Til að tryggja hæfilegt vinnuálag þurfa stjórnendur og starfsfólk að vinna saman að því að skipuleggja vinnu starfsfólks svo að verkefni, kröfur og tímarammi séu í jafnvægi.
Vinnustaður á að sjá til þess að starfsfólk hafi þau tæki, tól og leiðir sem þarf til að sinna starfinu.
Vinnutími og verkefni verða að vera í samræmi, þannig að starfsfólk upplifi að færni þeirra sé vel nýtt til verka og að þau geti með góðu móti klárað verkefni samkvæmt áætlun. Umsaminn vinnutími starfsfólks og unnir tímar þarf að vera skráður, í aðgengilegt kerfi. Komi til þess að álag aukist, þá þarf að huga að mannaflaþörf og dreifingu verkefna.
Hafi starfsfólk verið undir álagi til lengri tíma, þarf að grípa inn í og huga að því að starfsfólk fái tækifæri til að endurheimta orkuna sína. Stjórnendur geta þá sett skynsamleg takmörk á vinnutíma og sjá til þess að það sé hægt að leysa verkefnin innan vinnutímans. Þá er mikilvægt að gefa svigrúm til að taka vinnuhlé til að hlaða batteríin, hvetja starfsfólk til að fara heim þegar vaktin er búin, nýta pásurnar og sumarleyfisdagana.
Virða skal lög um hvíldartíma, vikulegur hámarksvinnutími starfsfólks að yfirvinnu meðtalinni má ekki vera umfram 48 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili. Enn fremur skal þess gætt að starfsfólk fái að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld á hverjum 24 klukkustundum, reiknað frá byrjun vinnudags.
Til að starfsfólk ráði vel við vinnuálag er mikilvægt að:
- Gæta þess að kröfur og úrræði séu í jafnvægi.
- Samræmi sé milli verkefna og vinnutíma.
- Huga að mannaflaþörf.
- Styðja við sjálfræði og sveigjanleika.
- Fræða starfsfólk um mikilvægi jafnvægi milli vinnu og einkalífs.
Það eykur almennt vellíðan starfsfólks þegar það upplifir að það geti samræmt vinnu og einkalíf.
Þegar starfsfólki líður vel í starfi eykur það líkur á góðum samskiptum og að árangur náist í þeim verkefnum sem fyrir liggja. Traust skapast milli stjórnenda og starfsfólks þar sem áhersla er lögð á vinsemd og virðingu. Síðast en ekki síst styður sveigjanleiki við jafnrétti kynjanna og jafna foreldraábyrgð. Stjórnendur þurfa að vera góðar fyrirmyndir og ástunda það sem þeir boða.
Ef að vinnuálag er orðið of mikið ættu stjórnendur að draga úr fjölda verkefna og stytta tíma við vinnu, finna lausnir með starfsfólkinu til að breyta verkferlum í þeim tilgangi að laða fram gæði umfram magn. Einnig gæti þurft að finna nýjar leiðir til að manna afleysingar, útbúa tilfærslur í störfum þannig að skiptist á álagsstörf og störf sem bjóða hvíld frá álaginu.
Alltaf er svo viðeigandi að stuðla að góðum samskiptum og trausti innan teyma. Þá þarf mögulega að gefa aukinn sveigjanleika til að mynda með því að bjóða starfsfólki að gera tímabundnar breytingar á vinnutíma sínum.Það gæti þurft að finna út hvernig sé best að skipta deginum milli vinnu og einkalífs, tryggja að jafnvægi sé milli hreyfingar og hvíldar, huga að nýtingu þess tíma sem fer í að fara til og frá vinnu eða gera breytingar á heimavinnu sem framkvæmd er á kvöldin og um helgar.
Dæmi um bjargráð og kröfur í starfi:
Bjargráð
- Stjórn á starfi
- Þátttaka í ákvörðunum
- Fjölbreytni verkefna
- Stuðningur vinnufél./stjórnenda
- Samvinna vinnufél./viðsk.vina
- Virðing
- Viðurkenning
- Áhrif
- Merking/tilgangur
- Fyrirsjáanleiki
Kröfur
- Óraunhæfar kröfur
- Vinnuálag
- Óskýr hlutverk
- Miklar breytingar
- Hátt flækjustig
- Erfið samskipti
- Tímapressa
- Mikil ábyrgð
- Skriffinnska
- Vinnustaðapólitík


