Það eru nokkrir þættir sem samkvæmt rannsóknum draga úr líkum á álagseinkennum frá hreyfi- og stoðkerfi:
1. Regluleg hreyfing
- Besta ráðið er að venja sig á það að standa upp reglulega, eða breyta stöðunni sem þú vinnur í. Viðmiðið er að standa upp á 30-60 mínútna fresti og hreyfa þig í 1-2 mínútur í senn.
- Gakktu um, gerðu léttar hreyfingar og teygjur
- Við það að standa upp eykst blóðflæði til vöðva og liðamóta, það heldur liðamótum hreyfanlegum og getur létt á stoðkerfisverkjum. Þá hefur það líka jákvæð áhrif á hugræna virkni og einbeitingu.
- Ef þú vinnur við skjá, horfðu upp frá skjánum af og til. Góð regla er að fyrir hverjar 20 mínútur sem þú vinnur við skjá, skaltu líta upp og horfa á fókuspunkt sem er 6 metrum frá þér í 20 sekúndur til þess að hvíla augu og andlitsvöðva.
2. Góð vinnuaðstaða og hentug líkamsbeiting
Stilltu vinnuaðstöðu rétt til að minnka álag á stoðkerfi. Hér má styðjast við ákveðnar reglur varðandi stillingu á sitjandi vinnustöðu en mikilvægast er þó að breyta um stöðu af og til, ásamt því að standa upp, til þess að minnka álag á stoðkerfi.
- Ef þú vinnur við skjá, þá er gott að hafa skjáinn í augnhæð, efri brún skjásins í beinni línu við augun. Fjarlægðin á að vera 50-70 sentimetra frá augum og skjárinn á að halla örlítið aftur, 10 - 20 gráður.
- Stilltu stólinn svo að fætur snerti gólf og hné séu í 90 gráðu beygju.
- Notaðu bakstoð við neðra bak til þess að styðja við lendarsveigju.
- Armpúðar stilltir svo að axlir séu slakar og olnbogar beygðir í ca. 90 gráður.
- Hafa mús og lyklaborð nálægt líkamanum.
- Ef staðið er við skrifborð skal nota sömu leiðbeiningar fyrir augnhæð og olnboga og fyrir sitjandi stöðu.
3. Fjölbreytt verkefni og stöður
Það getur haft jákvæð áhrif á líðan starfsfólks og starfsánægju í starfi að verkefni séu fjölbreytt, þá geta fjölbreytt verkefni líka fyrirbyggt stoðkerfisvanda starfsfólks í einhæfri álagsvinnu. Muna að viðhalda góðri stöðu og reyna eftir mesta megni að jafna út álag í báðar áttir, og á báðar hliðar ef hægt er.
4. Regluleg hlé
Muna að taka regluleg hlé. Það að veita starfsfólki regluleg hlé frá störfum sínum yfir daginn er ein leið til að draga úr líkum þess að einhæf álagsvinna valdi einkennum frá stoðkerfi.
5. Streitustjórnun
Streitustjórnun eins og t.d slökun, öndunaræfingar og gæða svefn skipta miklu máli ef að orsök verkjanna er streitutengd eða ef álag hefur verið mikið til lengri tíma.
6. Hvíldartími og Svefn
Það er mikilvægt fyrir líkama og huga að hvílast, í hvíld endurnýjast frumur og líkaminn fer í ástand sem stuðlar að endurheimt og uppbyggingu. Fyrir flesta eru 7-8 tíma svefn gott markmið, ef að aðstæður leyfa. Þá er mikilvægt að halda hvíldartíma milli vinnudaga en sá tími getur verið misjafn eftir störfum og skyldum, en lögum samkvæmt má vinnutími starfsfólks ekki vera umfram 48 klukkustundir að meðaltali á viku á hverju fjögurra mánaða tímabili. Á hverjum 24 klukkustundum á fólk að fá 11 klukkustunda samfellda hvíld, reiknað frá byrjun vinnudags.
7. Hugaðu að næringu og vökvainntöku
Að borða vel og drekka nóg af vatni er grundvallaratriði fyrir heilsu og vellíðan og getur verið fyrirbyggjandi fyrir ýmsa stoðkerfiskvilla.
8. Umhverfisþættir
Loftgæði, ljós og hljóðgæði skipta miklu máli þegar kemur að forvörnum og þessir þættir þurfa að vera staðlaðir samkvæmt reglum vinnueftirlitsins fyrir hvern og einn vinnustað. Sjá nánar hér.