Fara í efni

Stoðkerfið

Heilbrigt stoðkerfi tryggir góða virkni í daglegu lífi.

Þegar talað er um stoðkerfi er átt við beinagrindina okkar, vöðva og liði sem bera líkamann uppi og gerir okkur kleift að hreyfa okkur. 

Þegar stoðkerfi er heilbrigt virka vöðvar, bein, liðamót og vefir eðlilega og valda ekki tímabundnum eða varanlegum skerðingum á virkni eða þátttöku í daglegu lífi.

Stoðkerfisvandamál eru því skilgreind sem ástand eða sem hafa áhrif á þessa líkamshluta og skerða tímabundið virkni og þátttöku á vinnumarkaði. Á heimsvísu eru stoðkerfisvandamál meðal annars helstu orsakir fjarveru frá vinnu og ein af ástæðum örorku.

Stoðkerfisverkir eru algengir og geta orsakast af mörgum mismunandi þáttum. 

Verkir eru viðvörunarkerfi líkamans og gegna því mikilvæga hlutverki að vernda okkur. Þeir eru einskonar skilaboð frá líkamanum til heilans, þeir vara okkur við því að hugsanlega sé eitthvað að eða við þurfum að passa okkur á mögulegri hættu. 

Verkjum má skipta upp í tvo flokka:

  • Bráðir verkir sem koma skyndlilega og standa yfir í stuttan tíma. Bráðir verkir tengjast yfirleitt ákveðinni orsök eða orsakavaldi eins og til dæmi slysi, aðgerð eða veikindum.
  • Langvinnir verkir geta gert það af verkum að taugakerfið bregst fyrr við minna áreiti en áður. Einstaklingur getur þá farið að upplifa verki við athafnir sem venjulega myndu ekki framkalla verki og ekki er til staðar skaði á vef sem veldur verk.

Það er hægt að endurþjálfa viðkvæmt taugakerfi með því að auka varlega kröfurnar á líkamann og þannig vinna á langvinnum verkjum. hvert þrep verður þá að vera nóg til að auka aðlögun en ekki of mikið til að valda verkjakasti. Það að framkvæma hreyfingar eða æfingar sem valda viðráðanlegum verk, en ekki verkjakasti, getur hjálpað við að endurþjálfa viðkvæmt taugakerfi.

Rannsóknir sýna að besta ráðið til að fyrirbyggja stoðkerfisverki er að huga að reglulegri hreyfingu, ásamt öðrum lífstílsþáttum eins og svefni, næringu og streitustjórnun.  

Þú getur lesið meira um hreyfingu hér 
Þú getur lesið meira um svefn hér

Algeng einkenni og ráð

Bakverkir eru algengir og eru ein algengasta orsök verkja og færniskerðingar hjá fullorðnum, langflestir fá bakverki einhvern tímann á ævinni. 

Bakverkir geta valdið mikilli vanlíðan, fjarveru frá vinnu og í einhverjum tilfellum leitt til örorku. Oft er orsökin þó ekki alvarlegs eðlis, langflestir ná sér fljótt og oft án meðferðar. 

  • Hreyfing og aukin virkni er líklegri til að flýta fyrir bata. Lítil virkni er aftur á móti líklegri til að hægja á bata. Því er fólk með bakverki nú í auknum mæli hvatt til að hreyfa sig um leið og það treystir sér til.
  • Þeir sem eru í kyrrsetuvinnu þurfa sérstaklega að hafa það í huga að standa reglulega upp og hreyfa sig til þess að fyrirbyggja stoðkerfisverki, ef að vinnuaðstaðan býður upp á hækkanlegt skrifborð er tilvalið að nýta það til þess að brjóta upp daginn og takmarka kyrrsetu. 

Rannsóknir á dýrum sýna að þegar áverki er á hrygg, minnkar sársauki mun hraðar hjá þeim hópum dýra sem voru skikkuð til að hreyfa sig miðað við þá hópa sem hreyfa sig minna. Það sama á við um fólk. Þeir sem fara fyrr af stað í hreyfingu hvort sem er að æfa eða taka þátt í daglegum athöfnum eins og að þrífa húsið, gengur betur en þeim sem hlífa sér. 

Hreyfing virðist þannig vera sá þáttur sem helst hjálpar taugakerfinu að minnka sársaukaviðbrögð. 

Þá sýna rannsóknir að lífstíll hefur mikil áhrif á bakheilsu og eru helstu fyrirbyggjandi þættir regluleg hreyfing, kjörþyngd og tóbaksleysi. 

Nokkur ráð við bakverkjum:

  • Mikilvægt er að halda sér virkum en forðast þó of mikið álag fyrstu dagana, létt hreyfing eins og göngutúr eða léttar teygjur og líkamsæfingar geta minnkað verki. Auka álagið síðan smám saman eftir því sem þér batnar.
  • Reglulegur svefn er mikilvægur til að draga úr næmni fyrir verkjum og stuðla að bata.
  • Skiptu reglulega um vinnustöður og taktu hreyfipásur í kyrrsetuvinnu.
  • Leitaðu ráða hjá heilbrigðisstarfsfólki ef verkir vara lengi, versna eða hindra daglegt líf.
  • Verkjalyf flýta ekki fyrir bata, en geta verið gagnleg sem tímabundið stuðningstæki samhliða hreyfingu og æfingum.

Fyrirvari 

Þessi listi yfir einkenni og ráð er ekki, það geta verið fjöldi mismunandi ástæðna fyrir stoðkerfisverkjum og mismunandi eftir einstaklingum. Við mælum með ef að einstaklingur hefur verið með verki til lengri tíma >2 vikur og ekki fengið bót sinna mála, að leita læknis, sjúkraþjálfara eða viðeigandi fagaðila.

Verkir á háls- og herðasvæði eru algengir og allt að 50% þeirra sem vinna við tölvur eða kyrrsetustörf finna fyririr spenna og verkjum í efra baki og hálsi reglulega. 

Vöðvabólga er eitthvað sem margir upplifa, oftast sem verki og einkenni á svæði við herðar og háls. Heitið vöðvabólga er séríslenskt og nær hugtakið yfir það þegar vöðvi er spenntari en góðu hófi gegnir til lengri tíma og því minnkar blóðflæði þar sem spenntur vöðvinn þrengir að æðum vöðvans. 

Við þær aðstæður kemst ekki nægjanleg næring og súrefni til vöðvans, sem þarf í raun enn meiri næringu í þessari sífelldu spennu, og úrgangsefnin sem koma frá vöðvanum komast ekki öll í burtu sem skyldi og safnast því upp í honum. Þessi úrgangsefni gera vöðvavefinn enn stífari og ýtir þess vegna undir verkjaupplifun einstaklingsins. 

Streita og álag geta aukið líkur á að vöðvabólga myndast, en þegar við erum undir miklu álagi virkjast baráttu- eða flóttaviðbragð líkamans (fight or flight.), þá stífna vöðvar meira en góðu hófi gegnir, öndunin verður grynnri, við notum við fleiri vöðva til að anda og það getur búið til aukna spennu og þrýsting í vöðvum í kringum háls og herðar.  

Algengast er að vöðvabólga sé tengd við vöðva í hálsi og baki en vöðvabólga getur lagst á hvaða vöðva líkamans sem er.   

Höfuðverkir

Höfuðverkir geta verið nokkuð algengir hjá fólki sem vinnur skrifstofuvinnu og geta þeir valdið vanlíðan dregið úr framleiðni og fjölgað veikindadögum. 

Rannsóknir sýna að styrktar og úthaldsþjálfun getur dregið úr tíðni og styrk höfuðverkja hjá einstaklingum. 

Ráð:  

  • Hægt er að nota heita eða kalda bakstra, til þess að létta á verkjum.
  • Rólegar og léttar teygju- og styrktaræfingar auka blóðflæði til vöðvanna og geta flýtt fyrir bata.
  • Slökun og núvitundaræfingar ef að vöðvabólgan er álagstengd
  • Huga að svefni og næringu.
  • Skiptu um stöður og taktu hreyfipásur í kyrrsetuvinnu.
  • Verkjalyf flýta ekki fyrir bata en geta verið gagnleg sem tímabundið stuðningstæki samhliða æfingum.
  • Leitaðu ráða hjá heilbrigðisstarfsfólki ef verkir vara lengi, versna eða hindra daglegt líf. 

Fyrirvari 

Þessi listi yfir einkenni og ráð er ekki, það geta verið fjöldi mismunandi ástæðna fyrir stoðkerfisverkjum og mismunandi eftir einstaklingum. Við mælum með ef að einstaklingur hefur verið með verki til lengri tíma >2 vikur og ekki fengið bót sinna mála, að leita læknis, sjúkraþjálfara eða viðeigandi fagaðila.

Stoðkerfisverkir tengdir úlnliðum og höndum þekkjast vel innan ákveðinna atvinnugreina.

þar má nefna álagstengda verki tengda tölvunotkun, til dæmis carpal tunnel syndrome (liðþrengsli í úlnlið), oft er kallað „músahendi“ (álagstengd einkenni í tengslum við endurtekna tölvuvinnu eða músanotkun). Oft myndast álagstengdir verkir sem myndast út af endurteknum hreyfingum, miklu gripálagi eða þungaburði.  

Bjargráð:  

  • Hvíld og minnka endurtekið álag (hlé í vinnu, rétta úr sér, teygjur)
  • Rétt líkamsstaða og stilling við tölvu: rétt hæð á lyklaborði/mús, stuðningur undir úlnlið eða framhandleggi
  • Bólgueyðandi gel eða lyf (í samráði við lækni)
  • Hlíf eða spelka á úlnlið getur hjálpað, sérstaklega á nóttunni við músahendi
  • Gerðu reglulegar úlnliðs- og handaæfingar, vinna á móti þeim hreyfingum sem þú gerir í langan tíma á degi hverjum
  • Haltu úlnliðum beinum þegar unnið er á lyklaborði eða með verkfæri
  • Notaðu rétt grip, léttitæki og  hlífðarhanska ef þung vinna krefst þess
  • Leitaðu ráða hjá heilbrigðisstarfsfólki ef verkir vara lengi, versna eða hindra daglegt líf

Fyrirvari 

Þessi listi yfir einkenni og ráð er ekki, það geta verið fjöldi mismunandi ástæðna fyrir stoðkerfisverkjum og mismunandi eftir einstaklingum. Við mælum með ef að einstaklingur hefur verið með verki til lengri tíma >2 vikur og ekki fengið bót sinna mála, að leita læknis, sjúkraþjálfara eða viðeigandi fagaðila.

Verkir og einkenni frá neðri búk geta verði algengir kvillar hjá starfandi fólki.

 Algengustu kvillar eru stífleiki og verkir í mjöðmum vegna mikillar kyrrsetu, settaugabólga frá mjöðm, slitgigt, verkur í sinum hnéskeljar og lærvöðva, iljafellsbólga (Plantar fasciitis),  bólgur í fótum og ökklum eftir langa vinnudaga á fótum eða í lengri tíma kyrrsetu.  

Vinnuumhverfið, aðstæður og skóbúnaður geta skipt miklu máli. Aðrir þættir sem hafa skal í huga þegar kemur að starfstengdum verkjum í neðri búk.  

  • Hreyfingarleysi eða einhæft álag veldur flestum kvillunum.
  • Bæði of mikið álag (byggingarvinna, þjónusta) og hreyfingarleysi (skrifstofa, akstur) geta valdið verkjum í neðri búk og útlimum.
  • Athuga stillingu við vinnustöð og rétta líkamsbeitingu við vinnu.  

Bjargráð:  

  • Létt hreyfing, styrktar- og teygjuæfingar til þess að létta á verkjum.
  • Regluleg hvíld og minnka endurtekið álag, eða dreifa álagi þegar við á.
  • Minnka kyrrsetu eins og mögulegt er.
  • Stuðningssokkar ef starfsfólk er á fótum mest allan vinnudaginn.
  • Leitaðu ráða hjá heilbrigðisstarfsfólki ef verkir vara lengi, versna eða hindra daglegt líf. 

Fyrirvari 

Þessi listi yfir einkenni og ráð er ekki, það geta verið fjöldi mismunandi ástæðna fyrir stoðkerfisverkjum og mismunandi eftir einstaklingum. Við mælum með ef að einstaklingur hefur verið með verki til lengri tíma >2 vikur og ekki fengið bót sinna mála, að leita læknis, sjúkraþjálfara eða viðeigandi fagaðila.

Fyrirbyggjandi þættir

Í stuttu máli, já. 

  • Regluleg hreyfing er stór fyrirbyggjandi þáttur og eru til margar rannsóknir sem styðja það að hreyfing getur fyrirbyggt ýmsa kvilla og á sama tíma dregið úr einkennum stoðkerfisverkja séu þeir til staðar.

 

 

 

  • Styrktar- og þolþjálfun eykur afkastagetu vöðva, sina og beina, sem gerir stoðkerfið betur í stakk búið að takast á við líkamlegt álag í daglegu lífi. Því sterkara sem stoðkerfið er því betur ræður líkaminn við álag og þeim mun minni eru líkur á að stoðkerfisverkir komi fram. 
  • Á vinnustað getur regluleg fræðsla til starfsfólks um heilsutengd málefni, notkun léttitækja og góða líkamsbeitingu einnig skilað miklu í sambandi við að fyrirbyggja starfstengda stoðkerfisverki. Mikilvægt er að skipuleggja vinnuumhverfi þannig að starfsfólk hafi  möguleika á því að vinna í hentugri líkamsstöðu, og að hver og einn getui aðlagað vinnuumhverfið eftir sínum þörfum og verkefnum.  

Það eru nokkrir þættir sem samkvæmt rannsóknum draga úr líkum á álagseinkennum frá  hreyfi- og stoðkerfi:

1. Regluleg hreyfing   

  • Besta ráðið er að venja sig á það að standa upp reglulega, eða breyta stöðunni sem þú vinnur í. Viðmiðið er að standa upp á 30-60 mínútna fresti og hreyfa þig í 1-2 mínútur í senn. 
  • Gakktu um, gerðu léttar hreyfingar og teygjur
  • Við það að standa upp eykst blóðflæði til vöðva og liðamóta, það heldur liðamótum hreyfanlegum og getur létt á stoðkerfisverkjum. Þá hefur það líka jákvæð áhrif á hugræna virkni og einbeitingu.  
  • Ef þú vinnur við skjá, horfðu upp frá skjánum af og til. Góð regla er að fyrir hverjar 20 mínútur sem þú vinnur við skjá, skaltu líta upp og horfa á fókuspunkt sem er 6 metrum frá þér í 20 sekúndur til þess að hvíla augu og andlitsvöðva.   

2. Góð vinnuaðstaða og hentug líkamsbeiting 

 Stilltu vinnuaðstöðu rétt til að minnka álag á stoðkerfi.  Hér má styðjast við ákveðnar reglur varðandi stillingu á sitjandi vinnustöðu en mikilvægast er þó að breyta um stöðu af og til, ásamt því að standa upp, til þess að minnka álag á stoðkerfi. 

  • Ef þú vinnur við skjá, þá er gott að hafa skjáinn í augnhæð, efri brún skjásins í beinni línu við augun. Fjarlægðin á að vera 50-70 sentimetra frá augum og skjárinn á að halla örlítið aftur, 10 - 20 gráður.  
  • Stilltu stólinn svo að fætur snerti gólf og hné séu í 90 gráðu beygju. 
  • Notaðu bakstoð við neðra bak til þess að styðja við lendarsveigju.  
  • Armpúðar stilltir svo að axlir séu slakar og olnbogar beygðir í ca. 90 gráður.  
  • Hafa mús og lyklaborð nálægt líkamanum.
  • Ef staðið er við skrifborð skal nota sömu leiðbeiningar fyrir augnhæð og olnboga og fyrir sitjandi stöðu.   

3.  Fjölbreytt verkefni  og stöður  

Það getur haft jákvæð áhrif á líðan starfsfólks og starfsánægju í starfi að verkefni séu fjölbreytt, þá geta fjölbreytt verkefni líka fyrirbyggt stoðkerfisvanda starfsfólks í einhæfri álagsvinnu. Muna að viðhalda góðri stöðu og reyna eftir mesta megni að jafna út álag í báðar áttir, og á báðar hliðar ef hægt er. 

4. Regluleg hlé 

Muna að taka regluleg hlé. Það að veita starfsfólki regluleg hlé frá störfum sínum yfir daginn er ein leið til að draga úr líkum þess að einhæf álagsvinna valdi einkennum frá stoðkerfi.   

5. Streitustjórnun 

Streitustjórnun eins og t.d slökun, öndunaræfingar og gæða svefn skipta miklu máli ef að orsök verkjanna er streitutengd eða ef álag hefur verið mikið til lengri tíma.  

6. Hvíldartími og Svefn  

Það er mikilvægt fyrir líkama og huga að hvílast, í hvíld endurnýjast frumur og líkaminn fer í ástand sem stuðlar að endurheimt og uppbyggingu. Fyrir flesta eru 7-8 tíma svefn gott markmið, ef að aðstæður leyfa.  Þá er mikilvægt að halda hvíldartíma milli vinnudaga en sá tími getur verið misjafn eftir störfum og skyldum, en lögum samkvæmt má vinnutími starfsfólks ekki vera umfram 48 klukkustundir að meðaltali á viku á hverju fjögurra mánaða tímabili. Á hverjum 24 klukkustundum á fólk að fá 11 klukkustunda samfellda hvíld, reiknað frá byrjun vinnudags.  

7. Hugaðu að næringu og vökvainntöku  

Að borða vel og drekka nóg af vatni er grundvallaratriði fyrir heilsu og vellíðan og getur verið fyrirbyggjandi fyrir ýmsa stoðkerfiskvilla.  

8. Umhverfisþættir  

Loftgæði, ljós og hljóðgæði skipta miklu máli þegar kemur að forvörnum og þessir þættir þurfa að vera staðlaðir samkvæmt reglum vinnueftirlitsins fyrir hvern og einn vinnustað. Sjá nánar hér. 

Að vinna við tölvuskjá krefst mikils af sjóninni og augunum. Fyrir starfsfólk sem að eyðir yfir 6 tíma við tölvu á dag, eru meiri líkur á að finna fyrir óþægindum í augum, svokölluð tölvusjónþreyta. 

Þá geta ýmis einkenni gert vart við sig, eins og til dæmis:  

  • Þurr augu, eða óskýr sjón/sjóntruflanir
  • Höfuðverkir
  • Verkir í hálsi/öxlum
  • Truflun á svefni, minni framleiðsla melatóníns vegna skjábirtunnar
  • Þreyta
  • Einbeitingaörðugleikar 

Ráð:  

  • Regluleg hvíld frá skjánum; mælt er með því að fyrir hverjar 20 mínútur við skjáinn, átt þú að líta upp og horfa á viðmiðunarpunkt 6 metrum frá þér  í 20 sekúndur til þess að hvíla augun
  • Taka 15 mínútna pásu frá skjánotkun eftir 2 tíma samfleytta tölvuvinnu
  • Forðast skjánotkun 1-2 klukkutímum fyrir svefn
  • Nota skjágleraugu þegar þú vinnur við lengri tíma við skjá
  • Vinnuumhverfi með góðri líkamsstöðu og réttri skjáhæð
  • Gera æfingar 1-2x í viku sem eru með því markmiði að styrkja háls, herðar og bak