Nei, það er ekki raunhæft að gera ráð fyrir því að líða alltaf vel.
- Það er eðlilegt og í raun nauðsynlegt að upplifa fjölbreyttar tilfinningar eins og gleði, sorg, pirring, kvíða, ró og áhuga. Rannsóknir sýna að það getur verið streituvaldandi og skaðlegt að bæla niður óþægilegar tilfinningar.
- Þeir sem leyfa bæði jákvæðum og neikvæðum tilfnningunum að flæða, upplifa oft meiri stöðugleika og sýna meiri þrautseigju sem eru grunnforsendur góðrar geðheilsu.
- Svo er gott að hafa í huga að tilfnningar sveiflast upp og niður, eru tímabundnar og líða oftast hjá.
Myndband: Fimm leiðir að aukinni vellíðan.
Hér eru fimm leiðir, studdar af rannsóknum, sem geta hjálpað þér að auka vellíðan og efla andlegan styrk þannig að þú fáir sem mest út úr lífinu.
1. Vertu í sambandi við annað fólk
Að rækta tengsl við aðra eykur sjálfstraust og gefur okkur tækifæri til þess að deila jákvæðum upplifunum.
Hvað get ég gert?
Taktu frá tíma ef þú getur til að vera með fjölskyldunni, t.d. passa að allir borði saman kvöldmat.
Planaðu að hitta vini sem þú hefur ekki séð lengi.
Kannski væri ráð að slökkva á sjónvarpinu eða hætta að skrolla í símanum og spila frekar borðspil með fólkinu þínu.
Heyrðu í fólki og hittu í stað þess að eiga einungis í samskiptum í gegnum samfélagsmiðla. Þú munt ekki sjá eftir því.
2. Finndu hreyfingu sem þér finnst skemmtileg
Hreyfing er ekki aðeins góð fyrir líkamlega heilsu heldur virðist hún einnig bæta sjálfsmat okkar og hafa jákvæð áhrif á efnaskipti í heilanum.
Hvað get ég gert?
Hreyfing í stuttan tíma er betri en engin hreyfing. Stuttur göngutúr, jóga eða teygjur ef slíkt á við – allt getur þetta verið gagnlegt.
Það hafa ekki allir áhuga á því að fara í ræktina. Endilega skoðaðu aðra hreyfingu eins og badminton, hjólreiðar, sund, tennis eða padel. Áhugi á líkamsrækt eflist oft til muna þegar leik er blandað við hreyfingu. Göngu- og hlaupahópa er einnig að finna víða, fyrir öll getustig.
3. Lærðu nýja færni
Ýmsar rannsóknir benda til þess að ný færni sem við tileinkum okkur geti haft áhrif á sjálfsmat okkar til hins betra og aukið tengsl við aðra.
Hvað get ég gert?
Prófaðu að elda nýjan rétt. Hér eru upplýsingar um næringarríkt mataræði.
Er einhver vinnutengd færni sem þú vilt efla, eins og að gera betri kynningar?
Það eru ýmis námskeið á netinu eða á vegum stéttarfélaga sem er vert að skoða.
Hefur þig lengi langað til að skora á þig og prófa nýtt áhugamál? Það er aldrei of seint.
Ekki fá samviskubit og upplifa að þú þurfir að bæta við færni þína ef þú hefur ekki áhuga á því. Það er kannski nóg í þínu lífi í dag sem þú hefur áhuga á.
4. Gefðu af þér
Góðmennska og að gefa af sér til annarra getur aukið vellíðan þar sem við upplifum jákvæðar tilfinningar og umbun við það. Það getur einnig haft jákvæð áhrif á sjálfsmat okkar og tengsl við aðra.
Hvað get ég gert?
Þú gætir þakkað þeim sem hafa gert eitthvað fyrir þig.
Það að spyrja sína nánustu um þeirra líðan og gefa sér tíma til að hlusta getur verið mjög gefandi og þakklátt.
Eytt tíma með þeim sem þurfa á stuðningi að halda.
Skoðað hvort að það henti þér að bjóða fram krafta þína í sjálfboðavinnu.
5. Taktu eftir því sem er að gerast núna
Það getur bætt líðan okkar að beina athyglinni að augnablikinu eða núinu. Það á meðal annars við um hugsanir, tilfinningar, líkama okkar og heiminum í kringum okkur. Oft er þessi meðvitaða athygli kölluð núvitund, þar sem við beinum athyglinni með ásetningi að líðandi stund, án þess að dæma. Núvitund er margrannsökuð tegund hugleiðslu sem getur bætt líðan okkar. Lesa má meira um núvitund og núvitundaræfingar á heimasíðu Heilsuveru.