur verið mjög streituvaldandi upplifun að eiga við krefjandi viðskiptavini eða þjónustuþega svo það er mikilvægt að við gefum okkur tíma til að jafna okkur. Þá er gott að hafa í huga að fæst fólk hegðar sér á þennan hátt. En svo þarf líka að átta sig á ástæðu óánægjunnar og skoða hvort hún sé mögulega birtingarmynd frávika eða áhættu á vinnustaðnum. Því er mikilvægt að láta yfirmann vita af frávikinu og ræða atvikið sjálft sérstaklega ef það hefur valdið uppnámi og við höfum áhyggjur af því að það gæti endurtekið sig eða okkur skortir bjargráð til að sinna erfiðum einstaklingum.
Hvenær á stjórnandi að stíga inn í aðstæðurnar?
Ef óskað er eftir aðstoð stjórnanda vegna krefjandi viðskiptavinar eða þjónustuþega þarf að bregðast hratt við til að meta aðstæður og koma starfsfólki til aðstoðar.
Í ferlinu er mikilvægt að styðja við starfsfólk og fara yfir viðbrögð við atviki á uppbyggilegan máta.
Í framhaldinu er æskilegt að fylgja eftir líðan starfsfólks og fá heildarmynd af samskiptunum. Meta þarf hvort starfsfólk treysti sjálfu sér og viðbragðsáætlun og/eða hvort fjölga þurfi bjargráðum eða bjóða aukinn stuðning.
Heimildir:
Rude Customers á Mindtools.com.
Agressive, angry or violent behaviour á Comorbidity Guidelines.
Hvað geta einstaklingar gert?
Við þekkjum flest hvað það hefur mikið að segja þegar okkur er sýnd tillitssemi, hlustað er á það sem við höfum að segja og við hvött áfram. Lífið getur breytt um lit og við finnum fyrir meiri gleði og auknum krafti. Að finna fyrir góðvild og umhyggju getur skipt sköpum fyrir vellíðan og hvatt okkur til að sýna öðru fólki tillitssemi og hlýju.
Jákvæð og vingjarnleg samskipti smita út frá sér og við getum haft heilmikil áhrif á annað fólk með orðum og athöfnum. Og jákvæð áhrif þess að sýna góðvild, gefa af sér og láta í ljós þakklæti eru þekkt.
VIRK stóð fyrir vitundarvakningunni "Virkjum góð samskipti" haustið 2020 og var þá lögð áhersla á hugtökin umhyggja, jákvæðni, samkennd, þakklæti, tillitsemi og góðvild til að minna á gildi góðra samskipta.
Jákvæð samskipti smita út frá sér
- Komdu fram af kurteisi og vinsemd.
- Hvettu fólk til að tjá skoðanir sínar og hugmyndir.
- Hlustaðu á hvað fólk er að segja áður en þú segir þína skoðun. Ekki stoppa fólk eða tala yfir það.
- Nýttu hugmyndir sem samstarfsfólk kemur með um betrumbætur eins og kostur er og láttu vita hvert átti heiðurinn af hugmyndinni.
- Ræddu beint við samstarfsfólk í stað þess að láta aðra flygja boð á milli. Á sama hátt ættir þú að hafna því að vera milliliður milli aðila sem vilja síður ræða beint saman.
- Forðastu að móðga eða gera lítið úr hugmyndum fólks.
- Ekki festast í gagnrýni á smáatriði og vera dæmandi.
- Leiddu hugann að látbragði og óyrtum samskiptum. Næmt fólk þarf ekki að heyra rödd þína eða það sem þú segir til að draga sínar ályktanir.
- Komdu fram við öll á sama hátt, burtséð frá persónulegum þáttum og reyndu að láta sem flest koma að ákvörðunum sem snerta starf þeirra.
- Vertu meðvitaður um hvort einhver er útundan í stamstarfi eð viðburðum.
- Hrósaðu miklu oftar en þú gagnrýnir. Reyndu að hvetja samstarfsfólk til að gera það sama.
- Mættu gagnrýni að auðmýkt og reyndu að læra af henni. Ef málefnið er þér mikilvægt eða þú ert ósammála stattu þó á þínu. Ágreiningur á vinnustað er eðlilegur. Það er úrvinnslan sem skiptir máli.
- Ekkert er fullkomið og öll gera mistök. Æfðu þig í að viðurkenna eigin mistök og biðjast fyrirgefningar. Í kjölfarið þarftu að spyrja hvernig þú getur lagfært hlutina.
- Hjálpaðu vinnufélögum að ná sínum markmiðum og ekki reiðast ef samstarfsfólk eða stjórnandi gera mistök. Hjálpaðu frekar til við að leysa verkefni á sem farsælastan hátt. Sýndu hjálpsemi og vinsemd.
- Gakktu út frá því að fólk ráði við verkefni sín og aðstæður. Þótt þú skiljir ekki hvers vegna eitthvað gerist seint eða á annan hátt en þú ert vanur, þá eru eflaust fyrir því gildar ástæður.
Byggir að mestu á ráðum frá Grammarly og Balance Careers
Sýnum umhyggju
Með því að sýna umhyggju verndum við hvort annað og búum til betra samfélag. Að finna stuðning getur skipt öllu máli á erfiðum tímum. Mörg telja að mannleg samskipti séu það mikilvægasta í lífinu.
Umhyggja er lykillinn að því að byggja þau upp og viðhalda - að bera hag annars fólks fyrir brjósti og sýna því velvild. Við erum til staðar fyrir vini okkar og fjölskyldu, sýnum væntumþykju, tölum hlýlega og réttum hjálparhönd.
Við getum einnig sýnt ókunnugu fólki umhyggju með hugulsemi og virðingu.
Jákvæð lífsviðhorf
Við getum veitt öðrum innblástur og haft góð áhrif á fólkið í kringum okkur þegar við tileinkum okkur jákvæð lífsviðhorf. Þó aðstæður séu erfiðar er oftast hægt að finna eitthvað jákvætt ef við leitum nógu vel.
Það getur stundum verið erfitt að sjá björtu hliðarnar en það er sannarlega þess virði að reyna. Við getum til dæmis hugsað um það sem við erum þakklát fyrir í lífinu eða gert eitthvað skemmtilegt innan þess ramma sem við höfum. Allt verður léttara og ánægjulegra með jákvæðu hugarfari, bæði á vinnustaðnum og heima við.
Samkennd
Að sýna samkennd með því að vera til staðar fyrir annað fólk og sjá sjónarhorn þess getur ráðið úrslitum í uppbyggilegum samskiptum.
Við setjum okkur í spor hvors annars og hjálpum þannig öðrum að finna að þau eru ekki ein. Samkennd er getan til að skilja eða skynja það sem annað fólk eru að upplifa og að vissu marki að taka þátt í því. Ef við skynjum að einstaklingur gengur í gegnum erfiða tíma höfum við ekki endilega lausn á vandanum en við getum hjálpað með því að gefa okkur tíma til að hlusta.
Það sem við segjum skiptir stundum minna máli en samveran og tengslin.
Þakklæti
Að þakka fyrir það sem við höfum og sýna öðru fólki þakklæti getur haft jákvæð áhrif á líðan. Við getum öll fundið eitthvað til að þakka fyrir og með því að sýna þakklæti gefum við góða gjöf.
Þakklæti er að taka eftir og meta það jákvæða í kringum okkur. Þegar við beinum athyglinni að því sem við höfum í stað þess sem vantar upp á getum við haft jákvæð áhrif á skap og tilfinningar en einnig á líkamlega heilsu okkar. Við byggjum sterkari sambönd og virðumst ráða betur við mótlæti og streitu ef við sýnum þakklæti. Sum segja að þakklætið sé lykillinn að hamingjunni.
Tillitssemi
Athafnir og orð hafa mikil áhrif og við getum valið að koma fram við annað fólk eins og við viljum að þau komi fram við okkur. Fátt er eins mikilvægt í mannlegum samskiptum og að sýna virðingu og hugulsemi.
Tillitssemi krefst þess að við hugum að tilfinningum fólks, setjum okkur í spor þess og sýnum þolinmæði og skilning. Það er gæfa að umgangast tillitssamt og hlýtt fólk.
Góðvild
Síðast en ekki síst - sýnum góðvild í verki. „Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt“. Að sýna öðru fólki góðvild getur fært því og okkur sjálfum mikla vellíðan.
Góðvild einkennist af gjafmildi, hugulsemi og umhyggju án væntinga um að fá eitthvað í staðinn. Jákvæð áhrif þess að aðstoða annað fólk eru þekkt og fátt er meira gefandi eða smitar meira út frá sér en góðvild.