Fara í efni

Náttúrukort

Útivist bætir hressir og kætir

Á Íslandi erum við svo lánsöm að búa í nálægð við náttúruna sama hvar við erum. Góður göngutúr leiðir okkur niður að sjó eða vatni, mólendi eða skógum. Á göngunni getum við andað að okkur fersku loftinu og notið þess sem fyrir augu ber.

Svo virðist sem hugarfarsbreyting sé að eiga sér stað í heiminum og við séum að átta okkur á þeim styrk sem við getum sótt í umhverfi okkar og náttúru. Læknar á Hjaltlandseyjum hafa verið að bjóða sjúklingum upp á náttúrudagatal með hugmyndum að hreyfingu og náttúrupplifun sem meðferðarúrræði og kollegar þeirra í Kanada ávísa á heimsóknir í listasöfnJapönsk skógarböð hafa einnig fengið aukna athygli en talsmenn þeirra benda á lækningarmátt skóglendis og hvetja til skógarferða til að bæta heilsu og líðan.

Í ljósi alls þessa viljum við því bjóða ykkur upp á 10 hugmyndir fyrir hvern mánuð ársins sem þið getið notað til að styrkja heilsuna og halda góðu jafnvægi.

Njótið náttúrunnar í samræmi við eigin getu – Njótið vel!

  • Maí - Mynd

Maí

  • Ganga meðfram á eða vatni og hlusta á fugla í tilhugalífinu eða horfa eftir fiskum stökkva.
  • Leita uppi fífla undir vegg og finna ilminn. Það gæti verið gaman að lista upp hvaða plöntur eru farnar að blómstra.
  • Kanna hvort krían er komin og finna jafnvel kríuvarp.
  • Grafa andlitið í nýsprottið grasið.
  • Hafa augun opin og kíkja eftir hreiðrum. Hvar eru hreiður í þínu umhverfi? Eru þau í trjánum í garðinum, út í móa, niður í mýri eða út við sjó?
  • Fara í kvöld- eða næturgöngu í bjartri sumarnóttinni – horfa og hlusta.
  • Hlusta eftir hrossagauknum og reyna að koma auga á hann. Gömul þjóðtrú segir að hann spái fyrir um sumarið, eftir því úr hvaða átt fólk heyrir hann fyrst hneggja á vorin.
  • Finna öruggan stað úti í náttúrunni til að koma þér fyrir í fullkominni ró í a.m.k. 3 mínútur og veita því athygli hvernig þér líður.
  • Ganga að fuglabjargi og fylgjast með bjargfuglum – dást að svifi þeirra.
  • Fylgjast með trjánum bruma. Það getur verið gaman að þekkja tegundirnar og skoða hvaða tré bruma fyrst.