Hvar ert þú á Velvirk skalanum?
Viðhald og mannauðsstefna
Hér þarf vinnustaðurinn að grípa í taumana
Tala við lækni eða viðeigandi heilbrigðisstofnun"
Þér líður vel í vinnunni, það er gott jafnvægi á milli krafna sem gerðar eru til þín og þeirra leiða sem þú hefur til að mæta þeim. Aðstæður í vinnu eru einnig góðar.
Þú upplifir tilgang með þínu starfi og ert að nýta styrkleika þína. Samskipti við samstarfsfólk eru uppbyggileg og vinnuumhverfið veitir öryggi og stuðning. Afköstin eru í samræmi við væntingar og þú horfir jákvæðum augum til vinnunnar og eigin getu.
Staðan er mjög góð. Starfsfólki þínu líður heilt yfir vel og því mikilvægt að viðhalda góðri líðan á vinnustaðnum.
Haltu áfram á sömu braut en líttu einnig eftir tækifærum til að stuðla að áframhaldandi jafnvægi.
Hér getur verið gott að taka stöðuna á forvörnum á þínum vinnustað.
- Vertu sýnilegur stjórnandi sem styður við frammistöðu starfsfólks
 
- Bókaðu starfsmannaviðtöl með skýrum áherslum 
 
- Hlúðu að jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum
 
- Passaðu upp á að starfsfólk hafi skýr hlutverk og sé upplýst um það
 
- Veldu verkefni við hæfi fyrir starfsfólkið
 
- Virkjaðu starfsfólk til þátttöku og til áhrifa þar sem við á
 
- Hugaðu að forvörnum á vinnustaðnum. Gæti forvarnaþjónusta VIRK hentað?
Þér líður nokkuð vel í vinnunni. Tekur þó eftir að ákveðið ójafnvægi er til staðar. Upplifir verkefnin mögulega ívið meira íþyngjandi nú en venjulega. Leiðirnar og úrræðin sem venjulega gagnast til að sinna vinnunni eða leysa verkefnin eru ekki að duga.
Eðlilegt er að upplifa sig stundum hér. Við getum vissulega verið að glíma við heilsutengdar áskoranir eða veikindi sem geta haft áhrif á starfið. Þá er mikilvægt að þú finnir þær leiðir sem henta þér best og þá jafnvel í samráði við þinn meðferðaraðila eða fagaðila. Það er svo margt sem við getum gert til að styrkja okkur og um leið stöðu okkar á vinnumarkaði.
Endilega kynntu þér hagnýt ráð sem gætu stutt við þig og aukið vellíðan í lífi og starfi.
- Hugaðu að hreyfingu, okkur hættir á að sleppa henni þegar við erum undir álagi 
 
- Reyndu að taka þín venjulegu hlé á vinnu eftir getu, ekki gleyma að taka hádegishlé
 
- Leitaðu stuðnings samstarfsfélaga
 
- Farðu yfir forgangsröðun verkefna með stjórnanda
Ef þú ert að takast á við heilsufarstengdar áskoranir eða veikindi sem hafa áhrif á vinnu gæti þetta efni verið áhugavert:
 
Ef breyting er að verða á líðan starfsfólks til hins verra getur verið mikilvægt fyrir þig sem stjórnanda að vita sem fyrst af því og skoða hvort þörf sé á að bregðast við.
Um ákveðið tímabil getur verið að ræða sem er að sjálfsögðu eðlilegt ef verkefnin eru þess eðlis. Eins gæti einhver úr starfsmannahópnum verið að takast á við heilsutengdar áskoranir eða veikindi sem hafa áhrif á starfið.
Rannsóknir sýna að áhrif af inngripum á fyrri stigum vanda gagnast vel. Verum því vakandi fyrir rauðu flöggunum og eflum forvarnir.
Vanlíðan hefur verið til staðar í einhvern tíma núna. Það geta verið mismunandi ástæður fyrir því, t.d. veikindi eða vinnutengdir þættir.
Öll getum við þurft að takast á við heilsufarsvanda í lífinu, slíkur vandi hefur mjög mismunandi áhrif á okkar daglegu virkni líkt og atvinnuþátttöku. Mögulega er þinn heilsufarsvandi að hafa áhrif á líðan í vinnu.
Vinnutengd verkefni og aðstæður í vinnunni gætu líka hafa verið krefjandi til lengri tíma og það farið að hafa áhrif á líðan þína.
Þú upplifir mögulega að yfirsýn yfir verkefni dagsins sé orðin mjög takmörkuð og farið að bera á mistökum. Mikill tími fer í að leysa verkefni sem áður tóku mun styttri tíma. Tengslin við samstarfsfólk eru jafnvel ekki eins sterk og áður eða þú að gefa mun minna af þér á þeim enda. Þegar líðan versnar getur það komið fram á mismunandi hátt. Við erum jú ekki öll eins og það getur verið misjafnt hvað við erum að upplifa. Einkenni gætu verið ítrekaðir magaverkir, þreyta, pirringur, orkuleysi eða sífelldar áhyggjur.
- Staldraðu við, farðu vel yfir stöðuna, líðan, hugsanir og hegðun
 
- Ef þú hefur verið að takast á við veikindi getur verið gott að fá aðstoð
 
- Leitaðu aðstoðar á vinnustað, t.d. hjá yfirmanni, trúnaðarmanni eða mannauðsstjóra
 
- Erfitt getur verið að orða líðan sína, gott er þó að reyna að koma líðan í orð 
 
- Leitaðu aðstoðar hjá heilbrigðisstarfsfólki
Það getur verið krefjandi fyrir stjórnendur að takast á við stöðuna þegar ber á vanlíðan starfsfólks.
Stjórnendur eru stundum óöruggir þegar kemur að því að meta stöðuna og fresta því jafnvel að stíga inn í slíkt samtal. Þér sem stjórnanda gæti fundist þú vera að stíga út fyrir þitt verksvið, en það er nauðsynlegt að bregðast við ef þú telur að farið sé að bera á vanlíðan eða breyttri hegðun hjá starfsfólki.
Samtalið er hér gríðarlega mikilvægt svo að þið getið áttað ykkur á því hvort tilefni sé að bregðast við og þá með hvaða hætti.
- Taktu samtal í einrúmi, við rólegar aðstæður og kannaðu með líðan starfsmanns 
 
- Farið saman yfir verkefnastöðuna, forgangsraðið og kannið hvort það sé möguleiki á breytingum tímabundið
 
- Settu upp áætlun með starfsmanni varðandi reglulegt stöðutékk næstu vikur
 
- Fara yfir leiðir sem vinnustaður getur boðið upp á og styður við starfsmanninn, t.d. styrkir til heilsueflingar eða viðtöl hjá fagaðila. Skoða má hvort þörf sé á forvarnaþjónustu VIRK.
Ef þér finnst vanlíðan þín vera orðin viðvarandi og lítið dugi til að breyta því til betri vegar gætir þú upplifað þig hér.
Mögulega hefur þú þurft að taka veikindadaga, oftar en áður. Hefur verið að taka eftir mistökum sem þú hefur gert í vinnunni og kemst ekki yfir sömu verkefni og áður. Ef þú ert að takast á við heilsufarsvanda sem hefur verið versnandi eða jafnvel ert að takast á við lotu í veikindunum getur það einnig haft þau áhrif að þú upplifir þig á þessu stigi skalans.
Það er ekki óeðlilegt að vera á þessum stað en mikilvægt að biðja um stuðning og aðstoð til að bregðast við með réttum hætti. Það getur bæði átt við vinnulega og heilsufarslega.
- Leita eftir aðstoð hjá viðeigandi fagfólki. Hvort sem um áður þekkt veikindi er að ræða eða nýtilkomið ástand er mikilvægt að fá viðeigandi aðstoð
 
- Fylgja þeirri leiðsögn og meðferð sem sett er upp af fagaðilum
 
- Það getur verið gott að upplýsa samstarfsmann sem þú treystir á vinnustaðnum um líðan þín. Að fá stuðning og skilning frá samstarfsfólki getur skipt miklu máli
 
- Funda með yfirmanni um stöðuna
Þegar vanlíðan er orðin viðvarandi hjá starfsfólki ert þú sem stjórnandi líklega farinn að taka eftir breytingum á líðan og hegðun hjá því starfsfólki sem um ræðir.
Það getur sem dæmi verið farið að bera á tíðari veikindafjarveru og óstöðugleika í líðan. Þetta getur vissulega haft áhrif á samskipti starfsfólks við annað samstarfsfólk og yfirmenn. Þú gætir einnig tekið eftir að breyting hafi orðið á lausnamiðaðri hugsun. Eins er líklegra að ný verkefni séu vandamál en ekki jafn spennandi og áður eða eitthvað sem þarf að leysa.
- Hér þarf að bregðast við strax og taka samtal. Fara þarf yfir hvað hefur verið reynt og hvaða leiðir eru í boði
 
- Athugaðu með stöðuna á verkefnum og þeim sem vinna í teymi starfsmanns
 
- Ræða hvort þörf sé á að minnka starfshlutfall tímabundið eða taka stutt veikindahlé  
 
- Hér getur verið mikilvægt að hvetja viðkomandi til að leita sér faglegrar aðstoðar
Ef þú ert að spegla þig á þessum enda skalans hefur vanlíðan verið til staðar til lengri tíma. Hvort sem þú hefur verið að takast á við veikindi eða langvarandi álag virðist heilsan afar slæm núna.
Veikindadögum fer fjölgandi, þú jafnvel verið í langtíma veikindaleyfi eða mögulega nú þegar í starfsendurhæfingu. Mismunandi upplifun getur verið af þessu stigi skalans líkt og hinum. Starfsþrekið er ekki mikið og líklega hefur borið á langvarand orkuleysi. Sumir upplifa samviskubit eða jafnvel skömm en mundu að það eru fleiri á þessum stað. Hér er þó best að hlúa að sjálfum sér og ekki að skammast sín fyrir stöðuna.
Ef þú ert að velta fyrir þér að fara í veikindaleyfi er mikilvægt að leita aðstoðar í heilbrigðiskerfinu. Mögulega er viðeigandi að sótt sé um starfsendurhæfingu.

- Leitaðu aðstoðar heilbrigðiststarfsfólks
- Sinntu því sem hefur jákvæð áhrif á heilsu þína
- Ef viðeigandi er að skoða starfsendurhæfingu getur þú kynnt þér málið á heimasíðu VIRK
- Leggðu þig fram um að eiga samskipti við þinn yfirmann eins og hægt er
- Þegar huga þarf að endurkomu til vinnu gæti gagnast að taka uppbyggilegt samtal við yfirmann
Ef starfsmaður hjá þér er á þessu stigi skalans er ekki ólíklegt að hann sé í veikindaleyfi. Hér skiptir hlutverk stjórnanda ekki síður máli þrátt fyrir að starfsmaður sé ekki á vinnustaðnum.
Það getur skipt talsverðu máli hvernig ykkar samskiptum er háttað upp á endurkomuna að gera. Þá er ákjósanlegt að eiga samtal við starfsmann um það fyrirkomulag, hvernig hann og þið viljið helst hafa það, til dæmis hve oft er æskilegt að eiga í samskiptum.
Einnig er ekki síður mikilvægt að huga að öðru starfsfólki sem er jafnvel að takast á við aukin eða ný verkefni í fjarveru starfsmannsins. Þá er að sjálfsögðu mikilvægt að huga einnig að sér sjálfum og mögulega forgangsraða verkefnum.

- Leggðu þig fram um að eiga samskipti við starfsmanninn eins og vilji er til hjá honum, gott getur verið að ákveða í sameiningu hvernig þið viljið haga samskiptum í veikindum
- Ganga úr skugga um að starfsmaður hafi réttar upplýsingar um réttindi og stuðningskerfi fyrirtækisins
- Farðu yfir þá stefnu sem vinnustaðurinn styðst við varðandi lengri fjarveru og endurkomu starfsmanna
- Ef starfsmaður er í starfsendurhæfingu eru hér upplýsingar sem gætu gagnast til að skilja ferlið
- Hugaðu að öðru starfsfólki, gott getur verið að taka stöðutékk á öllum í þeim hóp sem starfsmaður tilheyrir
- Þegar starfsmaður fer að huga að endurkomu til vinnu að nýju gæti gagnast ykkur að taka samtal um endurkomu til vinnu
Af hverju forvarnir?
Rannsóknir sýna að árangursríkar forvarnir geta stórlega dregið úr líkum á ýmiss konar heilsufarsvanda og aukið starfsánægju.
Með því að leggja áherslu á góða stjórnunarhætti, heilsueflingu og snemmtæka íhlutun er hægt að draga úr líkum á óvinnufærni og veikindafjarvistum.
Það er því til mikils að vinna fyrir allt samfélagið ef hægt er að sporna gegn auknum veikindafjarvistum, minnkandi afköstum í starfi og tilheyrandi kostnaði innan heilbrigðiskerfisins.



